28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2194 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

72. mál, hægri handar umferð

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það hljóp eitthvað í skapið á hv. 2. landsk. ýmislegt af því, sem ég sagði, m.a. það, að ég las upp úr nál. mþn. setningu til sönnunar því, að ég hafði rétt eftir ýmis ummæli, sem ég bar áður fyrir. Ég heyrði ekki betur en hv. 2. landsk. væri að segja, eða í raun og veru að gefa mér í skyn, að það væri óheimilt að vitna í álitið, eftir því sem mér skildist, vegna þess að nm. meintu í raun og veru annað en stæði í greininni. Hann um þá fullyrðingu. Ég tók þessa umsögn alvarlegar en svo, sem þeir sögðu í sínu merkilega áliti, að ekki væri á mark takandi.

Hv. 2. landsk. leyfði sér svo að hafa skjóta afgreiðslu á því, sem ég sagði. Það er náttúrlega stórt orð að vera forseti Sþ., kannske að vera landsk., ég veit það ekki, og í krafti þessarar stóru upphefðar, sem hann hefur notið, leyfir hann sér í lok sinnar ræðu að segja aðannaðhvort öll eða flest þau mál, sem ég flytti hér á þingi, væru flutt með hundaþúfusjónarmiði. Nú mætti athuga þetta. Ég geri ekki kröfu til þess, að þessi hv. þm. viti það, en hann hefði gott af að hugsa um það, að hundurinn hefur verið fyrsti græðarinn á söndum og eyðimelum og skilið eftir þúfurnar vafðar grasi og sýnt, hvað hægt væri að gera fyrir manninn á þeim stöðum. Ég geri ekki kröfu til þess, að hv. þm. meti gróandi jörð og græna, vafða grasi, svo mikils, en hann mætti hafa hundinn sér til fyrirmyndar í þessu efni sem öðru, eins og menn mega gjarnan oft og mörgum sinnum. Ég tek ekki þessa samlíkingu nærri mér, en ég vil bara spyrja aftur, hvort það muni vera ófarsælla fyrir þjóðina að hafa þá hundaþúfusjónarmiðin einstöku sinnum í stað músarholusjónarmiða hv. þm., sem ég veit ekki til að nokkurs staðar hafi gróið út frá.