04.11.1965
Neðri deild: 11. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það hafa nú orðið hér allmiklar umr. um landbúnaðarmálin í sambandi við þetta brbl. frv., sem hér er á dagskránni. Þessar umr. hafa snúizt um ýmislegt fleira en verðlags- og kjaramál bænda. Inn í þetta hafa einnig dregizt framleiðslumál bændanna og svo dýrtíðarmálin, eins og eðlilegt er. En hin æðisgengna dýrtíð er auðvitað undirrót alls ills fyrir bændur, eins og aðra þá þegna þessa lands, sem verða að lifa af handafli sínu, og líklega hefur nú dýrtíðin fáa leikið jafnhart og bændastéttina.

Það úrræði, sem bændum hefur jafnan verið bent á til þess að jafna leikinn við verðbólguna, er að stækka búin og auka framleiðsluna, og þetta hafa bændúr keppzt við, en mér finnst, að við bændurnir höfum litla hamingju hlotið af þessu starfi okkar. Með þessu hafa bændur yfirleitt lagt á sig meira og stærra þrældómsok með hverju ári, sem liðið hefur. Þeir hafa lagt á sig lengri vinnutíma, og þeir hafa tekið á sig þyngri og þyngri skuldabagga. En ég hygg, að þeir hafi ekki haft erindi sem erfiði fyrir þetta starf. Víða fara bændur frá jörðum sínum og fá ekkert verð fyrir þær, eins og nú er ástatt. Þeir, sem eftir sitja í sveitinni, verða vegna fámennis að taka á sig alls konar nýjar og þyngri byrðar en áður, vegna þess að fólkinu hefur fækkað. Unga fólkið hefur ekki og getur ekki vegna dýrtíðar stofnað til búskapar, og búskapur þeirra, sem búnir eru að koma upp þessum stóru búum, sem þeir hafa verið hvattir til að koma upp, getur ekki keppt við aðra atvinnuvegi um vinnuaflið, og svo standa menn uppi einyrkjar með allt of mikið erfiði, sem þeir ráða ekki við. Þetta er allt saman kunnara en frá þurfi að segja, en ég get ekki látið hjá liða að vekja athygli á þessu í sambandi við þessar umr. Svona er nú sagan. Og það er staðreynd, að það er ekki hægt að reka sveitabúskap með aðkeyptu vinnuafli, hversu mikil tækni sem notuð er við búskapinn, bæði vegna þess, að þetta vinnuafi er ekki fáanlegt og að framleiðslan stendur ekki undir því kaupgjaldi, sem auðvitað þyrfti að vera hægt að borga.

Ýmsir halda, að það sé ekkert annað ráð til þess að bjarga bændastéttinni en einungis það að stækka búin. Og menn standa endilega í þeirri meiningu, að stórbóndinn reki gróðafyrirtæki. En ég fullyrði, að þetta er ekki þannig yfirleitt. Það kann að vera, að einstaka bóndi, sem var búinn að framkvæma allt, áður en dýrtíðin hóf göngu sína með þessu æðisgengna kapphlaupi sínu, slíkur bóndi hafi haft allgóða aðstöðu á undanförnum árum, en því miður eru þeir bændur lítið brot af tölu bændanna í landinu. Það er þessi stækkun búanna, sem öll viðreisnarhersingin hefur verið að ráðleggja bændum. Hún hefur reynzt illa, og nú hefur þessi stækkun búanna leitt af sér offramleiðslu, eins og kunnugt er, sem þeir kvarta nú mest undan, sem áður hafa mest hvatt bændur til að auka framleiðsluna. Það er niðurstaðan af öllum ráðleggingunum.

