18.04.1966
Efri deild: 65. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2223 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur gert grein fyrir tildrögum þessa frv. og þeim helztu breyt., sem það felur í sér frá gildandi I. Það er rétt við þetta tækifæri að gera sér grein fyrir því, hvenær og hvernig þessi löggjöf er upphaflega tilkomin. Árið 1947 er fyrsta löggjöfin um Framleiðsluráð landbúnaðarins með meiru sett. Og þeir, sem beittu sér fyrir þessari löggjöf, voru í fyrsta lagi Stéttarsamband bænda, sem þá var að hefja göngu sína og mætti mjög misjafnri móttöku á meðal ráðandi manna þjóðarinnar. Framsfl. beitti sér fyrir þessari lagasetningu við stjórnarmyndun 1947 með þáv. landbrh. í broddi fylkingar, Bjarna heitinn Ásgeirsson. Og það má nú með sanni segja, að þessi löggjöf hefur á ýmsan hátt, eftir því sem aðstæður hafa leyft, verið mjög styrk stoð bændastéttinni og ekki sízt fyrir það, að löggjöfin skapaði Stéttarsambandi bænda aðstöðu til þess að semja um kjör bændastéttarinnar við neytendurna í landinu. Og það hefur tekizt vonum framar að semja um verðlag á búsafurðum, þar sem það var upplýst af hæstv. landbrh. hér áðan, að í 5 skipti af 19 hafa samningar tekizt. Það er í fimm skipti, sem mér skilst, að yfirdómur hafi þurft að fjalla um málið, fimm skipti á þeim árum, sem I. hafa gilt. En þar fyrir utan hafa skeð tvö tilfelli, sem löggjafinn gerði ekki ráð fyrir í upphafi. Tvisvar sinnum hefur það komið fyrir, að mótsamningsaðili bændafulltrúanna hefur neitað að taka þátt í samningum og þar með hefur löggjöfin verið gerð óvirk. Í fyrra skiptið var það 1959, þá neituðu fulltrúar neytenda að semja við bændafulltrúana í Sexmannanefnd, og gaf þáv. ríkisstj. út brbl., sem að stóðu núv. stjórnarflokkar. Lenti í miklu málaþófi út af þeirri bráðabirgðalöggjöf, og komu þau brbl. lítið til umr. í hv. Alþ., en skipuð var n. til þess að endurskoða framleiðsluráðslögin. Skilaði sú n. frv., að mig minnir, í febrúarmánuði 1960 og þá fyrst, eftir þær lagabreytingar höfðu öðlazt lagagildi, tókust samningar um kaup og kjör bændastéttarinnar fyrir yfirstandandi verðlagsár 1959–1960, og var það til mikils óhagræðis á allan hátt fyrir bændastéttina, hvernig til tókst með þá verðlagningu, og hafa bændurnir að nokkru búið að því síðan. Þegar þessi lagasetning var til umr. hér í hv. Ed., flutti hv. 5. þm. Austf. ásamt mér till. þess efnis að fyrirbyggja það, að slíkt gæti komið fyrir, að I. verkuðu ekki, ef annar aðilinn neitaði að semja. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa þá brtt., sem við fluttum hér í þessari hv. þd. 1960. Hún var við 3. gr., og segir þar, að á eftir 2. málsl. 3. mgr. komi nýr málsl., svo hljóðandi:

„Nú neitar aðili að tilnefna mann í yfirn., og skal þá landbrh. skipa manni n. samkv. tilnefningu hæstaréttar.“ Eins og hv. þm. muna vafalaust, var þessi brtt. okkar felld. Hefði hún á sínum tíma verið samþ., hefðu framleiðsluráðsl. aldrei orðið óvirk af þeim sökum, að annar aðilinn hefði dregið sína fulltrúa til baka frá því að semja um kaup og kjör. En það var nú ekki, og því fór sem fór, að í annað sinn á s.l. hausti neituðu fulltrúar neytenda að semja við bændafulltrúana í Sexmannanefnd og því voru gefin út brbl., sem mikið hafa verið rædd hér á hv. Alþ., en hafa ekki hlotið afgreiðslu hér, og mér skilst, að um leið og þetta frv. er lagt hér fram og gert ráð fyrir, að það öðlist lagagildi, komi brbl. ekki meira til umr. hér í þessari hv. d. eða í Alþ. Mér skilst, að það muni verða svo, enda þótt hæstv. ráðh. talaði um það hér áðan, hélt ég, að þau mundu falla úr gildi um leið og ný lög koma í staðinn. En hvað um það, komi þau til umr., er tími til að fjalla um þau mál. En ég vil aðeins minna á aðalkjarna þessara brbl. og hann var í fyrsta lagi sá að taka samningsréttinn af bændum og gera Stéttarsamband bænda óvirkt til þess að fjalla um kaup og kjör bændastéttarinnar, og í öðru lagi var með brbl. verðlagsgrundvellinum frá haustinu 1964 slegið föstum sem viðmiðun fyrir kjör bændastéttarinnar í framtíðinni eða meðan þau lög giltu. Og í þriðja lagi, að kaup bænda og verkamanna