19.04.1966
Efri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

72. mál, hægri handar umferð

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. tók það fram, að hann vildi ekki hafa í frammi neinn áróður í þessu máli, og skil ég það mætavel. Það kom fram af hans ræðu, að hér er ekki um sérlega brýnt mál að ræða, og mér skilst helzt, að þetta frv. sé fram komið hér á Alþ. í hálfgerðri rælni. Í þessu frv. eru þó býsna mikilsverð ákvæði, sem vert er að taka tillit til og hugleiða, m.a. hvað þetta kostar þjóðina, og sérstaklega er rétt að athuga, hvað mælir með því, að tekinn sé upp hægri handar akstur á Íslandi og hvað mælir á móti því. Ég hef reynt að kynna mér rök þeirra manna, sem vilja taka upp hægri handar akstur á Íslandi, og ég verð að segja, að mér finnst það ákaflega þunn rök, þegar þau eru krufin til mergjar. Fyrst og fremst kemur öllum saman um, að það skipti alls engu máli, hvor reglan höfð sé, reglan um hægri handar akstur eða reglan um vinstri handar akstur, hvort tveggja sé alveg jafngott. Um hitt má alltaf deila, hvort eigi að breyta gildandi reglum, og ég held, að öllum komi saman um, að ekki sé vert að breyta gildandi reglum í þessu efni, nema að því hnígi sterk rök, nema það hafi upp á mikla kosti að bjóða.

Eins og kunnugt er, gilda í heiminum báðar reglurnar. Í sumum löndum er hægri handar akstur og í öðrum löndum vinstri handar akstur. Þannig er þetta einnig í okkar nágrannalöndum í dag. T.d. er hægri handar akstur í Bandaríkjunum, en vinstri handar akstur í Bretlandi.

Það er rétt að íhuga stuttlega, hvað það er einkum, sem talið er að mæli með breytingu hér á landi. Það er þá fyrst, að í flestum nágrannalöndum okkar gildir reglan um hægri handar akstur. Þetta er rétt, ef við tökum nágrannalöndin, og þó gildir þetta ekki alls staðar, eins og ég tók fram. Í okkar stóra og mikla nágrannalandi, Bretlandi, er vinstri handar akstur eins og hér. Þá segja þeir, sem vilja breytinguna, að flestir bílar, sem hingað eru fluttir, séu að stýrisútbúnaði þannig gerðir, að þeir hæfi betur hægri handar akstri en vinstri handar. Þetta er þó algert álitamál, eins og fram kemur í frv., þ.e.a.s. í grg., sem frv. fylgir. Við höfum flesta okkar bíla með stýri vinstra megin í bifreiðinni. Þetta er talið af mörgum henta hægri handar akstri, en ekki öllum. Það eru margir, sem halda því fram, að stýrið vinstra megin henti betur á vegum, þar sem er vinstri handar akstur. Þá segir, að það sé einn kosturinn, að það sé til hægðarauka fyrir íslenzka ökumenn erlendis, að hér sé hægri handar akstur, og sömuleiðis sé það hægðarauki fyrir erlenda ökumenn, sem hér dveljast, að hér sé hægri handar akstur. Um síðara atriðið er nú það að segja, að það er allt undir því komið, hvaðan þeir ferðamenn koma, sem hér hyggjast aka bifreiðum. Komi þeir frá Bretlandi, hentar þeim prýðilega vinstri handar akstur. Svo er annað í þessu efni, og það er, hvort þetta skipti miklu máli. Þar höfum við eitt gott dæmi. Við höfum reynslu í þessum efnum. Við höfum haft hernámslið hér, bandarískt, árum saman, þar sem skipt er mjög oft um mannskap, að mér skilst. Þessir hermenn koma frá landi, þar sem er hægri handar akstur, og taka hér upp vinstri handar akstur. Ég hef ekki heyrt, að miklar sögur fari af því,að þetta hafi skapað nokkur vandræði í landinu. Þá er loks sagt hægri handar akstri til bóta, að umferð í lofti og á legi sé hægri handar umferð og þess vegna sé hagkvæmast að sama gildi á landi. Þetta eru helztu meðmælin, en ég hygg, að þau séu, hvort sem þau eru tekin einstök eða í heild, ekki þungvæg.

