23.04.1966
Efri deild: 69. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, varð ekki samkomulag í landbn. um afgreiðslu þessa frv., og hef ég, sem skipa einn minni hl., skilað séráliti á þskj. 542.

Eins og kom hér fram við l. umr. málsins, þegar hæstv. landbrh. hafði framsögu fyrir því, er meginbreytingin, sem þetta frv. felur í sér frá fyrrgildandi löggjöf, sú að gera hið svo kallaða sexmannanefndarkerfi virkt, þó að aðilar þeir, sem hafa rétt til að skipa í Sexmannanefnd, noti ekki þann rétt sinn. En þá komi til tilnefning af hálfu landbrh., ef framleiðendur, þ.e.a.s. Framleiðsluráð landbúnaðarins eða stéttarsamtök bænda nota ekki tilnefningarrétt sinn, en hins vegar tilnefning félmrh., ef hinir svo kölluðu fulltrúar neytenda, þ.e.a.s. Í., Landssambands iðnaðarmanna eða Sjómannafélags Reykjavíkur, nota ekki sinn tilnefningarrétt samkv. 6. gr. laganna.

Aðrar breyt., sem þetta frv. hefur í för með sér, eru ekki mjög veigamiklar, nema þá ef vera skyldi breyt., sem 5. gr. frv. um 4. gr. l. kveður á um, en þar segir, að taka skuli upp þann viðmiðunargrundvöll, þegar kjör bænda eru ákveðin til samræmis við kaupgjald annarra stétta, að hann skuli byggjast á kaupgjaldi verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, eins og það er við upphaf hvers verðlagstímabils, en þó skuli ekki taka til viðmiðunar ákvæðisvinnu verkamanna og iðnaðarmanna né aflahlut sjómanna.

Mér þykir sýnilegt, að þótt sumar af þessum breyt. frá fyrra grundvelli séu réttmætar, séu aðrar breyt. það ekki, sem þetta hefur í för með sér, og hljóti að þýða, að svo miklu leyti sem viðmiðunargrundvöllurinn hefur eitthvert gildi, sem hefur að vísu verið ákaflega takmarkað á undanförnum árum, sé hér um beina skerðingu á kjörum bænda að ræða. Og það tel ég sérstaklega koma fram í því, að nú á hvorki lengur að miða við ákvæðisvinnu verkamanna né iðnaðarmanna, og ég tel að ef þennan viðmiðunargrundvöll á á annað borð að nota, — (ég er reyndar ekki þeirrar skoðunar) sé það sanngjarnt, að þetta sé tekið með í viðmiðunargrundvöllinn. Það er enginn vafi á því, að nú um sinn, — og líklegt er að svo verði einnig um nokkra framtíð, — verða mestar kjarabætur hjá verkamönnum og iðnaðarmönnum einmitt í gegnum það, að ákvæðisvinna er stóraukin og tekin upp ýmis ný launagreiðslukerfi, sem byggja á afköstum. Og það er enginn vafi á því, að á síðustu árum hefur mjög verulegur hluti af þeim kjarabótum, sem verkamenn og iðnaðarmenn hafa náð fram, raunverulega byggzt á þessu. Ég vil segja það, að ef á annað borð á að miða kjör bænda við þessar stéttir, er hallað mjög á bændur, ef þessu er sleppt úr viðmiðunargrundvellinum, og ég verð að segja það, að ég tel það gegna nokkurri furðu, að fulltrúar bænda í sjö manna n. ríkisstj. hafi fallizt á þetta, og sérstaklega er ég undrandi yfir því, ef þeir hafa gert það fúslega. Hins vegar vil ég segja það um breyt. á 4. gr. l., að ég tel eðlilegt, að sleppt sé viðmiðun við hlutarsjómenn. Þar eru svo miklar sveiflur, að það er algerlega óeðlilegt, að þær komi inn í landbúnaðarvöruverðið, og einnig tel ég réttmætt, að tekið sé tillit til vinnutímans, þannig að það sé ekki tekið með í viðmiðunargrundvöllinn,þó að verkamenn eða iðnaðarmenn hækki laun sín eitt árið vegna þess, að þeir hafi þurft að leggja á sig meiri vinnu en áður.

