25.04.1966
Neðri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2246 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, varð Sexmannanefnd óvirk á s.l. hausti, með því að A.S.Í. neitaði að tilnefna mann í n. Afleiðingin varð sú, að ríkisstj. varð að grípa til þeirra ráða að gefa út brbl., til þess að verðlag fengist á búvörur á s.l. hausti. Hv. þm. þekkja þá sögu. En um leið og þetta gerðist, lýsti ríkisstj. því yfir, að hún vildi stuðla að því, að samstarf framleiðenda og neytenda yrði endurnýjað. Í því skyni var skipuð sjö manna n., 3 fulltrúar frá bændum og 3 frá neytendum. Bændafulltrúarnir voru þeir sömu, sem höfðu átt sæti í Sexmannanefnd, en frá neytendanna hálfu var forseti A.S.Í., hv. 5. þm. Vestf., frá Landssambandi iðnaðarmanna Ottó Schopka og frá Sjómannafélagi Reykjavíkur Sæmundur Ólafsson. Sérstaklega skipaður af ríkisstj. var prófessor Ólafur Björnsson, sem var formaður n. N. hélt marga fundi um þetta mál og reyndist forusta prófessors Ólafs farsæl, og hef ég heyrt nm., ég held alla, hrósa því, að hann hafi tekið verkefnið alvarlega, og efar það enginn, að í n. var unnið vel og áhugi margra þar á því að ná samkomulagi. Niðurstaðan varð sú, að 6 nm. af 7 náðu samkomulagi að mestu leyti, áður en nál. var skilað, en svo siðar að öllu leyti. En einn nm., hv. 5. þm. Vestf., skilaði séráliti og vildi fara aðrar leiðir en meiri hl.

Álit minni hl. er prentað hér með frv. og hafa hv. þm. sennilega kynnt sér það. Hv. minni hl. vildi ekki endurreisa samstarfið milli neytenda og framleiðenda, vildi ekki, að Sexmannanefnd settist aftur á rökstóla til þess að finna út verð á búvörum. Hv. þm. segir í áliti sínu, sem hann mun vitanlega tala um hér á eftir, að hann teldi eðlilegast að tryggja bændum lágmarkskaup miðað við meðaltekjur opinberra starfsmanna. Það vantar nú í þetta að upplýsa, hvort hv. þm. á við heildartekjur opinberra starfsmanna eða bændur fái hlutfallslega sama tímakaup og opinberir starfsmenn. Það væri vitanlega fróðlegt að fá upplýsingar um það. Hv. þm. telur einnig eðlilegt, að bændur semji við ríkisstj., en ekki við fulltrúa neytenda, eins og gert hefur verið. Og hv. þm. telur einnig vel koma til greina og það skuli reyndar vera lokastig, ef ekki tekst samkomulag milli ríkisstj. og bænda, að bændur verðleggi sjálfir vöruna. Verðlagningin taki gildi, ef 50% af bændum taka þátt í atkvgr. þar um og 75% af þeim, sem þátt taka í atkvgr., samþykkja það verð, sem sett hefur verið á. Í fljótu bragði sýnist þetta vera ákaflega gott boð fyrir bændur, ef þeir mættu nú gera þetta. En ég held, að bændur kunni ekki að meta þetta ágæta tilboð og óski ekki eftir því að fá þetta frelsi. Ég held líka, að þetta væri ekki gott, hvorki fyrir bændur né þjóðfélagið, og vitanlega væri ekki hægt að gefa bændum þetta frelsi nema þá að gefa fleiri stéttum eitthvað svipað, t.d. verkalýðsfélögunum. Ef ekki næst samkomulag milli verkalýðsfélags, sem fer í kaupdeilu, og vinnuveitenda, ætti verkalýðsfélagið samkv. þessari formúlu að hafa rétt til þess að setja eigin taxta á kaupið.

Meiri hl. sjö manna n. gerði sér grein fyrir því, að þetta væri nú ekki það, sem ætti að koma. Þetta væri ekki hollt, hvorki fyrir hinar einstöku stéttir né þjóðfélagsheildina. Og meiri hl sjö manna n. komst að þeirri niðurstöðu eftir nákvæma athugun og eftir mikil fundahöld, að það fyrirkomulag, sem hefur gilt nú í 20 ár, væri það heppilegasta, að bændurnir og neytendurnir hefðu samstarf og semdu um þessi viðkvæmu mál, sem er verðlagning búvörunnar hverju sinni, og í þau 19 skipti, sem verðlagt hefur verið samkv. þessu kerfi, hefur þó ekki nema 5 sinnum þurft að vísa verðlagningunni til yfirnefndar. Ég er samþykkur meiri hl. sjö manna n. Ég tel, að það sé farsælast, að framleiðendur og neytendur vinni saman og að verðlagning búvörunnar verði ákveðin hverju sinni með þeim hætti, að það sé sem mest í samkomulagsátt, og það er áreiðanlega hvorki bændum né neytendum til hagnaðar, að verðlagningin fari fram með hávaða og án samkomulags.

