02.11.1965
Neðri deild: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það hafa nú orðið miklar umr. um þessi brbl., og málið hefur verið rætt á breiðum grundvelli. Þetta er vafalaust ekki að ástæðulausu, en hvað þessi lagaákvæði snertir, sé ég fyrir mitt leyti ekki ástæðu til þess að gera mikið veður út af því. L. virðast ekki eiga að ná nema til ársins 1965–1966, og það er því aðeins um eitt ár að ræða, að mér skilst. Og mér hefur einnig skilizt á ráðh., að þetta sé aðeins til eins árs og verði að finna einhverjar aðrar samkomulagsleiðir. Ég sé því ekki, að það sé mikil ástæða til þess að deila um þessi brbl., vegna þess að þau byggjast í raun og veru á þeim grundvelli, sem lagður er árið 1964.

Ég held, að bændur séu ekki almennt óánægðir yfir verðinu í ár. Ég skal játa, að það var dálítið örðugt fyrir bændur á árunum 1961–1962 og jafnvel 1963, einkum þá, sem voru að hefja búskap, en þetta lagaðist mikið á árinu 1964 og einnig í ár, þannig að ég fyrir mitt leyti a.m.k. er ánægður með það verð, sem er á landbúnaðarvörunum, og ég hygg, að frá sjónarmiði þjóðfélagsins megi það ekki hærra vera.

Við sögðum það í stjórnarandstöðunni árið 1960, bæði ég og aðrir, að með þeirri miklu gengislækkun, sem þá var og að mínu áliti var of mikil, og með þeirri vaxtahækkun, sem var þá gerð, mundi ríkisstj. velta þeim steini á stað, sem hún mundi eiga örðugt með að stöðva, og þetta hefur rætzt. Verðbólgan hefur e.t.v. aldrei verið meiri en nú sl. ár. Húsaverð hefur um það bil tvöfaldazt hér í Reykjavík á um það bil 5 árum, og einn af þeim liðum, sem kom inn í verðlagningu landbúnaðarafurða, eru vextirnir og hann hefur stórhækkað, þannig að ég er ekki að halda því fram, að bændur fái ekki á margan hátt hagstæðari kjör og meira fyrir vinnu sína en þeir fengu, og það byggist fyrst og fremst á kaupgetu fólks í kauptúnunum, af því að sjávaraflinn hefur verið svo mikill. En það, sem drýgstan þátt á í þessum miklu verðhækkunum, er verðbólgan. Húsaverðið og vaxtagreiðslurnar og þenslan, of mikil eftirspurn eftir vinnu, þannig að mikið af vinnunni er selt á svörtum markaði við alls konar þjónustu. Þetta ýtir allt undir þær kröfur, sem bændur gera, og hækkar það verð, sem þeir þurfa að fá til að geta lifað sómasamlegu lífi.

Hæstv. menntmrh. sagði, að það væri í engri íslenzkri atvinnugrein meiri þörf á breytingum á vinnuhagræðingu en í landbúnaðinum. Fyrir 1–2 áratugum var deilt á bændurna fyrir það, að þeir hefðu ekki nóga tækni, það væri of dýr hjá þeim framleiðslan, framleitt of lítið. Nú er orðin gerbreyting á þessu, þannig að bændurnir hafa tekið tæknina í þjónustu sína, og hún hefur verið ákaflega ör, svo að það er furðulegt, hve mikil stórvirki þeir hafa gert á því sviði, enda eru margir bændur farnir að hafa mjög stór bú miðað við þá vinnu, sem í þau er lögð. En þá kemur að því, að framleiðslan er það mikil, að það þarf að flytja hana út, og þá kemur dýrtiðin til sögunnar. Það verður mikill munur á því verði, sem bóndinn þarf að fá, og því verði, sem hægt er að fá fyrir hana ytra.

