25.04.1966
Neðri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2250 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þessi mál, verðlagsmál landbúnaðarins, voru allmikið rædd hér í hv. þd. á s.l. hausti í sambandi við brbl.-frv., sem hæstv. landbrh. gaf út um þau mál á s.l. hausti, þegar samstarf hafði rofnað í Sexmannanefnd við það, að miðstjórn A.S.Í. hafði afturkallað umboð fulltrúa síns í Sexmannanefnd. Við þær umr. kom skýrt í ljós, að ég er andvígur þessu kerfi, þessu verðlagningarkerfi á landbúnaðarafurðum og tel það meingallað á margan hátt og hvorki þjóna hagsmunum bænda né neytenda. En þetta er ekki aðeins mín persónulega skoðun, heldur byggðist afstaða alþýðusambandsstjórnarinnar á samhljóða skoðun miðstjórnarinnar, 6 manna af 9 í miðstjórninni, og sú afstaða var rækilega rökstudd af miðstjórninni í þeirri ályktun, sem gerð var þar um málið, og skal ég víkja örlítið að því síðar.

En í því hléi, sem varð á störfum Alþ. um jólin, skipaði hæstv. landbrh. sjö manna n. til að vinna að endurskoðun I. um framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl., og þessi n. hélt rúmlega 40 fundi og ræddi þessi mál. Það ríkti góður samstarfsandi í þessari n., þrátt fyrir það þó að öllum meðnm. mínum væri ljóst nokkurn veginn í upphafi nefndarstarfs, að ég væri í grundvallaratriðum andvígur þeirra skoðunum, því að það kom fljótt í ljós, þrátt fyrir allt tal fulltrúa bænda á Alþ. og utan Alþ. um það, að þeir hörmuðu alveg sérstaklega að hafa verið sviptir samningsrétti um sin mál, að þeir voru alls ekki á því að vilja samningsrétt um sín mál. Þeir vildu gamla kerfið aftur og ekkert annað, og mér var það fyllilega ljóst, að það var ein meginbreyting, sem þeir vildu gera á þessari löggjöf, og hún var sú að gera sexmannanefndarkerfið ódauðlegt, koma í veg fyrir, að það gæti orðið bráðkvatt eins og það hafði orðið tvisvar sinnum. Og í raun og veru þarf ekki að fjölyrða um það. Það er meginmunurinn, sem er á þessu frv. bornu saman við gildandi löggjöf um Framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl.

Þó að ég gæti ekki orðið samferða meðnm. mínum, er ég þeim þakklátur fyrir samstarfið. Það fór fram hið prýðilegasta, fór vel á með okkur. Hefði kannske mátt segja, að þegar ljóst var, að ég átti enga samleið með þeim um endurskoðun laganna á grundvelli þessa kerfis, sem hrunið hafði í rúst, og gaf þannig frjálsar hendur um algerlega nýja endurskoðun á lagasetningu um verðlagningu landbúnaðarafurðanna, þá hefði kannske ekki verið óeðlilegt, að ég hefði látið leiðir skilja og hætt störfum í n., en það taldi ég þó ekki rétt að gera, heldur tók þátt í allri endurskoðun l. með þeim og átti uppástungur um ýmislegt, sem mér fannst betur mega fara í frv. að öðru leyti, og tók sem sé þátt í að afgreiða fjöldamargar breytingar, smávægilegar, sem gerðar voru á frv. og ég tel nú allar vera til bóta, að meginbreytingunni undanskilinni, sem er um það að viðhalda kerfinu áfram.

Þetta frv. er í öllum aðalatriðum flutt á grundvelli þeirra till., sem meiri hl. n. skilaði frá sér til ráðh., fimm eða sex nm., Sæmundur Ólafsson var ekki alveg sammála meiri hl. Hann gerði tvær brtt., sem hann lagði mjög mikið upp úr að fengju fram að ganga, og eru þær till. prentaðar hér með þessu frv., en í meginatriðum var hann að öðru leyti samþykkur fimmmenningunum, sem að öllu leyti stóðu að endurflutningi frv. eða að sameiginlegum till., sem frv. er byggt á. Ég taldi hins vegar, að ég ætti ekki samleið, þar sem okkur skildi á í grundvallaratriðum, og skilaði því séráliti, og er það sérálit mitt prentað í heild með frv., sem hér er til umr., og er það birt á bls. 14–19 aftan við frv.

Frv. var svo lagt fram í hv. Ed. og hefur fengið afgreiðslu þaðan, ég held án breytinga. Þar lagði fulltrúi Alþb., Björn Jónsson, hv. 4. þm. Norðurl. e., til, að málinu yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá, þar sem hann taldi í rauninni sjálfsagt, að þetta mál yrði sent til umsagnar Stéttarsambandi bænda, og að bændastéttin fengi þannig um það að fjalla, áður en þessi löggjöf væri sett á ný. Þetta er vissulega réttmæt ósk, sökum þess að aukaþing Stéttarsambands bænda kom saman meðan sjö manna nefndin var starfandi og gerði samþykkt um þetta mál, kom raunar, að ég held, eingöngu saman til þess að fjalla um þetta mál, og upphaf þeirrar ályktunar var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Aukafundur Stéttarsambands bænda, haldinn í Reykjavík 14. og 15. des. 1965, leggur áherzlu á það, að við væntanlegar breytingar á löggjöfinni um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun, sölu á landbúnaðarafurðum o.fl. verði bændum tryggður að fullu samningsréttur um kjör sín, og felur fundurinn fulltrúum sinum í sjö manna nefnd ríkisstj. að athuga jöfnum höndum möguleika á samningum um verðlagsmálin við fulltrúa frá ríkisstj. sem og fulltrúa frá öðrum aðilum.“

Fullan óskoraðan samningsrétt vilja þeir hafa og vilja, að ekki séu síður athugaðir möguleikar á samningum um verðlagsmálin við fulltrúa frá ríkisstj. en fulltrúa frá öðrum aðilum. Og þar sem það var ný leið, sem var verið að benda á og þeir leggja áherzlu á einmitt í upphafi ályktunar sinnar, tel ég, að þeir hafi fyrst og fremst tjáð sig um það, að þeir vildu fá samningsrétt gagnvart ríkisvaldinu.

Þegar ég sem fulltrúi stéttar í sjö manna nefndinni, sem hefur fullan samningsrétt um kjaramál sín, bauð upp á það, átti ég þess von í samræmi við upphaf þessarar ályktunar á aukafundi Stéttarsambands bænda, að sú till. fengi undirtektir af þeirra hendi. Ég gekk meira að segja svo langt, að ég sagði: Ég er fulltrúi fyrir stétt, sem hefur fullkominn samningsrétt um launakjör sín og verkfallsrétt einnig, og ég get því ekki annað en verið reiðubúinn til þess, að bændastéttin fái einnig fullkominn samningsrétt um launakjör sín og framleiðslustöðvunarrétt, sem jafngildi verkfallsrétti verkamanna. En þegar til stykkisins kom, vildu þessir fulltrúar bænda, sem sæti áttu í sjö manna nefndinni, þrátt fyrir áskorun aukaþings Stéttarsambands bænda ekki fallast á þessi tilboð, heldur vildu fá sína endurreistu Sexmannanefnd á ný. Það er sem sé niðurstaðan, að aðrir fulltrúar n. en ég lögðu áherzlu á það, að sexmannanefndarkerfið yrði endurvakið á ný.

