04.11.1965
Neðri deild: 11. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það hefur verið margt um þetta mál sagt síðan ég seinast í upphafi umr., þ.e.a.s. í fyrri viku, tók hér þátt í þeim. Fjöldi þm. hefur tekið þátt í umr. og sýnist sitt hverjum og tveir hæstv. ráðh. hafa einnig tekið þátt í umr. og sýnist sitt hverjum líka, þótt þeir séu málsvarar fyrir eina og sömu stjórnarstefnu. Sumir komast svo að orði, að báðir landbrh. hæstv. ríkisstj. hafi tekið þátt í umr., en ég held, að það sé nú sanni nær, af því að þeir eru málsvarar hvor fyrir sína stefnu, að segja, að hæstv. landbrh. og anti-landbrh. ríkisstj. hafi rætt þessi mál.

Mér finnst nú rétt að víkja fyrst nokkuð að því, sem ég hef heyrt af þessum umr. s.l. mánudag, víkja að nokkrum atriðum í ræðum þeirra þm., sem þá töluðu. Ég heyrði þá hv. 5. þm. Reykv. (ÞÞ) hefja mál sitt á því að segja, að það væri vafasamt, að betra kerfi fyndist en gamla sálaða 6 manna n.-kerfið. Það hefur verið anzi nálægt fullkomleikanum, eftir þessu að dæma, og er von, að menn syrgi slíkan grip. Ja, ég skil það, að þessum hv. þm. er ekki um, að því hafi verið sagt upp og tekið úr umferð, ef svo mætti segja. Vafasamt, að betra kerfi finnist. Ég kem þessu ekki heim og saman við það, að aðrir ræðumenn hér hafa verið að tala um, að það þyrfti að breyta þessu í grundvallaratriðum. Og sumir hafa þeir einmitt verið meðal flokksbræðra hv. þm., sem hafa viðurkennt það, að kerfið hafi verið gallað, verulega gallað, og þurfi að breyta því í grundvallaratriðum. Hv. þm. fann nú ýmiss konar vandkvæði hafa risið, meðan þetta ágæta kerfi var við lýði, eins og t.d. hinar miklu niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur, sem nú komi þungt niður á ríkissjóði og séu orðnar vandamál hans. En það var nú ekki kerfinu að kenna, það var stjórnarstefnunni að kenna, og víst er mikið rétt í því, að þar er um veitur í stjórnarkerfinu að ræða.

Það er fyllilega rétt, sem einhver sagði hér í umr., að það getur aldrei verið á valdi einstaks bónda að vita um það, þegar hann einbeitir kröftum sínum að framleiðslumálum sínum, hvort það leiðir til offramleiðslu, þegar á heildina er litið. Það getur því ekki verið hægt að ætlast til þess af hverjum einstökum bónda, að hann beiti ráðstöfunum til þess að forðast þetta viti. Það hlýtur að vera hlutverk stjórnarvalda, sem hafa í hendi sér alla þræði málanna, og það hljóta að vera til úrræði hjá ríkisstj., sem þorir annars að beita aðgerðum, sem verður að beita, til að kippa slíku í lag. Ef svo er komið, að ríkissjóður rísi ekki undir þeim byrðum, sem af því leiðir, að framleiðslugeta landbúnaðarins hefur vaxið, á hún að beita þar skynsamlegum ráðstöfunum en ekki láta allt reka á reiðanum.

