29.11.1965
Neðri deild: 23. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Eins og segir í aths. við þetta frv., er það flutt í samræmi við yfirlýsingu um húsnæðismál. sem hæstv. ríkisstj. gaf í sumar sem leið í sambandi við verkalýðsfélögin og samningana. Í sambandi við þá samninga voru gefnar út tvær yfirlýsingar af hendi hæstv. ríkisstj.: Önnur varðandi afskipti af atvinnuleysismálum þeirra staða á Norðurlandi og í Strandasýslu, sem harðast hafa orðið fyrir barði atvinnuleysis á þessum tímum árs, og fyrirheit gefin um að láta starfa að tillögugerð til þess að afstýra þeim voða, sem af þessu hlýzt, og einnig að afla fjár til þess að bæta þar nokkuð úr. Þetta var í sambandi við verkalýðssamtökin norðan og austan. En yfirlýsingin, sem er uppistaða þessa frv., var gefin í sambandi við samningana hér, aðallega samningana í Reykjavík.

Í frv. eru þó nokkur önnur efnisatriði, eins og t.d. það, sem felst í 2. gr. frv., þar sem farið er inn á fjáröflunarleið á þann veg, að í stað þreföldunar fasteignamats komi sexföldun. Ég hef ekki út af fyrir sig mikið að athuga við það, þó að fjáröflun sé reynd í formi fasteignaskatts, því að fasteignaeigendur, bæði ég og aðrir, auðgumst á verðbólgunni umfram þá, sem ekki eiga sér fasteignir, og ættum þess vegna að vera öðrum betur undir það búnir að taka á okkur einhverja byrði vegna þess hagnaðar, sem við njótum af verðbólguþróuninni öðrum fremur. En hitt er ég hræddur um, að það hafi ekki verið nægilega vandað til þessa útreiknings. Ég er hræddur um, að með því að sexfalda hér í staðinn fyrir þreföldun, sem nú er í lögum, verði aflað meira fjár en látið er skína í hér, sem sé aðeins 40 millj. kr. Ég held, að þarna sé um einhverja fjárútvegun að ræða umfram það, sem nú er látið uppi, hvort sem það er fyrir ógát eða af því að það sé haft í hyggju um leið að fá þarna svolítið í hinn fjárvana ríkissjóð. Ég skýt því til þeirrar n., sem fær þetta frv. til meðferðar, að láta athuga það, hvort þarna sé um vandaða og vel undirbyggða áætlun að ræða.