Ég get ekki neitað mér um það að láta þá skoðun mína í ljós, sem ég hef margoft látið í ljós áður, bæði hér á hinu háa Alþ. og annars staðar, að ég hef alltaf haldið því fram, að langsamlega farsælasta leiðin fyrir íslenzku þjóðina væri sú í landbúnaðarmálum, að hér sé rekinn fjölskyldubúskapur, þar sem bóndinn og fjölskylduliðið vinnur saman að búskapnum. Það hygg ég, að verði sú hollasta aðferð, sem hægt er að hafa í íslenzkum landbúnaði. Ég hygg líka, að þannig muni fást mestur afrakstur af því fjármagni og fjármunum, sem í þennan atvinnuveg er varið, og þannig megi líka helzt halda jafnvægi í framleiðslunni. Og ég er sannfærður um, að það er í raun og veru eina ráðið til þess, að jafnvægi haldist nokkuð gott í framleiðslunni, og þá enn fremur það, að með þeim hætti verður auðvitað langhægast að halda jafnvæginu í byggð landsins, sem er einn stærsti þátturinn og kannske sá veigamesti til þess að þjóðin geti notið í framtíðinni hollra áhrifa dreifbýlisins á uppeldi komandi kynslóða, en hvarvetna í heiminum, þar sem ég hef frétt um, er sveitalífið talið veita inn í þjóðlífið hollum áhrifum og hraustu blóði.

Hæstv. landbrh. vildi túlka ræðu mína hér í byrjun þessara umr. þannig, að ég væri að æsa bændur á móti brbl. Ég hef engan hug á því að æsa neinn til neins, en ég harmaði það og gagnrýndi í senn, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki leysa kjaramál bændastéttarinnar í samráði við stéttarsamtök þeirra, úr því að svo fór, að 6 manna n. var gerð óvirk. Fulltrúar bænda áttu þar enga sök á.

Ég tel, að með slíku hafi hæstv. landbrh. brugðizt siðferðilegri skyldu sinni, og ég tel, að hann hefði átt að segja af sér fremur en leysa málið á þennan hátt, sem hann gerði, og við það hefði hann vaxið í mínum augum.

Í þeim umr., sem hér hafa orðið, hefur hæstv. landbrb. reynt að leiða athyglina að ýmsum öðrum þáttum landbúnaðarmála en þeim, sem í brbl. felast. Það er auðfundið á því, að hann finnur, að aðstaðan er veik og hann er ekki sannfærður um, að hann hafi gert það, sem gera bar í þessu máli. Hann veit, hvaða augum bændur almennt lita á það að hafa nú einir allra stétta í landinu verið án saka settir undir þá lagakvöð að mega engu ráða um sín kjaramál. Hæstv. ráðh. tók líka fremur þann kostinn hér síðast, þegar þetta mál var til umr., — ég held s.l. þriðjudag, — að halda hér ræðu um hlutverk og þýðingu landbúnaðarins fyrir þjóðina. Í þeim almennu hugleiðingum hans var margt gott, ég skal játa það, og vel sagt, sem ég get vel tekið undir. Það snertir ekki það mál, sem hér er til umr., brbl. sjálf.

Hv. 5. þm. Vestf. flutti hér langa ræðu um þetta mál og kom viða við. Hann var allherskár og hressilegur í vopnaburði að venju og brá brandi sínum ótt og títt í áttina að sölufélögum bændanna. Hann taldi sig hafa unnið gott verk með því að koma 6 manna n. fyrir kattarnef. Ég er honum ósammála um þetta, og það kom fram í ræðu minni um daginn, og ég ætla ekki að fjölyrða um það frekar nú. Hins vegar vil ég gera nokkuð að umtalsefni þær árásir, sem hv. 5. þm. Vestf. gerði á sölufélög bændanna, en ég tel mig til þess knúinn, þar sem ég er bóndi og félagsmaður í þeim sölufélögum, sem hv. þm. sérstaklega nefndi.

Hann talaði mikið um milliliða- og dreifingarkostnað hjá Mjólkurbúi Flóamanna og Mjólkursamsölunni og Sláturfélagi Suðurlands og sagði, að sívaxandi hluti verðsins færi í milliliðakerfið, og nefndi, að 700 millj. kr. hefðu þannig farið á s.l. ári. Ég veit ekki, hvernig slík dæmi eru búin til eða slíkar útkomur eru fengnar og skal ekki tala um það. Honum þóttu afskriftirnar óeðlilega háar, og hann spurði að síðustu, hvort kaupmenn gætu ekki annazt dreifingu varanna, rétt eins og hann hefði betri reynslu af þeim við slíkt en félögum bænda. Hér hefur nú verið lesin skýrsla frá Mjólkursamsölunni, sem hæstv. landbrh. las hér áðan um þennan dreifingarkostnað, rekstrarkostnað Mjólkursamsölunnar, fyrningar og afskriftir og annað slíkt, sem sýnir það, að dreifingarkostnaður Mjólkursamsölunnar er um 9.4%, en ég veit ekki betur en kaupmenn hér í bænum vilji fá 23% fyrir að selja landbúnaðarvörur. Og ég held þess vegna, að það sé alveg ugglaust mál, að Mjólkursamsalan hefur verndað neytendur með því að hafa þessa dreifingu sjálf á hendi, því að annars hefðu þeir fengið miklu hærri dreifingarkostnað. Þetta held ég, að sé alveg sannað mál með þeirri skýrslu, sem hér var áðan lesin.

