03.05.1966
Efri deild: 79. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2216 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

72. mál, hægri handar umferð

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf sennilega naumast að taka það fram, að ég er andvígur þessari till. og andvígur þeim röksemdum, sem hv. 9. þm. Reykv. flytur fyrir sínu máli. Ég tel nefnilega, að ekkert sé eðlilegra en það, að bifreiðaeigendur greiði þessi gjöld, því að þessar breytingar snerta eingöngu þá aðila, og ég vil jafnframt vekja athygli á því, að t.d. í Svíþjóð, þar sem gert er ráð fyrir breytingu í þessa átt nú á næstu árum, er gert ráð fyrir, að bifreiðaeigendur greiði þann kostnað, sem af því leiðir. Ég er ekki heldur alveg viss um það, að þegar að því kemur að afla tekna fyrir ríkissjóðinn til þess að mæta þessu, verði ákaflega mikil hrifning yfir þeim tekjuöflunum, sem þar þurfa að koma til greina. Þetta getur litið vel út, þegar verið er að losa menn við útgjöldin. En það kemur að skuldadögunum, og það verður varla hjá því komizt, að einhver verður að greiða þetta. Ég legg því mjög eindregið gegn því, að þessi breyting verði gerð á frv.