Það er sagt frá því í grg., að Norðurlandaráð hafi beint því til Svía að taka upp hægri handar umferð hjá sér. Þetta tel ég engan veginn óeðlilegt, eins og landshættir eru þar. En ég vil benda á, að Norðurlandaráð beindi ekki þessum tilmælum til Íslendinga eða ég veit ekki til þess, og eins og mér finnst eðlilegt, að Norðurlandaráð beindi þessum tilmælum til Svía, eins finnst mér eðlilegt, að Norðurlandaráð færi ekki að beina sams konar tilmælum til Íslendinga. Svo ólíkt er um þessi tvö lönd í þessum efnum.

Ég vil halda því fram, og raunar kom hæstv. ráðh. inn á það, að þegar um eylönd er að ræða, skipti mjög litlu máli, hvor reglan gildir, hægri eða vinstri handar akstur. Og það er nú svo einkennilegt, að mörg eylönd hafa vinstri handar akstur, og mörg þeirra hef ég ekki heyrt til að hyggi á neina breytingu. Ísland hefur vinstri handar akstur, Bretland, Írland, Kýpur, Malta og Japan. Allt eru þetta eylönd, mismunandi stór, en þau hafa vinstri handar umferð, og mun ekki fyrirhuguð í neinu þessara landa breyting. Þetta tel ég ekki vera neina tilviljun, heldur er einmitt þetta, að það skiptir svo miklu máli,hvernig landið er staðsett, hvort það er eyja út í reginhafi, eins og Ísland, eða land inni í stóru meginlandi.

Þetta held ég, að sé kjarni málsins og sterkustu rökin fyrir því, að óþarft sé fyrir okkur að breyta í þessum efnum. Kostirnir við breytinguna eru ekki að mínum dómi miklir. En ókostirnir við breytinguna eru hins vegar talsvert miklir. Það kemur öllum saman um, að sjálf breytingin muni hafa í för sér töluverð óþægindi fyrir landsmenn um stundarsakir og það sem að verra er, töluverða aukna slysahættu um stundarsakir.

Hitt atriðið er einnig mikilsvert, að þessi breyting, sem mér virðist eiga að taka ákvörðun um nú í einhverri rælni, kostar stórfé. Það fer ekki á milli mála, að breytingin muni hafa í för með sér kostnað, sem nemur einhvers staðar á milli 180 og 200 millj. kr., og það er ekki svo lítið fé. Meginhluta þessa fjár á að afla með því að leggja nýjan skatt á bifreiðaeigendur. Það er þá ekki í fyrsta sinn, sem vegið er í þann knérunn. Það hefur árum saman verið í móð, að bifreiðaeigendur mætti skattleggja óendanlega. Og það virðist enn vera í móð, a.m.k. ef dæma má eftir þessu frv., því að það á ekki að skattleggja alla landsmenn í þessu skyni, eins og ég teldi þó eðlilegast og sanngjarnast, ef að þessu ráði verður horfið, heldur á að skattleggja lítinn hóp manna í landinu, þá menn, sem eiga bifreið. Þeir eiga að borga brúsann fyrir sjálfa sig og alla hina.

Ég vil strax taka það fram, að hvað sem frv. þessu í heild líður eða atstöðu minni til þess, er ég algerlega ósammála IV. kaflanum, þar sem ræðir um fjáröflun til þessarar breytingar. Ég tel það vera fráleitt að skattleggja bifreiðaeigendur eina til þessara þarfa, það eiga allir landsmenn að taka sinn þátt í þeim kostnaði, því að það kemur öllum landsmönnum við, hvort þessi breyt. er gerð eða ekki. En ég teldi ekki illa farið, og með því vil ég ljúka þessum orðum, að þetta mál yrði betur athugað og yfirleitt yrði ekki undinn bugur að breytingu eða ákvörðun um breytingu í þessu efni, fyrr en þeir, sem það mál bæru fram, væru sannfærðir um nauðsyn þess og sannfærðir um þörfina á því, en það virðist langt frá því, að hæstv. ríkisstj., sem flytur þetta frv., sé einhuga um eða sannfærð um, að þessa sé yfirleitt mikil þörf.