Hæstv. landbrh. sagði, að uppbæturnar mundu vera á þessu ári um 200 millj. kr. og væru mun hærri en árið áður. Það er skildingur, ég játa það. En hvaða úrræðum á að beita? Það er í rauninni vafasamt, hvort á að borga jafnmiklar útflutningsuppbætur til mjólkurframleiðslu á þeim svæðum, sem hafa langbezt skilyrði til allrar ræktunar og þar að auki aðgang að langbezta markaði landsins. Það er alveg vafasamt, hvort á að örva þeirra framleiðslu enn þá, þegar offramleiðsla er komin, með útflutningsuppbótum og t.d. niðurgreiðslum. En það getur vel verið, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki þor til þess með tilliti til atkvæðamöguleika að beita slíkum ráðstöfunum. En hitt er a.m.k. nálægt öllum sanni, að það er ekki skynsamlegt, þegar svo er komið, að offramleiðsla er á mjólk, eins og menn viðurkenna að sé, að vera þá að örva mjólkurframleiðslu með greiðslum frá ríkinu í þeim hlutum landsins, í þeim héruðum, þar sem skilyrði eru léleg til kúabúskapar og mjólkurframleiðslu. Þar á auðvitað, ef þar eru góð skilyrði til sauðfjárræktar, að veita þeirri búgrein aðstoð þar og íáta bændurna um það sjálfa, hvort þeir vilja vera að baksa í mjólkurframleiðslu við erfið skilyrði. En þeir geta freistazt til þess, ef þeir fá aðstoð frá ríkinu til þess að gera þessa vitleysu. Alveg á sama hátt á ekki að vera að styrkja menn á neinn hátt með ríkisfjárframlögum til sauðfjárræktar, þar sem engin skilyrði eru til sauðfjárræktar. Ef bændur á þeim stöðum landsins vilja endilega fást við sauðfjárrækt sem sport eða sér til ánægju, eiga þeir að gera það á sinn eiginn kostnað. En ríkið freistar þeirra til þess að gera það nú samt sem áður, ef greiðslur eru nógu miklar þarna goldnar með. Það væri vissulega mögulegt fyrir stjórnarvöld að skipta landinu í svæði með tilliti til þess, hvort viðkomandi landssvæði væri vel fallið til mjólkurframleiðslu eða sauðfjárræktar, og haga aðstoð sinni miðað við það. Í þeirri stefnu væri eitthvert vit, og það er hægt að ná tökum á málinu með slíkum aðgerðum. E.t.v. kunna að vera miklu fleiri úrræði, sem ríkisvald, sem hefði eitthvert þor til að taka á málinu, gæti beitt. En það er a.m.k. auðséð, að það er hægt að beita úrræðum t.d. eins og þessum og hafa þannig áhrif á framleiðslumagnið. Og auðvitað hlýtur það að auka eftirtekjur landbúnaðarins að efla hann þar og þá búgrein, þar sem hún hefur bezt skilyrði og örva ekki, að búgrein sé stunduð, þar sem eru léleg skilyrði til þess að iðka hana. En það er gert nú. Menn haga sér núna eins og maður, sem væri að hella vatni í ílát og hann væri nú búinn að fá reynslu af því, að 9/10 hlutar vatnsins færu utan hjá ílátinu, en það væri haldið áfram að hella samt, 1/10 hluti kæmist til skila, 9/10 hlutar utan hjá, en það er ekki breytt um aðferð, það er haldið áfram að hella. Þeir meðal bændastéttarinnar, sem gegnum verðlagspólitíkina eina, ef einblínt er á hana, bera mest úr býtum, eru stórbændurnir. En þeir, sem menn þykjast bera fyrir brjósti og vera að hjálpa, smábændurnir, fá ákaflega litla leiðréttingu sinna mála með því að gera þetta eingöngu gegnum verðlagspólitík landbúnaðarins.

Hv. 5. þm. Reykv. (ÞÞ) gerði mikið úr því, að ákvörðun Alþýðusambandsstjórnarinnar um það að taka aftur umboð fulltrúa síns í 6 manna n. hefði verið gerð með 6:3 atkv. Réttar eru þessar tölur, en það er a.m.k. óefað, að það er góð og gild ákvörðun að afgreiða mál með 6:3 atkv. Og það er misskilningur, að þeim, sem þarna voru í minni hl., hafi komið þessi afstaða miðstjórnar Alþýðusambandsins á óvart. Það er alger misskilningur. Þessi mál var búið að ræða á einum þremur fundum á þessu hausti frá því að málið kom fyrst á dagskrá, og þá virtust allir í miðstjórninni vera á því, að miðstjórnin gæti ekki haft mann í 6 manna n. við þá starfsaðstöðu, sem nú væri þar, og við þau skilyrði, sem nú hefðu skapazt. Það kom okkur í meiri hl. í miðstjórn A.S.Í. því mjög á óvart, hvaða afstöðu þessir þrír félagar okkar tóku. En það er augljóst nú, hvaðan þeir höfðu orðið fyrir áhrifum. Það er auðvitað frá þeim mönnum, sem segja, að betra kerfi sé vart hugsanlegt en þetta, sem við vorum að hverfa frá.

Þá sagði hv. 5. þm. Reykv., að það væri jú sjálfsagt, að verkalýðssamtökin fylgdust með milliliðakostnaðinum. Mikið var. En ég spyr hv. þm.: Er hann með því eða er hann á móti því, að það sé rannsakað, hver milliliðakostnaðurinn sé og hvað hann geti minnstur verið, því að það skiptir máli bæði fyrir bændur og neytendur? Ég þarf enga umsögn hans um það, að það sé sjálfsagt, að við fylgjumst með honum, en er hann með eða móti rannsókn á því? Það er enginn glæpamannsstimpill settur á samtök bændanna fyrir það, þegar um 600–700 millj. kr. fúlgur er að ræða fyrir þá þjónustustarfsemi, sem þau inna af hendi, þótt það sé gáð að því, hvort þarna væri hægt að komast af með minni upphæðir. Það er alger misskilningur, að það sé verið að setja nokkurn þjófs- eða glæpamannsstimpil á samtökin, þó að heimtað sé, að þarna sé fylgzt með.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. (BP) ræddi um þetta mál og kom víða við, og sumu af því, sem hann sagði, var ég sammála. Hann sagði t.d., að verkalýðssamtökin hlytu að krefjast gagna varðandi milliliðakostnaðinn, og gekk þannig inn á okkar sjónarmið, og hann sagðist játa, að það þyrfti að breyta ýmsu í þessum málum. Hann var ekki alveg inni á fullkomleikakenningu Þórarins Þórarinssonar. Ég játa, að mörgu þarf að breyta, að það þarf að breyta ýmsu í þessum málum, sagði hv. þm. Og hvernig var hægt að gera það nema með því að segja þessu kerfi upp og láta það þannig koma til þeirrar endurskoðunar, sem það einmitt nú kemur?