Í 16. gr. er svo ákveðið nú, eins og reyndar hefur verið, að A.S.Í., Landssamband iðnaðarmanna og Sjómannafélag Reykjavíkur skuli teljast fulltrúar neytenda í landinu í samningum um búvöruverð. Ég er ekki nægilega kunnugur því, hvernig þessi skipan er til komin að útnefna fulltrúa þessara þriggja aðila sem fulltrúa neytenda í landinu. En ég held, að flestir sjái, að ef fulltrúar neytenda eiga að vera representeraðir í slíkri n. sem Sexmannanefnd, þá er þetta hin afkáralegasta skipan. Það er að vísu rétt, að A.S.Í. er fulltrúi margra neytenda í landinu, en þó er það ekki nema hluti af neytendum og það mikill minni hl. Hins vegar eru bæði Landssamband iðnaðarmanna og Sjómannafélag Reykjavíkur tiltölulega fámenn og einstæð samtök, sem ekki hafa á nokkurn hátt neitt það við sig, skipulag eða tilgang, að þau séu bærari en ýmis önnur samtök í landinu að koma fram fyrir neytendur og semja um þeirra hagsmuni. Það eru mörg einstök verkalýðsfélög í landinu miklu stærri en Sjómannafélag Reykjavíkur. Síðan þessi I. voru setl, hafa verið mynduð ýmis sérsamtök innan A.S.Í. og einnig annarra starfsgreina, sem eru miklu fjölmennari, þ. á m. t.d. samtök, sem heita Sjómannasamband Íslands. Það væri þó vissulega nær lagi, ef sjómannastéttin á að eiga þarna fulltrúa. að það væri Sjómannasamband Íslands, sem tilnefndi slíkan fulltrúa heldur en Sjómannafélag Reykjavíkur.

Landssamtök iðnaðarmanna eru samtök af allt öðru tagi en Sjómannafélag Reykjavíkur og A.S.Í. Það eru raunverulega atvinnurekendasamtök, en engin almenn hagsmunasamtök launþega eða neytendasamtök. Þessi skipan mála mun upphaflega hafa verið þannig tilkomin, að nauðsyn þótti á því að fá pólitískt jafnvægi í svona n., en sem frambúðarskipan hlýtur hún að teljast ákaflega óeðlileg, miðað við núv. aðstæður, ef á annað borð á að fylgja þeirri reglu, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og algerlega órökrétt að skipa þessum málum á þann veg, sem gert er, jafnvel þó að menn væru inn á því út af fyrir sig, að neytendur og framleiðendur ættu að semja um búvöruverð. Ég held t.d., að það væri miklu nær lagi, að opinberir starfsmenn kæmu þarna fram sem aðili en eitt einslakt félag í A.S.Í. Það verður því að telja, að val þessara aðila sé raunverulega hinn furðulegasti samsetningur og algerlega órökrétt út frá þeim sjónarmiðum, sem annars er talíð að eigi að gilda um skipan þessara mála. Það fer svo heldur ekki fram hjá neinum, að samkv. þessu frv. verður nú mögulegt að ákveða búvöruverð í Sexmannanefnd t.d. án þess að A.S.Í. sé þeim úrskurði samþykkt og það væri hægt, þó að bæði A.S.Í. og Sjómannafélag Reykjavíkur væru andstæð þeim úrskurði, sem um væri að ræða. Það væri sem sagt hægt að ákveða búvöruverðið með fulltrúum frá Stéttarsambandi bænda. Framleiðsluráði landbúnaðarins og einum atvinnurekendasamtökum í landinu, og sjá þá allir, hve vald neytenda er mikið til að ákvarða um þessi mál samkv. lögunum. En ef ekki næst slíkur meiri hl. í n., t.d. með því að ákveða verðið með fulltrúum framleiðenda og eins eða fleiri af fulltrúum neytenda, tekur — ja, ég vil segja annar gerðardómur við, því að Sexmannanefndin, eins og hún er orðin nú, ákveðin með 6. gr. l., er raunverulega orðin gerðardómur, þó að hægt sé að áfrýja úrskurði hennar undir vissum kringumstæðum, geti málið farið til annars gerðardóms samkv. 9. gr. frv.

