02.11.1965
Neðri deild: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Nokkur atriði í ræðum hv. stjórnarandstæðinga er alveg sérstök ástæða til þess að leiðrétta, þar sem þar er um sumpart mjög alvarlegan misskilning að ræða. Og vík ég þá fyrst að ræðu hv. 5. þm. Reykv., Þórarins Þórarinssonar, hér áðan. Ég vil geta þess fyrst, að mér þótti mjög vænt um að heyra, að hann skyldi nú í fyrsta skipti fara um það viðurkenningarorðum, að ég hefði nú ýmislegt til míns máls í því, sem ég hef sagt við þessar umr. og hef sagt undanfarna mánuði og ár um íslenzk landbúnaðarmál. Hingað til hef ég aðallega þurft að heyra það úr þeirri átt og hans flokksbræðra, að það, sem ég hefði sagt um þessi efni, væri allt að því ofsókn í garð íslenzks landbúnaðar og í garð íslenzkrar bændastéttar. Ekkert hefur þó verið mér fjær en það að vilja hallmæla þeirri stétt eða óska þess, að hennar hagur mætti ekki verða sem allra beztur eins og annarra stétta í íslenzku þjóðfélagi. En nú virðist sem sagt svo komið, að þessi skeleggi baráttumaður og forvígismaður síns stóra flokks er farinn að játa það hér á sjálfu Alþ., að ýmislegt, sem ég segi um þetta mál og hef sagt um það, megi þó vissulega til sanns vegar færa, og ber út af fyrir sig að fagna því. Það, sem fyrir mér hefur vakað, hefur ekkert verið annað en það að vekja athygli á staðreyndum, sem ég hef talið vera bráðnauðsynlegt, að allir Íslendingar gerðu sér grein fyrir, en mér fannst fyrir tveimur árum allt of mikið á skorta, að menn yfirleitt gerðu sér nægilega ljósa grein fyrir. En þær umr., sem um þessi mál hafa vakizt, hafa sem betur fer orðið til þess, að æ fleiri hafa gert sér fulla og ábyrga grein fyrir því, að einmitt á sviði íslenzks landbúnaðar er við að etja ýmis alvarlegustu vandamálin, sem við er að glíma í íslenzku atvinnu- og efnahagslífi.

En hv. 5. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, gat ekki mjög lengi í ræðu sinni verið svona sanngjarn og svona málefnalegur, því að mjög fljótlega fór hann út í þá sálma að segja: Jú, vissulega er mörgu ábótavant í íslenzkum landbúnaðarmálum, og vissulega þarf að kippa þar mörgu til miklu betra vegar en nú á sér stað. En það, sem aflaga fer og það sannarlega mikið, sagði hv. þm., er eingöngu hæstv. ríkisstj. að kenna, eingöngu núv. ríkisstj. að kenna og því, sem hann kallaði dýrtíðar- og verðbólgustefnu hennar. Og þar virtist hv. ræðumaður tala á grundvelli eða í ljósi upplýsinga, sem hann birti í blaði sínu s.l. sunnudag, þar sem hann þóttist sýna fram á, að dýrtíð hefði vaxið mun meir á valdatíma núv. ríkisstj. en nokkurrar annarrar ríkisstj., sem setið hefði að völdum á Íslandi frá því að hér var fyrst mynduð ríkisstj., að því er manni skildist. Ég hélt nú satt að segja, að þessi gr. væri til þess eins skrifuð að blekkja aðra menn, og ég trúði því varla, að höfundur greinarinnar væri þar með sínum málflutningi að blekkja sjálfan sig, því að rökvillan, sem í gr. felst, er svo augljós öllum mönnum, sem um það vilja hugsa, að um það þarf ekki að fara mjög mörgum orðum. Allur hugsanagangur gr. og allur hugsanagangur, sem lá að baki ræðu hv. þm. hér áðan, var sá, að ef tala vísitölustiga hefði aukizt meir á valdatíma einnar ríkisstj. en annarrar, hefði verðbólgan aukizt meir á valdatíma þessarar ríkisstj. en annarra ríkisstj. Hér er auðvitað um algeran misskilning að ræða. Vísitölustig eru enginn mælikvarði á hlutfallslega aukningu verðbólgu. Það, sem auðvitað verður að gera, er að bera saman hlutfallslega hækkun vísitölunnar, en ekki fjölgun vísitölustiganna. Þetta hélt ég satt að segja, að menn þyrftu ekki að segja hér á hinu háa Alþ. En það virðist vera þörf á að segja það hér, til þess að menn flytji ekki ræðu hér á algerlega röngum forsendum. Það þarf að undirstrika það og benda mönnum á það, að 5 stig í l. vísitölunni, sem hér var reiknuð út, l. vísitölu framfærslukostnaðar eftir núverandi lagi, sem farið var að reikna vorið 1939, 5 stiga hækkun vísitölunnar frá 1939 er algerlega óskyldur hlutur 5 stiga hækkun vísitölunnar 1965. Á þetta ætti náttúrlega ekki að þurfa að benda. Það, sem máli skiptir, er hlutfallsleg hækkun sambærilegs vísitölugrundvallar frá einum tíma til annars, og ef þetta dæmi er athugað, kemur sannarlega allt annað út en það, sem hv. þm. miðaði við í ræðu sinni áðan og hefur eflaust sótt í þá athugun, sem hann gerði, áður en hann skrifaði grein sína s.l. sunnudag í blað sitt, Tímann.

