15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2200 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

72. mál, hægri handar umferð

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Út af hugleiðingum hv. 3. þm. Norðurl. e. vil ég aðeins segja fáein orð. Hann taldi, að þeir aðilar, sem gefið höfðu umsagnir um frv. um hægri handar umferðina, hafi eingöngu verið fulltrúar þéttbýlisins við Reykjavík og embættismenn, sem staðsettir væru hér í Reykjavík, eins og hann orðaði það. Það má kannske segja,að þannig sé ástatl með meiri hl. þeirra, sem umsagnirnar hafa gefið, en ég vil þó bæta því við, að fáir menn ættu að vera betur kunnugir ástandi vegamálanna úti um landið en t.d. vegamálastjóri, þó að hann sé búsettur hér í Reykjavík. Einnig rekur mig minni til þess, að umsagnir hafi komið um málið frá Félagi ísl. bifreiðaeigenda, sem ég hygg að sé ekki eingöngu bundið við Reykjavík og nágrenni, heldur félag fyrir landið allt. Sömuleiðis man ég ekki betur en umsögn bærist um málið frá Landssambandi vörubifreiðastjóra, og þeir eru auðvitað víðar en hér í Reykjavík.

Þá sagði hv. 3. þm. Norðurl. e., að réttast væri af okkur að bíða eftir því, hver yrði reynsla Svía af þessari breytingu. Það er einmitt ráð fyrir því gert í frv., að breytingin hér á landi gangi ekki í gildi fyrr en Svíar hafa breytt umferðarreglunum hjá sér. Þeir ætla að breyta sínum umferðarreglum á næsta ári, en samkv. frv. er gert ráð fyrir, að breytingin hér komi ekki til framkvæmda fyrr en vorið 1968, þannig að þá ætti að liggja fyrir reynslan af breytingunni í Svíþjóð. Auk þess liggur þegar fyrir reynsla af sams konar breytingu í fjöldamörgum öðrum löndum, og eins og rakið er í nál. allshn., hefur ekki neitt sérstakt skeð við þá breytingu að því er slys áhrærir. Það hefur ekki farið yfir þær þjóðir nein slysaalda, ekki yfir Tékkóslóvakíu eða Austurríki, Argentínu, Eþíópíu eða önnur þau lönd, sem breytt hafa um hjá sér. Ég held, eins og ég hef áður gert grein fyrir í umr. um þetta frv., að allt of mikið sé gert úr þeirri slysahættu, sem breytingunni sé samfara. Við sjáum, að það virðist ekki valda Bandaríkjamönnunum, sem hér dveljast sem gestir okkar, neinum sérstökum örðugleikum að aðlaga sig vinstri handar umferðinni, þó að þeir séu vanir hægri handar umferð. Þetta virðist ekki valda þeim neinum sérstökum örðugleikum. Og ég hygg, eins og margsinnis hefur verið tekið fram, að með nægilegri aðgæzlu, með góðum undirbúningi og fræðslu og áróðri í sambandi við þessa breytingu geti hún skilið eftir varanleg spor í þá átt að bæta umferðarmenninguna hér á landi. Þess er vissulega þörf.

Það eina atriði, sem hægt er að segja að geti valdið óþægindum, er það atriði, að þegar stýrið í bifreiðunum er nær vegarmiðju, þá sjá menn ekki eins vel vegkantinn. En ég held, að einnig sé gert of mikið úr þessu og dregnar skakkar ályktanir í því sambandi. Það er ekki fyrst og fremst staðsetningin á stýrinu í bifreiðinni, sem veldur hættum í sambandi við það, að vegkantarnir eru hlykkjóttir eða skörðóttir, heldur er það sjálf gerð vegarins. Það eru fyrst og fremst vegirnir, sem þarf að laga, til þess að draga úr þessari hættu, sem menn vilja gera svo mikið úr í sambandi við breytinguna.

Ég hef alveg óbreytta skoðun á því, að ekki sé hyggilegt af okkur að draga lengur að geraþá breytingu, sem frv. gerir ráð fyrir. Það er alveg augljóst mál, að ef þessi breyting ætti að ske 5 eða 10 eða 15 árum síðar en ráð er fyrir gert, mundi hún verða margfalt dýrari.

Af hreinni tilviljun hitti ég nýlega Ástralíubúa, sem dvelst hér við nám, og hann fór að fyrra bragði að spyrja mig um þetta mál. Hann sagði mér, að í Ástralíu væri það orðið mikið vandamál, að þeir hafa vinstri handar umferð, en kostnaðurinn við að breyta bifreiðum, sem þeir kaupa til landsins, er orðinn það mikill á ári hverju, að hann nemur meiri upphæð árlega en kosta mundi hjá þeim að breyta yfir í hægri handar umferð í eitt skipti fyrir öll.

Það hefur verið talað um, að á það hafi skort, að þeir, sem hafi undirbúið þetta mál, hafi gefið upplýsingar um umferðarreglur alls staðar í heiminum. Það kann að vera, að það hafi ekki verið talið upp hvert einasta þjóðland eða skýrt frá umferðarreglunum alls staðar, en ég hygg, að okkur varði mestu, hvernig þessar reglur eru í næsta nágrenni við okkur, þ.e.a.s. í Evrópu. Og þegar Svíþjóð er búin að breyta sínum umferðarreglum á næsta ári, verður ekkert land eftir á meginlandi Evrópu með vinstri handar umferð. Það verða þá í Evrópu aðeins eylöndin, brezku eyjarnar, Ísland, Malta og Kýpur, sem verða eftir með vinstri handar umferð. Og það er nú einu sinni þannig, að við höfum mestar samgöngur og mest samskipti við Evrópulöndin. Ameríkuríkin flestöll hafa hægri handar umferð, þannig að báðum megin Atlantshafs er hægri reglan ríkjandi umferðarregla. Eins og margoft hefur verið tekið fram, hlýtur auk þess að vera mikið öryggi í því. að farið sé eftir sömu umferðarreglum, hvort sem ferðazt er á landi, í lofti eða á sjó.