Það er viðurkennt af öllum, að það sé of mikil mjólkurframleiðsla. Ég hygg, að bændur viðurkenni það líka. Það sé óhagstætt verð á mjólkurafurðum, ef þær eru fluttar út, og hagstæðara með sauðfjárafurðir. Einkum hafa fulltrúar Alþfl. talað um þetta. Við höfum verið að tala um það milli okkar, bændurnir, hvernig stæði á því, að þeir væru svona hávaðasamir um þetta, en lítið væri gert hjá ríkisstj. til þess að laga þetta, og sannleikurinn er sá, að það er ómögulegt fyrir einstaka bændur að hafa endanleg áhrif á þessu sviði. Það verður að gerast í samráði við bændasamtökin og með aðstoð ríkisstj., því að það er ekki hægt að framkvæma neitt nema það hafi einhverja stoð í I. Og þegar bændurnir spjalla saman, eru þeir að geta sér þess til, að ráðh. Alþfl. séu svona hávaðasamir um þetta m.a. til þess að fá atkv. í kaupstöðunum og þá einkum frá samstarfsmönnum sínum, sjálfstæðismönnum, og satt að segja finnst mér það nú ekki rétt gert af þeim að vera mjög hávaðasamir um þetta, því að þeir eru vel aldir hjá sjálfstæðismönnum og ættu að vera þeim þakklátir, en kálfar launa sjaldan ofeldið, og eftir því sem meira er látið eftir einstaklingum og stéttum, eftir því krefjast þær meira.

Ég álít, að bændur hafi með vinnuhagræðingu gert fullkomið stórvirki. Hún er ákaflega ör hjá þeim, og má kannske deila um, hvort hún er ekki allt of ör, því að þetta er orðið eins með landbúnaðinn og er hjá skipstjórunum okkar. Ef eitthvað nýtt kemur hjá einum bónda, finnst öðrum hann endilega þurfa að fá sömu tækin. Og t.d. hefur verið svo ör breyting, bæði með múgavélar og áhöld til þess að koma inn heyjum, að það, sem þótti ágætt fyrir 5 árum, þykir ekki hentugt nú, þannig að það má deila um það, hvort þetta er nógu vel skipulagt, hvort það er nógu vel rannsakað í byrjun, hvaða tæki eru hagkvæmust, svo að ekki þurfi að endurnýja þau kannske á fárra ára fresti, sem er allt of dýrt. En þetta nær til fleiri stétta en bændanna. Þetta nær bæði til iðnaðar og sjávarútvegs, og það er ekki hægt að skipuleggja svona nema ríkisstj. hlutist til um, að það sé gert beint eða óbeint. En það er yfirleitt ekki deilt um það. Það er ekki hagkvæmt fyrir okkur að framleiða meira mjólkurmagn en við þurfum að nota sjálfir, og þá er að finna leiðina til þess að gera það, og það getur enginn gert þau átök, sem gera þarf, nema þeir, sem með völdin fara í landinu í því efni.

Persónulega álít ég, að það séu þrjár leiðir til. Í fyrsta lagi er það að hafa hagstæðara verð á sauðfjárafurðum, en ég álít það bara ekki réttláta leið, því að vitanlega þurfa þeir, sem framleiða mjólkina, að búa við hliðstæð kjör og hinir. Ef á að ganga svo langt í því efni, að mjólkurframleiðendunum fækki, er búið verr að þeim bændum, sem mjólkina framleiða. Bændur gera allt of mikið af því að tala um brúttótekjurnar. Þegar bændur hittast, er það yfirleitt, að þeir tala um, hve miklar brúttótekjur þeir hafa, en sjaldan um nettótekjur. Nú ætti þetta að breytast að því leyti til, að bændur ættu að setja metnað sinn í það að hafa sem mestar nettótekjur, en ekki brúttótekjur, því að það er hrein heimska að strita og erfiða allt árið og hafa eiginlega engar nettótekjur. Hagsýnin kemur fram í því að haga sínum rekstri það skynsamlega, að nettótekjurnar verði sem mestar. Brúttótekjur eru aukaatriði í því efni, og ég held, að íslenzkir bændur hafi hugsað of mikið um það að auka brúttótekjur í stað þess að reyna að reka atvinnuna með hóflegum kostnaði, þannig að nettótekjur gætu orðið meiri. Þetta er ákaflega misjafnt, en það eru einmitt ýmsir af stærri bændunum, sem ekki athuga það, að hreinar tekjur búsins eru ekki alltaf í hlutfalli við stærðina. Ríkisstj. hefur gengið á undan við að reka stórbú og það án nokkurs hagnaðar. Það eru einhver stærstu bú landsins rekin á vegum ríkisstj., og það er venjulega halli á þeim, og þó er þessum mönnum lagt allt upp í hendurnar, jarðirnar, vélarnar og húsin. Bóndinn verður að borga þetta sjálfur.