Ég hef, til þess að gera þetta mál ekki allt of flókið og til þess að ekki sé um allt of margar tölur að ræða, slegið hér niður á blað mjög einföldum samanburði, hlutfallslegri hækkun vísitölu framfærslukostnaðar frá I. jan. 1950 til 1. jan. 1959. Ég vona, að menn rangminni ekki, að allan þann tíma hafi hv. Framsfl. setið í ríkisstj., allan tímann frá 1. jan. — það er tekið af handahófi í byrjun áratugs, — frá 1. jan. 1950 til 1. jan. 1959, eða næstum því — munar nokkrum mánuðum, sem ekki skipta máli í þessu sambandi. Á þessu 8 ára tímabili, að báðum árunum meðtöldum, hækkaði vísitalan um 136%, og auðvitað er það prósenttalan ein, sem skiptir máli. Hún hækkar frá 1. jan. 1950 til 1. jan. 1959 á valdaárum Framsfl. um 136%, eða um því sem næst 17% að meðaltali á ári. Og nú skulum við taka sams konar samanburð frá 1. jan. 1959, þegar Framsókn er farin úr stjórn, og til 1. okt. s.l., 1. dags síðasta mánaðar. Þá hækkar vísitala framfærslukostnaðar um 69 stig á tæpum 6 árum, eða um 96/7 úr stigi eða tæplega 10 stig á ári að meðaltali, um tæplega 10 stig á ári að meðaltali. Þetta er hlutfallsleg hækkun vísitölunnar, sem er sú eina, sem skiptir máli, burtséð frá stigatölunni sjálfri, sem skiptir engu máli. Með tilvísun til þessara einföldu talna er öll röksemdafærsla hv. þm. í ræðu hans hér áðan fallin um sjálfa sig. Verðbólguaukning, vísitöluhækkun, hefur ekki verið meiri síðan 1. jan. 1959, eftir að Framsfl. fór úr stjórn, en hún var áratuginn á undan, meðan hann var í stjórn. Árlega hækkunin var 17% síðasta áratuginn, sem Framsókn var í stjórn. Hún hefur verið tæplega 10%, eftir að hann fór úr stjórn. Og hvernig er þá hægt að segja það, að vandkvæði íslenzks landbúnaðar nú í dag séu því að kenna alveg sérstaklega, að verðbólga og verðbólgustefna hafi magnazt sérstaklega, eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum, þegar þessar ótvíræðu tölur sýna það, að vöxtur verðbólgunnar hefur verið minni, hefur verið hlutfallslega minni, síðan núv. flokkar tóku við völdum en eftir að Framsfl. fékk frí frá stjórnarstörfunum? Eyði ég svo ekki fleiri orðum að þessu atriði.

Þess má kannske geta til viðbótar, að í raun og veru er það engan veginn rétt mynd af árangri núverandi stjórnarflokka í baráttu gegn verðbólgunni að taka allt þetta tímabil, vegna þess að við miklum erfðasyndum var að taka, þegar núv. stjórnarflokkar tóku við völdum, og ég skal sízt af öllu gera nokkra tilraun til þess að staðhæfa annað en það, að því miður hefur stjórninni ekki tekizt að ráða niðurlögum verðbólgudraugsins. Engum er það fjær en mér að gera nokkra tilraun til að halda því fram, að þetta markmið hafi náðst. En engu að siður hefur ýmis árangur náðst, einkum og sér í lagi á síðustu árum, eftir að mjög náið samstarf tókst á milli launþegasamtakanna annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar, því að þá hefur náðst meiri árangur í baráttunni gegn verðbólgunni en nokkurn tíma áður á undanförnum áratugum, miklu meiri árangur en nokkurn tíma áður á undanförnum áratugum, sem kemur einmitt fram í því, að vöxtur verðbólgunnar er miklu hægari síðan þessa samstarfs verkalýðshreyfingar og ríkisvalds fór að gæta fyrir alvöru en nokkurn tíma áður á sambærilegum tíma um áratugi. Frá því fyrir júnísamkomulag og til 1. okt. s.l. hefur vísitalan hækkað um sem svarar 5.8% á ári, sem er rétt liðlega helmingur hlutfallslegrar meðalhækkunar frá 1. jan. 1959 og þriðjungur meðalhækkunarinnar eins og hún var á valdaárum Framsfl. eða þegar hann gat verulega látið til sín taka. Þetta tekur auðvitað af öll tvímæli um það, hversu miklu vænlegra það er að berjast gegn verðbólgunni á grundvelli þess konar samstarfs, sem undanfarin tvö ár hefur tekizt milli verkalýðshreyfingarinnar, milli launþegasamtakanna annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar miðað við það, sem var um áratuga skeið áður, og það eru auðvitað höfuðrökin fyrir því, að því samstarfi á að halda áfram, gera allt, sem hægt er, til að því verði haldið áfram. Með þessu móti tel ég því, sem hv. þm. sagði um þetta efni, vera algerlega fullsvarað.

