02.11.1965
Neðri deild: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2085 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. ræddi landbúnaðarmálin í gær og lýsti nokkuð stefnu sinni í þeim málum. Hann hefur reyndar gert það fyrr, en hann talaði öllu ljósara um einstök atriði í þessum málum nú en ég man eftir, að hann hafi gert áður. Ég held, að það sé ekki hægt að skilja þá ræðu hæstv. ráðh. á annan veg en þann, að hann telji ranga þá stefnu, sem ríkt hefur í verðlagsmálum landbúnaðarins í 20 ár, þá meginstefnu, að bændur eigi að hafa hliðstæðar tekjur og vinnustéttirnar hafa. Og ég gat ekki skilið ræðu hans á annan veg en hann teldi sjálfsagt að breyta þessu og afnema þessa reglu, að bændurnir hafi svipaðar tekjur og verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn í bæjunum. Og hann rökstuddi þetta álit sitt með nokkrum dæmum. Hann sagði t.d.: Hvaða vit er í því að hækka landbúnaðarverð, þótt fiskist vel síld? Hvaða vit er í því að hækka landbúnaðarverð eða tekjur bænda, þó að iðnaðarmenn í kaupstöðum fái eitthvað hærra kaup, af því að þeir vinna í ákvæðisvinnu? Hvaða vit er í því að hækka tekjur bænda, þó að verkamenn fái kauphækkun, af því að framkvæmd er svokölluð stytting á vinnuvikunni? Ekkert af þessu vill hæstv. ráðh., að hafi áhrif á tekjur bænda. Fyrst þetta má ekki hafa áhrif á tekjur bænda, vili hann auðsjáanlega búa svo um hnútana, að þetta allt verði undanþegið, ef á að miða við vinnutekjur annarra. En hvernig er hægt að miða við vinnutekjur þessara stétta, ef á að sleppa miklu af þeim? Er hægt að miða vinnutekjur bóndans við tekjur sjómannsins, ef á að sleppa öllum síldveiðunum? Er hægt að miða tekjur bóndans við tekjur iðnaðarmannsins, ef á að sleppa allri ákvæðisvinnu? Eða hvernig á að miða tekjur bóndans við tekjur verkamannsins, ef ekki á að taka með það kaup, sem verður vegna styttingar vinnutímans? Ég skil þetta ekki nema á einn veg. Það eigi að hætta að fylgja þeirri meginreglu, sem fylgt hefur verið í meira en 20 ár, að bændur hafi hliðstæðar tekjur og aðrar stéttir. Ég get ekki skilið þetta á annan veg. Ég sá reyndar í einhverju blaði, að hæstv. ráðh. muni hafa sagt, að það væri sjálfsagt, að bændur hefðu tekjur hliðstæðar öðrum stéttum. En hvernig er það hægt? Hvernig er hægt að samrýma þetta tvennt, sleppa þýðingarmiklum atriðum úr tekjum annarra, og við hvað á svo að miða, afganginn eða hvað?

Það má færa nokkur rök að því, að það sé ekki beint samband milli síldveiða og landbúnaðar. En hvaða hugsun ætli hafi legið á bak við þessa lagasetningu í upphafi? Ég held, að það hljóti að hafa verið þessi hugsun, að þegar vel árar til sjávarins og tekjur manna þar eru góðar, hafi þeir meiri kaupgetu, neytendurnir, og eigi hægara með að greiða hærra landbúnaðarverð. — Hins vegar, ef þessar tekjur eru litlar hjá fólki við sjávarsíðuna, síldin veiðist ekki, aflabrestur er, verðfall á afurðunum eða annað þess háttar, þá minnki kaupgeta manna við sjávarsíðuna og þá eigi neytendurnir erfiðara með að borga hátt landbúnaðarverð. Þetta held ég, að hljóti að hafa verið grundvallarhugsun við þessa lagasetningu, en auðvitað sem afleiðing af því, að því var slegið föstu, að bændur hefðu hliðstæðar tekjur og aðrar stéttir. Ef þeir eiga ekki að hafa hliðstæðar tekjur við þessar stéttir, þarf ekki að vera með þessar vangaveltur, þá er hægt að afnema regluna.