Fyrsta leiðin, sem ég hef getið um, er að hafa hagstæðara verð fyrir sauðfjárafurðirnar. Ég geri ráð fyrir, að hún sé í raun og veru hafin nú. Ég geri ráð fyrir, að nú sé hagkvæmara að hafa sauðfé á þeim jörðum, þar sem skilyrði eru góð til þess. En þá kemur það ranglátlega niður á þeim, sem mjólkina framleiða. Áður fyrr var hagstæðara að framleiða mjólk, en þeir, sem sauðfé höfðu, gerðu þó of mikið úr þessum mismun, því að það er þannig, að margur hyggur auð í annars garði, og ég held, að þeir hafi staðið í þeirri meiningu, að það væri ekki hægt að búa nema hafa eitthvað af nautgripum. En ég held, að þeir hafi litið of björtum augum á það. Þó hygg ég það, að fyrr á árum hafi verið hagkvæmara að hafa kýr. En þetta er áreiðanlega breytt nú. Ef á að framkvæma það að hafa mjólkurverðið það óhagstætt, að bændur fari meira og meira inn á sauðfjárræktina, kemur það ranglátlega niður við þá, sem framleiða mjólk að mestu eða öllu leyti.

Önnur leiðin væri sú að takmarka fóðurbæti. Við vitum, að mikið af þeirri mjólk, sem framleidd er í landinu, er framleidd á fóðurbæti. Það er keypt korn frá Ameríku, og svo er gefið karfamél og síldarmél og fiskimél, innlent efni, sem við gætum komið í erlendan gjaldeyri. Það er rétt, sem hæstv. viðskmrh. hefur haldið fram, að þetta er óhagkvæmt fyrir þjóðarbúið. En það eru ýmsir örðugleikar á því að skammta fóðurbætinn, og ég efast um, að ríkisstj. vilji fara þá leið.

Þriðja leiðin, sem ég hef séð, er það að reikna hreinlega út, hvað mikla mjólk þarf að framleiða í landinu svona um það bil. Það er ómögulegt að reikna það nákvæmlega. Reikna út, hve mikla mjólk þarf að framleiða til þess að það sé nægileg framleiðsla fyrir þjóðina og skipta því svo á milli héraða í samráði við bændasamtökin eða láta þau annast um það og héruðin skipti því svo innbyrðis á milli einstaklinganna, þannig að hverjum bónda yrði tilkynnt í byrjun ársins eða árið áður, hve mikið mjólkursamlögin tækju af honum af mjólk. Hann miðaði þá búrekstur sinn við það. Þá gæti hann gert það upp við sig, hvort hann vildi framleiða þessa mjólk nær eingöngu á heyi eða kaupa meiri og minni fóðurbæti. Og ég er sannfærður um, að með því móti mundu menn fara að reyna að framleiða það mjólkurmagn, sem þeir framleiddu eins ódýrt og þeir gætu. Vitanlega yrði þá sett bremsa á stærstu mjólkurframleiðendurna, sem í flestum tilfellum framleiða mjólkina að meira og minna leyti með fóðurbæti.