Það er rétt, að frv. er að einu leyti rýmra en yfirlýsing ríkisstj., þ.e.a.s. að því leyti, er varðar þær sérstöku aðgerðir, sem ríkisstj. lýsti yfir að hún vildi gera í húsnæðismálum og voru bundnar við Reykjavík, af því að þar voru að verki verkalýðsfélög, sem höfðu félagssvæði aðallega hér á Reykjavíkursvæðinu. Er þetta rýmra orðað í frv., og held ég, að það sé hyggilegt í raun og veru að gera þá breytingu og rýri ekki það gildi, sem frv. hefur fyrir Reykjavík og Reykjavíkursvæðið, því að ef til þess kæmi, að farið yrði út í innflutning tilbúinna húsa frá útlöndum, þá væri hægt að setja þau niður hvar sem væri, þar sem húsnæðisþörfin kallaði eftir, og væri jafnréttmætt að gera það utan Reykjavíkursvæðisins sem á því. En meginhluti þeirra framkvæmda í húsnæðismálum, sem lofað er að ríkisstj. beiti sér fyrir á þeim grundvelli, sem segir í yfirlýsingunni, að komið verði við hagkvæmni við byggingarframkvæmdir og fyllsta tækni notuð, kallar það á, að byggt sé í allstórum stíl, mörg hús, og gerð þeirra stöðluð og ákveðnir húshlutar einnig staðlaðir til þess að draga úr byggingarkostnaði, og það er ekki sízt af öllu það, sem vakti fyrir samningamönnum verkalýðsfélaganna að reyna að draga úr byggingarkostnaði og reyna með þessu samkomulagi við ríkisstj. að hafa áhrif á, að byggingarkostnaður yrði sem hóflegastur. Og það er trú mín og þeirra, sem að þessu samkomulagi stóðu annars vegar gagnvart ríkisstj., að ef 200–250 hús kæmu hér inn á húsnæðismarkaðinn í Reykjavík á ári næstu 4–5 ár og tækist að koma þeim upp með lægri byggingarkostnaði en tíðkast nú, hlyti það að hafa áhrif til lækkunar á annan byggingarkostnað á þessu svæði. Það er vel og samvizkusamlega farið með það, sem um var samið, eða það, sem fólst í yfirlýsingu ríkisstj. Það er kannske ekki rétt að kalla þetta samning, því að hér var um einhliða yfirlýsingu ríkisstj. að ræða í sambandi við samningagerðina að öðru leyti. Ég tel, að það, sem felst nýtt í þessari yfirlýsingu, geti orðið mikils virði einmitt til þess að sníða af verstu annmarkana á húsnæðismálaástandinu hér, einkanlega suðvestanlands. Hér er um að ræða, að það eigi að koma 200 íbúðir á ári, sem efnaminni meðlimir verkalýðsfélaga eigi kost á öðrum fremur, þeir eigi að fá allt að 80% lán af verðmæti íbúðarinnar. Það er hliðrað nokkuð til um greiðslur þeirra útborgunarhluta, 20%, sem þeir leggja fram, 5% eiga þeir að leggja fram, áður en flutt er inn í húsið, en síðan 5% á ári næstu 3 árin. 20%, sem væntanlegur eigandi íbúðar á að leggja fram, mega þannig deilast niður á 4 ár, og á þessu tímabili hvíla ekki á viðkomanda afborganaskyldur. Þær hefjast fyrst, þegar þessu tímabili lýkur, og lánstíminn er 33 ár, ívið lengri en sá lánstími, sem nú er lögfestur samkv. hinni almennu húsnæðismálalöggjöf. En vissulega er mikið undir því komið, hvernig framkvæmdin tekst á þessari hugmynd, hvernig tekst að beita hinni fullkomnustu tækni með það fyrir augum að gera þessar byggingar ódýrari. Og a.m.k. á það að vera tryggt, að milliliðir, sem því miður græða allt of stórar fúlgur í sambandi við öflun húsnæðis hér á landi og það ekki sízt hér í Reykjavík, ættu ekki að koma sér við þarna í sambandi við byggingu þessara íbúða, þ.e.a.s. byggingu 1000 íbúða, sem verkafólk í Reykjavík ætti að fá á næstu árum. Þar ætti því rétt verð að koma til. Og það er von mín a.m.k., að þetta hafi lækkandi áhrif á almennan byggingarkostnað hér í borginni, skerði möguleika þeirra manna, sem nú hafa fingur í milli og láta loða við sína lófa ekki svo lítið af gulli í sambandi við hverja íbúð, sem byggð er.

