06.12.1965
Neðri deild: 25. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2149 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Frsm. meiri hl. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Landbn. hv. d. hefur haft þetta frv. til meðferðar og varð ekki á eitt sátt um afgreiðslu þess, eins og fram kemur í nál. þeim, sem hér liggja fyrir, og mun minni hl. væntanlega gera grein fyrir afstöðu sinni í framsögu hér á eftir. En eins og fram kemur í nál. meiri hl., leggur hann til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Við l. umr. málsins hér í hv. d. urðu allmiklar umr. um málið og fóru raunar víðs vegar, enda stóðu þær a.m.k. sex daga. En ég held, að það dyljist engum, sem með þessum umr. hafa fylgzt, að gagnrýni framsóknarmanna hefur meira verið af vilja en mætti. Og ég vil segja það hér, að ég efast um, að í annan tíma hafi tekizt betur að leysa vandasamt og viðkvæmt mál, sem komið var í hnút, með brbl. en einmitt á s.l. hausti með þessum l., sem hér liggja fyrir til staðfestingar, um verðlagningu búvöru á verðlagsárinu 1965–66. Því að enginn efast um, að það var fullkomin viðleitni, fullkominn áhugi í vissum herbúðum að reisa öldu óánægju við þessa lausn, en það tókst ekki. Og ég vil einnig segja það, að það gefur í mínum huga nokkrar vonir um, að árangur kunni að verða af því nefndarstarfi, sem nú er hafið um endurskoðun l.

Ég hef reynt að gera mér grein fyrir þeirri gagnrýni, sem fram hefur komið. Helzt hefur hún beinzt að því, að samningsréttur hafi verið tekinn af bændum. En ég vil nú spyrja: Hvaða samningsmöguleiki var, eftir að annar aðilinn hafði neitað að semja? Og þá er það enn fremur yfirlýst, að það kom mjög til mála á tímabili, að yfirdómur, sá sami og úrskurðaði verðið 1963, ákvæði einnig verðið nú á þessu hausti. Og þá vildi ég spyrja, hvort það gætu fremur kallazt samningar.

Það hefur oft heyrzt, að engin stétt nema bændur yndu því að hafa ekki óskertan samningsrétt um kjör sín, og er þá vitnað til yfirdómsákvæða framleiðsluráðslaganna. Ég vildi segja, að allar deilur um þessi lög séu í rauninni óskynsamlegar, og ég held, að það sé óhætt að segja, að bændur hafi ekki í annan tíma unað betur verðlaginu en einmitt núna, og frá hálfu neytenda eru sízt meiri óánægjuraddir með verðið en að venju. Af þessu dreg ég þá ályktun í stuttu máli, að ríkisstj. undir forustu landbrh. leysti þetta mál farsællega, og leggur meiri hl. n. þess vegna til, að frv. verði samþ. óbreytt.