En hann sagði, að hann teldi ástæðulaust að orða það þannig, þegar Mjólkurbú Flóamanna og Mjólkursamsalan í Reykjavík gengu í Vinnuveitendasambandið, að segja, að þá hefðu þessi samtök bænda gengið yfir í fjandmannaraðir verkalýðssamtakanna. Hann sagðist játa að vísu, að þetta skref hefði verið ástæðulaust að sínum dómi. Jú, jú, einhverja ástæðu hafa forráðamenn Mjóikursamsölunnar og Mjólkurbús Flóamanna sjálfsagt talið vera fyrir því, að þeir ættu heldur leið með Vinnuveitendasambandi Íslands en að njóta þess að vera stikkfrí í þessum málum, eins og þessi fyrirtæki höfðu verið. Verkalýðshreyfingin hafði tekið sérstakt tillit til þeirra, sem stóðu utan við samtök aðilanna á vinnumarkaðinum. Þess höfðu þau notið.

Hv. þm. Björn Pálsson áleit, að þetta skref hefði nú verið ástæðulaust, en það væri rangt eins og ég hefði orðað það, að segja, að þeir hefðu gengið yfir í fjandmannaraðir. Nú held ég, að hv. þm. misskilji þetta, því að það er í flestum tilfellum enginn persónulegur fjandskapur milli forustumanna verkalýðssamtakanna og vinnuveitendasamtakanna, alls ekki. En það er háð hörð barátta um skiptingu þeirra verðmæta, sem vinnan skapar, háð hörð barátta um það, hvað fjármagnið eigi að fá og hvað vinnan eigi að fá. Og þessi barátta er háð þannig, að atvinnurekendurnir eru löglegur samningsaðili annars vegar og verkalýðssamtökin viðurkenndur samningsaðili hins vegar, og þannig heyja þeir sína baráttu um andstæð sjónarmið, og maður getur alveg eins sagt fjandsamleg sjónarmið, því að það er stundum engin blíða í þeim málum. Og það er einmitt í þessa aðstöðu, sem forustumenn bændasamtakanna stilltu sér. Þeir gengu yfir í raðir þeirra aðila, sem við heyjum hagsmunabaráttuna við um það, hvernig skiptingin eigi að vera milli fjármagns og vinnu í framleiðslunni. Þar með held ég, að það sé augljóst mál, að það var ekkert vinsemdarbragð. Með þessu fóru þessi samtök bændanna að borga fé í áður gilda sjóði atvinnurekenda til þess að gera þá sterkari í hagsmunabaráttunni á móti verkalýðssamtökunum. Þetta skilur væntanlega hver maður. Þetta er a.m.k. ekki óskiljanlegra en talnaleikur hæstv. menntmrh. áðan, sem hann sagði, að hvert skólabarn skildi, og voru það þó allhæpnar kenningar, sem þar voru hafðar frammi í tölum, það verð ég að segja.

Hv. 3. þm. Vestf. tók einnig þátt í þessum umr. s.l. mánudag og var mjög gramur yfir því, ef grundvellinum undir 6 manna n. álitinu yrði breytt. Ég er þeirrar skoðunar, að sá grundvöllur, að bændur eigi fyrir sína vinnu að bera úr býtum líkt og launastéttirnar í bæjunum, verkamenn og iðnaðarmenn, sé réttur grundvöllur og það sé hollt, hvaða skipulagi, sem á þessi mál verður komið, að þeirri grundvallarstefnu verði fylgt. Hins vegar hef ég látið það í ljós áður, og ég get vel sagt það enn, að ég er mjög í vafa um, hvort það sé hollt bændastéttinni að hafa í þeirri viðmiðun kjör sjómanna. Jú, það er gott fyrir blessaðan bóndann að fá hækkun afurðaverðs allt í einu, þegar vel fiskast og vel árar til sjávarins. Það er gott. En það er líka jafndýrt fyrir hann að þurfa að fara með sitt afurðaverð niður í öldudal, þegar illa árar til sjávarins, ógæftir herja,aflaleysi eða ísalög loka miðum. Ég verð að segja það, þó að ég sé orðinn bóndi, að ég mundi ekki kæra mig um slíka sveiflu, að það væri skipulagt, að bændur yrðu fyrir þeim sveiflum, sem við teljum einna verstar og skapa mesta óvissu í sjávarútvegi. Það eru topparnir og öldudalirnir, sem gera þann atvinnuveg áhættusamastan. Og það er betra að láta það ekki hafa áhrif á landbúnaðinn líka. Ég sé ekki hag bóndans í því. Ég held því, að það sé rétt að miða við launastéttirnar, verkafólk og iðnaðarmenn í bæjunum, og ætla bændunum sem lágmarkstryggingu þau kjör. E.t.v. er það einmitt þetta, sem gerir það að verkum, að hv. framsóknarmenn eru sáróánægðir með brbl., fyrir utan það, að þeir eru andvígir því — og það skil ég vel principielt — að mál bændanna séu leyst með brbl. Það er út af fyrir sig, þegar galopin leið lá til þess að taka upp frjáls samningsviðskipti við bændurna um að leysa þessi mál.