Niðurstaða mín er því sú af þessum hugleiðingum, að þetta kerfi, sem nú er verið að reyna að koma upp og gera virkt undir öllum kringumstæðum, sé órökrétt. Þó að gengið væri út frá því sem grundvallarreglu, að bændur og neytendur ættu að semja um verðlagningu búvöru, væri þessi aðferð, sem hér er viðhöfð, algerlega órökrétt. Hitt er svo auðvitað annað mál, að löggjafinn getur ekki fyrirskipað samstarf eða aðild, sem ekki er grundvöllur fyrir hjá þeim aðilum, sem um er að ræða. Hann getur ekki fyrirskipað tveimur aðilum eða fleiri í landinu að semja um hluti, sem þeir telja sig ekki bæra til að semja um eða ekki rétt, að þeir semji um, og þetta er í raun og veru viðurkennt með þeim nýju ákvæðum, sem nú eru sett inn í 6. gr. frv., því að ef aðilarnir, sem þarna er um að ræða, nota ekki tilnefningarrétt sinn, stendur raunverulega aðeins eftir stjórnskipaður gerðardómur.

Það eina, sem nú liggur fyrir um afstöðu þeirra samtaka, sem hér eiga hlut að máli, er afstaða A.S.Í. frá því á s.l. sumri, og mér vitanlega hefur hún ekki breytzt, en frá þeirri afstöðu er greint ítarlega hér á bls. 16 í grg. með frv., og læt ég mér nægja í aðalatriðum að vísa til þess. En helztu ástæðurnar, sem A.S.Í. færir hér fram fyrir því, að það sæi sér ekki fært að taka lengur þátt í störfum Sexmannanefndarinnar, voru í fyrsta lagi þær, að það felldi, að Sexmannanefnd gæti ekki haft nein áhrif á þann þátt efnahagsmálanna, sem mestu réði um endanlegt verðlag á landbúnaðarvöru, en að undanförnu og eins og nú stæði væri það fyrst og fremst verðbólgustefna núv. stjórnarvalda, sem hefði þar mest um að segja. Í öðru lagi væri högum bænda svo komið, að því færi víðs fjarri, að unnt væri á réttlátan hátt að leysa ýmis brýnustu vandamál þeirra og sízt af öllu smærri bænda með verðlagningu landbúnaðarvara einni saman, en Sexmannanefnd hefði ekkert vald til að fjalla um stefnuna í landbúnaðarmálum í heild sinni. Ég ræði þetta ekki frekar. Þessi afstaða A. S. Í. liggur fyrir í einstökum atriðum, og af henni má ráða það, að það muni ekki nota rétt sinn til tilnefningar í þessa n., þegar hún tekur til starfa.