Ég hef ekki komið auga á nema þessar þrjár leiðir. Hver farin er, getur verið ágreiningsmál, og vafalaust eru sumir á móti því að gera nokkurn hlut til þess að hindra eða takmarka þessa mjólkurframleiðslu. En mín skoðun er sú, að ranglátasta leiðin sé að gera verðmuninn mikinn, þannig að afkoma þeirra, sem búa við kýr, verði lakari en hinna. Ég er ekki að segja, að hún eigi að verða betri. Það er bezt, að það héldist sem mest í hendur. Það verður ekkert af þessu framkvæmt nema það eigi einhverja stoð í l., og ríkisstj. þyrfti beint eða óbeint að standa að því. Þess vegna er það það sanna í málinu, að það þarf ekki fyrst og fremst að framkvæma vinnuhagræðingu hjá bændum eingöngu, heldur þarf ríkisstj. að hagræða vinnubrögðum hjá sjálfri sér.

Ég skal játa það, að búin eru misstór og sum eru of lítil, en ég hygg líka, að sum séu að verða of stór, bóndinn leggi of mikið að sér og e.t.v. fari meira forgörðum af ýmsu, það sé ekki hægt að nota nóga hirðusemi við búreksturinn fyrir það, hve búin eru stór. Ég hef athugað það í erlendum ritum, að minnstu búin eru að hverfa, t.d. í Danmörku og mörgum öðrum löndum. Þessir litlu blettir eru að hverfa með aukinni véltækni, en stærstu búin stækka ekki, heldur eru það meðalbúin. Ég hygg, að við ættum að fara inn á þá leið, að miða við það, að einn maður hefði nægilegt að gera, hafa búin ekki minni en það, nægilegt að gera að vetrinum. Vafalaust eru ýmsar jarðir ekki stærri en það eða það litlar, að þær leyfa ekki að hafa það stórt bú, að einn maður hafi nóg vetrarverk. Og þá álít ég, að annað hvort verði að sameina þær öðrum jörðum, ef skilyrði eru fyrir því, eða leggja þær niður. En svo vitum við, að það eru heil héruð, þar sem ekki er nema lítið ræktað, og þar er hægt að fjölga býlunum.

Ég kom einu sinni með frv. um það fyrir 2–3 árum, að verð á landbúnaðarafurðum yrði miðað við það, að aukin framleiðni eða stækkun búanna kæmi að hálfu leyti að notum fyrir bóndann og að hálfu leyti fram í lækkuðu verði til neytendanna. Þessu frv. var aldrei skilað úr n. En sannleikurinn er sá, að ef við fengjum fastan grundvöll eða verðbreytingarnar væru ekki svona örar eða verðbólgan svona ör og við gætum fengið einhvern fastan grundvöll til að standa á, væri þetta langsanngjarnasta leiðin. En þessi leið hefur ekki verið farin, heldur hafa verið tekin stór stökk upp á við é krónutölu bæði 1964 og nú 1965. Hvar það endar, gefur auga leið, ef þessu heldur áfram, því að allar verðhækkanir innanlands hljóta fyrr eða síðar að lenda á útflutningsframleiðslunni, þær geta ekki lent annars staðar. Það er bara svo tiltölulega lítið flutt út af landbúnaðarafurðum, en það kemur fram í hækkuðum niðurgreiðslum eða þá hækkuðu söluverði á kjötinu innanlands, en meginþunginn af allri þessari verðþenslu hlýtur að lenda á sjávarútveginum, og það eina, sem hefur bjargað því, að bátaútvegurinn, fiskibátarnir hafa ekki algerlega stöðvazt, er það, að verðið hefur farið hækkandi, og þó eiga þeir flestir mjög örðugt, sem ekki hafa hagnað af fiskvinnslu. Og ef þessi verðbólga heldur áfram, hlýtur að reka að því, að sjávarútvegurinn þarf að fá styrk. Hæstu síldarskipin hafa flotið, vegna þess að aflinn hefur verið óvenjulegur, þau hafa getað staðið í skilum, en þau, sem minna afla, geta það ekki. Þá þarf sjávarútvegurinn að fá styrk, og þá erum við komnir inn á það, sem gerðist 1960 og 1950, það kemur ný gengislækkun, því að þó að gengið sé skráð eins og það var 1961, vitum við, að það er miklu minna hægt að fá fyrir hverja krónu nú en þá, vegna þess að allt, sem við þurfum að kaupa, er hærra.