Sé hægt að finna hvítan díl á þessum brbl., ættu þó bændur að koma auga á, að það, sem hefur bætt hag þeirra eitthvað síðan í fyrra, er það, sem verkalýðshreyfingin hefur skilað þeim í hendur, það er vísitöluálagið, sem fékkst fram við baráttu verkalýðssamtakanna fyrir ári, og það er viðmiðunin, að vísu er stokkið yfir eitt skref, það ér viðmiðunin við launastéttirnar í bæjunum, því að bætur trygginganna eiga ekki að dragast aftur úr þeim bótum, sem verkafólkið hefur fengið. Ég verð því að minna á, að enn þá meira að segja í þessum brbl. njóta bændurnir þeirra ávaxta, sem verkalýðsbaráttan hefur skilað að landi, og það álít ég vel.

Bæði landbrh. og anti-landbrh. voru sammála um, að það hefði ekki verið um neitt annað að ræða fyrir hæstv. ríkisstj. en að setja brbl., um það kom þeim saman, en þeir lokuðu báðir alveg augunum fyrir því, að það var auðvitað sjálfsagt að reyna að leysa málin með frjálsum samningum við bændurna, a.m.k. í þetta skipti, þótt þeir vilji ekki gera það að framtíðarskipulagi, sem ég væri nú á, að væri sá réttur, sem bændur ættu að krefjast, og mig furðar alveg stórlega á því, að fulltrúar bændastéttarinnar hér á Alþ. segjast vera öllum rétti sviptir núna, en þeir gera ekki kröfu um fullan rétt til að fá að semja um sín mál. Þeir bera hana ekki fram. Sumir þeirra biðja um kerfið gamla óbreytt, aðrir, eins og Björn Pálsson, segja, að það þurfi nú að breytast verulega, en þeir bera engar kröfur fram um fullan rétt fyrir stétt sína, samningsrétt.

Um það hefur nokkuð verið deilt, og þó er hægt að segja það eiginlega, að því hafi einhliða verið haldið fram, að A.S.Í. hafi gert bændunum mesta óleik með því að taka aftur tilnefningu fulltrúa síns í 6 manna n. En ein rödd hefur þó heyrzt á annan veg, og það er rödd Alþýðublaðsins. Alþýðublaðið segir í leiðara núna fyrir skömmu, að með því að taka mann sinn úr 6 manna n. hafi A.S.Í. brugðizt neytendum, sérstaklega hafi forseti A.S.Í. með þessu svikið 30 þús. launþega. Allir hinir hafa verið að segja, að ég hafi verið að bregðast bændum með þessu, en nú fæ ég það, að ég hafi orðið svikari við 30 þús. launþega og þá líklega bændunum í hag. Jú, það er meira að segja sagt, að þetta sé eiginhagsmunapólitík mín, af því að ég sé orðinn bóndi. (Gripið fram í: Bóndi?) Já, ekki lengi að snúa snældunni sinni, þegar hann gat fengið hag af því sjálfur, að snúast þá gegn verkalýðnum og fórna hagsmunum hans fyrir bændurna. Ég ætla nú ekki að gera þetta að umræðuefni, en svona ber nú vitnisburðunum illa saman, og þegar ljúgvitni eru borin, ber þeim venjulega illa saman. En ég segi það, það verður nú enginn héraðsbrestur, þó að einn einstaklingur bregðist, þó að sprek hrökkvi í tvennt, ef alþýðan nýtur þess að eiga stjórnmálaflokk, sem aldrei svíkur hana, hefur ekki svikið hana og svíkur hennar málstað aldrei. Og þá á alþýðunni að vera borgið, því að slíkan málsvara á hún í Alþfl., að mér skilst.

Í upphafi þessa fundar talaði hv. 2. þm. Sunnl., sem einnig tók þátt í upphafi þessara umr., og verð ég að segja, að ég er ýmsu sammála, sem hann sagði núna. Hann sagði, að það væri ekki endilega sáluhjálparatriði fyrir bændur að koma upp sem stærstum búum, heldur mundi fjölskyldubúskapurinn þar verða affarasælastur, auðvitað þó a.m.k. miðað við það, að fjölskyldurnar reyni að koma búunum upp í eðlilega stærð. Það held ég, að við hljótum að meina báðir.

Þessi hv. þm. var á þeirri sömu skoðun og ég, að ráðh. hefði vel getað gert annað en að setja brbl. til að leysa þessi mál. Hann sagði, að það hefði átt að þrautreyna að leysa þessi mál í samráði við bændur og samtök þeirra, þrautreyna það, og það held ég, að sé hárrétt, og jafnvel að gefast ekki upp við þá tilraun, leysa þetta með frjálsum samningum í þetta skipti a.m.k. eða segja af sér. Ég mundi ekki harma það, ef hæstv. ríkisstj. segði af sér og gæfi þannig upp á bátinn þá stefnu, sem hún er búin að missa út úr höndunum. En þó held ég, að það yrði nú helzt eftirsjón í hæstv. landbrh. frá sjónarmiði þeirrar stéttar, sem hann þjónár, og má vera, að þar komi nú bændahagsmunir mínir enn fram.

