28.04.1966
Efri deild: 73. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna þeirra ummæla, sem hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB) viðhafði um brbl. Það má nú kannske teljast eðlilegt, að hv. þm. finnist fara vel á því að mótmæla brbl., eins og flokksbræður hans gerðu í hv. Nd. Það fer kannske vel á því, að það sé gert, en ósköp hafa nú þessi mótmæli haft litinn sannfæringarkraft að baki sér, bæði hjá hv. þm. og öðrum, sem hafa verið að mótmæla. Hv. þm. vitnar hér í mótmæli Stéttarsambandsins, þar sem það harmar það, að samningsrétturinn var tekinn af bændum, þar sem Stéttarsambandið áréttar það, að það sé nauðsynlegt og sjálfsagt að vinna að því að fá samningsréttinn aftur. Þetta er allt saman rétt, en Stéttarsambandið og fulltrúar bænda vissu vel, hvað var að gerast á s.l. hausti og höfðu nú ágætan skilning á því, að það var ekki önnur leið fyrir hendi en sú, sem farin var með setningu brbl. Og ég er dálítið undrandi yfir því, þegar hv. Framsóknarþm. eru að tala í ádeilutón til ríkisstj. fyrir það, að samningsrétturinn hafi verið tekinn af bændum, rétt eins og ríkisstj. hafi tekið samningsréttinn af bændum á s.l. hausti, rétt eins og ríkisstj. hafi gert 6 manna nefndar l. óvirk. Og það gengur dálítið illa að fá suma hv. þm. Framsfl. til þess að viðurkenna það, að með brotthlaupi fulltrúa Alþýðusambandsins voru verðlagningarl. óvirk og ónýt. Alþ. var ekki starfandi á þessum tíma. Hvernig var hugsanlegt að leysa þetta öðruvísi en með brbl.? Hvernig var hægt að láta bændur fá þennan samningsrétt, sem talað er um, eins og komið var? Hvernig var hægt að fylla þetta skarð á s.l. hausti, eins og í pottinn var búið? Ég held, að hv. l. þm. Vesturl. hafi nú áttað sig á þessu, og ég held, að í hjarta sínu telji hv. 1. þm. Vesturl. ekki eðlilegt að deila á ríkisstj. fyrir það, hvernig málin voru leyst. Hitt er svo rótgróinn vani, að deila á ríkisstj., jafnvel þótt sæmilega sé að unnið, eins og nú var gert.

Bændur almennt viðurkenna, að verðlagningin á s.l. hausti hafi miðað við aðstæður tekizt ágætlega, og bændur hafa unað því verði, sem þeir fengu, og sem betur fer tekst það að þessu sinni að borga grundvallarverðið, þótt útlitið væri ekki gott á tímabili, hvað þetta snerti.

Ég held nú, að það sé alveg óþarft fyrir hv. l. þm. Vesturl. að tala um ósæmileg vinnubrögð, þótt það hafi dregizt að taka þetta mál fyrir til umr. Hv. þm. veit, að það var verið að vinna að lausn þessa máls, þannig að það væri ekki tjaldað aðeins til einnar nætur, og brbl. koma ekki til með að gilda til næsta hausts, eins og hv. þm. sagði, ef hitt frv. verður samþ. núna á þessum dögum, því að það tekur þegar gildi, eftir að það hefur verið samþ., og þá gilda brbl. ekki eftir að þau I. hafa tekið gildi. Þá verður 6 manna n. strax sett á rökstóla, og það verður 6 manna n., sem reiknar út þær hækkanir, sem kunna að verða af dreifingarkostnaði á þessu vori, en ekki sú þriggja manna n„ sem brbl. hafa falið að annast það. Brbl. falla úr gildi um leið og hin I. taka gildi. En þetta er nú aðeins til leiðbeiningar, en skiptir ekki meginmáli.

Hv. þm. talar um þrjá punkta eða þrjár stoðir, sem brbl. hvíla á, og það er þetta, að samningsrétturinn var tekinn af bændum með brbl., sagði hv. þm. Þarna er um reginmisskilning að ræða. Bændur höfðu ekki lengur aðstöðu til þess að semja, eftir að framleiðsluráðsl. voru gerð óvirk á s.l. hausti, og það var ekki ríkisstj., sem gerði þau óvirk. Ríkisstj. gerði það mögulegt að verðleggja vöruna samkv. brbl., eftir að þau voru gerð óvirk, og hafi samningsrétturinn verið tekinn af bændum, var það með því að gera l. óvirk. Ég vil aðeins taka fram, vegna þess að hv. þm. sagði þessi ótrúlegu orð hér áðan, að samningsrétturinn hefði verið tekinn af bændum með brbl.: Það er rétt, bændur sátu ekki við samningsborð við útgáfu þessara brbl., eins og þeir höfðu gert áður, enda þótt mikið hafi verið við þá rætt, áður en l. voru gefin út. Ég segi ekki meira.

Þá er hv. þm. undrandi yfir því, að það skyldi hafa verið byggt á óbreyttum grundvelli verðlagsins frá 1964. Það var 1964, sem 6 manna n. kom sér saman, fullt samkomulag varð á milli framleiðenda og neytenda, og við verðum að ætla, að verðgrundvöllurinn 1964, sem fullt samkomulag var um, hafi ekki verið sérstaklega óhagstæður bændum. Við verðum að ætla, að sá grundvöllur hafi verið í aðalatriðum sanngjarn, úr því að allir aðilar voru sammála um hann. Og hvað var það þá, sem hægt var að byggja á, eftir að framleiðsluráðsl. voru orðin ónýt, annað en samkomulagið, sem gert var árið áður? Færa þann grundvöll fram með þeim breytingum, sem höfðu orðið á verðlagi á rekstrarvörum og kaupi. Þegar menn skoða þetta mál á sanngjarnan hátt, verður vitanlega alls ekki með rökum hægt að finna að þessari aðferð. Þetta var sú eina rétta aðferð, sem hægt var að nota, eins og málin stóðu.

Og þá er að því fundið, að kaup bóndans eigi að hækka í samræmi við það, sem elli- og sjúkrabætur hækka. Þetta finnst mér nú ekki vera aðfinnsluvert fyrir hönd hænda, vegna þess að sjúkra- og ellibætur eru greiddar að fullu samkv. vaxandi dýrtíð. Það var vitað, að þegar l. voru gefin út, mundi ríkisstj. nota þá heimild, sem er í l., til þess að greiða fullar elli- og sjúkrabætur í samræmi við dýrtíðina. Með því að miða við þetta fengu bændur tryggingu fyrir fullri hækkun samkv. dýrtíðinni. Og það var ekki hægt að búa betur um hnútana til þess að tryggja bændur á sanngjarnan hátt, og vitanlega hafa bændur fengið inn í verðlagið þær kauphækkanir með þessu móti, sem orðið hafa.

Ég hef nú ekki ástæðu til þess að segja meira um þetta mál í tilefni af ræðu hv. l. þm. Vesturl., ekki í þetta sinn, en við eigum vonandi eftir að tala oft saman, bæði um verðlagsmál landbúnaðarins, landbúnaðarmál almennt o.s.frv. Og þótt ég sé nú svona nokkuð bjartsýnn, dettur mér ekki í hug að ætla það, að við verðum alltaf jafnmikið sammála og þegar við vorum að ræða um frv. um breyt. á framleiðsluráðsl. hérna fyrir nokkrum dögum. Það getur nú batnað samkomulagið, þó að það verði ekki alveg nákvæmlega eins og það var þá.