Það er svo meginbreytingin á því sexmannanefndarkerfi, sem nú skal hefja störf á grundvelli þessa frv., að fari svo, að annar hvor aðilinn, annaðhvort framleiðendur eða neytendur, noti ekki þann rétt að tilnefna menn í Sexmannanefnd, þá skuli ráðh. tilnefna mann í staðinn. Ef samtök framleiðenda notfæra sér ekki rétt sinn til tilnefningar, þá skuli landbrh. tilnefna menn í staðinn, en séu það samtök neytenda, sem ekki tilnefna einhverja af sínum fulltrúum, skuli félmrh. hlaupa í skarðið og tilnefna menn í staðinn í Sexmannanefnd. Þetta er meginbreyt., en ég hlýt að vekja athygli á því, að ef svo færi, að tilnefningar yrðu af hendi ráðh., ja, þá er kerfið orðið gjörbreytt að eðli til. Þá er því ekki lengur upp stillt fyrir hönd neytenda- og framleiðendafulltrúa. Þá er það orðið það, sem það í raun og veru alltaf hefur verið, eða a.m.k. að meira leyti en áður, þá er það orðið ríkisapparat, ódulbúið ríkisapparat, og að því leyti er það nú skárra. Ég kann illa við það, að í raun og veru sé þetta ríkisapparat, en látið heita að vera byggt upp á fulltrúaaðild frá framleiðendum og neytendum, því að vitað er, að það hefur alltaf verið til „syvende og sidst“ ríkisvaldið, sem hefur getað ráðið úrslitum um verðlagningu landbúnaðarafurðanna upp frá þeirri stundu, sem nokkur ágreiningur vár orðinn um málin.

Nú er bezt að taka það fram, eins og það var tekið fram skýrt í sjö manna nefndinni af mér, ekki aðeins persónulega, heldur í fullu umboði miðstjórnar A.S.Í., að ef til þess kæmi,, að sjö manna nefndin staðnæmdist aftur við það að tilnefna A.S.Í. sem aðila að sexmannanefndarkerfinu, þá var því lýst yfir af minni hendi í n., að sá réttur yrði ekki notaður, og það væri því alveg tilgangslaust, eins og nú stæðu sakir, að tilnefna A.S.Í. þarna sem aðila. Þeir, sem vildu hnoða saman sexmannanefndarkerfi á líkum grundvelli og þessum, yrðu að finna annan aðila, nema því aðeins að þeir teldu æskilegt, að það yrði ríkis- eða ráðherratilnefning og það væri það, sem þeir vildu heldur.

Þrátt fyrir þessi mótmæli mín í sjö manna nefnd var A.S.Í. tilnefnt sem einn af þeim þremur aðilum, sem skyldu eiga rétt á að tilnefna menn í Sexmannanefnd. Þetta tel ég óviðurkvæmilegt með öllu. Þegar einn aðili hefur látið í ljós þann vilja sinn að hafa ekki ákveðin réttindi, á ekki að þröngva þeim upp á hann.

Alþýðublaðið var svo elskulegt fyrir nokkru að segja, að sexmannanefndarkerfinu hefði verið hrundið vegna duttlunga forseta A.S.Í. Þetta hefði kannske verið hægt að segja, ef ekki hefði legið fyrir neitt annað en bara samþykkt frá miðstjórn A.S.Í. um, að Alþýðusambandið vildi ekkert með það hafa að vera í Sexmannanefnd og hefði ekki rökstutt sitt mál á nokkurn hátt, en það er ekkert um það að ræða. A.S.Í. röksluddi rækilega mál sitt og gerði opinberlega grein fyrir þeim ástæðum, sem til þess lægju, að nú væri svo komið, að það vildi ekki lengur eiga aðild að. sexmannanefndarkerfinu.

Meginröksemdir miðstjórnar A. S. Í. fyrir því, að ekki væri lengur tímabært fyrir A. S. Í. að eiga þarna aðild að voru þessar:

1. Stöðug hækkun á verðlagi landbúnaðarafurða er að mestu leyti bein afleiðing af verðbólgustefnu stjórnarvalda, og á þá þróun getur Sexmannanefnd engin áhrif haft með starfi sínu. Þess vegna er, þegar af þessari ástæðu tilgangslaust að vera þátttakandi í sexmannanefndarkerfinu.

2. Högum bænda er nú svo komið, að því fer víðs fjarri, að unnt sé á réttlátan hátt að leysa ýmis brýnustu vandamál þeirra, sízt af öllu hinna smærri bænda, með verðlagningu landbúnaðarvara einni saman, en Sexmannanefnd hefur ekkert vald til að fjalla um stefnuna í landbúnaðarmálum í heild. Af þeirri ástæðu er einnig tilgangslaust fyrir okkur að taka þátt í Sexmannanefnd, af því að við teljum það allt of þröngt svið til þess að hafa áhrif á hagsmunamál bændanna.

3. Munurinn á verði því, sem bændur fá fyrir framleiðsluvörur sínar, og því, sem neytendur verða að greiða, er svo stórkostlegur, að ógerlegt er fyrir fulltrúa neytenda að bera ábyrgð á söluverði landbúnaðarvara, nema rannsakað sé ofan í kjölinn, hvernig þessi verðmismunur verður til. Það var því rík krafa A.S.Í., að ýtarleg og hlutlaus rannsókn yrði látin fara fram á öllu vinnslu- og sölu- og dreifingarkerfi landbúnaðarvara og það sérstaklega kannað, hve mikill hluti þessa mismunar stafaði af fjárfestingarframkvæmdum milliliða og hvað af beinum og óhjákvæmilegum sölu- og dreifingarkostnaði.

Það var tekið vel undir það í sjö manna nefndinni að setja slíka rannsókn í gang, en þeir voru á því allir meðnm. mínir, og ég hygg það rétt vera, að sá tími, sem n. hefði til umráða, væri svo stuttur, að það yrði ekki komizt til botns í rannsókn á þessu á þeim skamma tíma. Í þetta var þó settur maður, en hann sagði: Það er hægt að fara í reikninga þessara milliliðafyrirtækja, sem annast dreifingu og sölu, það er geysilega mikið verk og af reikningunum einum er ógerlegt að komast til botns í þessu máli.

Það var því útilokað með öllu, meðan n. starfaði, að fá þann verðmismun, sem verður frá því að framleiðsluvaran fer úr hendi bóndans og þangað til hún er komin á borð neytandans, að fá það rannsakað, hvernig sá verðmismunur yrði til og er óleyst enn með mörgu öðru.

