28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég gerði nú varla ráð fyrir að tala í kvöld, því að það er orðið svo framorðið, og það er svo erfitt að koma mönnum í stemmningu, þegar þeir eru orðnir syfjaðir. Það var nú nefndarfundur hjá okkur, eins og gerist og gengur, í búnaðarmálanefnd, mál tekið fyrir, eins og venja er. Ég stakk upp á því, að við læsum greinarnar yfir og athuguðum þær eitthvað. Ég er nú mikill vinur form. n. og okkur kemur yfirleitt vel saman, sérstaklega í atvinnumálum og raunar í öllu. Ég bjóst því við, að samkomulagið yrði gott og þetta yrði rætt í bróðerni. Mér var tilkynnt, að það væri ekki til neins að vera að ræða þetta mál, það væri ákveðið og í því yrði engu orði breytt, hvað þá heilli setningu, svo að það varð úr, að hv. 5. þm. Vestf. fór að lesa upp frv., sem hann var búinn að semja um þetta, og við sátum nú þegjandi og vorum svona að glugga í frv. hinir, nema hv. 2. þm. Sunnl., hann var næstur Hannibal og hann var alltaf að játa því, sem Hannibal las, og þegar hann var búinn að játa 40–50 sinnum, spurði ég hann, hverju hann væri að játa, og hann sagðist vera að játa því, að hann skildi það, sem Hannibal væri að lesa. Svona voru nú störfin hjá þessari n. Ég skrifaði undir með fyrirvara. Svo fór ég nú að lesa þetta betur og kynna mér þetta frv., og eins og þið vitið, hef ég gert lítið að því að deila á hæstv. landbrh. og ekki hef ég nú verið skammaður fyrir það af mínum flokksmönnum, en ekki a.m.k. hælt fyrir það. Ég hef borið honum frekar gott orð en hitt og talið hann vera vinveittan bændum, sem hann er og, og yfirleitt aldrei deilt við hann nema helzt út af skógræktarbeltunum um daginn, sem voru tóm vitleysa, enda frv. ekki samið af honum frekar en önnur frv.

Annars er það að verða furðulegt, þetta þing hjá okkur, því að yfirleitt eru málin ekki ákveðin hér. Á meðan Hermann Jónasson var stjórnarformaður, það var kölluð vinstristjórn á þeim árum, þá var talað um það, að samið væri um málin úti á götunni eða einhvers staðar svona við lýðinn, og ég var ekkert að hæla því. Ég álít það náttúrlega út af fyrir sig, að þingið hafi löggjafarvaldið og eigi náttúrlega að ráða, og það á ekki að semja við eina stétt frekar en aðra endanlega, það er sjálfsagt að hafa eins gott samstarf við stéttirnar og hægt er og taka tillit til þeirra. En það var mikið fundið að þessu og einkum af sjálfstæðismönnum, sem voru í stjórnarandstöðu þá, en nú sé ég ekki annað en afgreiðsla mála sé komin enn meira út fyrir þingsalina. Fjármálin eru yfirleitt ákveðin uppi í Seðlabanka, bæði gengismál, vaxtamál og yfirleitt bankamálin. Bændamálin eru ákveðin í einhverri n., sama er að segja um sjávarútvegsmálin, og við höfum eiginlega ekki ,nema einhver frv. að fjalla um, og þegar við fáum svo tilkynningu um, að engu orði megi breyta, þegar komið er á nefndarfundi, — ég veit nú ekki, hvaðan sú ordra hefur komið, hvort það er frá landbrh. eða stjórninni í heild, — sé ég ekki, að það hafi ákaflega mikla þýðingu, að halda þessa nefndarfundi. Það væri þá réttast bara, að ráðh. tilkynnti: Það verður engu breytt í viðkomandi frv. og þarf engan nefndarfund að hafa. — Nú, þetta er farið að breiðast út meðal þjóðarinnar, að þm. ráði engu og séu yfirleitt ekki til neins og þori ekki að segja meiningu sína. Þeir þori varla að hafa skoðun, því síður að halda henni fram og enn síður að fylgja henni eftir. Og ef þessu heldur áfram, sé ég ekki annað, ef eitthvað er eftir af virðingu fyrir þinginu, en hún hverfi með öllu. Ég sé ekki betur.