Það er gert að umtalsefni það ákvæði frv., sem er þó í samræmi við yfirlýsingu ríkisstj., að lán þau, sem veitt verði, skuli vera með vísitölukvöð. Þegar við lögðum fram okkar hugmyndir um þetta sem viðsamningamenn ríkisstj., ætluðumst við til, að þessi lán yrðu án vísitölukvaðar. Nú er það hins vegar rétt, að við gengum inn á það í júnísamkomulaginu svokallaða, að vísitölukvöð væri sett á hin almennu húsnæðismálalán. Þá vorum við líka að gera samninga við hæstv. ríkisstj. um það að beita sameiginlegu afli verkalýðssamtaka og ríkisvalds til þess að reyna að stöðva verðbólgu og dýrtíð, og það var forsendan fyrir því, að við gengum inn á þetta. Við trúðum því þá, að góður árangur hlyti að nást af þeirri viðleitni slíkra tveggja aðila í þjóðfélaginu. En því miður, við höfum orðið fyrir verulegum vonbrigðum með þetta. Vísitalan hefur hækkað ískyggilega síðan, og verðbólgu- og dýrtíðarþróunin hefur ætt áfram, eftir að júnísamkomulagið var gert, ég vil segja: nálega eins og áður. Og það gerir það að verkum, að margir, sem eru nú bundnir skuldbindingum um vísitölukvöð á sínum húsnæðismálalánum, eru uggandi um það, að á nokkrum árum kunni þau að vera orðin svo óhagkvæm, að þeir rísi naumast undir þeim. En það verð ég að minna á, að forsendan var sú, að aðilar, sem að þessu stóðu, trúðu því, að það mundi allvel til takast um að draga úr verðbólguþróuninni, ef að því væri staðið af ríkisvaldi og verkalýðssamtökum og önnur öfl þjóðfélagsins auðvitað kölluð til, til þess að styðja að þeirri stefnu. Ef þessi forsenda brestur, er það mín skoðun, að þegar þessi lán eru orðin óhagstæðari en önnur lán, verður að gera þar bragarbót á, og það verður Alþ. auðvitað að gera, áður en í óefni er komið og fólk hefur unnvörpum sligazt undan þeim skuldbindingum, sem það tók á sig í góðri trú. Staðreynd er það, að í þeim uppköstum, sem við lögðum fram í samningunum í vor um endurbætur á húsnæðismálalöggjöfinni og þá sérstaklega þessi nýmæli, sem við fluttum þar fram og eru að meginefni í yfirlýsingu ríkisstj., lögðum við á það áherzlu, að lán vegna þessara íbúða yrðu án vísitölukvaðar. Og hvaða rökum studdum við það? Við studdum það m. a. þeim rökum, að verkamannabústaðalögin hefðu verið endurskoðuð, eftir að júnísamkomulagið var gert, og hæstv. ríkisstj. stóð að þeirri endurskoðun og hún hafði ekki sett vísitölukvöð á í þeirri endurskoðun verkamannabústaðalaganna, taldi sem sé rétt að setja ekki þessa vísitölukvöð á varðandi verkamannabústaði. Hér er sannarlega um að ræða nýja verkamannabústaðalöggjöf, og þess vegna töldum við óeðlilegt, að í þessari verkamannabústaðalöggjöf væri sett á vísitölukvöð, úr því að hæstv. ríkisstj. hafði einmitt ekki talið það ráðlegt varðandi hina gömlu verkamannabústaðalöggjöf. Ég harma það þess vegna, að ekki fékkst samkomulag um það við hæstv. ríkisstj. að hafa þetta eins og í verkamannabústaðal., sem hún lét endurskoða fyrir aðeins tveimur árum, og hefði mér fundizt bezt samræmi í því, að vísitölukvöðin væri ekki heldur á þessum lánum, fyrr en þá að vísitala hefði verið sett á allt lánsfé til lengri tíma.

Ég vil enn fremur benda á það, að varðandi lán til húsnæðismála í sveitum er ekki vísitölukvöð, það er ekki vísitölukvöð á þeim lánum. Það er um að ræða löggjöfina, sem almenningur á við að búa til sjávar og sveita, að því er verkamannabústaðalögin snertir í kaupstöðum og að því er snertir byggingarlánin í sveitunum. Þar er ekki um vísitölukvöð að ræða. Ég tel því, að það beri að harma, að gert er ráð fyrir því í þessu frv., að vísitölukvöð hvíli á þessum lánum. En ég segi eins og varðandi það, sem við gengum inn á í júnísamkomulaginu varðandi almennu húsnæðismálalánin, það var gert í góðri trú, og ef sú forsenda bregzt, verður ekki aðeins að leiðrétta þau lánakjör, heldur einnig að því er þessa kvöð varðar, sem verður vitanlega á svo löngum lánstíma sem 30 árum að alveg óbærilegri byrði á fátæku fólki, ef ekki tekst að sporna við verðbólguþróuninni og dýrtíðarvextinum. Ef menn hafa það sem forsendu, eins og mér heyrðist á hæstv. félmrh., að það verði í raun og veru að gera þetta, af því að skyldusparnaðurinn, sem er fjáröflun í sambandi við húsnæðismálin, sé til þess að tryggja hag unga fólksins, sem leggur á sig skyldsparnaðarkvöðina, það fólk verði að fá vísitölu til ávöxtunar síns fjár, þá vil ég segja: Væri þá ekki eðlilegra að ætla skyldusparnaðarféð til einhvers annars hlutverks, þar sem hægt væri að leggja þá kvöð á með réttlæti, heldur en leggja það á fátækt fólk í landinu í sambandi við þess húsnæðismál, láta það koma í annan og réttlátari stað niður, aðra fjáröflun til húsnæðismálanna, sem ekki hefur þessa kvöð tengda við sig?