Skattarnir eiga nú sinn þátt í því að hækka landbúnaðarvörur. Það er borgaður af hverjum kjötbita, sem við kaupum, söluskattur. Það er borgað 2% í sjóði til Stofnlánadeildarinnar og brot af prósenti til þess að reisa hótel hér, svo að Reykvíkingar og erlendir ferðamenn geti dansað og skemmt sér og drukkið vín. Og þetta hækkar allt. Þetta er um 10%, þannig að skattahækkanir eiga sinn þátt í því að auka verðbólguna. Þess vegna, þó að það sé sagt, að fólkið fái þetta beint eða óbeint af þessum ríkistekjum, er þetta allt saman upp á við. Fólkið fær í gegnum tryggingarnar fleiri hundruð millj., en hækkuð tryggingagjöld hækka skattana og hækkuð framlög frá ríkissjóðnum, og það hækkar þess vegna í krónutölu allt verðlag í landinu, þannig að það er ekki eingöngu hægt að segja, að það sé óhagsýni bænda að kenna, þó að þurfi að breyta þeirra vinnubrögðum. Það eru fleiri, sem þurfa að breyta sínum vinnubrögðum.

Ég skal játa það, að það er sjálfsagt fyrir bændur að leggja áherzlu á að reyna að reka atvinnuveg sinn á sem hagkvæmastan hátt, og það er borgaraleg skylda þeirra og í raun og veru borgaraleg skylda allra að reyna að stuðla að því, að hlutirnir gangi sem bezt. Þess vegna get ég ekki tekið undir það, sem hv. 5. þm. Vestf. var að tala um, að það væri — hann orðaði það víst þannig, að það væri bændum til skammar, það væri aumingjaskapur af bændum að hafa þolað gerðardómslög. Ja, hvernig á að fara að, ef ekki næst samkomulag? Það nær til fleiri en bænda. Hvernig í ósköpunum á að leysa vandann? Nú er það þannig með flestar stéttir, þarf ekki nema kokka á skipum, eitthvað svoleiðis. Vinnuskiptingin er orðin það mikil, að það eru meiri eða minni vandræði í þjóðfélaginu, ef ekki næst samkomulag. Hvernig í ósköpunum á að fara að, ef ekki næst samkomulag? Hann lét líka orð falla, þessi hv. þm., á þá leið, — hann var þá að ávíta, skildist mér, stjórn mjólkursamtakanna hér á Suðurlandi fyrir að hafa gengið í Vinnuveitendasambandið. Ég álít, að það væri ástæðulaust fyrir þá að gera það, en hann orðaði þetta þannig, að þeir hefðu gengið inn í fjandmanna raðir þeirra. Ég get ekki tekið undir þetta heldur. Ég held, að það geti ekki gengið vel í þjóðfélagi, ef vinnuveitendur og verkamenn líta hverjir á aðra sem fjandmenn. Ég segi fyrir mig, að ég á ekki betri vini en það fólk, sem hjá mér hefur unnið, og ég held, að það sé ekki skynsamlegt að telja sér trú um, að það þurfi endilega að vera fjandskapur milli vinnuveitenda og launþega. Ég held, að það sé ekki réttur hugsunarháttur og geti ekki gengið vel, ef við förum að imynda okkur það.