En hv. 2. þm. Sunnl. var ekki vel við þær aths., sem ég hafði gert í frumræðu minni um sölufélög bænda, eins og hann kallaði, Mjólkursamsöluna í Reykjavík, Sláturfélag Suðurlands og Mjólkurbú Flóamanna, þegar ég hefði borið fram kröfu um rannsókn á hendur þessum aðilum. Ég vék að því áðan, að það er alger misskilningur hjá þessum hv. þm., ef honum finnst það, að með kröfunni um rannsókn séu þessi samtök höfð fyrir sökum, eins og þau væru fjársvikafyrirtæki. Hann orðaði það þannig. Ég hagaði ekki málflutningi mínum þannig, að ég held, að ég væri að væna þessi samtök um nein fjársvik, heldur sagði ég, að hér væri um svo stórkostleg viðskipti að ræða, svo mikla þjónustustarfsemi, að það mætti ekki vera alveg ótakmarkað olnbogarúm fyrir þessi fyrirtæki eftirlitslaust að haga rekstrinum eins og þeim sýndist, ákveða t.d. afskriftir eftir eigin höfði, ráðast í fjárfestingarframkvæmdir eftir eigin höfði og taka það af sínu eigin fé og láta það koma inn í verðlagið, því að þetta hefði bæði áhrif á hag bænda og neytenda. Og þótt hér sé um samvinnufyrirtæki að ræða, held ég því enn fram, að svo rúmt megi þau ekki hafa um sig, að þau geti ráðið þessu eftirlitslaust. Þetta varðar fleiri en stjórnendur þessara fyrirtækja, sem hafa núorðið sannanlega ákaflega litið samband við umbjóðendur sína í mörgum tilfellum, eins og bezt kom í ljós, þegar þau tóku ákvörðunina um að ganga í Vinnuveitendasamband Íslands. Það hefðu áreiðanlega einhverjir af bændunum spurt: Er ykkur nauðsynlegt að stofna til ýfinga við verkalýðshreyfinguna með því að ganga inn í andstæðingaraðir þeirra, — svo að ég segi ekki fjandmannaraðir, — og gætuð þið þá ekki heldur hugsað ykkur að fara í Vinnumálasambandið? Það er þó málsvari fyrir atvinnurekendur samvinnumanna. Nei, ekki komu þeir auga á það, enda höfðu þeir ekki samráð við bændur um þetta mál a.m.k.

Þegar ég sagði, að ég teldi ástæðu til þess að rannsaka, hver væri nauðsynlegur dreifingarkostnaður í sambandi við vöruverð landbúnaðarafurðanna, var það eingöngu út frá því sjónarmiði, að neytendur og bændur ættu kröfu á því, að þarna væri kannað ofan í kjölinn, hvort ekki færi meira í þessa þjónustustarfsemi en brýn nauðsyn krefði. Ég hagaði ekki orðum mínum þannig, að ég væri að drótta að þessum fyrirtækjum neinum þjófnaði eða fjársvikum, því að ef þessi fyrirtæki taka sér frjálsræði til þess að hafa lítt takmarkað olnbogarúm, gerist það á kostnað einhvers, — það gerist alveg óumflýjanlega á kostnað neytenda og bænda með of háu afurðaverði.

Hæstv. landbrh., Ingólfur Jónsson, flutti hérna í upphafi þessa fundar skýrslu nokkra frá Mjólkursamsölunni í Reykjavík um dreifingarkostnað hennar, álagningu og ýmsa aðra þætti dreifingarkostnaðarins hjá því fyrirtæki, og virtist mér það vera skoðun ráðh., að sú skýrsla væri nokkuð sannfærandi að því er varðaði það, að dreifingarkostnaðurinn hjá Mjólkursamsölunni væri hóflegur. Þar var gerð tilraun til þess að aðgreina álagninguna sjálfa og ýmsa aðra kostnaðarliði, sem leggjast á vöruna í meðförum, og veit ég nú ekki, hverju það þjónar sérstaklega. Það, sem mér finnst skipta mestu máli, og það, sem ég lagði áherzlu á í minni frumræðu, er það, að það er gífurlega mikill munur á verði því, sem bændur fá fyrir afurðir sínar, og því, sem neytendur í kaupstöðunum verða að borga. Ég veit, að hann verður alltaf að vera allmikill þessi kostnaður, og hann er margliðaður, það er rétt, en heildarniðurstaðan er rétt eins og ég greindi frá. Þessi milliliðakostnaður er um og yfir 50% miðað við það verð, sem bændurnir fá. Það leggjast 48% ofan á það verð, sem bóndinn fær fyrir mjólkina. Það leggst 51% hjá milliliðunum ofan á það verð, sem bændur fá fyrir kjöt. Það leggjast 53% ofan á kartöfluverðið hjá framleiðendum, 53%.

Ég tel þessar tölur óvefengjanlegar, því að þær eru gefnar upp af þeirri n., sem nú í haust fjallaði um þessi verðlagningarmál, og það er reiknað út frá því, sem þar var gefið upp, að bændurnir fengju.

