28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

72. mál, hægri handar umferð

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Það er eitt atriði í ræðu hv. 3. þm. Vesturl. (DÁ), sem ég vildi gera aths. við. Hann hélt því fram, að þeir menn, sem ættu mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við þetta mál, hefðu ekki fengið um það að vita og það hefði ekki verið undir þá borið. Ég vil í þessu sambandi upplýsa, að á Alþ. 1963–1964 var hér til meðferðar þáltill. um hægri handar umferð og hún var við meðferð málsins send ýmsum aðilum til umsagnar, m.a. vegamálastjóra, Landssambandi vörubifreiðastjóra og umferðarnefnd Reykjavíkur. Og allir þessir aðilar sendu jákvæða umsögn um málið. En í umferðarnefnd Reykjavíkur eiga sæti kjörnir fulltrúar borgarráðs, lögreglustjórinn í Reykjavik, borgarverkfræðingur, fulltrúar Slysavarnafélags Íslands, fulltrúar Félags ísl. bifreiðaeigenda, fulltrúar Félags vörubifreiðastjóra, Frama, félags leigubifreiðarstjóra og Strætisvagna Reykjavíkur. Þessir aðilar, sem þarna voru nefndir, hafa sem sé við meðferð málsins hér á Alþ. mælt með því, að upp yrði tekinn hægri handar akstur.

Þá var það eitt atriði í nál. minni hl. allshn., sem ég vildi leyfa mér að gera aths. við. Þar segir um kostnaðarhlið málsins á þá leið, hvers vegna við ættum nú að kosta mörgum tugum millj. kr., eða jafnvel 100–130 millj. kr., eins og talið sé af sumum að kostnaðurinn muni verða, til þess að taka upp hægri handar umferð, sem í engu sé betri en sú vinstri að dómi sérfróðra manna. Þessar tölur, 100–130 millj. kr., eru algerlega gripnar úr lausu lofti. Í grg. með frv. er kostnaðurinn áætlaður nálægt 50 millj. kr., og það hygg ég, að sé vel í lagt af þeim mönnum, sem bezt þekkja til. Hitt er aftur vitað, eins og ég hef rakið hér áður, að með hverju ári eða hverjum áratug sem líður, án þess að þessi breyting verði gerð, verður kostnaðurinn margfalt meiri. Það er nú þegar svo komið, að ekki er hægt að fá almenningsbifreiðar, strætisvagna og langferðabifreiðar til landsins með réttum útbúnaði fyrir þær umferðarreglur, sem hér gilda, nema með ærnum aukakostnaði, og þessi kostnaður fer vaxandi, eftir því sem þrengist um markaðinn fyrir þessa bíla og þeim löndum fækkar, þar sem þeir eru fáanlegir. Þá verður ekki heldur hægt að velja úr þær bifreiðategundir, sem bezt henta fyrir þessa nauðsynlegu þjónustu. Ég gat þess í ræðu minni um daginn, að ef það færi svo, að við yrðum að notast við strætisvagna með vinstri handar stýri, mundi af því leiða hér í Reykjavík a.m.k. 12–15 millj. kr. aukakostnað á ári, sem auðvitað leggst á þá, sem strætisvagnana nota.

Ég tel ekki ástæðu til að svara fleiru úr ræðum þeirra manna, sem hér hafa orðið til þess að andmæla þessu frv. En hv. 2. þm. Austf., sem var að ljúka máli sínu hér áðan, leyfði sér, eins og ég benti á í umr., sem urðu hér í s.l. viku, beinlínis að rangtúlka niðurstöðuna af grg. frv., því að hann sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Það verður tæplega sagt, að hinir ágætu nm., sem samið hafa þetta frv. fyrir hæstv. ríkisstj., reyni í þeirri grg., sem frv. fylgir, að hafa ákveðin og einhuga sjónarmið til framdráttar málinu, þótt vissulega komi fram á ýmsa lund, að þeir hallast frekar að því, að þetta frv. verði samþ.

Þetta voru orð hv. 2. þm. Austf., og ég veit það, að þeir ágætu menn, sem frv. sömdu, kæra sig ekki um, að afstaða þeirra til málsins sé túlkuð á þennan hátt. Þess vegna sá ég ástæðu til að gera aths. við þetta atriði í málflutningi hv. 2. þm. Austf.

Ég ætla mér ekki að fara að karpa við hv. þm. um hundaþúfuna eða hvor okkar komi til með að standa betur að vígi, þegar hún veltur um koll. Þetta er ekki eina málið, þar sem þessi hv. þm. hefur uppi hundaþúfusjónarmið.