Það, sem á ríður, þegar við erum að semja um hlutina og leysa vandamálin, er að gera sér raunhæfa grein fyrir hlutunum. Menn þurfa að heimta þau gögn, sem með þarf til þess að geta gert sér grein fyrir því, hvernig hlutirnir standa, t.d. hvað hægt sé að borga, og það ætti að vera sameiginlegt áhugamál bæði atvinnurekandans og þess, sem vinnur, að atvinnureksturinn sé rekinn á sem hagkvæmastan hátt. Og fjandskapur ætti þar ekki að koma til greina. Ef þetta er gert, er ævinlega hægt að semja, en þetta er ekki alltaf til staðar, og það er ekki eðlilegt, að samningar gangi vel, ef þessir aðilar fara að líta hvor á annan sem fjandmenn. En ef menn vilja vera raunsæir og vilja leysa hlutina, er það ævinlega hægt, en sá vilji er e.t.v. ekki ævinlega fyrir hendi og sá skilningur, og hvað á þá að gera? Það er ekki hægt að láta alla hluti stöðvast í þjóðfélaginu, og þess vegna sé ég ekki, a.m.k. í mörgum tilfellum, að það sé hægt að komast hjá því að hafa gerðardóm. Við vissum það, að opinberum starfsmönnum var ekki leyfilegt að gera verkfall og þeir höfðu í raun og veru ekki samningsrétt fyrr en nú fyrir fáum árum. En hvað skeður? Þeir undu nokkurn veginn lífinu. Þó hafa íslenzkir embættismenn aldrei verið hátt launaðir og meira að segja mjög lágt launaðir. En hvað skeður? Það er alltaf einlægt þref og alltaf þessi blessaði gerðardómur í gangi, a.m.k. öðru hverju.

Ég held, að kröfurnar minnki ekki, þó að kjörin batni, heldur aukist þær frekar. Það er ekki nema sjálfsagt að vinna að því, að fólkinu geti liðið sem bezt, en að fólkið verði nægjusamara og sanngjarnara, ef allt er látið eflir því, hvort sem það eru embættismenn eða aðrir, vinnuveitendur eða hvaða stétt sem er, það held ég, að ekki sé. En undirstaðan undir því, að hægt sé að semja og yfirleitt þjóðfélagið geti gengið, er það, að menn geri sér raunhæfa grein fyrir hlutunum og hafi vilja til að leysa þá. Þá er ævinlega hægt að leysa vandamálin. Við megum ekki líta hver á annan sem fjandmenn, þó að við séum ekki í sömu fylkingu.