Það er svo annar þáttur þessa máls, hvernig það viðmiðunarkerfi, sem hér er lagt til grundvallar, hefur gefizt á undanförnum árum. Og ég vil segja það, að af mínum kynnum af kjaramálum verkamanna hefur þetta viðmiðunarkerfi gefizt illa og almennt gefizt illa sú regla að reyna að gera kjör verkamanna í landinu, lægst launuðu stéttar þjóðfélagsins, að eins konar almennum viðmiðunar- og vísitölugrundvelli, sem allt annað í landinu hreyfist eftir, þannig að þessi lægst launaða stétt þjóðfélagsins gæti raunverulega aldrei hreyft kjör sín öðruvísi en það hefði hinar víðtækustu afleiðingar á kjör annarra stétta og almennar verðhækkanir í landinu. Ég held, að þetta almenna viðmiðunarkerfi hafi verið á síðari árum einn versti þrándur í götu fyrir almennum kjarabótum verkamanna í landinu. Og ég segi fyrir mitt leyti, að ég mun nota hvert tækifæri bæði nú og síðar til þess að höggva á þetta viðmiðunarkerfi eins og unnt er, þannig að það skapist fyrir því möguleikar, að verkamannastéttin í landinu geti bætt kjör sín alveg án tillits til þess, hvað gerist hjá öðrum stéttum, enda fæ ég ekki séð, að einstakar kjarabætur verkamanna þurfi undir öllum kringumstæðum a.m.k. að verða almennur viðmiðunargrundvöllur. Hitt er svo auðvitað alveg rétt, að ef sá viðmiðunargrundvöllur, sem hér er gert ráð fyrir varðandi bændastéttina, er lagður niður, þarf eitthvað annað að koma til, sem geti tryggt bændum viðunandi lífskjör og viðunandi stöðu til þess að ná fram sínum kjaramálum. Að mínum dómi er lausnin sú að veita bændum fullt samningsfrelsi um sín kjör, og þetta sjónarmið er auðvitað það eðlilega sjónarmið af hálfu verkalýðssamtakanna, sem sjálf hafa fullkomið samningsfrelsi um sín kjör, ekki aðeins samningsrétt, heldur einnig verkfallsrétt og þannig beitt vopn í hendi til þess að geta náð sínum málum fram, og það er því eðlilegt, að við viljum ekki heldur synja bændastéttinni um þennan rétt og selja hennar kjör undir úrskurð gerðardóms, tilviljunarkennds gerðardóms. Það má að vísu segja, að fullt samningsfrelsi bænda og hins vegar verkfallsréttur verkalýðssamtakanna sé ekki sambærilegt að öllu leyti, og það er alveg rétt. Þess vegna álít ég, að þyrfti enn að styrkja stöðu bænda til ákvörðunar um hæði búvöruverð og annað, sem höfuðmáli skiptir fyrir hagsmuni þeirra, og mér sýnist, að það kæmi vel til greina að fara þá leið, sem fulltrúi A.S.Í. í sjö manna n. ríkisstj. lagði til, Hannibal Valdimarsson, að veita bændum rétt til einhliða ákvörðunar um verðlagningu búvara sinna, ef samkomulag næst ekki í samningum við ríkisstj. Þetta þyrfti þó vafalaust að verða skilyrðum og reglum bundið, sem nokkur trygging fælist í, að þetta væri ekki misnotað. En ég vil segja það, að ég treysti bændum flestum eða jafnvel öllum stéttum í þjóðfélaginu betur til þess að fara hófsamlega með slíkt frelsi og slíkan rétt. Ég álít, að bændur séu sú stétt í þjóðfélaginu, sem er e.t.v. mest hagfræðilega hugsandi, og ég vantreysti þeim ekki til þess að nota á hófsamlegan hátt vald, sem þeim væri gefið, bæði varðandi samningsfrelsið og jafnvel þó að væri til einhliða ákvörðunar um búvöruverð undir vissum kringumstæðum.