Hæstv. ráðh. sagði viðvíkjandi þeirri kröfu minni, að það væri sjálfsagt, að væntanleg n. í þessum málum fengi fullar upplýsingar um milliliðakostnaðinn. Það sagði hæstv. ráðh. En ég tek það fram, að ég tel ekki endilega öruggt, að skýrslur frá fyrirtækjunum sjálfum gefi fullnægjandi upplýsingar um þetta. Ég hefði talið, að það væri rétt og ætti ekki að meiða neinn, sízt þá, sem vitað er að hafa haldið vel á málum, að hæstv. ráðh. setti n. með fullu rannsóknarumboði til þess að sannfæra alla um það, að hér væri svo vel á málum haldið, að dreifingarkostnaðurinn gæti ekki minni verið. Og það væri ekki hægt að fá lækkun á afurðaverðinu við það, að þessir liðir minnkuðu. Hins vegar skal ég ekkert hafa á móti því, að þessir aðilar gefi skýrslur um það, hvernig þeir telja, að þessi milliliðakostnaður myndist, en það er þó talsvert meira en þeir hafa verið fúsir til að gera hingað til, því að það er sannleikur, að þegar 6 manna n. var falið að ákveða líka heildsölu- og smásöluverð, fór hún fram á það, neytendafulltrúarnir a.m.k., að fá að athuga reikninga dreifingarfyrirtækjanna. Hvernig var tekið undir það? Það er sannleikur, að þessari kröfu var tekið með mikilli tregðu. Þó var fallizt á það, að fulltrúi frá neytendunum færi að athuga þetta hjá Mjólkursamsölunni og mjólkurbúunum yfirleitt, ef annar fulltrúi frá Mjólkursamsölunni tæki þátt í því starfi líka. Þessa athugun framkvæmdu þeir fyrir árin 1961 og 1962. En alveg var neitað um aðgang að þessu hjá öðrum fyrirtækjum.

Kom nokkuð í ljós við þessa athugun? Jú, jú, það kom ýmislegt í ljós. Þetta var sett í gang vegna þess að Framleiðsluráðið hafði gefið skýrslu, sem var byggð á reikningum Mjólkursamsölunnar, og þessa skýrslu lögðu þeir fyrir, og þessir tveir endurskoðendur fengu hana fyrst og fremst til þess að vinna úr en einnig reikninga Mjólkursamsölunnar. Sá endurskoðandi, sem vann fyrir neytendahluta 6 manna n., taldi sig geta sannað það, að þarna hefðu slæðzt inn í skýrslu Framleiðsluráðsins liðir, sem væru mjólkurdreifingunni alisendis óviðkomandi. Námu þeir nokkurri verulegri upphæð? Þeir námu rétt við 7 millj. kr. Þeir, sem höfðu gengið frá þessari skýrslu, hnekktu ekki þessum niðurstöðum endurskoðandans. Það var tekið til baka þetta plagg og raunar beðizt afsökunar á því, að þessi mistök hefðu orðið. Hér var sagt, að vextir væru reiknaðir 10% í skýrslu Mjólkursamsölunnar. Það kom í ljós við þessa athugun endurskoðandans, að vextir voru reiknaðir frá 9.4%. Ég held, að það hafi verið lægst hjá Mjólkurbúinu í Borgarnesi, og upp í 24% voru vextirnir, en meðaltalið var eitthvað yfir 10%.

Skýrslunum, sem hæstv. ráðh. las um afskriftirnar, ber nokkurn veginn saman við það, sem ég vissi úr öðrum áttum og kom í ljós við þessa endurskoðun, að fasteignir væru afskrifaðar með 4%, vélar með 12%, en samt sem áður reynist það rétt, að Mjólkursamsalan er búin að afskrifa sínar búðir mjög margar niður í 100 kr., og þær hafa verið afskrifaðar svona á þann hátt, að bændur hafa borgað þessar afskriftir í mjólkurverðinu.

Krafan um endurskoðun og hlutlausa rannsókn, ekkert annað en hlutlausa rannsókn í þessum efnum, hefur fengið stuðning úr ýmsum áttum, meira að segja í málgögnum beggja stjórnarflokkanna. Dagblaðið Vísir hefur tekið undir kröfuna og sagði, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið mánudaginn 6. sept. sl.:

„Því er ekki að leyna, að ýmsum neytendum í bæjum þykir verð afurðanna harla hátt, þótt enginn neiti því, að margur bóndinn er ekki of sæll af kjörum sínum. Hér þarf að kafa niður í kjölinn, m.a. að athuga milliliðakostnaðinn“.

Þetta voru undirtektir Vísis. Alþýðublaðið hefur gert þessa kröfu að umtalsefni á þessu hausti í leiðara, og segir þar, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt: „Það kom engum á óvart, sem eitthvað þekkir til þessara mála, að Alþýðusambandið skyldi segja skilið við 6 manna n. og fulltrúi Sjómannafélagsins í raun og veru fylgja á eftir. Hefur ástandið verið þannig um árabil, að hvor þessara neytendafulltrúa sem verið hefði, hefði getað sagt sig úr n.