Hv. þm. klykkti út með því í ræðu sinni hér á dögunum að heimta rannsókn á stofnanir bændanna, rétt eins og þau séu líkleg til þess að vera einhver okureða fjársvikafyrirtæki. Ég verð að segja það, að ég varð mjög undrandi yfir því, að þessi ágæti og mæti maður skyldi sleppa svona fram af sér beizlinu í ræðu sinni. Bændur hafa, m.a. fyrir hans tilverknað, þar sem hann að vísu telur sig hafa gert rétt, nýlega verið gerðir réttlausir til áhrifa á sín kjaramál, en það er ekki nóg, heldur á einnig að setja stofnanir þeirra undir opinbera rannsókn, eins og þegar þjófar eiga í hlut, og ég sá í blaði, að hæstv. landbrh. hefði tekið vel í það, að sú rannsókn yrði látin fara fram. Ég vil nú spyrja hæstv. landbrh., hvort það sé rétt eftir haft, hvort hann hugsi sér að skipa rannsóknarnefnd á þessi fyrirtæki. Það er ekki af því, að ég telji, að stofnanir bænda hafi nokkuð að óttast, þó að slík rannsókn færi fram. Ég er algerlega óhræddur við slíka rannsókn, en óneitanlega held ég, að slík aðför að stofnunum bændanna yrði svartur blettur á þeim, er hana fyrirskipaði. Ég er hræddur um, að hún yrði svartur blettur, og ég hygg, að ef slíkt yrði gert, yrði það fyrsta fyrirbrigði slíkrar tegundar, sem maður veit um hér í löndum hins frjálsa heims, a.m.k. hér á Norðurlöndum. Ég hef aldrei heyrt talað um, að stofnanir bænda þar, sölufélög þeirra og stofnanir, hafi verið settar undir opinbera rannsókn.

Ég hef nýlega í blaðagrein gert nokkra grein fyrir rekstrarkostnaði Mjólkurbús Flóamanna og þeirri útkomu, sem þar varð, og sagt frá því, að mjólkurbúið gat skilað 80% af verði varanna beint í vasa bændanna. Ég hygg, að slík útkoma sé ekki til staðar hjá nágrönnum okkar hér í næstu löndum og þess vegna sé ekkert að óttast fyrir þessar stofnanir, þó að þær yrðu nú að leggja fram öll sín gögn, enda eru reikningar þeirra opinberir og getur hver maður fengið að sjá þá án allrar rannsóknar. Þeir eru opnir og engin hula yfir neinu, sem þessar stofnanir snertir.

Mér fannst ég ekki komast hjá því sem bóndi, sem bæði stjórnarmaður í Mjólkurbúi Flóamanna og í fulltrúaráði Mjólkursamsölunnar að víkja að þessu. Ég tel eðlilegt, að sú skýrsla, sem hæstv. landbrh. las hér áðan, verði fengin í hendur öllum þm., og ég hef óskað eftir því við Mjólkursamsöluna, að sú skýrsla yrði send öllum þm., svo að þeir geti með eigin augum fengið að glöggva sig á þeirri grg., sem þar hefur verið sett fram.

Ég hafði ekki hugsað mér að lengja mjög þessar umr. Þær eru nú þegar orðnar alllangar, en ég tel þær að vísu hafa verið þýðingarmiklar. Það hefur margt komið fram í þeim athyglisvert, og það er sérstök ástæða til þess fyrir bændastétt landsins að fylgjast vel með, þegar um þessi mál er rætt hér á þingi, og ég vænti þess, að það megi ýmislegt gagn hafa af því, sem hér hefur komið fram. Ég ætla svo ekki, herra forseti, að eyða meiri tíma.