Í fjórða lagi sagði miðstjórn A.S.Í.: Undir sexmannanefndarkerfinu er því alls ekki til að dreifa, að framleiðendur eða neytendur hafi úrslitaáhrif á verðákvörðun landbúnaðarvara. Í þeim efnum ræður ríkisvaldið úrslitum. Í verðlagsmálum á því ríkisvaldið eðli málsins samkvæmt að bera fulla ábyrgð gagnvart bændastéttinni.

Mér virðast öll þessi rök sýna berlega, að það er hvorki rétt né eðlilegt, að A.S.Í. sé eða verði áfram aðili að hinu margnefnda sexmannanefndarkerfi. En auk alls annars er svo þetta kerfi byggi á augljósri hugsanavillu. Bændum er skipað annars vegar, verkalýðssamtökunum hins vegar sem umboðsaðila andstæðra hagsmuna, sem skuli sitja hinum megin við samningaborð og þrúkka um verðið, sem á að móta lífskjör bændanna. Þetta er rangt með öllu. Hagsmunir verkamanna og bænda eiga áð flestu leyti samleið. Hið rétta í þessu er, et maður vill leggja málið skýrt upp fyrir sér, að annars vegar er framleiðslustéttin, bændurnir, og hins vegar þjóðin öll sem neytendur, ekkert fremur þeir, sem eru í verkalýðssamtökunum, heldur en aðrir. Annars vegar framleiðslustéttin, bændur, segi ég, hins vegar þjóðin öll sem neytendur. Og fyrir hana er enginn sjálfsagðari aðili til en ríkisstj. á hverjum tíma, hvort sem okkur finnst hún góð eða ill, og ég verð að segja það, að það mælir sízt gegn ríkisstj. sem samningsaðila gagnvart bændum, þótt henni sé jafnframt skylt að gæta hagsmuna framleiðslustéttanna, en vissulega ber henni að gera það, ef hún væri þarna í forsvari gagnvart bændastéttinni. Hún hlyti að taka tillit til hagsmuna allra neytenda, allrar þjóðarinnar sem neytenda, og henni bæri einnig að taka tillit til framleiðslustéttanna, því að vissulega snertir verðið á landbúnaðarvörum kaupgjaldsmálin, það snertir hvern einasta atvinnurekstur í landinu. Fyrir það á hún að verða sanngjarnari samningsaðili gagnvart bændum, og finnst mér rök hæstv. landbrh. fyrir því, að ríkisstj. geti alls ekki verið samningsaðili gagnvart bændum, alveg hrynja við þetta, þegar maður lítur á málið eðlilega. Það er enginn aðili sjálfsagðari en ríkisstj. til þess að fara með samningaumboðið þarna gagnvart bændum um verðlagningu landbúnaðarafurða, því að það er aðili, sem verður að taka tillit — bæði til hagsmuna allrar þjóðarinnar sem neytenda og framleiðslustéttanna einnig.

En hæstv. ráðh. kemur svo hér í ræðustól og segir: Það er óeðlilegt, að ríkisstj. gerist samningsaðili, — en hefur ríkisstj. ekki þegið að vera samningsaðili gagnvart neinni annarri stétt um launakjör hennar? Hvernig er það með opinbera starfsmenn? Var ekki ríkisstj. talin tilvalinn samningsaðili þar? Hún lætur bara vinna verkið fyrir sig af þar til kjörinni n., þar til skipaðri nefnd, kjaradómstólnum, kjaradóminum. Ég veit ekki betur. Er það óeðlilegt? Launamál eru vitanlega það stór aðili í öllu efnahagskerfinu, að það er ekki nema eðlilegt, að ríkisstj. hafi afskipti af því, ef hún ætlar yfirleitt að hafa stjórn á þeim málum, og hún hefur meira að segja ekki talið sig komast hjá því að grípa inn í samningsmál atvinnurekenda og verkamanna vegna þeirra áhrifa, sem lausn þeirra mála hafi á efnahagsmálin í heild, sem hún verði að bera ábyrgð á.

Annars er hægt að bregða upp fleiri myndum í sambandi við þetta, hversu sjálfsagt það sé, að A.S.Í. sé aðili móti bændum við samningaborð, þegar á að ákveða þeirra lífskjör, kaup og lífskjör. Væri þá ekki rétt, að það kæmi fulltrúi frá bændum að samningaborðinu hinum megin, móti verkamönnum? Hví ekki það? Ónei, menn segja, að það væri óeðlilegt með öllu. Væri ekki rétt, að verkamenn ættu aðila við samningaborðið hjá opinberum starfsmönnum? Eða að opinberir starfsmenn sendu fulltrúa að samningaborðinu gagnvart verkamönnum? Ja, ef það er sjálfsagt, að verkalýðssamtökin séu andstæðingur bænda við samningaborðið þar, sé ég ekki annað en að þetta ætti að ganga svona á víxl.

Ég læt þetta nægja til þess að sýna, að það er ekki heil brú í því, hvar sem gripið er niður og borið saman við skipulagið gagnvart öðrum stéttum í þjóðfélaginu, að við höldum uppi sexmannanefndarkerfi. Auk þess er kerfið meingallað á margan annan hátt. Það er búið að starfa, held ég, síðan 1947, þetta kerfi, en það var enginn ágreiningur um það í sjö manna n. í vetur, að það væru mýmörg atriði, sem nauðsynlegt væri að hafa glögga vitneskju um, ef vit ætti að vera í samningaþófinu, sem átti að leiða til niðurstöðu um ákvörðun landbúnaðarvöruverðsins, vinnutími bóndans t.d. og skylduliðs hans og hjúa. Vissi ekki einhver í sjö manna n. um þetta? Hefur ekki Sexmannanefnd haft gögn í höndum um þetta núna hin síðari ár t.d.? Hún er búin að starfa í 19 ár. Ónei, allir verða að viðurkenna, að engin vitneskja liggi fyrir um þetta mikilsverða atriði enn þá, og samningaþófið hefur allt saman byggzt á getgátum og samkomulagi út í loftið, hvílir í lausu lofti. Það var því alveg eins og tekið er fram hérna á fskj. með frv. Það var allsherjar samkomulag um það í sjö manna n., að upplýsingasöfnun og gagnasöfnun til þess að byggja starf Sexmannanefndar á hefði verið allsendis ófullnægjandi og yrði að fá víðtækar heimildir nú með þessari lagasetningu til þess að slík gagnasöfnun kæmist nær því að sinna lágmarkskröfum, sem gera yrði. Með leyfi hæstv. forseta segir svo í sameiginlega nál.:

