09.11.1965
Neðri deild: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal nú reyna að reyna ekki mikið á þolinmæði hæstv. forseta, enda er búið að ræða þetta mál svo rækilega hér í hv. d., að óþarfi er að bæta miklu við að sinni. En það, sem mér finnst rétt að vekja athygli á að lokum, er það, hvernig hæstv. ráðh. reyna að hugga sig, þó að dýrtíðin fari sífellt vaxandi, og hvaða aðferðum þeir beita í því sambandi. Hæstv. menntmrh. heldur því fram, að þó að dýrtíðin vaxi og vísitölustigum fjölgi, geri það ekki svo mikið til, því að það sé hægt að sýna fram á, að þrátt fyrir þetta fari dýrtíðin eða dýrtíðarvöxturinn hlutfallslega minnkandi. Og hæstv. forsrh. hefur komizt að þeirri skemmtilegu niðurstöðu í blaði sínu, að gildi vísitölustiganna minnki, eftir því sem þeim fjölgi. það er ekki óeðlilegt, þó að þessir menn séu lítið hnuggnir yfir því, þó að dýrtíðin vaxi, þegar þeir finna aðrar eins afsakanir og þessar til þess að réttlæta gerðir sínar.

Það er nú búið að sýna fram á það með svo ýmsum hætti, hvílík fjarstæða þessi útreikningur er, og mér hafa verið sögð af ýmsum mönnum fjölmörg dæmi um það, hvernig þessi útreikningur hæstv. ríkisstj. tekur sig út í reynd. Ég ætla aðeins að nefna eitt af þessum dæmum. Við skulum segja, að hjón eigi eitt barn. Svo gerist það, að konan á tvíbura, og samkv. útreikningi hæstv. viðskmrh. eykst ómegðin um 200%. Svo tekur konan upp á því að eiga þríbura, og þá mundu nú margir telja, að ómegðin þyngdist nokkuð mikið við það, en hæstv. viðskmrh. mundi finna annað út. Hann mundi samkv. sínum útreikningi segja það, að þegar þríburarnir kæmu, hefði ómegðin ekki aukizt nema um 100%, þó að hún hefði hins vegar aukizt um 200%, þegar tvíburarnir komu. Þetta sýnir nokkuð glöggt, hvernig þessar reikningsaðferðir eru, sem hæstv. ráðh. hafa hér með höndum. Og ég held, að það sé þess vegna óþarft og ekki heldur tími til þess að eyða fleiri orðum að þessu. Enda er það ekki þetta, sem er aðalatriðið, sem hér hefur verið deilt um. Aðalatriðið, sem hér hefur verið deilt um, er það, hvort dýrtíðin hafi vaxið meira seinustu 2–3 árin en hún hefur áður gert. Ég hef haldið því fram, að hún hafi vaxið meira á þessum tíma en nokkru sinni fyrr, og í þeim útreikningum, sem hæstv. viðskmrh. hefur komið hér með og aðrir ráðh., hefur ekki verið neitt reynt til þess að hnekkja þessu. Það hefur verið komið með útreikninga um allt önnur tímabil og hæstv. viðskmrh. hefur alltaf varazt að minnast nokkuð á það, hver dýrtíðaraukningin hefur orðið á þessum 2–3 síðustu árum, og að gera nokkurn samanburð á henni við önnur tímabil. Vegna hvers hefur hæstv. ráðh. forðazt að gera þetta? Vegna þess, að það er alveg sama, hvaða tími er tekinn, þá kemur það alltaf í ljós, alveg sama, hvaða aðferð er viðhöfð, þá kemur það alltaf í ljós, að dýrtíðaraukningin hefur aldrei verið meiri en nú seinustu missirin.

Ég skal aðeins hér að lokum nefna eitt dæmi um þetta, sem ég hygg, að a.m.k. hæstv. forsrh. ætti vel að skilja. Hann hefur haldið því fram bæði í tíma og ótíma, og það hafa samherjar hans gert með honum, að aldrei hafi dýrtiðin vaxið meira en í tíð vinstri stjórnarinnar. Við skulum þess vegna bera saman dýrtíðaraukninguna í tíð vinstri stjórnarinnar og dýrtíðaraukninguna á jafnlöngum tíma seinustu mánuðina og sjá, hvað kemur út, og við skulum meira að segja gera þetta með þeirri aðferð, sem hæstv. ríkisstj. telur eina leyfilega, þ.e. með prósentureikningi.

Á tímabili vinstri stjórnarinnar, sem stóð í 29 mánuði, eða frá því í júlí 1956 og þangað til í des. 1958, á þessum 29 mánuðum hækkaði vísitalan úr 185 stigum upp í 220 stig, eða um 35 stig á öllu tímabilinu. Þetta gerir samkv. þeirri reikningsaðferð, sem hæstv. viðskmrh. beitir, 19% dýrtíðaraukningu. Við skulum svo til samanburðar taka tímabilið, sem liðið er frá seinustu þingkosningum og er álíka langt, eða frá 1. júní 1963 til 1. okt. 1965. Á þessu tímabili hefur dýrtíðarvísitalan, þ.e. sambærileg vísitala, hækkað úr 265 stigum í 358 stig, eða um 93 stig, og samkv. útreikningi hæstv. viðskmrh. mundi þetta gera 35% aukningu dýrtíðarinnar, þannig að þó að þessari aðferð hæstv. ráðh. sé beitt, sem ég vil segja, að sé ekki rétt og gefi a.m.k. ekki rétta hugmynd um það, hve mikil aukningin er í raun og veru, kemur það eigi að síður í ljós, að á tímabili vinstri stjórnarinnar, sem hæstv. stjórn telur, að hafi verið verst af öllum, vex dýrtíðin ekki nema um 19%, en á þeim 29 mánuðum, sem síðan eru liðnir, verður aukningin 35% eða næstum því helmingi meiri. Það er þess vegna alveg sama, hvaða aðferðir eru viðhafðar í þessum efnum, jafnvel þó að gengið sé inn á þá aðferð, sem hæstv. ríkisstj. notar, hefur dýrtíðaraukningin orðið langsamlega mest núna seinustu missirin og þegar það er athugað, er það líka skiljanlegt, að hæstv. viðskmrh. og forsrh. skuli grípa til þeirra reikningsaðferða, sem ég hef minnt á hér á undan. En það bjargar að sjálfsögðu engu að reikna með slíkum reikningsaðferðum. Það, sem mestu máli skiptir, er það, að reynt sé að vinna bug á þeim ófögnuði, sem verðbólgan er, en það verður auðsjáanlega ekki gert af þeim mönnum, sem telja sér trú um það, að eftir því sem vísitölustigum fjölgi, minnki þau að verðgildi og þess vegna geri það ekkert til, þótt þau aukist, eða það verði reiknað út með prósentureikningi, eins og hæstv. viðskmrh. gerir, og reyni að sýna þannig fram á það, að raunverulega fari dýrtíðaraukningin minnkandi, þó að hún fari stórvaxandi.