23.04.1966
Efri deild: 69. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2240 í B-deild Alþingistíðinda. (1458)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði, sem gefur mér tilefni til þess að segja hér örfá orð, eitt atriði úr ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e., þegar hann ræddi um 5. gr. frv., sem er breyt. við 4. gr. framleiðsluráðsl. Hv. þm. vildi ekki skilja það, að bændur hefðu með fúsum vilja gengið inn á þessa breytingu, taldi, að í grg. mundi felast kjaraskerðing fyrir bændur. Hér við 1. umr. málsins tók ég það fram, að það væri eðlilegast að vera ekkert með fullyrðingar um það, hvort þessi gr., eins og hún nú er orðuð, yrði til hagsmuna og bóta fyrir bændur. Reynslan sker úr því. Hitt er víst, að bændur gengu inn á þetta af fúsum vilja, og ég get sagt hvers vegna þeir gerðu það. Þeir telja, að það sé lítils virði fyrir þá að miða við aflahlut sjómanna. Þeir telja, að það gæti komið sá tími, að það væri einnig lítils virði fyrir þá að miða við uppmælingartaxta iðnaðarmanna, og þeir telja, að það sé þýðingarmest fyrir þá að fá viðurkennda í verðgrundvellinum útgjaldaliði við meðalbúið, bæði hvað rekstrarvörur snertir og eins að fá viðurkenndan þann vinnutíma, sem er í meðalbúinu. Og þeir telja þess vegna mikils virði að fá það inn í l., að það skuli tekið tillit til skylduliðs og hjúa og umsaminna fríðinda. Það er þetta, sem þeir telja vera mikils virði og sérstaklega með því, að í 12. gr. frv. er gert ráð fyrir, að Búreikningaskrifstofan og Hagstofan gefi upplýsingar um það, hver hin raunverulega vinna við meðalbúið er, en í því skyni verður að efla Búreikningaskrifstofuna, og í því skyni þurfa að fara fram víðtækar athuganir og rannsóknir á því, hver vinnan er við meðalbúið. Þetta er vitanlega það sanngjarna, og þetta er það eðlilega, hvort sem hugsað er um hagsmuni neytandans eða framleiðandans. Það hefur verið togstreita um þessi atriði í Sexmannanefnd, en það hefur vantað hinn raunhæfa og skýra grundvöll til þess að byggja á. Nú er meiningin að fá þennan grundvöll í hendurnar, svo að hægt sé að láta tölurnar tala. Og þess vegna er ekki tímabært nú að fullyrða neitt um það, hvort greinin, eins og hún nú er orðuð, er sérstaklega til hagsmuna fyrir bændur með því að gera verðið á búvörunni hærra en það annars hefði orðið eða til þess að lækka það. Ég leiði alveg hjá mér að vera með nokkrar fullyrðingar í þessu efni nú. En hitt er eðlilegt, að það sé minnzt á, að nú er í verðgrundvelli búvörunnar reiknað með 21 þús. og 600 kr. sem aðkeyptri vinnu til búsins umfram það, sem bóndinn einn getur leyst af hendi. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, og það kemur fram í þessu frv. sú meginhugsun að ná því rétta fram og halda samstarfi áfram milli neytenda og framleiðenda. Bændur hafa gert samþykkt um það að hafa samningsrétt, og þeir telja sig hafa fengið hann með þessu. Og það er rétt, sem hv. 4. landsk. sagði hér áðan. Bændur vilja heldur semja við neytendur en við ríkisstj. Það hefur komið fram á fundum bænda, að þeir vilja ekki semja við ríkisstj. Og bændur kæra sig ekki heldur um þetta mikla frelsi, sem forseti A.S.Í. og hv. 4. þm. Norðurl. e. vilja gefa þeim, að gefa þeim fullt frelsi til þess að ákveða vöruverðið. Ef aðeins 50% af bændum taka þátt í atkvgr. og 75% af þeim, sem taka þátt í atkvgr., samþykkja verðið, skal það verð gilda. Vissulega er líkingin rétt, sem hv. 4. landsk. viðhafði hér áðan, að þetta væri það sama og að gefa verkalýðsfélögunum rétt til þess að ákveða kauptaxtann, ef ekki næst samkomulag við vinnuveitendur. Ég held, að þetta væri of mikið frelsi fyrir bændurna, og ég held, að það væri ekki heldur hollt frelsi fyrir launþegasamtökin, ef þetta ætti að fara eins og það virðist.

Ég vil svo, herra forseti, þakka meiri hl. hv. landbn. fyrir fljóta afgreiðslu á málinu. Þær breytingar, sem eru tilfærðar, eru nánast leiðréttingar og þurfa ekki skýringa við.