N. er þó sem fyrr segir sammála um það, að nauðsyn beri til þess að bæta verulega þann upplýsingagrundvöll, sem verðlagningin byggist á. Með brtt. þeim, sem n. gerir við 8. gr. framleiðsluráðslaganna, er stefnt að því í fyrsta lagi, að miklu viðtækari og haldbetri upplýsingar fáist um raunverulegan framleiðslukostnað í landbúnaðinum en nú er fyrir hendi. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að Sexmannanefnd fái aðstöðu til þess að framkvæma sjálfstæðar rannsóknir á ýmsum sviðum, er verðlagningu snerta, svo sem rannsóknir á dreifingarkostnaði, vinnutíma o.fl. Hefur n. látið gera nokkrar athuganir á báðum síðast nefndu atriðunum og fylgja niðurstöður þeirra athugana með nál. sem fskj., en það er áðurnefnd athugun Helga Ólafssonar á dreifingarkostnaði og athugun Þorvaldar Elíassonar viðskiptafræðings á vinnutíma bænda á grundvelli búreikninga Búreikningaskrifstofunnar.“

Af því, sem ég nú las, er ljóst, að n. viðurkenndi öll saman afdráttarlaust, að upplýsingagrundvöllurinn hefði alltaf verið mjög ófullnægjandi, og svo voru settir tveir menn í þetta að athuga þarna vissa liði, og þeir játuðu báðir, að þeir hefðu haft allt of lítinn tíma til þess og þetta yrði ekki gert, nema í þessu störfuðu menn í raun og veru í föstu starfi frá ári til árs.

Ég hygg nú, að menn verði að viðurkenna það, að samningakerfi, sem ekki hefur haldgóðan upplýsingagrundvöll til að byggja á — ja, það hlýtur að verða tilviljunarkennt, hver niðurstaðan verður hjá því. Og enn er viðurkennt, að þetta vanti, eftir að n. er búin að starfa í 19 ár, og ég játa, að það er spor í rétta átt, þar sem n. gengur inn á að auka þessa upplýsingaöflun, en mér finnst það samt ekki fullnægjandi, því að það eru mörg fleiri atriði í búrekstri, sem þyrftu að rannsakast og ættu að hafa áhrif á þennan grundvöll, sem leggja þarf, heldur en þau, sem þarna eru talin fram.

Við fengum vitneskju um það, hvernig verðlagningarkerfið væri í Bretlandi, við fengum frásögn af því, hvernig það væri í Noregi, hvernig það væri í Danmörku, en það var engin leið að fá þessi kerfi, brezka kerfið, norska kerfið eða danska kerfið, svo að n. gæti fengið þessi gögn í hendurnar. Nei, við fengum aðeins endursögn af því, hvernig þessi kerfi væru, einmitt í gegnum Framleiðsluráð landbúnaðarins, en að fá þessi kerfi nágrannalandanna um verðlagningu landbúnaðarafurða, það var ekki hægt, og þeirra hefur aldrei verið aflað. Þó vitum við svo mikið, að í Noregi eru bændurnir skipulagðir í tvennum samtökum, Norges bondelag og Norges bonde- og smábrukarlag, og þessi tvenn samtök bænda semja við fulltrúaráð, fulltrúa úr fjmrn. um málefni bændastéttarinnar. Undir það falla verðlagsmál landbúnaðarafurða, það falla undir þetta aðgerðir til markaðsfyrirgreiðslu, það falla undir þetta vaxtakjör og lánstími lána til landbúnaðarins, það falla undir þetta ráðstafanir til framleiðsluaukningar eða til þess að draga úr framleiðslu, jafnvel þar sem bú eru orðin svo stór, að þau eru ekki í hagkvæmu rekstrarformi, og til þess að stækka bú, þar sem þau eru of smá, þ.e.a.s. bein styrkjastarfsemi af hendi ríkisins fellur undir þetta samningasvið líka.

Ég fékk eftir að nefndarstarfinu lauk nokkur gögn frá Noregi um það, hvernig þetta kerfi er í meginatriðum, en í nefndarstarfinu var ekki hægt að fá það.

Styrkveitingarnar, sem norska ríkið veitir landbúnaðinum, eru aðallega tvenns konar umfram hið fastákveðna verð, sem semst um. Það er smábrukartillegg, þ.e.a.s. aukastyrkir við verðið til smábænda og styrkur, sem þeir kalla vansketillegg, þ.e.a.s. til þeirra bænda, sem eru í fjalllendi Noregs við mjög þrönga aðstöðu til landbúnaðar, en vilja þó ekki láta landbúnað þar leggjast niður af ýmsum þjóðfélagslegum ástæðum. Þá fá þeir þessar viðbætur, þessa styrki, mundum við segja, til viðbótar við hið umsamda verð. Þetta stefnir að því að stækka hin smærri bú og koma þeim þannig í hagkvæmara rekstrarform en þau eru og verða, ef ríkið lætur þetta afskiptalaust.

Brezka kerfið er að því leyti eins og það danska og norska, að það er samið við ríkið líka, en grundvallarverðið er látið skapast í Bretlandi, að mér er tjáð, af verðlagi því, sem er á innfluttum landbúnaðarvörum, sérstaklega kjötvörum frá Nýja-Sjálandi og Ástralíu, en síðan eru brezkum bændum borgaðir styrkir til þess að tryggja, að þeir fái sem svarar meðaltekjum brezkra þegna.

Alls staðar, þar sem borið var niður til að spyrjast fyrir um, hvernig þessum málum væri fyrir komið, var það bændastéttin og ríkisvaldið. En fengum við þá ekki einhvers staðar vitneskju um það, að verkalýðssamtökin væru aðili að verðlagningu landbúnaðarvara? Ég spurðist fyrir um það. Enginn úr sjö manna n. vissi um það, hvergi var hægt að fá neinar upplýsingar um það, hvort verkalýðssamtök væru nokkurs staðar í heiminum aðili að verðlagningu landbúnaðarafurða. Og enn þá er ég á þeirri skoðun, að það sé ekki til nema hér. Þó að menn standi á því fastar en fótunum hér, að þetta sé það einasta fyrirkomulag, sem sé eðlilegt, og algerlega óeðlilegt, að ríkið sé aðili að þessu, þá er það nú gildandi annars staðar, þar sem maður til fréttir, en hvergi finnst þetta sexmannanefndarkerfi með verkalýðssamtök sem aðila á móti bændunum.