Ég ætla ekki að fara að deila á A.S.Í. fyrir það, að það dró sinn mann út úr. Það er vafalaust í mörgum tilfellum gott að bera ekki ábyrgðina og geta alltaf ásakað aðra. En hitt verða þeir að gera sér ljóst, að þegar þeir gera það, geta neytendurnir í raun og veru ásakað þá fyrir það að reyna ekki að hafa áhrif á gang hlutanna. Ef þeim finnst dreifingarkostnaðurinn of mikill, hljóta þeir að hafa rétt til þess að krefjast gagna um það. Ekki værum við bændurnir á móti því að hafa hann sem minnstan, það fer fjarri því. Það er rétt, að dreifingarkostnaðurinn hafi minnkað. Fyrir nokkrum árum fékk bóndinn um 60%, en um 40% fóru í alls konar kostnað. En þetta hefur breytzt, og það eru fyrst og fremst skattarnir, sem hafa breytt því. Það hefur ekki svo lítið að segja, 71/2% söluskattur og 2% í aðra hluti. Ég efast um, að smásalinn eða verzlunarfélögin taki nokkurn hlut meira. Og þó hafa öll laun í landinu hækkað, en krónutalan hefur einnig hækkað á þessum árum. En það er ekki nema sjálfsagt, finnst mér, að það séu athugaðar allar leiðir til að gera dreifingarkostnaðinn sem minnstan. Smásalarnir þykjast aldrei fá nóg. Ég býst við, að verzlunarfyrirtækin vilji fá sem mest líka og bændurnir sem mest. Það vilja allir fá sem mest, en það verður að reyna að finna einhverjar sanngjarnar leiðir, og ef hægt er að gera hlutina með minni kostnaði, er ekki nema alveg sjálfsagt að fara þær, og ég sé enga ástæðu til að ætla, að bændur hafi ekki áhuga á, að það verði gert. En með því að draga þennan fulltrúa sinn til baka er Alþýðusambandið búið að tapa þeirri aðstöðu, sem það hafði til að kynna sér þessi mál. Og mér þykir ekkert ólíklegt, að meðal neytenda verði einmitt fundið að því við ráðandi menn þar að gera þetta, þannig að þó að þeir losni að vissu leyti við það að bera ábyrgð á þessu og geti sífellt ásakað aðra, hafa þeir þarna afsalað sér rétti til að kynna sér þessi mál og fylgjast með þeim. Ég hef enga ástæðu til að ætla það, að neytendur vilji ekki bændum vel og geti litið með sanngirni á þeirra mál, og þetta hefur yfirleitt gengið svona þolanlega, þótt ekki hafi alltaf náðst samkomulag, og væri sjálfsagt bezt, að þetta fengi að ganga þannig áfram, að það yrði eitthvert samstarf um þetta, og ég sé ekki annað en það ætti að vera sameiginlegt áhugamál þessara manna að gera kostnaðinn sem allra minnstan við dreifingu varanna.

Ég er ekki í vafa um það, að tæknin á eftir að aukast og það er hægt að reka landbúnað á Íslandi að vissu leyti, a.m.k. í mörgum tilfellum, með meiri hagkvæmni en nú er gert. En ég vil ekki taka þau orð aftur, að bændur hafa gert fullkomið stórvirki nú í 2–3 áratugi á tæknilega sviðinu. Ég álít, að fjárhagsafkoma bænda sé góð seinni árin, og sem dæmi um það get ég nefnt það. að yfirleitt eru skuldir alveg borgaðar upp eða svo að segja af lánum í Stofnlánadeild landbúnaðarins. Mér er sagt, að af 80 millj., sem þurfti að borga í fyrra, sé l millj. eftir og það sé mest af ríkisjörðum. Og ég hygg, að fáar stéttir standi jafn vel í skilum. Nú get ég vel gengið inn á það, að bændur séu skilsamir menn, en menn borga samt ekki með engu. Menn verða að hafa eitthvað til að borga með. Og þetta er allt önnur hlið en snýr að sjávarútveginum, því að þar eru vanskilin margföld. Og ég hef ekki heldur ástæðu til þess að ætla það, að útgerðarmenn vilji ekki borga, en þeir bara geta það ekki. Og það er náttúrlega verðbólgan og öll þjónusta innanlands, sem á sinn þátt í því að gera hlut þeirra erfiðari og það hlýtur að reka að því, að fiskibátarnir, sem ekki hafa neinn óhemjuafla, beri sig ekki.

Ég játa það, að það þarf að breyta ýmsu í þessum málum, en fyrsta atriðið er það að taka fyrir þessar sífelldu hækkanir. Ef landbúnaðarvörurnar eiga að hækka um 10–20% á ári vegna aukinnar dýrtíðar að mestu eða öllu leyti, þá rekur að því, að þetta nær engri átt. Þetta hvílir fyrst og fremst á ríkisstj. Það er ekkert hægt að gera nema hún eigi frumkvæðið að því, að einhverju leyti a.m.k., og það eigi stoð í l., og þess vegna þarf að breyta vinnuhagræðingu hjá fleirum en bændunum einum.