28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2271 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur legið fyrir hv. landbn. þessarar d. og svo sem fram kemur á nál., sem hér liggur fyrir, varð hún ekki á eitt sátt um afgreiðsluna. Hv. þm. Hannibal Valdimarsson skilar séráliti, og mun það reyndar ekki koma þdm. á óvart, og leggur til, að frv. verði fellt. En meiri hl. n., aðrir 6 nm., stendur sameiginlega að áliti, þar sem hann leggur til, að frv. verði samþ. Að vísu skrifar einn þeirra, hv. 5. þm. Norðurl. v., undir nál. með fyrirvara og hefur áskilið sér rétt til að flytja brtt.

Þegar mál þetta var lagt hér fyrir til 1. umr. af hæstv. landbrh., fylgdi hann því úr hlaði með ýtarlegri ræðu og reyndar í báðum hv. þd., þar sem hann skýrði bæði efni þess og aðdraganda allan, en svo sem kunnugt er fór þannig á s.l. hausti, að rofið var af hálfu A.S.Í. það samkomulag, sem hafði verið um verðlagningu innan Sexmannanefndar, og afleiðingin varð sú, að sett voru brbl. sem verðlagningin byggðist þá á. Í framhaldi af því var svo skipuð af ríkisstj. hálfu sjö manna n., þar sem hvor aðili, neytendur og framleiðendur, lagði til sína þrjá hvor, en formaður n. var Ólafur Björnsson prófessor og alþm. Segja má, að það frv., sem hér liggur fyrir, sé í megindráttum árangur af starfi þessarar n. Það hefur orðið samkomulag meðal 6 nm. um þær breyt., sem felast í þessu frv., og með hliðsjón af því, að hér er, svo sem þm. vita, um allerfitt úrlausnarefni að ræða, sem hefur kostað mikið samningaþóf, og með hliðsjón af því, að það hefur orðið samkomulag um þær breyt., sem í þessu frv. felast, leggur n. sem sagt til, að frv. verði samþ.

Ég sé ekki ástæðu til að flytja nánari ræðu um þetta á þessu stigi, en vitna til þeirra skýringa og framsögu, sem hæstv. landbrh. flutti hér við I. umr. málsins.