Það er rétt, sem hæstv. landbrh. sagði hér áðan, að meðnm. mínir í sjö manna n. rökstyðja það út frá sínu sjónarmiði á bls. 9 í þskj., sem hér er til umr., að þeir telji ekki eðlilegt, að ríkisvaldið eigi samningsaðildina gagnvart bændum, og þeirra rök eru þessi: Þeir segja, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú hugmynd hefur þó allmikið verið rædd í n., að í stað Sexmannanefndar verði tekið upp það fyrirkomulag, að ríkisvaldið gerist samningsaðili við bændur um búvöruverð. Telur einn nm., Hannibal Valdimarsson, þá tilhögun eðlilega, svo sem fram kemur í séráliti hans. Aðrir nm. geta hins vegar ekki á það fallizt, að slík tilhögun mundi heppileg og færa eftirfarandi rök fyrir þeirri afstöðu sinni: 1. Ríkisstj. er ekki aðili að þeim viðskiptum, sem hér er um að ræða, heldur framleiðendur og neytendur búvöru.“

Ja, framleiðendur og neytendur búvöru, framleiðendur og öll þjóðin. Neytendurnir eru þjóðin, þar með ríkisstj. líka, ef hún skyldi neyta einhvers af landbúnaðinum, ef hún er ekki alveg í mjólkur- og kjötbindindi, náttúrulækningaafstöðu. Það getur vel verið, að hún sé það. Ja, hún er aðili eins og rétt hver annar Íslendingur, eins og hver annar þegn. Því verður ekki neitað, að það er eðlilegast að skipta þessu þannig. Viðskiptaaðilarnir eðlilegu eru framleiðendastéttin þarna, bændurnir og öll þjóðin, þar með ríkisstj. auðvitað. Í öðru lagi segja þeir: „Þar sem hlutverk ríkisstj. er auðvitað jöfnum höndum að gæta hagsmuna neytenda og framleiðenda, getur hún að okkar áliti ekki veríð fulltrúi annars þessara aðila gagnvart hinum.“ Ég hef vikið að þessu áður og endurtek það, að ég tel einmitt ríkisstj. eiga að gæta hagsmuna jöfnum höndum framleiðenda og neytenda, gæta hagsmuna allrar þjóðarinnar, og að hún sé einasti aðilinn, sem eigi að gera það hvort tveggja. Og ég tel slíkan aðila hafa einmitt betri aðstöðu en nokkum annan til þess að gæta sanngirni til beggja handa í slíkum málum, enda er það niðurstaðan í öllum löndum, sem til spyrzt, að það sé ríkisstj., sem standi í þessum vanda.

Í þriðja lagi segja þeir: „Erfitt yrði að okkar áliti að tryggja það með löggjöf, að samningsaðstaða bænda gæti orðið svipuð því, sem nú er, þar sem við svo öflugan samningsaðila er að etja sem ríkisvaldið.“ Ja, ætli mætti nú ekki gera sér vonir um það, að ríkisstjórn og þá alveg sérstaklega landbrh. notaði nú ekki allt ríkisvaldið til hins ýtrasta til þess að láta kné fylgja kviði gagnvart bændastéttinni, hagur hennar sé settur í einhvern voða, ef hún ætti að eiga mál sín á viðræðu- og samningagrundvelli við ríkisstj. Ég tek ekki undir svona, þó að hæstv. ráðh. sé að reyna að útmála það og meðnm. mínir, að það væri ægilegt fyrir bændastéttina að eiga að standa frammi fyrir því að eiga við að etja svo sterkan aðila sem ríkisvaldið. En þetta þykir nógu gott fyrir opinbera starfsmenn. Þeir mega standa frammi fyrir þessu ægilega valdi og eiga samningsaðild gagnvart því. Löggjöf sú, sem tryggja ætti bændum slíka samningsaðstöðu, væri sett af ríkisvaldinu, væri sett af Alþ. rétt eins og hver önnur löggjöf. Og hvernig sem samningsaðildinni er háttað, er sú löggjöf, sem hér á að byggja á, alltaf sett af sama aðilanum, Alþ. Íslendinga, og ég veit ekki, hvaða erindi þetta á inn í rökstuðninginn um, að það sé fráleitt að ætla ríkisstj. þetta hlutverk. Sett af ríkisvaldinu og framkvæmt af því, sett af Alþ. og auðvitað framkvæmt af ríkisstj. í öllum tilfellum. Ég get ekki séð, að það sé mikið hald í þessum rökstuðningi. Ég tók eftir því í hv. Ed., að hæstv. landbrh. talaði um það, að með þessu kynni líka ríkisstj. að dragast inn í pólitískar deilur. Ja, aumingja ríkisstj., ef hún yrði nú sökuð um það að vera pólitísk og drægist inn í pólitískar deilur. Hvaða ríkisstj. getur forðazt það? (Landbrh.:, Það er verðlagningin, en ekki ríkisstj. Ríkisstj. er alltaf í pólitík...) Auðvitað, bara böðuð í pólitík, á kafi í pólitík auðvitað. Og þess vegna hrökk ég við, þegar var verið að hafa á móti því, að ríkisstj. hefði hér aðild að, vegna þess að hún drægist þá ónotalega inn í pólitík, það yrði ekki eins mikill friður um þetta, ef hún ætti þarna aðild að eins og A.S.Í., sem sumir hafa nú kallað einn mesta ófriðaraðilann í þjóðfélaginu. En það er til þess að fá frið um þessi mál, að A.S.Í. á að vera í því, en voði á ferðum, ef ríkisstj. væri það. Kannske er þetta svona. Kannske er það svona á fleiri sviðum. Getur nú afurðaverð bænda nokkurn tíma verið utan við alla pólitík? Er það ekki verðlagspólitík landhúnaðarins, hvernig þetta er afgreitt? Og hv. þm., sem grípur þarna fram í, sem segist nú alltaf eiginlega vera stjórnarsinni, ætti sízt held ég af öllum að hafa á móti því, að ríkisstj. hefði þarna veg ekki síður en vanda.

Nei, frá mínu sjónarmiði eru þetta haldlaus rök, sem meðnm. mínir í sjö manna n. færa fram fyrir því, að það sé viðsjárvert, jafnvel fráleitt, að ríkisstj. hafi hér aðild að þessum málum og það sé miklu hagkvæmara og líklegra til þess að málin séu afgreidd með friði, að vissir hlutar af neytendunum og samtökum þeirra eigi þarna aðild að. Nú eru náttúrlega, eins og stundum áður hefur verið vikið að, neytendaaðilarnir algerlega af handahófi valdir. Við skulum segja, að ef A.S.Í. eigi að representera neytendur, sé það sjálfsagður aðili, en svo er tekið eitt af 150 aðildarfélögum í A.S.Í. og gert aðili við hliðina á því og í þriðja lagi Landsamband iðnaðarmanna, sem ekki fæst við nein launamál fyrir neina stétt. Ef þetta hefði nú verið t.d. Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og við skulum segja Farmanna- og fiskimannasamband Íslands eða Sjómannasamband Íslands, þá hefði þó verið einhver heil brú í því, að það væri verið að tilnefna aðila fyrir launastéttirnar. En það er ekki einu sinni. Þó að menn hafi þarna þá röksemd á oddinum, að hér eigi að vera aðilar fyrir launastéttirnar, þá eru þeir aðilar valdir af afkáralegu handahófi. Og við endurskoðun l. er ekki einu sinni gerð tilraun til þess að leiðrétta það af þeim, sem standa að þessum sjónarmiðum, að það eigi að vera fulltrúar fyrir launastéttirnar.

