23.04.1966
Efri deild: 69. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2242 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég átti, eins og hv. þdm. er kunnugt, sæti í n. þeirri, sem undirbjó frv. það, sem hér liggur fyrir, og var formaður n., og vil ég því nota þetta tækifæri til þess að þakka hæstv. landbrh. og enn fremur hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB) fyrir vinsamleg ummæli í garð minn og meðnm. minna.

Þó að margt mætti um þessi mál segja, skal ég samt vegna aðstæðna hér á hv. Alþ. ekki lengja þessar umr. að neinu marki. Eins og hv. þdm. er kunnugt, náðist því miður ekki fullkomið samkomulag í n. Einn nm., hv. forseti A.S.Í., skilaði séráliti, þar sem hann gat ekki á það fallizt, að sexmannanefndarkerfið væri heppilegt fyrirkomulag þessara mála. Þó að ég álíti þær till., sem hann lagði fram, ekki raunhæfar, er ég honum samt þakklátur fyrir samstarfið í n. Það var í sjálfu sér ánægjulegt, og ég álít, að þær till., sem hann lagði fram, gefi ranga mynd af þætti hans í störfum n., því að margar skynsamlegar till. og ábendingar komu fram frá honum, og störf n. hefðu orðið risminni, ef hann hefði ekki tekið þátt í þeim. Að öðru leyti fjölyrði ég ekki um störfin í n. En það, sem ég vildi aðeins drepa á, voru tvö atriði í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e., sem mér fannst á nokkrum misskilningi byggð.

Hann talaði í fyrsta lagi um það, að bændur mundu verða verr settir en áður, vegna þess að þeir hefðu gengið inn á þær breytingar á 4. gr. framleiðsluráðsl., sem fyrir liggja í þessu frv., að ekki skuli miðað við aflahlut og ákvæðisvinnu. Hann tjáði sig í rauninni samþykkan því, að ekki væri miðað við aflahlutinn, og ég tek fyllilega undir það, að bændur hafa sýnt víðsýni með því að ganga inn á þá breyt. því að undanförnu hefur það verið þannig, að þessi viðmiðun við aflahlutinn hefur hækkað búvöruverðið. Annað mál er það og það hafa fulltrúar bændanna gert sér fullkomlega ljóst, að engin trygging er auðvitað fyrir því, að aflamet verði sett á hverju ári, eins og verið hefur undanfarin ár, þannig að það getur jafnt orðið þeim í óhag og í hag í framtiðinni, að við þetta sé miðað. Enn fremur hefur það sætt mikilli gagnrýni meðal almennings, að við aflahlutinn sé miðað, og þá gagnrýni má að ýmsu leyti telja eðlilega, og ég tel það fulltrúum bændanna til mikils sóma að hafa sýnt skilning á þessu máli. Hins vegar ber að gæta þess, að þegar fulltrúar bændanna ganga inn á þetta, fá þeir nokkuð í aðra hönd, sem þeir telja sér mikils virði. Af fulltrúum bændanna hefur því verið haldið fram, — ég skal ekki dæma um það, að hve miklu leyti það er rétt eða rangt, ég hef ekki kynnt mér það nægilega vel, — að vinnutími bændanna væri mjög vanmetinn í verðlagsgrundvelli búvöru. Hér fæst full viðurkenning á því, að miðað skuli víð svipaðan vinnutíma, en það var einmitt eitt af deiluatriðunum í sambandi við brbl. frá síðasta hausti, að ekki væri tekið fullt tillit til vinnutímastyttingarinnar. Og hitt tel ég á misskilningi byggt hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., að það hafi verið sérstök fórn fyrir bændurna, að fram skuli tekið, að ekki skuli miðað við ákvæðisvinnu, því að raunin er sú, eins og líka kom fram í ræðu hv. 4. landsk.; að séð frá sjónarmiði hins einstaka bónda er hér um ákvæðisvinnu að ræða. Kaup hans er miðað við samsvarandi vinnutíma hjá viðmiðunarstéttunum, en sé hann duglegur, afkastar hann meiru og fær því meira kaup. Það má sepja, að frá sjónarmiði heildarinnar horfir þetta að vísu öðruvísi við, en að mínu áliti má í rauninni segja það sama um launþega, sem hafa ákvæðisvinnutaxta. Ákvæðisvinnutaxtinn er ákvarðaður eða því er a.m.k. haldið fram af launþegunum sjálfum með hliðsjón af því tímakaupi, sem gildir hverju sinni, en skapar möguleika á því fyrir hvern einstakan að velja ákvæðisvinnutaxtann og fá þannig hærra kaup, ef hann er afkastamikill. Fyrst sá háttur var tekinn upp að miða hér við sama vinnutíma, hefði það verið algerlega órökrænt að miða áfram við ákvæðisvinnu. Það var e.t.v. eðlilegt miðað við það fyrirkomulag, sem áður var, þegar launaúrtak o.s.frv. var lagt til grundvallar, en ekki eftir að þetta nýja fyrirkomulag var tekið upp. Ég tek fyllilega undir það með hæstv. landbrh., að auðvitað verður það reynslan ein, sem úr því sker, hvernig þetta dæmi kemur út. En líkurnar finnst mér fyrir fram sízt minni á því, að þetta verði bændunum í hag heldur en í óhag, og undir öllum kringumstæðum er hér um eðlilega viðmiðun að ræða.