þeirra skyldi fylgja þeirri hækkun, sem elli- og örorkulífeyrisþegar mundu fá samkv. sérstakri löggjöf, sem fjallar þar um. Þetta var aðalkjarni þessara brbl., sem gefin voru út á s.l. hausti og verðlag bænda var miðað við fyrir yfirstandandi verðlagsár. En það mun hafa komið fram, eftir að þessi verðlagning var gerð, að viðmiðunarstéttir þær, sem kaup bænda er miðað við, höfðu um 15 þús. kr. meira í meðalárstekjur en miðað var við, þegar verðlagsgrundvöllurinn var ákveðinn. Þess vegna skilst mér, að hér sé um nokkra tugi millj. kr. að ræða, sem bændurnir hafa skaðazt á því, að ekki var miðað við það raunverulega kaup, sem þessir aðilar höfðu, og jafnvel, að um 80–90 millj. kr. skaða gæti verið þar að ræða fyrir bændastéttina í heild. En um það ætla ég ekki að ræða frekar nú. En ég fagna því, að þetta frv. er fram komið. Ég fagna því, að náðst hefur samkomulag um það, að Stéttarsamband bænda skuli á ný fá samningsrétt til þess að semja um kaup og kjör bændastéttarinnar, því að ef Stéttarsamband bænda getur ekki samið um kaup og kjör bændanna, þannig að vel fari, er nokkuð víst, að ekki er öðrum aðilum í landinu til þess treystandi, því að þeir, sem starfa að þeim málum hjá Stéttarsambandinu, vita bezt, hvar skórinn kreppir að í þeim efnum hjá bændastéttinni. Því fagna ég því, og ég vil þakka hv. 8. þm. Reykv. (ÓB) fyrir það, hversu vel og farsællega honum hefur tekizt að leiða þessi mál, þannig að samkomulag hefur náðst og ýmsar breyt., sem frv. felur í sér verða til bóta fyrir bændastéttina. Ég veit, að bæði hann og aðrir, sem að þessum málum hafa starfað, hafa lagt mikið að sér og aflað mikilla gagna, og tel ég vel farið, að svo hefur verið gert, og kemur það greinilega fram, að þessi n. hefur viljað byggja sínar till. á því, sem raunhæfast gæti orðið í þeim efnum. Hins vegar sakna ég þess, þegar ég les grg. þessa frv., að ýmsar upplýsingar, tölulegar sem aðrar, og töflur o.fl., sem n. hefur aflað sér, er ekki birt með grg., og held ég, að það hefði verið til mikilla bóta, ef slíkt hefði verið gert og þingheimi gefinn þar með kostur á að kynna sér þær upplýsingar, sem slíkar tölur fela í sér, og er þar vafalaust margvíslegur annar fróðleikur, sem menn gætu orðið aðnjótandi, ef þetta hefði allt verið prentað með grg. En vera má, að þessar upplýsingar liggi annars staðar fyrir og þeirri n., sem kann að fjalla um þessi mál, verði gefinn kostur á að kynna sér ýmis atriði þessa máls út frá þeim upplýsingum, sem er að finna í þeim fylgiritum, sem ekki eru birt með grg.

Það sýnir bezt, hversu framsýnir þeir forustumenn voru, sem upphaflega sömdu þessi lög, að niðurstaða n. nú og ævinlega áður skuli vera sú, að í aðalatriðum er sama kerfið notað áfram og var í upphafi. N. hefur velt mikið fyrir sér, hvort ekki væri heppilegra að fara inn á aðrar leiðir, en eins og tekið er fram í grg., virðist hún ekki koma auga á það, að aðrar samningsleiðir kunni að verða farsælli til þess að leiða þessi mál til lykta, þ.e.a.s. að tryggja bændunum betri afkomu, heldur en það samningskerfi, sem verið hefur frá upphafi og áfram á að gilda í aðalatriðum samkv. því frv., sem hér liggur fyrir. Þetta lýsir því bezt, hversu vel menn hafa gert sér ljóst í upphafi, hvernig þessum málum væri háttað og hvað bezt mundi henta til þess að leysa deilur, ef upp kynnu að koma. Og ég fagna því, að það skuli vera lengra gengið í þessum efnum en áður og tili. mín og hv. 5. þm. Austf. í aðalatriðum, vil ég segja, eða að efni til tekin inn í þessa löggjöf, þar sem gert er ráð fyrir, að ef einhver aðili vili ekki nota samningsrétt sinn, skipi hlutaðeigandi ráðh. mann í hans stað. Þetta tel ég mjög gott og vel farið, að það skuli þá vera horfur á því, að það þurfi ekki að grípa til þess á síðustu stundu að gefa út brbl., ef einhver aðili vill ekki nota rétt sinn. Ég vona, að þetta ákvæði l. verði til þess að tryggja betur heili og hag bændastéttarinnar en þegar þurft hefur að grípa til þess að semja brbl. á síðustu stundu, þegar allt hefur verið komið í óefni, eins og tvívegis hefur verið gert á því 19 ára tímabili, sem þessi löggjöf hefur gilt hér á landi.