En þá er það atriði, sem vikið var að þegar í umr. í gær af hálfu hv. 3. þm. Vesturl. (HS) og hv. 3. þm. Vestf. (SE) kom einnig nokkuð inn á í ræðu sinni hér áðan. Hv. 3. þm. Vesturl. andmælti þegar í gær þeim ummælum mínum, að bændur ættu ekki rétt á sjálfkrafa kauphækkun og verðlagshækkun í kjölfar t.d. aukinnar síldveiði eða ákvæðisvinnutaxta eða vinnutímastyttingar vegna vinnuhagræðingar hjá verkamönnum. Vegna þess sagði hv. þm., Halldór Sigurðsson, að bændur nytu ekki stækkunar búsins, bændur nytu ekki aukins afurðamagns af búi sínu, þar eð aukið afurðamagn væri látið koma fram í verðlækkun afurðanna til neytenda. Hér er um eitt alflóknasta atriði verðlagsmála landbúnaðarins að ræða, svo að ég get ekki og sé ekki heldur ástæðu til þess að ræða það út í neinar æsar hér, en tel þó rétt að skýra frá því, sem ég held, að menn yfirleitt, jafnvel ekki þm., átti sig almennt á, við hvers konar bústærð verðlagsgrundvöllur landbúnaðarins venjulega miðar. Með því að vitna til einfaldra grundvallarstaðreynda í þessum efnum má nefnilega fá sæmilega örugga vísbendingu um, að það, sem hv. þm. Halldór Sigurðsson og Sigurvin Einarsson vitnuðu til í ræðum sínum, er örugglega ekki rétt, a.m.k. ekki í fullum mæli, svo að ég segi eflaust ekki meira en hægt er að standa við og sýna fram á með miklu rækilegri athugunum en ég hef tíma til eða sé ástæðu til að gera hér.

Í vísitölubúinu, sem verðákvörðunin er miðuð við, er reiknað með tölu nautgripa 10.1 og tölu sauðfjár 137. Þetta eru aðalstærðirnar í vísitölubúinu, 10.1 nautgripur og 137 sauðkindur. Stærra er nú búið ekki en þetta. Og nú skulum við athuga, hvað búið hefur stækkað mikið síðan farið var að nota þennan grundvöll, það eru 17 ár síðan. 1947 var tala nautgripa í vísitölubúinu talin 7.2, nú 10.1. Tala sauðfjár var 1947, fyrir 17 árum, talin í búinu 87, nú aðeins 137. Svo er einnig til almennur mælikvarði, sem notaður er á bústærðina, reiknaður í ærgildum, þar sem kýrin er talin 20 kindur, og til er vísitala yfir þetta. Sú vísitala var á grundvallarárinu 1947 191, og er þá öll bústærðin talin þar með, 191, en 1964 287. Meðalbúið hefur m.ö.o. stækkað í 17 ár, í 17 ár hefur meðalbúið verið látið stækka í þessum útreikningum um 50.3%.