Þá vaknar að sjálfsögðu sú spurning, þegar um það er rætt að veita bændum samningsfrelsi og jafnvel rétt til þess undir vissum kringumstæðum að ákveða einhliða búvöruverð, hver sé hinn eðlilegi viðsemjandi bændastéttarinnar. Ég svara því hiklaust fyrir mitt leyti, að ég tel, að það sé ríkisvaldið. Það liggur í raun og veru í augum uppi, að öll þjóðin er neytendur. Það er ekki aðeins ein stétt manna í þjóðfélaginu, það er ekki aðeins verkalýðsstéttin eða iðnaðarmenn eða sjómenn, sem eru neytendur, þáð er öll þjóðin, sem er neytendur, og ég get ekki séð neinn þann aðila, sem gæti komið fram gagnvart bændum sem fulltrúi þessara almennu hagsmuna. Ég vil einnig nefna atvinnurekendur í því sambandi. Þeir hafa kannske ekki hvað minnstra hagsmuna að gæta og raunar undir mörgum kringumstæðum meiri hagsmuna að gæta en verkalýðsstéttin, því að hækkað búvöruverð leiðir auðvitað til þess, að frekari kröfur verða gerðar á hendur atvinnurekstrinum í landinu, og undir flestum kringumstæðum hvílir það á atvinnurekstrinum að borga hækkanir á búvöruverðinu. Við höfum okkar vísitölukerfi á almenn laun, og þó að það kannske bæti okkur ekki undir öllum kringumstæðum að fullu verðhækkanir, sem verða, hvorki á landbúnaðarvörum né öðru, verður það þó að segjast, að það gerir það í aðalatriðum. Og slíkt lendir á atvinnurekendum í landinu, en ekki á verkamönnum. Hagsmunir um búvöruverðið eru þess vegna miklu víðtækari en svo, að þeir geti verið bundnir við ákveðna hópa eins og Landssamband iðnaðarmanna eða Sjómannafélag Reykjavíkur. Og hér er alls ekki með þessum l. lagður grundvöllur að því að mynda neina þá representation, sem sé fullnægjandi fyrir þá höfuðhagsmunahópa, sem eiga réttar að gæta í sambandi við búvöruverð. Ég álít líka eðlilegt, að ríkisvaldið semji við bændastéttina af annarri ástæðu, og hún er sú, sem kemur fram í áliti fulltrúa A.S.Í. í sjö manna n., að fleira þurfi að athuga, þegar kjaramál bænda eru skoðuð, heldur en verðlagningu á búvörum einum. Það eru vissulega orð í tíma töluð, að það er ekki það eina, sem kemur til greina, þegar hin raunverulegu lífskjör bændastéttarinnar eru ákveðin. Það má nefna hluti, sem mjög hafa verið um talaðir, eins og uppbætur bæði á útflutning landbúnaðarvara og á sölu landbúnaðarvara innanlands. Það má nefna ýmsar aðrar ráðstafanir í hagsmunamálum bænda, eins og stofnlán, vexti, tolla á tækjum og lán til húsbygginga og ýmislegt fleira, sem skiptir auðvitað engu minna máli fyrir bændur en sjálft verðlagið á vörunum. Og um slíka hluti getur bændastéttin ekki samið við neinn nema ríkisvaldið, og ég held, að það sé eðlilegt, að um leið og búvöruverðið er ákveðið, sé litið á þessa hluti líka, en ekki þeir settir til þess að semja um búvöruverðið við bændur, sem ekkert vald hafa í þessum efnum og engan vanda geta leyst í þeim efnum. Ég held þess vegna, að núv. fyrirkomulag hljóti að beina hugsun bænda í sambandi við hagsmunamál sín óeðlilega mikið inn á verðlagninguna sjálfa og skapi tilhneigingar til þess jafnvel að strekkja þar á meira en ástæða væri til, ef unnt væri að fá bætur á ýmsum örðum sviðum, sem gætu haldið verði landbúnaðarvara niðri, en þó tryggt bændum fulla og réttláta hlutdeild í þjóðartekjum og sæmilega afkomu.

