14.12.1965
Neðri deild: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. og hv. frsm. n. gat um réttilega, höfum við fulltrúar Framsfl, í heilbr.-og félmn. skrifað undir nál. og viljum láta frv. ná fram að ganga. Hins vegar viljum við gera á því nokkrar breytingar og höfum lagt fram um það till. á sérstöku þskj.

Við viljum ekki, að fasteignamat til álagningar eignarskatts verði sexfaldað, og teljum það hafa verið nógu mikið, sem gert var að því í fyrra að hækka fasteignamatið með því að þrefalda það, — viljum ekki láta ganga lengra í því efni. Í fyrra var sett ákvæði í löggjöf um húsnæðismálastofnun ríkisins til breytinga á eignarskattsl., eins og kunnugt er, og við viljum ekki láta ganga lengra í því efni en að fasteignamatið sé þrefaldað. Þá vil ég líka geta þess, að ég tel, að sveitarfélög landsins hafi ástæðu til þess að telja, að þeim hafi fyrir ekki löngu verið gefin fyrirheit um að mega sitja að fasteignaskatti, en með þessari innheimtu finnst mér, að það fyrirheit sé sniðgengið. Þess vegna leggjum við til, eins og fram kemur í till. okkar á þskj. 177, að 2. gr. verði felld niður úr frv.

Í 6. gr. frv. er ákvæði um, að húsaleigul. falli úr gildi. Það er rétt, að þessi húsaleigulög munu yfirleitt ekki mikils virt, enda hefur margt breytzt síðan þau voru sett. Þó hef ég heyrt, að Reykjavíkurborg muni fara eftir þessum l. og selja hús á leigu samkv. ákvæðum l. Við teljum. að það fari illa á því að afnema l., en teljum hins vegar, að það væri nauðsynlegt, að það færi fram endurskoðun á þessum l. og breytingar í samræmi við það, sem breyttir tímar kunna að krefjast. Okkur skilst, að ákvæðið um afnám þessara l. núna, án þess að hafa nokkurt tækifæri til endurskoðunar á þeim, sé sprottið af því, að það þurfi að gera strax löglegt að setja í reglugerð sérstök ákvæði vegna leiguhúsnæðis, sem sveitarfélög og Öryrkjabandalag Íslands reisa fyrir lán frá húsnæðismálastjórn samkv. 7. gr. húsnæðismálastofnunarl., og gert ráð fyrir endurskoðun húsaleigl. Eins og ég þegar hef tekið fram, byggjum við þessar brtt. á þeim skoðunum okkar, og eru brtt. skráðar á þskj. 177. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð.