28.04.1966
Efri deild: 73. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2162 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. landbrh. gat um, að þetta hafi legið hér fyrir hv. þd. það sem af er þessu ári og nokkru betur, og það er tekið fyrir nú á kvöldfundi undir þinglokin. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta ekki vera heppileg vinnubrögð að taka mál svona seint fyrir, sem var vitað mál, að átti að afgreiða, og virðist oft hafa verið betri tími til þess en nú á þessum síðustu dögum þingsins. Mér finnst slík vinnubrögð sem þessi vera mjög vitaverð, og vil ég þó ekki vita hæstv. forseta d., því að ég ætla, að hann hafi ekki þessu ráðið.

Þótt þessum brbl. sé ekki hugað líf nema til næsta hausts, eftir því sem hæstv. landbrh. upplýsti, finnst mér samt sem áður vera ástæða til að segja örfá orð við þessa umr. málsins, enda þótt n. eigi um málið að fjalla. En sem kunnugt er, eru það þrjár meginstoðir, sem þetta frv. er byggt á, og vil ég minna á þessi þrjú atriði málsins, vegna þess að ég tel, að ekki neitt þeirra sé hagstætt bændastéttinni. Það er í fyrsta lagi, að þessi brbl. taka allan samningsrétt af bændum og gera samtakamátt þeirra óvirkan, þar sem Stéttarsamband bænda var svipt samningsrétti sínum með þessari löggjöf, og hafði því engin áhrif á heildarkjör bændastéttarinnar fyrir yfirstandandi verðlagsár. Þá er í öðru lagi slegið föstu í þessum brbl., að verðlagsgrundvöllurinn, sem samið var um haustið 1964, sé það góður og hagstæður bændastéttinni, að það væri óhætt að byggja ofan á hann framvegis. Og ennfremur hafa þessi l. það í sér, að Hagstofa Íslands skuli reikna út verðlagið eftir þar til settum reglum. Ekki má taka tillit til neinnar aðstöðubreytingar hjá bændastéttinni, hvorki varðandi verðlag, framleiðsluhætti né það, hverjir möguleikar væru á því að selja landbúnaðarframleiðsluna. Fram hjá þessum atriðum er gengið í þessum brbl. Í þriðja lagi er því slegið föstu í l., að kaup bóndans og verkamanna hans megi ekki hækka meira en elli- og örorkulifeyrisþegar kunna að fá í hækkun, samkv. heimild í l. nr. 20, sem sett voru á Alþ. fyrir um það bil ári. Sem sagt, bændurnir eiga að fá þarna hliðstæða hækkun og elli- og örorkulífeyrisþegar, hvað sem öðrum kauphækkunum kann að liða í landinu.

Af framangreindum ástæðum mótmæli ég þessum brbl. og minni í því sambandi á ummæli stjórnar Stéttarsambands bænda, sem birt eru í búnaðarblaðinu Frey og er dags. 14. sept. 1965, en þar segir með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Stéttarsambands bænda mótmælir þeirri réttarskerðingu, sem felst í brbl. Hún hlýtur að skoða I. sem neyðarráðstöfun til skamms tíma og mun beita áhrifum sínum af öllu afli Stéttarsambandsins til að fá að nýju lögfestan rétt til að hafa áhrif á kjör bænda og ekki minni en það hefur haft að undanförnu samkv. ákvæðum brbl.

Ég ætla mér ekki að þessu sinni, nema sérstakt tilefni gefist til, að ræða þetta frv. nú, þar sem kostur gefst á að fjalla um það í nefnd.