Ég held, að það sé þess vegna fullkomlega rétt sjónarmið, sem A.S.Í. hefur látið í ljós, að það er ríkisvaldið fyrst og fremst, sem ræður úrslitum um, hvaða kjör bændastéttin á raunverulega við að búa, en slíkt geti ekki verið nema að litlu leyti á valdi neytendanna í landinu og þess vegna sé raunhæfast fyrir bændur að semja við ríkisvaldið. Ég hef raunverulega ekki heyrt nema ein rök gegn því, að þessi háttur væri hafður á hér á landi, eins og er í mjög mörgum eða flestum löndum að meira eða minna leyti, og það eru þau rök, sem hæstv. landbrh. færði hér fram, þegar hann mælti fyrir þessu frv., að ríkið væri of sterkur samningsaðili. Þetta væri slæmt fyrir bændur, vegna þess að ríkið væri of sterkur samningsaðili, það væri samningsaðili, sem þeir gætu ekki ráðið við, og manni skildist, að það væri þess vegna mikið hagsmunaatriði fyrir bændur að losna við slíkan viðsemjanda og fá annan veikari í staðinn, sem væri verkalýðssamtökin í landinu. Ég verð nú að segja það, að mér þótti þetta svolítið broslegar kenningar, ekki sízt af því, að ég tel víst, að hæstv. ráðh. mundi a.m.k. nú um sinn ráða mestu um afstöðuna, ef hann ætti að semja við bændur um búvöruverðið og aðra þá hluti, sem mestu skipta fyrir þeirra kjör. Og ég verð að segja, að mér finnst þetta vera ranglátt gagnvart honum sjálfum. Ég veit, að hann hefur margt gott gert fyrir bændastéttina í landinu, og ég er engan veginn á því, að hann yrði svo illur viðskiptis í samningum við bændur, eins og hann vill vera láta. Þó að það yrði einhver breyt. á og við skulum segja t.d., að hv. 1. þm. Vesturl. tæki við embætti hans, sem ég teldi nú einna líklegast, ef þar yrðu mannaskipti, þá mundi ég ekki síður treysta honum til þess að taka sæmilegt tillit til hagsmuna bænda og leysa þessi mál með réttlátum hætti.

En undir þann leka, að ríkisvaldið yrði óskammfeilið í þessum efnum, vil ég þó setja með því að taka það a.m.k. til rækilegrar athugunar, hvort ekki væri rétt, undir þeim kringumstæðum að ekki næðist samkomulag við þessa ágætu fulltrúa bændastéttárinnar, bæði þá sem nú skipa sæti landbrh. og aðra, sem líklegir væru til að gera það, að það verði a.m.k. athugað, hvort heimila ætti bændum að ákveða einhliða búvöruverðið, t.d. með kvalifileruðum meiri hl. við almenna atkvgr. Og eins og ég sagði áðan, mundi ég ekki vantreysta bændum til þess að nota þann rétt hóflega. Og ef þeir brygðu út af því, held ég að ríkisvaldið hefði líka nokkur tromp á hendinni til þess að stemma stigu við því. Nei, ég held, að það liggi alveg ljóst fyrir í þessu máli, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. landbrh. eru ekki að flytja þessar breyt. á þessum I. vegna þess, að það sé ekki í raun og veru eðlilegt, að bændur hafi fullan samningsrétt og það sé raunhæfast, að þeir semji við ríkisvaldið. Ég veit, að alveg eins og þetta er viðurkennt af samtökum bænda, er þetta áreiðanlega viðurkennt innst inni bæði af hæstv. landbrh. og öðrum, sem um þessi mál hugsa. En ástæðan er önnur. Hún er sú, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. landbrh. eru með þessu frv. að reyna að firra sig ábyrgð, sem ríkisstj. á að réttu lagi að bera, og koma henni yfir á aðra og losna undan þeim vanda, sem þarna vissulega er á ferðum fyrir hvern, sem um þarf að fjalla. Það er verið að hlaupast frá vandanum í staðinn fyrir að taka hann á sig og ýta samtökum verkafólks fram gegn bændum og kjarakröfum þeirra. Við þetta vilja verkalýðssamtökin ekki lengur una og munu ekki una. Ríkisstj. mun fá að skipa sinn fulltrúa í það auða sæti, sem a.m.k. verður í þessari n. af hálfu A.S.Í. Ég hygg, að það sé mál, sem er algerlega gert upp í verkalýðssamtökunum, að þau ætla ekki að taka þann kaleik frá hæstv. ríkisstj. að gerast einhver skömmtunarstjóri um kjör bænda, a.m.k. ekki á meðan málum er skipað svipað og nú er. Það er svo hins vegar hinn mesti misskilningur, að með þessari afstöðu sé A.S.Í. að fara með einhverjum ófriði gegn bændum, eins og mér skildist á hæstv. landbrh. hér við 1. umr. þessa máls. Hann sagði, að það væri betra að hafa samstarf um hlutina heldur en að fara með ófriði um þessi mál. Það er vissulega rétt, en ég held, að þetta fyrirkomulag, sem nú er verið að koma upp eða endurvekja, að reyna að ýta þarna saman sem mótsettum aðilum annars vegar verkalýðssamtökunum og hins vegar bændasamtökunum, það sé einmitt til þess fallið að efla úlfúð og efna til ófriðar um þessi mál og milli þessara stétta, en á því tel ég sízt vera þörf. Ég held þvert á móti, að fullt frelsi beggja samtakanna til að semja um sín kjör við rétta aðila mundi færa þessar stéttir saman og gera þeim ljósari heldur en áður þau sameiginlegu hagsmunamál, sem þessar stéttir raunverulega hafa, en þau hagsmunamál eru vissulega mörg. Ég vil segja það undir lokin, að meðal þeirra hagsmunamála er það, að til sé tiltölulega vel sett bændastétt, sem rekur góð bú með nýjustu tækni, og slíkt sé ekki aðeins hagsmunaatriði fyrir verkalýðsstéttina, heldur fyrir alla vinnandi menn í landinu og fyrir þjóðfélagið í heild sinni. Og ég vil líka taka það fram, að ég tek ekki undir söng þeirra manna, sem álíta, að 200 millj. í útflutningsuppbótum sé vandinn, efnahagslegi vandinn í okkar þjóðfélagi. Eins og sakir standa a.m.k., meðan þær upphæðir vaxa ekki stórlega, vil ég segja það, að þeim peningum er ekki illa varið til þess að halda uppi fullri framleiðslu, nægilegri landhúnaðarframleiðslu í landinu og til þess að halda niðri raunverulegu verðlagi til neytenda í landinu.