Hæstv. landbrh. gat þess, að ein breyt., ein fyrsta breyt., sem nokkru máli skipti í þessu frv. frá l., væri breyt. á 5. gr. frv., við 4. gr. gildandi l., að tilfæra ársvinnutíma bóndans, skylduliðs hans og hjúa á búi af þeirri stærð, sem miðað er við hverju sinni, og virða vinnutíma þessara aðila til samræmis við kaupgjald verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, eins og það er við upphaf hvers verðlagstímabils. En þó skuli eigi taka til viðmiðunar ákvæðisvinnu verkamanna, iðnaðarmanna né aflahlut sjómanna. Þetta er efnisbreyting, það er alveg rétt og þarna eru teknir út úr hlutarsjómennirnir, sem áttu að hafa áhrif á verðlagninguna samkv., gildandi kerfi. Ég tók það fram í umr. hér í haust, að ég teldi, að það væri öllu heppilegra að miða ekki við hlutarhæð sjómanna, og þá taldi ég það ekkert síður vera út frá hagsmunasjónarmiði bænda, því að það getur komið aflaleysi, 1 ár, 2 ár, 3 ár, það getur á sama tíma komið verðlagshrun á heimsmarkaðinum á sjávarafurðum. Og þá fara hlutir sjómanna og hlutskipti útvegsmanna langt niður á við, og sé ég ekki, að það sé bót fyrir bóndann að leiða slíkar sveiflur hins hvikula sjávarútvegs yfir þá stétt líka, svoleiðis að ég tek það fram, að ég var fylgjandi þessari breytingu, að hlutarsjómenn væru teknir út úr viðmiðuninni, því að ég tel það alls ekki gott fyrir bændur og mun hvar sem er rökstyðja það gagnvart þeim.

Hitt er hægt að deila um, hvort eigi að taka út úr ákvæðisvinnu verkamanna og iðnaðarmanna. Nú er mjög stefnt í þá átt, að fleiri og fleiri störf verkamanna færist undir ákvæðisvinnu, og ég held, að það sé betra, að það komi þá skýrt fram, að hér sé ekki átt við aðra ákvæðisvinnu verkamanna en uppmælingartaxtana, eins og ég tók eftir, að ráðh. notaði það orð og sagði, að uppmælingartaxtar verkamanna og iðnaðarmanna ættu ekki að falla inn í viðmiðunina. Það væri kannske réttara bara að orða það þannig, ef ætlunin er sú, að það sé ekki víðtækara en svo. En ég tek undir það með ráðh., að ég veit ekki á þessari stundu, hvort þetta er til þess að bæta hag bænda eða rýra. Ég tel það alveg óvisst mál, af því að það liggur allt á huldu um ársvinnutíma bóndans og skylduliðs hans. Eftir allt starf Sexmannanefndar í 19 ár veit enginn neitt um það. Og það var stungið upp á ýmsum aðferðum til þess að kanna þetta, og fannst engin leið, a.m.k. ekki af þessum 7 mönnum, sem störfuðu í sjö manna n. Þeir fundu enga leið, sem væri örugg til þess að kanna nákvæmlega, hver væri meðalvinnutími bóndans á meðalbúinu, senda mann með skeiðúr kannske og fylgjast með því nokkra daga. Mönnum fannst það t.d. alls ekki vera trygging fyrir því, að vinnubrögð væru framkvæmd með sama hætti þá dagana eins og alla aðra. Að öðru leyti verður að byggja þetta á skýrslum, og skýrslunum vilja menn ekki treysta. Hér þarf áreiðanlega margt að athuga, til þess að viðmiðunin sé á viti byggð. Það er einn af veiku punktunum í sexmannanefndarkerfinu, að hér er mjög erfitt um vik að fá nákvæman þann samanburð. En það liggur ljóst fyrir hér, eins og það lá fyrir í n., að A.S.Í. hefur ekki breytt afstöðu sinni frá því í haust. A.S.Í. óskar ekki eftir rétti til aðildar að þessu kerfi. Og ég hef fullt umboð til að segja það hér á Alþ., að A.S.Í. mun ekki á þessu yfirstandandi ári — og á því breytist ekki skipun miðstjórnar, fyrr en þá í nóvemberlok og þá er það síðar en tilnefninguna ber að — nota sér tilnefningarréttinn og óskar ekki eftir því, að A.S.Í. sé helgaður þessi réttur í frv., heldur þá einhverjum öðrum aðila, ef menn endilega vilja halda þessu kerfi við. Ég endurtek það, að komi til tilnefningar fyrir einn eða fleiri aðila af ríkisvaldsins hendi, er sexmannanefndarkerfið orðið gerbreytt í eðli sínu, og það er mál, sem ég tel mér óviðkomandi, af því að ég er algerlega andvígur því, að þetta kerfi haldi áfram.

Eitt af því, sem leiðir af þessu kerfi, sem tekur verðlagningu landbúnaðarafurða út úr eina sér, allra efnahagsþátta bóndans, verðlagningu á einingu, framleiðslueiningu, er það, að eins og nú standa sakir, þegar offramleiðsla er orðin, svo að ríkið verður að verja hundruðum millj. kr. í útflutningsuppbætur fær stórbóndinn meginhlutann af þessum hundruðum millj., smábóndinn sama sem ekkert. Stórbóndinn þarf engrar hjálpar með, hann hefur ekki beðið um neina aðstoð. En samt er þessu fé ausið í hann með þessu kerfi. Nú er upplýst af búnaðarsérfræðingum, að upp að vissri stærð eykst hagkvæmni búrekstrar. En þegar búið hefur náð vissri stærð, fer það að koma verr út, þá fer það ekki að verða eins hagkvæmt bóndanum sjálfum og ekki eins hagkvæmt þjóðfélaginu. En kerfið, sem leggur áherzlu á það, að hann fái því meiri upphæðir, sem hann stækkar bú sitt meira og eykur þannig offramleiðsluna, freistar hans til þess að auka þann vanda, sem þjóðfélagið stendur í, hans er freistað til þess með síhækkandi fúlgum. Þetta er auðvitað ekki hentugt kerfi, eins og nú standa sakir a.m.k. að þessu leyti. Það hygg ég, að flestir sjái og verði að viðurkenna, og þá ekki sízt þeir, sem sitja í ráðherrastólunum og horfast í augu við þennan vanda. Það væri ekkert óeðlilegt, að þegar bú hefur komizt í þá stærð, sem hagkvæmust þykir, væri farið að draga úr verðuppbótum til þess, ekki haldið áfram að hvetja bóndann til þess að stækka búið úr því og láta bætur jafnvel falla niður við vissa bústærð, sem ekki væri talin æskileg. Það væri líka vit í því, en það getur vel verið, að pólitískt þori menn það ekki, en það er allt annað mál.