Nú verð ég að segja það, að mér finnst hafa verið talað heldur ógætilega um þann gróða, sem bændurnir hefðu af þessari reglu. Tekjur bænda hækki svo gífurlega við góða síldveiði og ákvæðisvinnu í bæjunum og annað þess háttar. Hafa menn ekki veitt því athygli, að ef tekjur bænda hækka vegna góðra síldveiða, lækka þær, ef síldin veiðist ekki? Ætli það fylgi ekki þessari reglu, að þegar léleg síldveiði er, léleg aflabrögð eða lélegt verðlag á þessum afurðum, lækka tekjur bændanna, af því að þær eru við þær miðaðar? Og hvort er betra fyrir bændurna, að þessi regla sé ekki í gildi eða hún sé í gildi, eins og hún hefur verið, og þeir taki á sig hvorir tveggja áhættuna af þessu, að illa gangi við sjávarsíðuna og þá lækki tekjurnar þeirra eða hagnaðinn, þegar vel gengur? Ég held þvert á móti, að þessi regla sé djúpt hugsuð, hún sé mjög viturleg og það ætti jafnvel að taka hana upp á fleiri sviðum. Jafnvel ráðherralaun, þingmannalaun, embættismannalaun færu að einhverju leyti eftir slíkri reglu, að þegar atvinnuvegir landsmanna ganga vel, þegar mikið aflast, þegar hækkandi verðlag er á útflutningsafurðunum, njóti allir ávaxtanna, en taki hins vegar einnig þátt í hinu, þegar illa gengur. Þetta er meginreglan um bændurna. Ég sé ekki miklar framfarir í því að afnema slíka reglu, en ég gat ekki skilið orð hæstv. viðskmrh. á annan veg en þann, að hann vilji afnema regluna.

En hvað vill hæstv. landbrh.? Hann hefur ekki í þessum umr. sagt neitt um það, hvaða stefnu hann vilji fylgja í þessum efnum, en mér sýnast sjálf brbl. gefa nokkuð til kynna um þetta. Í þeim er mælt fyrir, hvernig Hagstofan eigi að reikna út grundvöll landbúnaðarverðsins í haust, og þar segir m.a. að í verðlaginu skuli taka til greina bótaupphæðir almannatrygginga, þá hækkun, sem verður á bótaupphæðum almannatrygginga á síðari hluta árs 1965. Mér kom þetta einkennilega fyrir sjónir, þegar ég sá þessi lög, að nú á að miða við bótagreiðslur almannatrygginga. Af hverju hafði hæstv. ráðh. þetta ekki á þann veg, sem það hefur alitaf verið, að miða skuli við tekjur verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna? Var það ekki framkvæmanlegt? Gat Hagstofan ekki reiknað út þennan verðlagsgrundvöll, alveg eins þó að þeirri reglu hefði verið haldið? Mér þætti vænt um, ef hæstv. landbrh. gæti upplýst þetta, hvort einhverjir erfiðleikar hafi verið á því að setja þá reglu í þessi brbl., sömu regluna og hefur gilt í 20 ár. En þetta gerði hann ekki. Hann tók almannatryggingarnar til viðmiðunar. Þýðir það það, — og nú spyr ég hæstv. ráðh., — þýðir það það, að hann vilji hverfa frá þeirri reglu, að bændur beri úr býtum svipaðar tekjur og aðrar stéttir? Þýðir það, að þarna sé ekki svo mikill munur á skoðunum hans og hæstv. viðskmrh.? Eða vill hann hins vegar, að í væntanlegri löggjöf um landbúnaðarverð verði tekin upp hin fyrri regla hvað þetta snertir, að bændur hafi sambærilegar tekjur og aðrar stéttir? Þetta er eitt þýðingarmesta atriðið í verðlagningu landbúnaðarvaranna.

Það kom fram í ræðu í gær hjá einum hv. þm., að við ákvörðun verðlagsins í haust hafi ekki verið tekin með í reikninginn kaupgjaldshækkun, sem talin er stafa af styttingu vinnuvikunnar. Ég segi það alveg eins og er, ég veit þetta ekki, og ég trúi því tæplegast, að þetta hafi ekki verið gert. Mér þætti vænt um, ef hæstv. ráðh. gæti upplýst þetta, hvort þetta er rétt, því að auðvitað eiga menn ekki að halda því fram, ef þetta er rangt. Ég held, að sú kauphækkun sé metin á rúm 9%, og það munar um minna, ef hún hefur ekki verið tekin með. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta muni vera rangt, hún hafi verið tekin með. Ég held, að það hljóti að vera. Mér sýnist það á tölunum um hækkunina á landbúnaðárverði, að hún hljóti að hafa verið tekin með. Hitt er aftur á móti vitað mál, að bótagreiðslur almannatrygginga hækkuðu ekki nema um 5% í vor, fyrir utan vísitöluhækkunina. Þær voru hækkaðar um 5% í júlímánuði í vor. En þar með er ekki sagt, að öll kauphækkunin hafi ekki verið tekin inn í landbúnaðarverðið, og það er þá það, sem ég vildi gjarnan fá að vita. En hafi það ekki verið gert, að hún hafi verið tekin inn, er það ekkert brot á brbl. fyrir því. Þau segja aðeins, að það skuli miðað við bótagreiðslur almannatrygginga. En þá hafa ekki heldur almannatryggingarnar hækkað bótagreiðslur sínar í samræmi við kauphækkanir, sem orðið hafa. Ég ætla, að það sé í l.ríkisstj. var heimilað á síðasta þingi að hækka bótagreiðslur í samræmi við kauphækkanir í fiskiðnaði. Það var ekki nema heimild, það var engin skylda. Það er ekkert brot af hálfu hæstv. ríkisstj., þó að hún hafi ekki hækkað greiðslurnar jafnmikið. En heyrt hef ég, að litið sé svo á, að kauphækkanir, sem stafa af svokallaðri styttingu vinnuvikunnar, séu ekki venjuleg kauphækkun og hún hafi ekki verið tekin þar með. En ég ætla, að vinnuvikan hafi ekki neitt breytzt í fiskiðnaði frá því í fyrra. Eftir því, sem mér er tjáð, var búið að stytta vinnuvikuna í fyrra niður í 44 stundir á viku, og kauphækkun, sem orðið hefur í fiskiðnaði síðan, ætti því áð fullu að koma til greina í hækkuðum bótatryggingum almannatrygginga, ef heimildin er notuð. Nú er mér tjáð, að Tryggingastofnun ríkisins hafi ákveðið fyrir ekki löngu að hækka allar bótagreiðslur nema fjölskyldubætur í desembermánuði um 8.9% og eigi þær að gilda til baka til júlímánaðar á þessu ári. En þá er verðlagningin komin á landbúnaðarafurðirnar, eða svo skilst mér. Hefur þessi hækkun á bótagreiðslum almannatrygginga, sem á að greiða í desember, komið inn í landbúnaðarverðið? Ég get ekki svarað þessu sjálfur. Ég hygg, að þetta sé komið inn í landbúnaðarverðið, en mig langar til að fá staðfestingu á því hjá hæstv. ráðh., að þetta hafi verið tekið með í reikninginn, þó að ekki hafi verið farið að greiða hækkunina út.

Það sjá allir, að kaupgjaldshækkun vegna styttingar vinnutímans er ekkert annað en kauphækkun. Það hefur ekki stytzt neitt vinnutími hjá fólki við samningana í vor. Það er ekki svo einfalt mál, að þeir, sem nutu þeirrar kauphækkunar, séu nú farnir að vinna 44 stundir, ekki heldur, að þeir hafi unnið 48 stundir áður. Nei, það liggja fyrir skýrslur um það, að vinnutími verkamanna hefur verið allt upp í 2900 stundir á ári, og þó að samið sé um, að vinnuvika skuli vera 44 stundir, þýðir það aðeins, að það skal greiða dagvinnukaup fyrir 44 stundir og eftirvinnukaup fyrir næstu 4 stundirnar á viku, svo að komið sé upp í 48 stundir eins og áður var.

