02.05.1966
Efri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2212 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

72. mál, hægri handar umferð

Frsm. minni hl. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. hefur gert grein fyrir, varð allshn. ekki sammála um þetta frv. Við þrír, sem erum í minni hl. allshn., leggjum til, að þetta frv. verði fellt. Við sjáum ekki nauðsyn á því að gera þá veigamiklu breytingu á umferðarreglum, sem í þessu frv. felst. Við teljum, að af slíkri breytingu gæti leitt slysahættu, a.m.k. á meðan menn eru að venjast breytingunni. Við teljum, að samfara breytingunni sé mikill kostnaður, sem algerlega sé óþarfur.

Í grg., sem fylgir þessu frv., segir n. sú, sem þetta frv, hefur samið og nokkuð hefur verið til vitnað, umferðarlaganefnd, svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar taka skal afstöðu til þess, hvort hafa skuli vinstri eða hægri handar umferð, vaknar fyrst sú spurning, hverjir séu kostir og gallar hvorrar reglunnar um sig. Talið er, að í sjálfu sér hafi hvorug reglan sérstaka kosti umfram hina.“ Þetta er höfuðreglan, sem kemur frá umferðarlaganefnd, þ.e.a.s. að báðar þessar umferðarreglur eru í sjálfu sér alveg jafngóðar, hvorug hefur nokkra kosti fram yfir hina. Enn fremur segir í þessu áliti umferðarlaganefndar, með leyfi forseta,og er það í framhaldi af því, að þar er vikið að þeim atriðum, sem helzt skipta máli í þessu sambandi, og er talað um það, að verksmiðjur framleiði bifreiðar að jafnaði ýmist með hægri eða vinstri handar stýri og aðalreglan sé sú, að í löndum með hægri handar umferð séu bifreiðar framleiddar með vinstri handar, stýri, en í löndum með vinstri handar umferð aftur með hægri handar stýri, — og síðan segir svo umferðarlaganefndin: „Álit manna á því, hvor gerðin henti betur hvorri umferðarreglunni, hægri handar eða vinstri, er nokkuð mismunandi.“ Ég vek athygli á þessu, að þetta segir umferðarlaganefndin, en það virtust annars vera aðalrökin, sem fram komu hjá þeim mönnum, sem kallaðir voru á fund allshn., að það gæti orðið erfitt, þegar tímar líða fram, að fá þá gerð bifreiða, sem hér hentaði. En hér segja þeir í þeirri grg., sem þeir láta fylgja með: „Álit manna á því, hvor gerðin henti betur hvorri umferðarreglunni, hægri handar eða vinstri, er nokkuð mismunandi.“ Og áfram: „Þykir sumum betra að hafa vinstri handar stýri, þar sem hægri handar umferð er. Gildir þetta sérstaklega, þar sem vegir eru góðir og umferð mikil. Með því móti gefst ökumönnum betra færi á að sjá fram á veginn í tæka tíð og athuga, hvort ökutæki komi á móti eða hvort önnur hætta sé fram undan. Gefst þá og betra færi á því að fylgjast með bifreiðum, sem koma á eftir og ætla fram úr. Í þéttbýli er talið hentugra að aka bifreið með stýri nær miðju vegar. Við gatnamót sést þá betur til þeirrar áttar, sem rétthærri umferðar má vænta úr. Einnig gefst ökumanni, sem ekur frá vegarbrún, betra færi á að fylgjast með umferðinni, ef stýri er staðsett nær miðju vegar.“ Síðan segir svo: „Á hinn bóginn telja margir, að betra sé að hafa stýrið þeim megin, sem ökuregla býður að ekið sé, þar sem þá sé betra að gæta vegbrúnar, t.d. þegar farartæki mætast. Gildir þetta sérstaklega, þar sem umferð er lítil, vegir mjóir og vegbrúnir varhugaverðar.“

Ég vildi aðeins biðja menn að taka eftir þessu, að það er álit umferðarlaganefndar, að út af fyrir sig geti hægri handar reglan e.t.v. verið hentugri, þar sem góðir vegir eru. En þar sem eru mjóir vegir og vegbrúnir varasamar, sé vinstri reglan heppilegri. Og bið ég hv. þdm. um að athuga það, hvort frekar eigi við hér á landi, hvort vegirnir séu yfirleitt góðir eða hvort vegirnir séu ekki nokkuð víða mjóir og vegbrúnir varhugaverðar.

Enn fremur segir í þessu áliti, að það sé út af fyrir sig mikilvægt, að umferðarreglur séu samræmdar milli landa, og það er auðvitað rétt. En síðan segir í álitinu: „Segja má, að mikilvægi þess sé þó ekki hið sama alls staðar. Mestu máli skiptir það, ef vegir liggja yfir landamæri og mismunandi umferðarreglur gilda. Sýna athuganir, sem fram hafa farið á hinum Norðurlöndunum, að verulega aukin slysahætta stafar af mismunandi umferðarreglum við sameiginleg landamæri. Af þessum sökum hafa alþjóðastofnanir lagt á það áherzlu, að upp verði tekin hægri handar umferð.“

Það er auðvitað sjálfsagt, þar sem landamæri liggja saman og umferð er mikil á milli landanna, að þá er æskilegt, að reglurnar séu samræmdar. Þess vegna er ákaflega eðlilegt t.d., að Svíþjóð skuli nú vera að breyta til hjá sér. Hins vegar gegnir allt öðru máli um eylönd. Þar er engin þvílík knýjandi nauðsyn fyrir hendi. Þess vegna er það líka staðreynd, að öll eyríki hér í álfunni búa enn við vinstri handar akstur og hafa ekki séð neina þörf hjá sér að taka upp hægri handar akstur. Hv. frsm. meiri hl. var að vísu með spádóma um það, að Bretar mundu hverfa frá sinni gömlu reglu og taka upp hægri handar umferð árið 1985, ef ég tók rétt eftir. Ég er nú ekki eins mikill spámaður og hann og get ekki séð svo langt fram í tímann, og ég verð nú að segja það, að ég held, að það sé með öllu óvíst, hvort svo verður gert eða ekki, og það séu meiri og minni ímyndanir og menn viti í raun og veru ekkert um það, Bretar viti það ekki einu sinni sjálfir, hvað þá menn hér uppi á Íslandi.