Ég vil svo aðeins segja það til enn frekari áréttingar orðum mínum, að það hefur komið fram, eins og sést m.a. hér á bls. 16 í grg., að bændur sjálfir vilja fullan samningsrétt og hafa ekkert á móti ríkisvaldinu sem viðsemjanda. Það sýnir samþykkt fulltrúafundar Stéttarsambands bænda, sem haldinn var núna á s.l. vetri. Það styður svo enn þá afstöðu, sem ég hef til þessa máls, að slíkt kerfi, sem hér er um að ræða, er algerlega óþekkt með öðrum þjóðum og hefur ekki, svo vitað sé, verið reyni neins staðar annars staðar. En hins vegar er algengt, eins og ég áður sagði, að ríkið eigi beina aðild að samningum við bændur um búvöruverð og kjör þeirra almennt.

Að lokum vil ég svo segja það, að með þeim skamma tíma, sem er til rækilegrar athugunar á þessu máli, sem hér ræðir um, er auðvitað ekki hugsanlegt að framkvæma nú á þessu þingi þá lagasmíði, sem nauðsynleg væri, ef taka ætti hér upp nýja háttu í sambandi við meðferð þessara mála. Þess vegna legg ég til, að málinu verði visað frá með rökstuddri dagskrá, sem felur það í sér, að ríkisstj. sé falið að undirbúa fyrir næsta reglulegt Alþ., í samráði við samtök bænda, lagafrv., sem tryggi bændastéttinni fullan samningsrétt gagnvart ríkisvaldinu um kjör sín og án nokkurra gerðardómsákvæða, en leiti hins vegar samkomulags um búvöruverðið, þangað til Alþ. hefur fjallað frekar um þetta mál að nauðsynlegum undirbúningi loknum.