Seinna í sama leiðara sagði Alþýðublaðið:

„Það er rík ástæða til að athuga dreifingarkostnað landbúnaðarafurða. Að vísu er þessi dreifing að öllu leyti í höndum félaga, sem eru eign bændanna sjálfra og skipulögð sem samvinnufélög. En þau hafa meiri eða minni einokun, sem er alltaf hættuleg, og ekki er vist, að greindustu bændur geti gagnrýnt hina sérfróðu framkvæmdastjóra, þótt ástæða væri til. Fjárfesting þessara fyrirtækja hefur verið gífurleg, og þau hafa orð á sér fyrir að vera fjársterk, þegar til framkvæmda kemur. Gæti það t.d. munað bændur tugum millj., hvernig afskriftir þessara framkvæmda eru hafðar. Mætti þannig lengi telja atriði, sem ástæða er til að rannsaka, þegar verðlagningarkerfið er hrunið. Er það jöfnum höndum hagsmunamál bænda og neytenda, að þessi mál séu öll á hreinu og tortryggni eytt“.

Þetta sagði Alþýðublaðið, þetta voru undirtektir, ja, anti-landbrh. skulum við segja við þessari kröfu. En hæstv. landbrh. sjálfur hefur einnig tekið undir þessa kröfu. Það er rétt, að því var hann spurður hér áðan, og það stendur fast, að hann hefur bæði í fyrri umr. og nú sagt: Nauðsynlegt er, að n. fái allar upplýsingar um milliliða- eða dreifingarkostnaðinn.

Því miður var ég tepptur utanbæjar um seinustu helgi og var því ekki viðstaddur í upphafi þingfundar s.l. mánudag, þegar hæstv. landbrh. og anti-landbrh. töluðu. En af blaðafrásögnum styðst ég sérstaklega við frásagnir flokksblaða þeirra hvors um sig. Sé ég það, að hæstv. landbrh. muni þá hafa tekið upp sína fyrri kenningu um, að A.S.Í. hafi framið lögbrot með því að afturkalla tilnefningu af fulltrúa sínum í 6 manna n.

Það er rétt svo, að ég trúi þessu, því að ég tók vandlega eftir því, hvernig ráðh. hagaði orðum sínum um þetta atriði, einmitt um þetta atriði, í framsöguræðu sinni, þegar hann lagði brbl. hérna fyrir. Þá sagði hann, og það skrifaði ég strax niður hjá mér: „Alþýðusambandið afsalaði sér rétti til þess að eiga fulltrúa í 6 manna n.“,en ástæðurnar til þess sagðist hann raunar ekki skilja. Og þetta er hárrétt. Alþýðusambandið afsalaði sér, eins og á stóð, rétti sínum til þess að eiga tilnefndan fulltrúa í þessu starfi, af því að við töldum það ekki svara tilgangi sínum lengur, eins og á stóð, og þyrfti að knýja fram endurskoðun á þessu skipulagi, bæði vegna hagsmuna bænda og neytenda. Við töldum meira um vert að knýja fram endurskoðun á þessu úrelta kerfi en að eiga mann í n. Þess vegna afturkölluðum við tilnefningu á fulltrúa okkar í 6 manna n. Ég held líka, að hæstv. ráðh. fái engan sóma af því að halda fram, að A.S.Í. sé lögbrjótur — lögbrjótum á auðvitað að refsa — þegar hann svo kemur til A.S.Í. og biður það að setjast að löggjafarstarfi. En nú spyr ég: Hefur hæstv. ráðh. kynnt sér það, því að hann hefur ekki verið einn um að halda þessari kenningu á loft, hvort A.S.Í. sé lögbrjótur? Það hefur Stéttarsamband bænda gert líka og ekki síður og virðist halda fast við það enn. Er það víst, að Stéttarsamband bænda vilji láta bjóða sér það að setjast að borði með lögbrjótum til þess að semja till. að nýrri löggjöf? Er það víst? Fyrir lítið kemur tilnefning hæstv. ráðh., ef þá heltist annar aðili úr lestinni, vegna þess að honum sé misboðið.

Þá hafa blöðin það eftir hæstv. landbrh., að sjálfsagt væri, að væntanleg endurskoðunarnefnd fái öll gögn um dreifingarkostnaðinn, og það hefur hæstv. ráðh. endurtekið á þessum fundi, enda hafa þau ávallt verið 6 manna n. greið aðgöngu, segir blaðið eftir hæstv. ráðh. Hér er farið rangt með. Þetta er ósatt. Ég hef áður skýrt frá því, að það fékkst loksins knúið fram, að lítið væri í gögn Mjólkursamsölunnar tvö ár í röð með því skilyrði, að þar væri einnig annar maður að starfi við þá athugun. En hvað hefur svo gerzt eftir 1962? Það hefur verið komið í veg fyrir áframhaldandi athugun á þessum gögnum með því að tilnefna ekki mann frá fyrirtækinu til starfsins, en það var forsenda fyrir því, að endurskoðandi reikninganna mætti rannsaka þessi mál. Þannig hefur verið komið í veg fyrir, að þessi rannsókn héldi áfram. Það hefur verið neitað um nauðsynleg gögn. Og sum af þessum fyrirtækjum hafa aldrei gefið kost á því, eins og Sláturfélag Suðurlands, aldrei. Ég spyr því: Hefur það verið krafa manna, að fulltrúar neytenda í 6 manna n. inntu það starf af hendi að taka þátt í verðlagningu landbúnaðarafurða með bundið fyrir augun? Og ef þeim hefur verið ætlað það, er þá nokkur furða, þó að þeir neituðu að starfa við þessa aðstöðu? Forsendan var brostin fyrir því, að þeir gætu starfað, ef þeir hefðu ekki aðra eða betri starfsaðstöðu en þetta.

