29.11.1965
Neðri deild: 23. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (1405)

72. mál, hægri handar umferð

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins, vegna þess að ég var flm. þeirrar till. um undirbúning að hægri handar akstri, sem samþ. var hér 1964, láta í ljós ánægju með það, að þetta frv. skuli vera fram komið og málið þannig komið á góðan rekspöl. Ég hef ekki heyrt neinar veigamiklar röksemdir gegn því, að þessi breyting verði gerð á umferðarreglunum. Þvert á móti hafa allir þeir menn, sem gerst þekkja til umferðarinnar, eins og vegamálastjóri og lögreglustjórinn hér í Reykjavík og umferðarlaganefnd, eindregið mælt með því, að breytingin nái fram að ganga.

Eins og hæstv. ráðh. tók fram áðan, er ein veigamesta ástæðan til þess, að við eigum að gera þessa breytingu, sú, að samgangur allur milli Íslands og annarra landa fer stöðugt vaxandi. Menn fara héðan til annarra landa, taka þar bíla á leigu, og útlendingar aka leigubílum hér á landi o.s.frv. Og enn fremur er það þungt á metunum, að þorri allra bifreiða, sem til eru hér í landinu, er byggður fyrir hægri handar akstur.

Það hefur verið talað um, að mikil slysahætta gæti verið samfara breytingunni, en um það segir í grg., sem þessu frv. fylgir, á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þeim löndum, sem breytt hafa úr vinstri í hægrí handar umferð, sýnir reynslan, að eigi er ástæða til að gera mikið úr slysahættu í sambandi við þá breytingu, þó að viðurkenna verði, að hún sé nokkur. Með því að velja hentugan tíma árs til breytingar miðað við veðurfar og umferð, svo og með víðtækri kynningarstarfsemi, er talið, að draga megi mjög úr slysahættu. Talið er, að rosknir ökumenn og gangandi vegfarendur almennt eigi erfiðast með að aðlagast breyttum umferðarháttum. Því þarf að beina kynningarstarfsemi sérstaklega til þeirra. Er í því sambandi rétt að benda á, að tala roskinna ökumanna er nú tiltölulega lág, en hún fer ört vaxandi. Hér ber og að hafa í huga, að slysahætta í sambandi við umferðarbreytingu er aðeins tímabundin, en hins vegar er hættan vegna mismunandi umferðarreglna stöðug og fer vaxandi við aukna fólksflutninga landa á milli. Einnig ber að hafa í huga, að kynningarstarfsemi í sambandi við umferðarbreytingu hefur eigi gildi eingöngu í sambandi við breytinguna sjálfa, heldur getur sú starfsemi haft miklu víðtækari og varanlegri áhrif. Mun breytingin þannig stuðla beint að bættri umferð í landinu.“

Þetta segir í grg. frv., og hygg ég, að það sé rétt mælt. Það er auðvitað margt, sem má tína til með og móti af rökum í sambandi við mál eins og þetta. Ég vil aðeins nefna eitt, sem mælir með því, að hægri handar umferð verði tekin upp á landi, en það er það, að sjómenn og flugmenn verða að víkja eftir hægri handar reglu, þegar þeir eru á sjónum eða í loftinu, og þegar þeir fara að aka bifreið, verða þeir eftir þeim l., sem nú gilda, að víkja til vinstri. Þetta getur auðvitað valdið glundroða.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta. Ég vona, að frv. fái rækilega athugun í þeirri n., sem það fer til, og að það að endingu hljóti samþykki þingsins.