Ég álít, að það sé enginn hlutur sjálfsagðari en sá, að ríkisvaldið tilnefni n. til þess að annast samningsaðild fyrir bændur um þessi mál, og þeir fái þar með möguleika til að taka upp á samningaborðið alla þá meginefnisþætti, sem mestu varða um lífsafkomu bóndans og þróun landbúnaðarins, við ríkisvaldið, sem hefur alla þessa þræði í hendi sér, og það sé alrangt að leysa þessi mál gegnum verðlagningu á einingu, eina út af fyrir sig. Ég álít, að með sexmannanefndarkerfinu fáist aldrei fullnægjandi upplýsingagrundvöllur undir ákvörðun um þessi þýðingarmiklu mál og það þurfi að setja á fót kjararannsóknarstofnun landbúnaðarins, sem hafi þau verkefni frá ári til árs að rannsaka alla þróun landbúnaðarins og alla verðmyndun í landbúnaði, og þá tel ég ekki sízt ástæðu til þess, að þar væri starfandi sérstök n. skipuð fulltrúum frá framleiðendum og neytendum, sem eingöngu hefði það verkefni með höndum að rannsaka verðmyndunina, framleiðslukostnaðinn, dreifingarkostnaðinn, sölukostnaðinn af landbúnaðarvörum og þjóna þannig hagsmunum bæði neytenda og framleiðenda með því að ganga úr skugga um það, að þarna sé alls staðar á öllum þessum framleiðslustigum landbúnaðarvaranna svo á málum haldið, að engin vörueining verði dýrari en hún nauðsynlega þurfi að vera. Sá þáttur þessara mála, þar sem ég viðurkenni, að neytendurnir eiga einmitt erindi til þess að starfa með fulltrúum bænda, er sá að fylgjast með allri verðmyndun landbúnaðarvaranna, sölu- og dreifingarkostnaðinum og allri þeirri hlið málsins, en þeir eigi hins vegar engan rétt til þess að skipta sér af launamálum bóndans og skylduliði hans. Og þarna tel ég að vanti algerlega í kerfið að aðgreina þetta. Þá finnst mér, að þegar offramleiðsla landbúnaðarafurða er ríkjandi eins og nú, megi það ekki vanta í kerfið, að einhverjar ráðstafanir séu gerðar til þess að draga úr offramleiðslunni, svo að þessi vandi haldi ekki sífellt áfram og vaxi, því að á 6 árum eða svo hefur þetta vaxið úr 0 og upp í 219 millj. kr., sem útflutningsuppbæturnar nema nú. Það er ekkert í þessu kerfi, sem leggur neinn hemil á þetta. Það var í till. sjö manna n., ef mig ekki misminnir, till. um það að leggja skatt á kjarnfóður, einmitt til þess að draga svolítið úr offramleiðslunni. Ég sé ekki þennan tölulið í gr., en hins vegar er okkur sagt frá því á bls. 11, að þetta efnisatriði sé í frv. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér er lagt til að bæta við 5. tölulið gr. tveimur stafliðum, sem fela í sér, að framleiðsluráði sé í fyrsta lagi heimilt að ákveða og innheimta gjald á erlent kjarnfóður, sem flutt er til landsins. Þetta miðar fyrst og fremst að því að draga úr óhagkvæmri mjólkurframleiðslu. En ég finn þetta ekki í gr. Þetta stendur aftur hér á bls. 11 í skýringum við 3. og 4. gr. Það eru einhver missmíði á þessu. (BP: Nema því hafi verið breytt), — en skýringunum ekki. Já. þá væri nú viðkunnanlegra að fella þessa skýringu þá niður eða bæta þessu, sem vantar, inn í gr. Það var sem sé vilji líka hjá fulltrúum bændanna að gera þarna nokkrar ráðstafanir til að draga úr offramleiðslunni með því að skattleggja bændur og stuðla að því að draga úr a.m.k. ofneyzlu kjarnfóðurs til þess að sprengja upp nyt kúnna umfram þarfir þjóðarinnar með dýrri kjarnfóðurgjöf. Hér hefur e.t.v. góður vilji bændafulltrúanna ekki stoðað, heldur sett pólitískan skrekk að einhverjum, svo að þeir vildu ekki einu sinni fallast á þetta tilboð bændanna um að skattleggja sig og draga úr offramleiðslunni.

Þá er það vitað mál, að útflutningsuppbæturnar eru skilgetið afkvæmi verðbólguþróunarinnar á Íslandi. Í þessum vanda standa bændurnir, í þessum vanda stendur íslenzka þjóðin, af því að verðlagið er komið svo hátt hér á landi, að það er ekki í neinu samræmi við verðlag á sams konar vörum erlendis. Það er verðbólguþróunin, sem þarna skapar þennan vanda, og þessi vandi eykst meðan verðbólguþróunin heldur áfram óbreytt. En er nú sem skyldi unnið að sölu landbúnaðarvara á erlendum mörkuðum? Væri ekki full ástæða til þess, að einhverju væri til þess kostað að reyna að fá sem bezt verð fyrir íslenzkar landbúnaðarvörur á erlendum mörkuðum, meðan við þurfum á því að halda? Auðvitað á að gera áætlanir um landbúnaðarframleiðsluna frá ári til árs. Þar getur einhverju skeikað vegna góðæris eða erfiðs árferðis. Það ætti að gera tilraun til áætlana um framleiðslumagnið næstu árin líka, því að það er dýrt, ef offramleiðsla verður úr hófi fram. Hitt er mér vel ljóst, að það verður að vera nokkur offramleiðsla í góðæri, ef menn vilja ekki taka á sig óþægindin af því að láta sig vanta landbúnaðarvörur í erfiðu árferði og á vissum tímum árs, þegar framleiðslan er minni. Þetta er mér vel ljóst, og það er eðlilegt, að ríkið leggi nokkuð á sig til þess að tryggja, að menn hafi þessar landbúnaðarvörur árið um kring og frá ári til árs, en gæta verður samt hófs, og það hygg ég, að fjmrh. muni vilja viðurkenna.

Eitt er það í þessu kerfi öllu saman og það er það, að öli landbúnaðarmál, allir þættir landbúnaðarmála heyra undir landbrh. Ég álít þetta rangt. Ég álít, að viðskiptamál þessara mála eigi að heyra undir viðskmrh. Ég álít, að verðlagsmál þessara mála eigi að heyra undir þann ráðh., sem fer með verðlagsmál. Ég álít, að útflutningsuppbæturnar eigi t.d. alveg að heyra undir fjmrh. En allt, sem við kemur framleiðslustarfi landbúnaðarins sjálfs, ræktunarmálunum og öllu því, á eðlilega að heyra undir landbrh., en alls ekki allir efnisþættir þessara mála.