Ég ætla mér ekki að fara að ræða efnislega um þetta frv. nú, vegna þess að ég býst við, að öllu forfallalausu, að mér gefist kostur á að kynna mér þetta mál nánar í þeirri n., sem um það á að fjalla. En þessi lagasetning er grundvöllur að framtíð landbúnaðarins í þessu landi, og lagasetningin á að vera til þess að tryggja vinnandi fólk í landbúnaði sambærileg kjör við þá, sem vinna við aðra atvinnuvegi þjóðarinnar. Þó er það svo, að hversu góð sem ein löggjöf kann að vera, er hægt að gera hana gagnslausa, ef framkvæmd og stefna þjóðmálanna er reikul og dýrtíðin er látin þenjast út eins og sápukúla, eins og verið hefur í tíð núv. hæstv. ríkisstj., því að þar hefur aldrei staðið steinn yfir steini af því, sem byggt hefur verið. Þegar framleiðsluráðslögin voru endurskoðuð 1960, var talið, að 10% útflutningsuppbætur af verðmæti landbúnaðarframleiðslunnar mundi alltaf verða nægjanlegt til þess að tryggja bændum það verðlag, sem þeim bar samkv. gildandi verðlagsgrundvelli. Þessu var haldið fram 1960. Nú er ekki komið lengra fram í tímann en til ársins 1966, og hvernig hefur þetta reynzt og hverjar eru horfur á, að svo muni verða? Dæmið stendur þannig nú, að það eru allar horfur á því, að ofan á of lága verðlagningu verði bændur að taka á sig tugi milljóna króna, vegna þess að útflutningsuppbæturnar hrökkva ekki fyrir þeim afurðum, sem talið er, að ekki muni vera þörf á að neyta innanlands og þess vegna þurfi að leita markaða fyrir erlendis. Nú, hvað framtíðin kann að bera í skauti sér í þessum efnum, ætla ég ekki neinu um að spá, en ástandið eins og það er í dag og stjórnarferillinn eins og hann hefur verið boðar ekki neitt gott í þessum efnum. Allir atvinnuvegir þurfa sína stoð og sína styttu, og ég vil benda á það, að þrátt fyrir síaukinn útflutning sjávarafurða og einnig mjög hækkandi verðlag á erlendum markaði, þá hefur svo til tekizt, að það verður að bæta sjávarútveginum upp til þess að hann verði ekki fyrir stórkostlegu rekstrartapi, vegna þess að dýrtíðin er orðin svo geysileg í þessu landi. Þannig að það er ekki um landbúnaðinn einan saman að ræða, að því er varðar dýrtíðaraukninguna, heldur sjálfan sjávarútveginn, þar sem framleiðslan er miklu meiri en nokkru sinni áður og verðlag erlendis hefur farið síhækkandi. En það verðlag, sem fæst nú, hrekkur samt ekki til þess, að hann geti rekstrarlega staðið undir sér, og nú fyrir stuttu síðan var samþ. frv., þar sem til sjávarútvegsins eiga að falla 80 millj. kr. til þess að bæta honum upp þennan halla, sem hann varð fyrir.

Þetta er staðreynd, að dýrtíðin, verðbólgan og stjórnarstefnan hafa eyðilagt hverja löggjöfina á fætur annarri, hverja ráðstöfun á fætur annarri, sem gerð hefur verið í þessu landi, og eina vonin til þess að möguleikar séu á því, að betur horfi um atvinnuvegi þjóðarinnar framvegis en verið hefur nú um skeið er, að það sé lekin upp ný þjóðmálastefna í landinu, því að núv. stjórnarstefna með óðaverðbólgu í fararbroddi melétur smám saman afkomumöguleika alls almennings í landinu, og við slíkt er ekki hægt að una, hversu vel eða drengilega sem menn kunna að standa að öðrum málefnum þjóðarinnar.