Ef við nú tökum aðra mjög einfalda talnaröð í samanburði við þetta og athugum, hvað mjólkurframleiðslan og kindakjötsframleiðslan hefur aukizt á þessu sama árabili, kemur dálítið annað í ljós. Nú eru að vísu ekki til tölur hjá Hagstofunni um framleiðslumagn landbúnaðarins fyrir árið 1964, en það skiptir engu máli, vegna þess að engin breyting var á bústærðinni frá 1963–1964, sama bústærð, 287 ærgildi. En framleitt mjólkurmagn var samkv. framleiðsluskýrslum 1947 65 þús. tonn, en 1963, 16 árum seinna, 118600 tonn. M.ö.o., framleitt mjólkurmagn hafði vaxið í heild í landinu um 82.4% samkv. skýrstum Hagstofunnar á sama tíma og bústærðin er talin vaxa um 50.3%. Þegar við athugum kindakjötsframleiðsluna, var hún 1947 6471 tonn, en 1963 var hún 12035 tonn. Aukning kindakjötsframleiðslunnar var á 16 árum 86% á sama tíma, sem meðalstækkun búsins er 50.3%

Nú ber þess auðvitað að geta hérna, að að sjálfsögðu hefur notkun á innlendu og erlendu kjarnfóðri vaxið mjög mikið og notkun á áburði hefur vaxið tiltölulega enn þá miklu meira, svo að hér er auðvitað mjög vandreiknað dæmi, ef það á að reiknast ofan í kjölinn og taka á tillit til allra stærða, sem rétt og sjálfsagt er að taka tillit til. Enn fremur þyrfti auðvitað að taka tillit til aukinnar vélanotkunar og þess vinnumagns bóndans, sem reiknað er með í vísitölugrundvelli landbúnaðarins. En engin tök eru á því að gera neina heildarathugun á þessu á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sem leiði í ljós óyggjandi tölfræðilegan sannleika um þetta efni.

Það er sjálfsagt að játa og nauðsynlegt, að allir geri sér það algerlega ljóst, enda vil ég á þessu stigi ekki segja meira en það, að það er áreiðanlega mjög hæpin staðhæfing hjá hv. þm. tveimur, að aukið afurðamagn komi í þeim mæli fram sem lækkað verð til neytenda, að það geti vegið upp á móti því, að fullt tillit hefur yfirleitt verið tekið til þess við útreikning á kaupi bóndans. hverjar breytingar hafa orðið á vinnutekjum manna við sjávarsíðuna, til hvers svo sem þær hafa átt rót sína að rekja, þ.e.a.s., bóndinn hefur sannarlega fengið hækkun á sínum tekjum vegna aukins síldarafla, hann hefur fengið hækkun á sínum tekjum vegna aukinnar ákvæðisvinnu t.d., og ég staðhæfi, að sú tiltölulega litla lækkun, sem hefur orðið á landbúnaðarverðinu vegna aukins afurðamagns, vegur hér engan veginn á móti, eins og ég tel þennan mikla mun á tölunum um stækkun búsins, sem er ekki nema 50.3% á 16 árum annars vegar og svo aukning mjólkurmagns og kjötframleiðslu um 80–90%, benda ótvírætt til hins vegar. Ég ætla ekki að staðhæfa, að hér sé um neinar tölur að ræða, sem sú endanleg sönnun í þessu máli, en hér þarf vissulega nákvæmrar rannsóknar við.

Að síðustu skal ég svo með örfáum orðum svara þeirri fsp., sem hv. 3. þm. Vestf. beindi til mín, þótt ég telji mig nú raunar hafa svarað henni þegar í gær, þegar hann spurði, hvaða skoðun ég hefði á því, við hvað ætti að miða tekjur bændastéttarinnar. Ég skal segja það aftur að síðustu. Ég tel neytendur og bændur eiga að semja um verð landbúnaðarafurðanna og þar með um tekjur bændanna, ef nokkur lifandi leið er, að slíkt samkomulag geti komizt á á milli aðilanna, ef ekki þarf að setja einhverjar fastar reglur um það, hvernig afurðaverðið og þar með kaup bændanna skuli ákveðið, og þá tel ég hiklaust og tvímælalaust, að bændur eigi að fá hlutdeild í þeirri almennu þjóðartekjuaukningu, sem á sér stað frá ári til árs, hvort sem þessi þjóðartekjuaukning á rót sína að rekja til almennrar framleiðniaukningar í þjóðfélaginu eða til verðhækkunar íslenzkra útflutningsafurða á erlendum markaði eða verðlækkunar erlendra vara, sem fluttar eru til landsins. M.ö.o., þeir eigi að fá réttmæta hlutdeild eins og aðrar stéttir í breyttum viðskiptakjörum eða breyttum verzlunarkjörum. Hins vegar tel ég ekki, að bændur eigi að fá sjálfkrafa hækkun á tekjum sínum og hækkun á afurðaverði, þó að einstaka stéttir aðrar fái sérstakan tekjuauka í sinn hlut af sérstökum ástæðum, eins og t.d. tækniframförum, breytingu á launakerfi eða sérstakri vinnuhagræðingu á tilteknum stað eða í tiltekinni iðngrein. Með þessu vona ég, að ég hafi gert algerlega ljóst, hver sé skoðun mín persónulega á þessu máli.