Í Alþýðublaðinu, sem ég vitnaði í áðan, var svo að orði komizt, að stundum hefðu þessi fyrirtæki reynzt fjársterk, þegar til framkvæmda hafi komið, og var þannig fallizt á það sjónarmið. Vegna þess, að þau hefðu verið einráð um það, hvernig þau höguðu rekstri sínum og gátu komið því út í mjólkurverðið, þá hafi þau getað tekið anzi mikið úr eigin sjóðum til fjárfestingar framkvæmda, og það taldi ég í minni fyrri ræðu eitt atriði ásamt afskriftarreglunum, sem þyrfti að veita aðhald um. Ég hef upplýsingar um það, að við árslok 1963 var fjárfesting Mjólkursamsölunnar í fasteignum, vélum og tækjum og hlutdeild í öðrum fyrirtækjum samkv. hennar eigin reikningum rúmlega 45 millj. kr. Og hvernig kom þetta fé? Af þessari upphæð kom tæplega 31/2 millj. kr. frá lánastofnunum. Afgangurinn var fenginn úr byggingarsjóði, 221/2 millj.,og af rekstrarfé Mjólkursamsölunnar rúmlega 19 millj. Af þessari upphæð var fjárfesting á árinu 1963 einu nærri því 8 millj. kr. Það má vel vera, að þessi fjárfesting hafi verið nauðsynleg, en það liggur ekkert fyrir um það nema þeirra eigið mat, og þeir höfðu frjálsræði til þess að fara út í þessar framkvæmdir.

Það var getið um það áðan, að mjólkurbúðirnar í Reykjavík væru nú ekki allar eign Mjólkursamsölunnar. Það er rétt. Mjólkursamsalan rekur 116 mjólkurbúðir í Reykjavík, 116, selur mjólk í 116 búðum. Þar af rekur hún sjálf 62 og á sjálf 38 af þeim. En 24 eru hins vegar í leiguhúsnæði. 38 búðir eru eign Mjólkursamsölunnar. En svo rekur Mjólkursamsalan mörg önnur fyrirtæki, Mjólkurbarinn, brauðgerð, ísgerð, Gúmmíbarðann, og samsalan á 52 stóra bíla og rekur eigið bifreiðaverkstæði. Það má vel vera, að allur þessi rekstur sé bráðnauðsynlegur í þjónustu dreifingarstarfsins, og það má líka vel vera, að rannsókn kynni að leiða það í ljós, að með þessu móti sé neytendum og bændum þjónað bezt, á ódýrastan hátt, en ég veit ekkert um það, og það veit enginn neitt um það nema rannsókn fari fram á því. Og það þarf alls ekki að telja það neitt meiðandi fyrir þessi fyrirtæki, heldur ættu þau hreint og beint að bjóða það, að þetta verði rannsakað af hlutlausum aðilum, þannig að það væri öruggt, að það væri ekkert ofsóknarform á því.

Ég veit líka og fer þar ekki með neitt fleipur, að mikinn meiri hluta ársins á Mjólkursamsalan í Reykjavík, 60–70 millj. kr. á innstæðureikningi í þjóðbankanum, Landsbankanum. Það er gott, að hún er svona efnuð. En mér er hins vegar ekkert kunnugt um það, hvort neytendum eða framleiðendum eru reiknaðar vaxtatekjur af þessari innstæðu og það látið hafa áhrif á verðið. Ég veit ekkert um það. En hitt veit ég, að að meðaltali nema vaxtagreiðslur, sem komnar eru inn í verðlagið, 11.8 aurum á hvern innveginn mjólkurlitra, og til er dæmi um 23 og kvart eyri á lítra.

Ég fagna því, að hæstv. ráðh. hefur fallizt á það sjónarmið mitt, sem hefur líka fengið stoð í báðum stjórnarblöðunum undir umr. um þetta mál, að það sé öllum til góðs, að rannsókn fari fram á þessu, hlutlaus rannsókn, og hæstv. ráðh. á að sjá um, að sú rannsókn verði látin fara fram, áður en hafin verða störf við að undirbúa nýjan lagagrundvöll um afurðasölumálin.

Ég vil svo þessu næst víkja nokkuð að ummælum hæstv. viðskmrh. s.l. mánudag. (Forseti: Ég vildi spyrja hv. 5. þm. Vestf., hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.) Ég gæti nú hugsað, að það væru svona 15–17 mínútur. (Forseti: Þá vildi ég biðja hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni, þar sem þess hefur verið óskað, að fundinum yrði ekki haldið lengur fram.) Já, það er sjálfsagt að verða við þeirri beiðni. —