06.12.1965
Neðri deild: 25. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Auðvitað var tekinn samningsréttur af bændum í haust með brbl., réttur, sem þeir hafa áður haft, og breytir engu um það þessi aths. frá hv. 3. þm. Austf., sem hér kom fram.

En það var annað atriði hér, sem mig langaði að minnast á. Í brbl. segir, að breytingar til hækkunar á tekjum bænda skuli miðast við hækkun, sem verður á bótaupphæðum almannatrygginga. Ég held ég muni það rétt, að við 1. umr. þessa frv. hafi hæstv. landbrh. verið spurður að því, hvers vegna ríkisstj. hefði sett þetta ákvæði, hvers vegna þessi nýi háttur hefði verið upp tekinn að miða við bótaupphæðir almannatrygginga, en fylgja ekki þeirri venju, sem áður var og var í l., að tekjur bænda skyldu breytast eftir tekjum annarra vinnandi stétta í landinu? Ég hef aldrei orðið var við það, að komið hafi nokkurt svar við þessari einföldu spurningu frá hæstv. ráðh., og ég vil því leyfa mér að endurtaka hana og fara fram á, að hann gefi skýringu á þessu. Hann ætti ekki að þurfa mörg orð til þess. Gæfi skýringu á því, hvers vegna þarna var breytt þessum viðmiðunargrundvelli. Hvers vegna á að hætta að miða við tekjur annarra vinnandi stétta og fara í staðinn að miða við bótaupphæð almannatrygginganna? Ég vildi nú vænta þess, að hann sæi sér fært, hæstv. ráðh., að gefa gagnorða og glögga skýringu á þessu.