09.11.1965
Neðri deild: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Menntmrn. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér er ómögulegt að hlusta á jafnfráleitan málflutning og hv. þm. beitti hér áðan, án þess að leiðrétta hann, og ég ætla að gera það einfaldlega með því að lesa upp fyrir öllum hv. þm., þannig að það verði öllum kunnugt, sem vilja hafa það, sem er satt í þessu máli, hvað satt er í því.

Ég ætla að lesa upp tölur um aukningu framfærslukostnaðarvísitölunnar frá 1950, tölur, sem eru sóttar í þá heimild, sem hv. þm. Skúli Guðmundsson, l. þm. Norðurl. v., vitnaði í í gær, síðasta ágústblað Hagtíðinda. Hér er um einfalda talnaröð að ræða og auðvitað ekki tekin tilviljunarkennd tímabil eða valdir út einhverjir ákveðnir mánuðir á einu tímabili og aðrir mánuðir á öðru tímabili, eins og hv. þm. gerði áðan, en slíkt gefur auðvitað engan sanngjarnan eða engan réttan samanburð. Annaðhvort verða menn að miðá við hvert ár um sig eða sambærileg ár eða sambærilegan árafjölda og þá tímabil, sem hægt er að bera saman, en ekki mislöng tímabil valin ekki af handahófi, heldur viljandi valin til að sýna sem mesta hækkun á einu tímabilinu og svo lægsta aftur á öðru tímabilinu. Þetta er í hæsta máta óheiðarlegur málflutningur, sem er engum til sóma, heldur þvert á móti þeim, sem gera hann, til mikillar vanvirðu.

Það eina, sem hægt er að gera og er skynsamlegt í þessu, er að athuga dýrtíðaraukninguna frá ári til árs, og skal ég gera grein fyrir henni frá 1950, og þá getur hver sem er dæmt um, hvað satt er og rétt í því máli, sem við höfum hér verið að deila um og aldrei hefði þurft eða átt að deila um.

Á árinu 1950, — nú tek ég frá ársbyrjun til ársloka fyrir öll árin, — 1950 vex vísitalan um 42.2%, 1951 um 19.5%, 1952 2.6%, 1953 0.6%, 1954 1.9%, 1955 8.7%, 1956 6.3%, 1957 2.7%, 1958 11.0%, 1959 lækkar hún um 4.3%, 1960 hækkar hún um 3.4%, 1961 hækkar hún um 11.4%, 1962 um 10.3%, 1963 um 17.1%, 1964 11.9%, og það, sem af er árinu 1965, hefur hún hækkað um 5.8%. (SkG: Ekki mun þetta vera rétt á árinu 1964.) 11.9%, úr 258 upp í 302. Hæsta vísitöluhækkun, sem orðið hefur síðan 1950, er því á árinu 1950 42.2%. Það ár var Framsfl. í stjórn. (SkG: Hvað segir ráðh., að hún hafi hækkað 1964?) 1964 segir hér í skýrslunni, hún hefur hækkað um 11.9%. Þetta eru opinberar skýrslur, sem ég er hér með. Næsthæsta hækkunin er 1951 um 19.5%. Þriðja hæsta hækkunin er frá 1963 17.1%, og það er sú tala, sem hv. þm. gerir að uppistöðu í öllum sínum útreikningum, af því að vísitölustigin eru svo mörg, af því, hvað vísitalan hefur hækkað mikið. Árið 1963 er því á þessu tímabili frá 1950 þriðja hæsta árið, það eru tvö önnur ár, sem sýna hlutfallslega meiri hækkun á vísitölunni en árið 1963, sem er hæsta árið undanfarin ár, og bæði hin árin var Framsfl. í ríkisstj.

Ég hef áður gert samanburð á tímabilinu annars vegar síðan Framsókn fór úr stjórn og hins vegar tímabilinu, meðan hún var í stjórn svipað skeið á undan, og skiptí þá við 1. jan. 1959. 9 árin þar á undan hafði vísitalan hækkað um 17% á ári með einföldu meðaltali, en síðan fyrst í jan. 1959 hefur hún hækkað um 10% á því 7 ára tímabili, og sama niðurstaða verður eða svipuð, ef tekin er vísitala byggingarkostnaðar. Hér hefur því hv. þm. farið með fádæma blekkingar, sem menn nú geta dæmt um, hver eftir sínu eigin hyggjuviti og eftir sínum góðvilja til rétts skilnings á málavöxtum.