Ríkisstj. er ekki rétti aðilinn til þess að semja við bændur, og kemur það fram hér í grg. frá meiri hl. sjö manna n., að ríkisstj. er vitanlega sá aðili, sem á að bera hagsmuni beggja jafnt fyrir augum, framleiðenda og neytenda. Ríkisstj. getur ekki fylgt einhliða öðrum aðilanum. Af því leiðir, að hún getur ekki verið samningsaðili með öðrum aðilanum gegn hinum, af því að það er skylda ríkisstj. að hugsa jafnt um báða aðilana.

Það er ekki ástæða til að gera minnihlutaálitið að umtalsefni að þessu sinni, þar sem hv. 5. þm. Vestf., forseti A.S.Í., á sæti hér í þessari hv. d. og gerir vitanlega grein fyrir málinu hér á eftir. Sæmundur Ólafsson átti í fyrstu ekki að fullu samleið með meiri hl. Hann gerði aths. við 4. gr. framleiðsluráðslaganna, sem er viðmiðunin við verðlagninguna, og 12. gr. laganna, í sambandi við ákvæðið um útflutningsuppbæturnar. Um 12. gr. framleiðsluráðslaganna er ekkert í þessu frv. og varð samkomulag um, að það skyldi ekki vera. Seinna, eftir að n. hafði skilað áliti, varð samkomulag á milli Sæmundar og hinna fimm manna í sjö manna n. um það, hvernig 4. gr. framleiðsluráðslaganna skyldi orðuð. Frv. er þess vegna byggt á samkomulagi 6 nm. af 7, og ríkisstj. hefur einnig orðið ásátt um frv. í þeirri mynd, sem það er.

Það er því rétt að gera stutta grein fyrir því, í hverju breyt. frv. eru fólgnar aðallega. Þær virðast ekki vera fyrirferðarmiklar, en þeir, sem gerst mega vita og mest hafa um þetta hugsað, telja, að þær séu til bóta. Samkv. 3. gr. frv. er breyt. við 2. gr. l. um það, að nú skuli heimilt að taka verðmiðlunargjald af innveginni mjólk, en samkv. I. er aðeins heimilt að taka verðmiðlunargjald af seldri mjólk. Framleiðsluráðið hefur óskað eftir þessari breyt. Þá er og gert ráð fyrir því, að heimilt sé að hafa breytilegt útborgunarverð á vissum árstímum, eftir því sem ástæða þykir til, en breyt., sem hér er gert ráð fyrir, að gerð verði í sambandi við mjólkina, er í samræmi við það, sem gildir um kjötið, því að samkv. framleiðsluráðslögunum er heimilt að taka verðmiðlunargjald af innvegnu kjöti. Breyt. þessi er gerð vegna óska framleiðsluráðsins.

