02.05.1966
Efri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. hefur gert grein fyrir nál. meiri hl. landbn. Ég ætla, að það hafi komið glöggt fram í þeim umr., sem hafa orðið um þetta frv. í báðum þd., hverja skoðun menn hafa á þessum brbl., og ætla ég mér á engan hátt að fara að endurtaka það, sem ég hef áður sagt í þessari hv. d. um þetta mál, né heldur það, sem í grg. frv. stendur, og læt ég mér nægja að vitna til þess, sem ég hef áður sagt í því efni. En út af því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að þessi brbl. mundu hafa verið yfirleitt, eins og hann orðaði það, vinsæl meðal bændastéttarinnar, þá veit ég ekki, hvort hv. þm. mælir þetta af sannfæringu, því að ég ætla, að engum mætti ljósari vera óánægja með brbl. en einmitt þeim bónda, sem er úr Þingeyjarsýslum, því að þaðan held ég, að fyrst hafi komið mótmæli og þingeyskir bændur ekki síður en aðrir verið óánægðir með þessi brbl., og ég fyrir mitt leyti lái þeim það alls ekki, því að eins og ég hef áður sagt hér í þessari d., ætla ég, að bæði með því móti að haga brbl. á annan veg og ekki síður, ef samningar hefðu náðst, hefði bændastéttin borið miklu ríflegri hlut frá borð en raun hefur á orðið og eftir á að sannast. Þetta vildi ég, að kæmi hér fram við þessa umr., en að öðru leyti ætla ég mér ekki að orðlengja nema að gefnu tilefni um þetta mál.

Það spurði hér einn hv. þm., hvað ég legði til, að gert yrði við málið. En ég hélt, að hv. þm. hefðu það til siðs að lesa nál. yfirleitt, og þar kemur glöggt fram, að ég mæli með því, að frv. verði fellt.