Ég lagði til, að bændur fengju óskoraðan samningsrétt gagnvart ríkisvaldinu, og ég lagði enn fremur til, að komið yrði á fót kjararannsóknarstofnun landbúnaðarins, sem væri t.d. skipuð tveimur fulltrúum Stéttarsambands bænda og tveimur fulltrúum, er ríkisstj. tilnefndi, eða þremur eða fimm af hvorum aðila, sem sé að jöfnu af báðum þessum aðilum, og þar væri samningasviðið allir efnahagsþættir landbúnaðarins, alls ekki eingöngu verðlagningin á einingu. Meðnm. mínir gerðu þá breyt. á frv. frá gildandi l., að í stað þess, að hagstofustjóri skyldi vera oddamaður í yfirn., skyldi það verða sáttasemjari ríkisins. Ég taldi ekkert athugavert við þetta, þó að ég sjái nú ekki, að aðstaða sáttasemjara ríkisins sé nein önnur en hagstofustjórans var, og upp á milli þeirra manna, sem nú skipa þau embætti, geri ég ekki, báðir hinir mætustu og nýtustu menn. Ég held, að engin lausn felist í þessu í sjálfu sér. Ég hefði talið eðlilegast, að úr því að sáttasemjari ríkisins var tekinn inn í þessi mál, hefði verið tekið upp sáttakerfi með hans hlutdeild, nákvæmlega á sama hátt eins og er í gildi á milli verkalýðssamtaka og atvinnurekenda og íhlutun sáttasemjara um þau mál. En þá kemur eitt, og það er það, að bændur eru ekki skipulagðir í stéttarfélög eins og verkafólkið er, en þegar sáttasemjari hefur gert till., þurfa þær að geta gengið til einstaklinganna í stéttinni, þ.e.a.s. í gegnum þeirra skipulögðu samtök. Sú leið er því ekki fær að óbreyttu. En ég segi: Hvers konar félagsmálasmíði er þetta? Það er til Stéttarsamband bænda, en það er ekki til eitt einasta stéttarfélag bænda. Ég sé ekki annað en að Stéttarsamband bænda hljóti að eiga að undirbyggja með stéttarfélögum, sem kjósi fulltrúa til þessarar sameiginlegu félagsskipulagningar sinnar, Stéttarsambandsbænda. Þessu er einhvern veginn krullað saman við hreppabúnaðarfélögin, frá hreppabúnaðarfélögunum til búnaðarsambandanna og búnaðarsamböndin kjósa svo víst fulltrúa til búnaðarþings og Stéttarsambands bænda, sem eru tvö félagakerfi. (Landbrh.: Þetta er, held ég, ekki rétt.) Hvað er skakkt í þessu? (Gripið fram í: Kjörmannafundir, sem kjósa til Stéttarsambandsins.) Nú, kjörmannafundir frá sýslunum? (Já.) En það eru engin stéttarfélög bænda til. Það væri ekki hægt að vísa till. sáttasemjara til neinnar skipulagningar bændanna. Ekki væri eðlilegt að vísa þeim til búnaðarfélaganna, sem eru undirorganisationir í Búnaðarfélagi Íslands. Ég álít, að til þess að sáttakerfið geti þarna komið að gagni með sáttasemjara ríkisins og miðlunartill. frá hans hendi, þurfi bókstaflega að undirbyggja Stéttarsamband bænda með stéttarfélagakerfi bændanna, sem gæti lögformlega tekið ákvarðanir gegnum atkvgr. um sáttatillögur.

Ég gerði að vísu till. um það, að viðmiðun yrði höfð. Það var svo fast í mér, að það þyrfti einhverja viðmiðun við aðrar stéttir um kjör bændanna og viðurkenndi, að það væri mjög á reiki, hverjar væru tekjur verkamanna. Ef miðað er við taxtana, er það rétt, sem bændafulltrúarnir sögðu. Þeir eru yfirborgaðir í góðæri, eins og núna. Bóndinn fær þess vegna ekki alveg það sama og verkamaðurinn, þegar þannig er ástatt á vinnumarkaðinum. Það er erfitt að fá glöggar viðmiðanir, og frá hinni hliðinni, þegar enginn veit um vinnutíma bóndans með neinni vissu, er viðmiðunin nánast út í loftið. En ef þessum hugsanagangi er hafnað og bændastéttinni helgaður frjáls samningsréttur, þarf ekkert lágmark að setja. Þá semur hún eingöngu um það, sem fulltrúum stéttarinnar finnst vera ofan við það lágmark, sem ekki er unað við. Ég hef með nánari athugun komizt að þeirri niðurstöðu, að ef samningafrelsi um verðlagningu landbúnaðarafurðanna og önnur hagsmunamál bændastéttarinnar væri lögfest, væri viðmiðun alveg óþörf. Þá leysist það mál gegnum samningana, og það er einn af veiku hlekkjunum í sexmanna nefndarkerfinu að finna einhverja viðmiðun, sem allír gætu sagt, að væri réttlát. Það er enginn, sem getur sagt, að það sé réttlátt að miða kjör bóndans við kjör verkamanns í Reykjavík. Bóndinn er allt annars eðlis, bóndinn er atvinnurekandi. Og það væri kannske miklu eðlilegra að leita einhvers staðar að hliðstæðu í atvinnurekendastéttunum, og þó gæti það vafalaust orkað tvímælis og verið kannske erfitt að finna það.

Ég hef leyft mér að semja frv. til I. um útfærslu á þeirri lausn þessara mála, sem ég hef túlkað bæði í starfi mínu í sjö manna n. og í umr. í haust og hér í sölum Alþ., og mun leggja þetta frv. fram sennilega núna á morgun eða hinn daginn. Það er sá lagabúnaður þessara mála, sem byggir á þeim sjónarmiðum, sem ég hef verið að túlka hér og í sjö manna n. Það er samfellt kerfi, sem ég tel að eigi að byggja upp til þess að leysa þessi mál, og það kerfi eigi að leysa Sexmannanefndarkerfið af hólmi, sem er í mínum augum misheppnað kerfi og vanskapað og leysir ekki neinn þann vanda, sem bændastéttin eða íslenzka þjóðin eru í nú, sízt af öllu nú, eftir að offramleiðslan hefur líka gengið í garð. Það spanar hana meira að segja áfram enn þá meira og ræður þar enga bót á, það er ekki gerð tilraun til þess. Og sú vísbending, sem fulltrúar bænda gáfu um vilja sinn til þess að draga úr offramleiðslu, sé ég meira að segja, að er tekin út úr frv., annaðhvort fyrir misgáning eða viljandi. Ég tel, að þetta sé svo stórt mál, bæði fyrir bændastéttina og að því er snertir þá ábyrgð, sem ríkisvaldið hefur á stjórn efnahagsmálanna, að þetta mál eigi ekki að afgreiðast á Alþ. öðruvísi en að vísa því til umsagnar Stéttarsambands bænda, svo að bændastéttin fái aðstöðu til þess að fjalla um það, áður en lausn á því er hér lögfest á ný. Gæti þá verið réttast, að bæði þessu frv. hæstv. ríkisstj. og því frv., sem ég mun leggja hér fram áður en margir dagar líða um þessi mál, yrði báðum visað til bændastéttarinnar, til þess að sú stétt, sem þetta mál varðar mest, geti fengið um það að segja sitt álit og að hægt væri að flytja frv. á komanda þingi, sem styddist við vilja bændastéttarinnar í þessu máli.

Ég mun því hafa þá afstöðu gagnvart þessu máli, að því beri nú á þessu þingi að vísa frá.