28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

72. mál, hægri handar umferð

Halldór Ásgrímsson:

Ég skal, herra forseti, ekki flytja langa ræðu. Það væri líka tilefnislaust, vegna þess að sú ræða, sem hv. frsm. meiri hl. allshn. flutti hér áðan, gaf lítið tilefni til þess að hafa uppi svör. Þar varð maður lítið var við rök, en ýmis slagorð og kenningar, sem hann hélt að mundu henta eftir atvikum. Ég stóð mest upp í tilefni af því, að þessi hv. þm. vildi hafa það svo, og skyldi hann það tæplega hafa sagt, að ég hefði flutt — að sjálfsögðu vísvitandi — skakkt mál eða rangfært umsögn þeirrar n., sem áður hafði með málið að gera á sínum tíma. Ég ætla nú — með leyfi hæstv. forseta — að lesa upp bara annan kaflann, því að þessi n., sem um er að ræða, vék tvisvar sinnum í sinni umsögn að sama hlutnum og hefur væntanlega ekki gert það út í bláinn. A.m.k. tók ég það ekki síður alvarlega en eitt og annað, sem þessi ágæti meiri hl. allshn. segir um málið. V. kafli í þeirri umsögn, sem fylgir frv., hefst þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar taka skal afstöðu til þess, hvort hafa skal vinstri eða hægri handar umferð, vaknar fyrst sú spurning,“ — það er fyrsta og aðalspurningin, sem á að meta í málinu, — „hverjir séu kostir og gallar hvorrar reglunnar um sig.“ Svo kemur orðrétt það, sem ég hafði áður vitnað í í minni ræðu um málið: „Talið er, að í sjálfu sér hafi hvorug reglan sérstaka kosti umfram hina.“

Ég geri ráð fyrir því, að hv. frsm. meiri hl. n. hafi einhvers staðar fundið kosti í sambandi við afgreiðslu þessa máls, en a.m.k. meðfram í sínum eigin huga og af sínum eigin ályktunum. Þetta er raunverulega það, sem ég vildi segja. Ég lagði áherzlu á það, að ég skildi, að meginlandsþjóðirnar reyndu að samræma umferðarreglur sínar til vinstri eða hægri, eftir því, sem við ætti, og gat um, að eyþjóðirnar hefðu aðra aðstöðu að minni hyggju, og minntist á Breta í því sambandi. Nú á það að liggja alveg fyrir hjá hv. frsm. Hann svo sem veit, hvað Bretarnir ætla að gera, eða gerir ráð fyrir því, að þeir muni fara eftir því, hverju hann kemur fram hér á hv. Alþ. Íslendinga. Hann segir, og ég skal ekki vefengja það út af fyrir sig: Þegar jarðgöngin milli Bretlands og Frakklands verða búin, munu Bretar taka upp hægri handar akstur.— Fyrst og fremst: er nú ekki hægt að bíða eitthvað? Og í öðru lagi væri fróðlegt að vita, hvaðan hv. frsm. hefur fengið umboð til þess að lýsa yfir þessari ákvörðun Breta langt fram í tímann. Ég veit ekki til þess, að það sé byrjað að grafa þessi jarðgöng. Þau eru búin að vera áratugi í ráðagerð, og engin niðurstaða hefur fengizt. Og út frá þessu hefur hv. frsm. ályktað það með Bretana, sem hann sagði, að þegar viðskiptaþjóðir okkar, sem næstar eru okkur, eru allar búnar að taka upp hægri handar stefnu, er gefin leið, að við verðum að taka upp það sama. En það er bara ýmislegt í framtíðinni í þessu efni, sem á betur við að fullyrða minna um, þótt menn hafi mikinn hug á því að hafa áhrif á það, að breytt sé frá vinstri til hægri í akstri.

Það hefur sjálfsagt komið illa við sama hv. þm., það sem hann las upp úr minni ræðu, og er ég honum þakklátur fyrir. Út af fyrir sig hefði ég gjarnan getað orðið við því að lesa upp þennan kafla og e.t.v. fleiri, ef það hefði þýtt og mátt ætla, að þessi einstefnu hægri maður tæki nokkurt tillit til þess. En hann var með þann skæting að segja, sem mig skiptir engu máli, eftir að hafa lesið upp kafla úr minni ræðu, að hann vilji líkja því sjónarmiði, sem ég viðhafði og setti fram, að það væri óþarfi að láta ráða gerðum sínum í þessu efni það, sem síðasti hv. ræðumaður minntist á, sem sagt undirlægjuhátt, hann gat ekki misskilið, hvað ég meinti, og því segir hann nú í nokkurri skapvonzku, að þetta sé hundaþúfusjónarmið. Látum það vera, að þessi hv. þm. hafi efni á því að segja slíkt. En ég ætla þá að minna hann á, að það er til orðtak, sem segir: „Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.“ Það er vandséð enn þá, hvað gerist, hvor endinn verður upp á hv. þm., þegar upp er staðið hér á Alþ. út af þessu máli. En gott og vel, látum hann fara sigrandi af hólmi, þetta er ekki neitt tilfinningakappsmál, heldur málefnalegt, og ég þykist hafa flutt málefnasjónarmið í þessu máli. En það gæti hugsazt, að hv. þm. ætti eftir að velta um einhverja hundaþúfu, sem honum sést yfir núna, einhvern tíma seinna.