Það er frá því skýrt í áliti umferðarlaganefndar, að alþjóðastofnanir hafi gert samþykktir um þessi efni. Það er rétt, að Norðurlandaráð hefur gert eina samþykkt um þetta efni. Sú samþykkt var þess efnis, að það var skorað á Svíþjóð að taka upp hægri handar akstur, en það var skorað á Svíþjóð eina, en einmitt ekki á Ísland. Auðvitað var það ekki út í bláinn, að Íslandi var sleppt í því sambandi, heldur af hinum augljósu rökum, að aðstæðurnar eru allt aðrar og engin sérstök knýjandi þörf vegna umferðaröryggis almennt, að Ísland taki upp þá reglu, sem nú gildir á hinum Norðurlöndunum, og þess vegna var Íslandi sleppt í þessari ályktun Norðurlandaráðs, þannig að það liggur alls engin ályktun fyrir um það að skora á Ísland að breyta til hjá sér, heldur þvert á móti verður ályktað af þessari samþykkt á þá lund, að Norðurlandaráð hafi alls ekki talið það neinu máli skipta, hvort Ísland héldi við sína gömlu reglu eða breytti til hjá sér.

Síðan segir umferðarlaganefnd í grg. með þessu frv., og í raun og veru þyrfti ég ekki að hafa mál mitt lengra en það að skora á menn að lesa rækilega þá grg., sem fylgir þessu frv., þá sæju menn þar allt, sem ég vil leggja áherzlu á, — þar segir hún m.a.: „Veigamestu rök gegn umferðarbreytingu hafa einkum verið talin þau, að breytingin hafi í för með sér aukna slysahættu, svo og að hún hafi allmikinn kostnað í för með sér.“ Umferðarlaganefnd ræðir síðan um þessi tvö atriði, og ég vil biðja menn að kynna sér, hvað hún segir um þau. Hún vefengir alls ekki, að það muni stafa aukin slysahætta af þessari breytingu, gerir að vísu ekki mjög mikið úr henni, ef jafnframt séu gerðar mjög miklar varúðarráðstafanir. Hún verður auðvitað einnig að fallast á það, að þessari breytingu fylgi allverulegur kostnaður. Það getur verið matsatriði, hvað menn kalla verulegan kostnað í þessu sambandi. En það liggur þó ljóst fyrir, að hér er um milljónatugi að ræða, sem þessi breyting kostar.

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég veit, að menn eru sjálfsagt búnir að gera sér nokkra grein fyrir þessu máli. Hér er farið fram á það, að gerð sé gerbreyting á umferðarreglum. Það liggur fyrir og er játað af umferðarlaganefnd, að sú regla, sem upp á að taka, sé engu betri en hin gamla frá fræðilegu sjónarmiði. Það liggur enn fremur fyrir, að það er ljóst, að samfara því, að þessi breyting verði upp tekin, eykst slysahætta stórkostlega, og getur verið álitamál, hve mörg mannslíf á að nefna í því sambandi, en það gera sér allir grein fyrir því, að það er mikil hætta á því, að það verði mikil slys. Nú skyldi maður halda vegna þess, hvernig ástandið er í þeim málum hér hjá okkur, að þá væri ástæða til þess að gera ráðstafanir til þess að reyna að draga úr slysum í umferðinni heldur en að auka á þá hættu, sem þar er í þessu efni, og ég verð að segja það, að það er æði mikill ábyrgðarhluti þeirra þm., sem samþykkja þetta. Og í þriðja lagi liggur það alveg ljóst fyrir, að þessi breyting kostar mjög mikið fé. Hvers vegna að vera að ausa fé í hlut, sem ekki er nein þörf á og hefur í för með sér aukna slysahættu? Höfum við of mikið af peningum? Er ekki þörf fyrir þessa peninga einhvers staðar annars staðar, sem hægt er að kasta í þetta? Það gæti kannske hæstv. fjmrh. upplýst. Ég verð a.m.k. að meina, að það væri full þörf fyrir þessa milljónatugi í vegina úti á landinu og þeim væri betur varið í þá en kasta þeim í þessa breytingu.

Nei, þegar á að gera slíka breytingu sem þessa, með þeim annmörkum, sem henni augljóslega fylgja, verða sterk rök að vera fyrir hendi, til þess að hún sé gerð. Ég óttast því miður, að hér sé fyrir hendi sú alkunna eftiröpunarhneigð, sem við Íslendingar erum því miður allt of mikið haldnir af, að vilja endilega apa allt eftir öðrum þjóðum, enda þótt aðstæður hér séu allt aðrar en þar og engin nauðsyn knýi til þess. Ég veit, að það getur verið vinsælt að fylgja þeirri eftiröpunarstefnu. Ég veit, að hinir, sem vilja spyrna við, eru kallaðir íhaldsmenn. Ég tek það ekki nærri mér í þessu tilfelli. Ég vil heldur heita íhaldsmaður í þessu tilfelli og greiða atkvæði móti þessu frv. heldur en stofna til þeirra fjárútláta, sem þar eru samfara, og hafa á samvizkunni þá auknu slysahættu, sem því er samfara.