Þá er 5. gr. frv., þ.e. við 4. gr. framleiðsluráðslaganna, eins og hún var orðuð, eftir að Sæmundur Ólafsson og meiri hl. n. komu sér endanlega saman um hana, en samkv. 5. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að bændur beri úr býtum ekki minna en iðnaðarmenn, sjómenn og verkamenn, en þó skuli ekki miða við aflahlut sjómanna eða uppmælingataxta. Þá verður gert ráð fyrir því, að tekið skuli tillit til samningsbundinna fríðinda, þegar miðað er við kjör bænda. Nú gætu ýmsir haldið, að það væri stórfórn fyrir bændur, að ekki skuli lengur miða við aflahlut sjómanna eða uppmælingartaxta. Um það ætla ég ekkert að fullyrða á þessu stigi. Ég hygg, að um það sé ákaflega erfitt að dæma. Það má segja, að þegar aflahlutur sjómanna er mjög mikill, t.d. miklar síldveiðar, hafi það áhrif í verðhækkunarátt á búvöruna, en ef aflinn minnkaði og aflahluturinn yrði nú ekki eins stór og kannske lítill, hlyti það einnig að hafa áhrif til lækkunar á búvöruna. Sama máli gegnir vitanlega með ákvæðisvinnu eða uppmælingartaxta. Meðan atvinnan er mikil, gæti þetta haft áhrif til hækkunar á búvörunni. Ef drægi úr atvinnu, gæti vel verið, að það verkaði öfugt. Ég fyrir mitt leyti hef alveg sleppt þessu sjónarmiði og tel, að þarna eigi hvorki að taka áhættu né hagnaðarvon. Það sé óeðlilegt að miða við aflahlut sjómanna, hvort sem hann er stór eða lítill, og það sé í þessu tilfelli einnig óeðlilegt að miða við uppmælingartaxta. það sé miklu eðlilegra að miða við gildandi tímakaup á hverjum tíma, og það er það, sem á að gera samkv. gr., eins og hún er nú orðuð. Bændur hafa haldið því fram, að þeir hafi ekki fengið viðurkennda alla þá vinnu, sem lögð er fram og verður að leggja fram við meðalbú. Hvort það er á rökum byggt hjá bændum, skal ég ekkeri fullyrða um, en þeir hafa haldið því fram, að vinna eiginkonu og skylduliðs og aðkeypt vinna hafi ekki verið tekin til greina að undanförnu nema að sáralitlu leyti. Það er ekki mitt að dæma um það, hvort þeir hafa endilega rétt fyrir sér eða neytendurnir. En nú er meiningin að leggja á borðið gögn, sem sýna, hvað er rétt í þessu efni og með því að efla Búreikningaskrifstofuna og fá nægilega marga rétt reiknaða búreikninga til viðmiðunar, auk aðstoðar Hagstofunnar, á að vera hægt að finna út nákvæmlega. hver er eðlileg vinna við meðalbúið, hvað það eru margar vinnustundir á ári, sem þarf að leggja fram við meðalbúið. Þær vinnustundir eiga bændur að fá reiknaðar inn í verðgrundvöllinn. Erlendis er víða reiknað út, hversu margar vinnustundir þarf á hvern grip yfir árið, hvað þarf margar vinnustundir yfir árið á eina kú, eina kind, eitt svín o.s.frv. Og þessa viðmiðun verður að finna. Og það gerist með því að lögfesta 5. og 12. gr. frv., sem kveða svo á, að Sexmannanefnd eða aðilar úr Sexmannanefnd geti krafizt allra gagna, sem nauðsynleg eru talin til þess að fá þetta upplýst, og með því að efla Búreikningaskrifstofuna og fá nægilega marga búreikninga. Þá á ekki lengur að þurfa að vera að þræta um þessi mál, heldur eiga tölurnar að geta talað og sýnt, hvað rétt er í þessu efni. Og bændur hafa einnig sagt, að þeir hafi ekki fengið inn í verðgrundvöllinn nægilega mikið tillit tekið til kostnaðar við rekstrarvörur og önnur útgjöld, sem meðalbúi tilheyra, en ég tel, að það sé alls ekki tímabært nú, á meðan nægileg gögn liggja ekki fyrir, að vera að þrátta um það, hvort bændur hafi rétt fyrir sér eða rangt. Það sem skiptir máli, er að upplýsa, hvað er rétt í þessu, og það gerist með því að afla gagna og leggja þau á borðið. Og ég er alveg sannfærður um það, að bæði bændur og neytendur sætta sig við þann dóm, sem verður upp kveðinn, eftir að þessi gögn hafa verið fram lögð, því að það er sem betur fer engin þræta um það, að bændum beri að hafa í tekjur ekki minna en viðmiðunarstéttirnar, og það næst ekki nema tekin séu til greina eðlileg og rétt útgjöld við meðalbúið, hæði vinnulaun og annar rekstrarkostnaður.

Þetta er sú breyt., sem gerð verður á 4. gr. framleiðsluráðslaganna, og verður að segja, að greinin er skýrari eins og hún er núna í lögunum, og það er mín ætlan, að það verði hægara að vinna eftir lögunum eftir að þessi breyt. er fengin, ekki sízt með tilliti til þess, að 12. gr. frv. og 8. gr. l. verður breytt til samræmis við 4. gr.

Þá er það 6. gr. frv. eða 5. gr. l. Það er gerð breyt. á henni til þess að tryggja það, að Sexmannanefnd verði hverju sinni starfshæf, þótt einhver aðili, sem rétt hefur til þess að tilnefna mann í n., skorist undan því, og er það vitanlega mikið atriði, og ef þetta ákvæði hefði verið í lögunum á s.l. hausti, hefði ekki komið til þeirra erfiðleika, sem við var að etja þá í sambandi við verðlagninguna.

8. gr. frv. felur í sér það nýmæli, að þar er gert ráð fyrir því, að kaupmannasamtökin eigi fulltrúa á fundum, þegar rætt er um álagningu á búvöru í smásölu. Kaupmannasamtökin óskuðu eftir því að eiga fulltrúa í verðlagsnefnd og hafa atkvæðisrétt um álagninguna, en það þótti ekki fært. Hins vegar er komið til móts við þau með því, að þeim er gefinn kostur á að sitja fundi, þegar um þetta er rætt, og hafa fulltrúar þeirra málfrelsi og tillögurétt á fundunum.