Þetta er kauphækkun. En meðan fólk getur ekki lifað af dagvinnukaupinu sínu, hvorki fyrir 48 stunda vinnuviku né 44 stunda vinnuviku, styttist vinnutíminn auðvitað ekki. Menn verða að vinna það lengi, að þeir fái þær tekjur, sem þeir geta lifað af.

Það kann að vera, að hæstv. viðskmrh. hafi ekki verið hér viðstaddur, þegar ég kom með fsp. til hans hér áðan, en ég get þá endurtekið hana að lokum. Ég spyr um það, hvort hann telji rétt að afnema þá meginreglu, sem gilt hefur í 20 ár, að bændur hafi hliðstæðar tekjur við verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn, og hvernig það samrýmist því, sem hann ræddi um í gær, að síldveiðar eigi ekki að hafa áhrif á tekjur bænda, ekki ákvæðisvinna í bæjunum, ekki kauphækkun vegna styttingar vinnuvikunnar. Og ef eigi að taka þetta allt saman út, við hvað á þá að miða? Hvaða tekjur þessara stétta á að miða við, eða á alls ekkert að vera að miða við þær?

Ég held, að það sé yfirleitt í umr. hjá vissum mönnum gert nokkuð mikið úr því, sem bændur bera úr býtum í búskapnum, og reyndar sanna það bezt þær staðreyndir, að það fer lítið fyrir því, að fólk flytji úr þéttbýlinu út í sveit og fari að búa núna. Það eru víst undantekningar, og þó að það geti komið fyrir mann og mann, eins og hv. 5. þm. Vestf., þá er það engin regla. Nei, ég efast um, að bændur óski sérstaklega eftir því, að síldveiðar hafi áhrif á kaupið sitt, ákvæðisvinnan hafi það. En ég held, að þeir leggi megináherzlu á það, að þeir beri úr býtum hliðstætt og þessar vinnustéttir í bæjunum. Það er ótalin áhættan, sem bændurnir búa við. það er engin fjarstæða að nefna ákvæðisvinnu í sveit, þó að hæstv. ráðh. hafi talað um ákvæðisvinnuna í kaupstöðum, sem ekki mætti miða tekjur bændanna við. Hvað er landbúnaður? Er hann ekki fyrst og fremst ákvæðisvinna, vinna þeir fyrir tímakaup eða vikukaup? Nei, það held ég ekki. Ég held, að þeir eigi það undir sól og regni, hvaða kaup þeir fá fyrir vinnu sína. Ef ekki á að miða við styttingu vinnutímans, vinnuvikunnar, held ég, að það sé hægt að benda á, að bændur hafa engan ákveðinn vinnutíma og eiga jafnmikinn rétt á því og aðrir að geta stytt hann, ef það væri hægt. Þeir vinna engar 44 stundir á viku, þeir vinna miklu meira. Þeir hætta ekki að vinna á ákveðnum tíma í miðjum flekk, þegar þeir eru að hirða. Þeir hætta ekki að mjólka kúna, þegar klukkan er orðin 6 eða eitthvað þess háttar. Nei, vinnutími bændanna er sem sagt ótakmarkaður. Og ef kaupgjaldshækkanir eiga sér stað vegna skráningar á vinnuviku, held ég, að það eigi að ná til bændanna alveg eins og annarra.

Það væri mjög æskilegt að fá einhverja vitneskju frá hæstv. ríkisstj. um það, hvaða stefnu hún vill taka í þessum málum, því að það liggur fyrir að setja nýja löggjöf um landbúnaðarverðlagningu á þessu þingi, og það er rétt, að menn tjái sig um það, hvernig þeir liti á þessi mál. Hæstv. viðskmrh. er búinn að gera það að verulegu leyti. Ég aftur á móti átta mig ekki enn þá á því, hvaða stefnu hæstv. landbrh. vill taka í þessu, en mér finnst það ekki boða gott, þar sem hann vildi ekki láta gilda áfram regluna um jafnréttið milli bænda og vinnustétta við sjóinn í verðlagningunni í haust, eða hvað hefur valdið því, að það var ekki gert?