Annað atriði í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e., sem ég vildi aðeins gera að umtalsefni, er það, sem kemur fram í álitsgerð hans og till. um hinn svokallaða fullkomna samningsrétt handa bændum, sem raunar er ekki nánar skilgreint, en það er talað um framleiðslustöðvunarrétt í því sambandi. Þetta var mjög ýtarlega rætt einmitt í landbn., því að einstaka raddir höfðu komið frá bændum um það, að þeir ættu að hafa heimild til þess að stöðva sölu á landbúnaðarvörum. En hér er í rauninni um að ræða mjög ósambærilegan hlut við verkfallsrétt launþega, sem m.a. stendur í sambandi við það, að bændur eru nú einu sinni atvinnurekendur með atvinnurekendaaðstöðu, en ekki launþegar og það fyrsta, sem nefna má í þessu sambandi, er að ég þekki þess yfirleitt engin dæmi, hvorki í íslenzkri löggjöf né erlendri, að þar sem ríkisvaldið fjallar. um verðlagsmál, þá heimili það þeim aðila, sem það semur við um verðlag, eða þar sem það úrskurðar verðlag, framleiðslu — eða sölustöðvunarrétt. Ef þessi háttur væri upp tekinn, mundu þá ekki kjötkaupmennirnir segja: Hvers vegna fáum við ekki að stöðva vörudreifinguna, ef semst ekki við okkur um álagningu? Mundu ekki aðrir kaupmenn segja það sama, iðnrekendur o.s.frv.? Ef inn á þetta væri gengið, mundi það í rauninni gera öli verðlagsákvæði óraunhæf, en það hefur hingað til ekki verið stefna verkalýðssamtakanna að vinna að slíku.

Í öðru lagi má á það benda, að þegar um verkföll er að ræða gegn atvinnurekendum, þá er verkfallinu beint gegn gagnaðilanum, þannig að þegar stofnað er til verkfalls, veldur það atvinnurekendum sjálfum tjóni o.s.frv. Sölustöðvun af hálfu bænda mundi hins vegar algerlega bitna á þriðja aðila eða heimilum almennings.

Í þriðja lagi má á það benda, að nú er kvartað nokkuð undan því af hálfu bænda, að töluvert smygl eigi sér stað með landbúnaðarvörur, bæði með flugvélum og skipum. Hver mundu viðhorfin verða í þeim efnum, ef sala á búvörum væri stöðvuð? Er sýnilegt, hver hætta mundi af því stafa fyrir bændurna, og sá aðilinn, sem ætti þá að hjálpa þar upp á sakirnar, setja strangari gæzlu við innflutning búvöru, væri einmitt sá aðilinn, sem framleiðslustöðvuninni væri beint gegn, eða ríkisvaldið. Hér er um algerlega vanhugsaða lausn að ræða að mínu áliti. Það hygg ég raunar, að öllum þeim, sem sæti áttu í landbn., hafi verið ljóst, því að ég minnist þess ekki, að þetta atriði sé rætt í séráliti forseta A.S.Í.

Ég vildi að lokum aðeins minnast á útflutningsuppbæturnar. Í rauninni er ég alveg sammála hv. 4. landsk. um það, að framleiðsla búvöru til útflutnings er framleiðsla, sem þjóðfélaginu er óhagkvæm og æskilegt, að gerðar séu ráðstafanir til þess að draga úr henni. En hins vegar verðum við að gera okkur ljóst, að á því eru mörg vandkvæði. Það mál þarf allt miklu ýtarlegri athugunar en svo, að hún verði framkvæmd á mjög skömmum tíma. Í fyrsta lagi má á það benda, eins og hæstv. landbrh. vakti réttilega athygli á í framsöguræðu sinni við 1. umr. málsins, að að öllu öðru óbreyttu mundi lækkun útflutningsuppbótanna geta þýtt verulega hækkun á verðinu innanlands. Það yrði að búa svo um hnútana, að í fyrsta lagi þyrfti slíkt ekki að verða, og hins vegar má vekja athygli á því, að útflutningsuppbæturnar eiga hlutverki að gegna, nefnilega því hlutverki að tryggja, að framboð nauðsynlegrar búvöru eins og mjólkur og kjöts verði nægilegt á hverjum tíma. Vegna árferðis verða alltaf í þessu töluverðar sveiflur, þannig að í góðu árferði verður framleiðslan umfram það, sem heimamarkaður þarf, en í löku árferði minni, þannig að útflutningsuppbæturnar má þannig skoða sem eins konar iðgjald, sem neytendurnir greiða til þess að tryggja hér nægilegt framboð búvöru á hverjum tíma. Um hitt má auðvitað deila, hvort þarna eigi að miða við 10% eða eitthvað annað.

Að síðustu, þó að auðvitað beri að því að vinna, að framleiðsluafköst þjóðarbúsins séu sem mest á þessum sviðum eins og öðrum, þá má nú benda á það, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. raunar gerði, að hér er ekki um svo stórar upphæðir að ræða, að þjóðarbúið í rauninni falli og standi með þeim, því að allar útflutningsuppbæturnar nema nú þó ekki nema 1% af verðmæti þjóðarframleiðslunnar.