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég tek fyllilega undir það, sem hér hefur verið sagt, að það hefði verið mjög svo æskilegt, að þessi lán væru ekki með vísitölukvöð, og tel það í raun og veru óeðlilegt með tilliti til þess, að lögin um hina almennu verkamannabústaði eru ekki bundin þessari kvöð og ekki heldur lán til húsnæðismála í sveitum. En ég tel hins vegar, að þau nýmæli, sem hæstv, ríkisstj. hefur með þessari yfirlýsingu sinni gengizt inn á að öðru leyti, séu stórmerk tilraun, sem ég vona að beri gifturíkan árangur fyrir þá, sem njóta eiga. Það var sagt hér áðan, að það væri í raun og veru að dauðadæma Alþ. að taka svona mál úr höndum þess og leysa þau í sambandi við verkföll. Það má til sanns vegar færa. En það verð ég þó að taka fram, að hv. Alþ. hefur sannarlega verið gefinn kostur á því að eiga frumkvæði í því að leysa húsnæðismálin og það hafi legið fyrir þing eftir þing till. til úrbóta, líkar þeim, sem við knúðum fram með samningunum um júnísamkomulagið, og líkar þeim, sem hér liggja fyrir í frv. En hv. Alþ. hefur fellt þessar till., og þegar það var búið að ganga af þeim dauðum, þá var málið tekið upp á öðrum vettvangi og knúið fram í sambandi við samninga um launamál verkafólks, og þar sem hæstv. ríkisstj. gaf þá kost á því, að vísu upp á það, að hún hefði einhver áhrif á þróun kaupgjaldsmálanna í landinu, sem fyrir henni var mjög stórt mál. sem allir skilja, var notað tækifærið til þess að reyna að þrýsta fram einmitt þeim tillögum mörgum, sem Alþ. var búið að drepa áður. Þess vegna held ég, að það beri ekki að harma, að umbæturnar hafa þó fengizt með þessum hætti, sem þær hafa fengizt, þegar Alþ. hafði ekki tekizt að bæta þarna úr. Alþ. hafði svo sannarlega fengið að spreyta sig á þessum málum áður og vonirnar verið drepnar þar, og þá fyrst voru málin tekin þessum tökum og reynt að þrýsta þeim í gegn með samtakaafli verkalýðssamtakanna.

Það hefur verið minnzt hér á gamalt húsnæði og þau kjör, sem fólk á hér í landi við að búa í sambandi við það, og það er rétt, við höfum í okkar þjóðfélagi ekki gert þær varnarráðstafanir í sambandi við leigu á gömlu húsnæði, sem nágrannaþjóðir okkar hafa gert, en þær hafa með löggjöf haldið mjög niðri leigu í eldri húsum. En við höfum heldur ekki gert annað. Við höfum ekki heldur gert neitt til þess að auðvelda fólki að geta endurbætt eldri hús, þó að þau mörg hver geti verið góðar íbúðir og þá með umbótum alveg fullkomlega forsvaranlegar íbúðir, og ekki heldur útvegað á neinn hátt lán til þess að kaupa eldra húsnæði, sem í mörgum tilfellum gæti orðið efnaminna fólki úrbót í húsnæðismálum fremur en að hírast í einhverju óhæfu leiguhúsnæði. Hér er opið svið, sem við verðum að sinna. Og ég vil í þessu sambandi gera fsp. til hæstv. félmrh. um það, hvort ekki hafi orðið af neinum framkvæmdum í þá átt að leysa þetta óleysta vandamál. Það hefur verið hvað eftir annað í sambandi við þessi húsnæðismál talað um þörfina á að sinna þessu hlutverki. Og svo var komið, að tekið var í mál að heimila veðdeildinni að gefa út nýjan flokk veðdeildarbréfa, jafnvel á þessu ári, sem sérstaklega ætti að vera lán til þess að greiða fyrir endurbótum á eldra húsnæði og til þess að auðvelda efnaminna fólki að kaupa eldri hús. Ég hef haft nokkrar spurnir af því, að þetta mál hafi verið undirbúið, sé jafnvel búið að semja reglugerð, sem heimili veðdeildinni útgáfu á nýjum flokki veðdeildarbréfa, og vonir standa til, ef ráðh. staðfestir þessa reglugerð, að slík lánastarfsemi geti hafizt nú jafnvel um þessi áramót. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. um, hvað sé hæft í þessu og hvort þessar vonir séu að rætast eða hvort ekkert hafi þarna verið gert og ekki komi til neinna framkvæmda í þessum efnum.

Þrátt fyrir þennan annmarka, sem á lánskjörunum eru samkv. þessu frv., þ.e.a.s. vísitölukvöðina, fagna ég þó innihaldi þessa frv. að öðru leyti og tel þarna um allmerkan áfanga að ræða, sem verkalýðssamtökunum sé full sæmd af og ríkisstj. líka fullur sómi af að hafa sinnt, þó að með óeðlilegri hætti væri en með löggjafarsamþykkt af Alþ. án þrýstings eða þvingunar af Alþingi götunnar.