Þá er það 9. gr. frv. Þar er nánar kveðið á um, hvernig skuli fara með málin, ef ekki verður samkomulag í Sexmannanefnd. Náist ekki samkomulag í Sexmannanefnd, er gert ráð fyrir, að málinu verði vísað til sáttasemjara, sem hefur málið til meðferðar á hverjum tíma. Gefist hann upp við málið, þá verður því vísað til yfirnefndar, sem er skipuð þannig, að hvor nefndarhluti tilnefnir mann, þó ekki úr Sexmannanefnd og hæstiréttur skipar formann yfirnefndarinnar. Vilji nefndaraðilar hins vegar ekki skipa menn í n., þá er gert ráð fyrir því, að landbrh. skipi mann fyrir hönd framleiðenda og félmrh. fyrir hönd neytenda, alveg eins og þegar um það er að ræða að skipa fulltrúa í Sexmannanefnd, ef aðilar vilja ekki nota sinn rétt.

Þá er gert ráð fyrir samkv. 11. gr. frv., að frá árinu 1967 gildi verðgrundvöllurinn í tvö ár í staðinn fyrir eitt ár, ef semst um hann, og er það vitanlega til bóta.

12. gr. frv. kveður á um það að efla Búreikningaskrifstofuna og að Sexmannanefnd eða hluti af Sexmannanefnd geti óskað eftir gögnum, sem til þarf, og leggur undirstöðuna að því, að þeirra gagna verði aflað, sem nauðsynleg eru.

16. gr. frv. er ekki samin samkv. áliti meiri hl. sjö manna n., heldur í rn., en hún fjallar um veitingu sláturleyfa, og var henni breytt til þess að gera framkvæmdina auðveldari, og var breyt. borin undir Framleiðsluráð eða fulltrúa Framleiðsluráðs, sem voru henni samþykkir.

Þetta eru þær höfuðbreytingar á framleiðsluráðslögunum, sem í frv. felast, og verði þetta frv. lögfest, sem ástæða er til þess að ætla eftir þeim viðtökum, sem það fékk í Ed., og þar sem ríkisstj. stendur að því og sex fulltrúar af sjö úr sjö manna nefnd, þá er, eins og ég áðan sagði, enginn vafi á því, að stór bót er ráðin á ýmsum þeim ágöllum, sem á framleiðsluráðslögunum eru, og tryggt, að lögin eru framkvæmanleg á hverjum tíma, þótt einhverjir aðilar vilji ekki nota rétt sinn.

Þá er og ein breyt. hér, sem ég hef ekki minnzt á, og hún er sú, að áður þurftu allir í Sexmannanefnd að vera sammála til þess að verð tæki gildi, hver einn maður hafði neitunarvald, en nú hefur þetta neitunarvald verið afnumið, þannig að ef meiri hlutinn samþykkir verðið, nægir það.

Ég tel ekki ástæðu til að ræða um 12. gr. framleiðsluráðslaganna, útflutningsuppbæturnar, þar sem ekkert er um hana í þessu frv. Það er mál út af fyrir sig, og ýmsir lita misjöfnum augum á það, en ég tel aðeins rétt að benda á, að það er ekki unnt að ná því, sem til er ætlazt með framleiðsluráðslögunum, nema að heimila útflutningsuppbætur, a.m.k. að vissu marki, því að annars yrðu bændur að hafa leyfi til að hækka framleiðsluna á innlendum markaði og gera á þann hátt tilraun til að ná upp þeim halla, sem á útflutningnum verður, og það hefur nú verið reiknað út, að til þess að það mætti takast og þá miðað við það, að salan innanlands minnkaði ekki, þyrfti að hækka vöruna innanlands um 24.6%. En vegna þess að hætt er við, að þá minnkaði salan innanlands, og þetta dæmi stæðist þess vegna ekki og að bændur gripu þá jafnvel til þess að hækka enn þá meira þá vöru, sem örugglega selst, mundi það hafa enn alvarlegri áhrif á efnahagskerfið og ríkissjóður þá verða að borga í öðru en útflutningsuppbótum þá upphæð, sem gengur nú til útflutningsuppbóta. En þetta mál er nú ekki beint á dagskrá í sambandi við þetta frv., þar sem gert er ráð fyrir, að 12. gr. framleiðsluráðslaganna verði óbreytt, og því ekki ástæða til þess að fara nánar út í það.

Ég vil að endingu lýsa ánægju minni yfir því, að 6 menn af 7 í n. komu sér saman um þær till., sem þetta frv. er byggt á, og ég tel, að það samkomulag horfi til heilla.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meir um málið að svo stöddu, en vil leggja til, að málinu verði visað til 2. umr. og hv. landbn. að lokinni þessari umr.