Jæja, ég fór nú að kynna mér þetta frv. og las grg. alla líka, og þá er þetta svo skrýtið, að þetta byggist aðallega á 5. gr., þar sem segir: „Við 4. gr. bætast 2 nýjar málsgr. svohljóðandi.“ Ég fór að lesa þetta, því að á því byggjast allar tekjur bóndans, og hæstv. 5. þm. Austf. ræddi dálitið um það áðan, og þá sé ég, að þetta er alveg nákvæmlega það sama og Sæmundur Ólafsson lagði til. Ég vil ekki deila á n. fyrir þetta. Nákvæmlega sama orðalagið og alveg eins og Sæmundur lagði til, að væri tekið upp, því að það hefur einhvern veginn verið athugunarleysi, að grg. hefur ekki verið breytt, þó að frv. hafi verið breytt, þannig að í grg. er gert ráð fyrir því að leggja skatt á fóðurbæti og þar er talað um þennan ágreining við Sæmund og hvað Sæmundur leggur til. Það er sérstakt álit frá honum, og það er alveg tekið upp í grg., en felldur niður fóðurbætisskatturinn, í stað þess er heimilt að leggja skatt á mjólkina, sem má nota til útflutningsuppbóta. Það, sem skeður, virðist vera samkv. þessu, að hæstv. landbrh. — ég hef nú oft dáðst að honum, og það dró nú ekki úr aðdáun minni á honum, þetta síðasta afrek — virðist hafa samið um það, eftir að n. lýkur störfum, að fella niður skattinn af fóðurbætinum, en skattleggja mjólkina og ganga að kröfum Sæmundar til þess að gera hann góðan. Nú gefur það auga leið, að það er skattlagt, sem kemur frá kúnni, en ekki það, sem hún étur. Mjólkin er skattlögð, en ekki fóðurbætirinn. Nú skulum við athuga í hverju þetta liggur. Það er af því, að sunnlenzku bændurnir gefa meiri fóðurbæti. Á búnaðarþingi voru deilur um þetta, þeir afsögðu fóðurbætisskattinn, og þeir afsögðu hann, af því að þeir gefa meiri fóðurbæti, og svo er þessu dembt á alla landsbyggðina og skaðar þá okkur vitanlega, sem gefum minni fóðurbæti.

En svo er ég nú ekki allra óánægðastur með þetta, heldur er ég óánægðastur með það, sem stendur í a-lið 2. gr., en þar er Framleiðsluráði heimilt að ákveða mismunandi hátt útborgunarverð til framleiðenda eftir árstímum og innheimta verðjöfnunargjald af innveginni mjólk. Framleiðsluráði er sem sagt gefin heimild til að ákveða mismunandi verð eftir árstíðum og innheimta verðjöfnunargjald af mjólk. Þið skuluð athuga það, að þarna eru tveir óskyldir liðir. Framleiðsluráði er gefin heimild til þess að segja við mjólkurfélögin: Þið hafið þetta hærra verð að vetrinum og þetta hærra að sumrinu. Ég skal viðurkenna, að þetta er nauðsynlegt, þar sem um neyzlumjólkurframleiðslu er að ræða, en það er ekki nauðsynlegt t.d. hjá okkur í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, jafnvel í Dalasýslu og á Héraði er það ekki nauðsynlegt. Og mjólkin, sem framleidd er að sumrinu, er mörgum sinnum ódýrari, þannig að með því að gera geysilega mikinn verðmun á sumarmjólk og vetrarmjólk, er mjólkurframleiðslan gerð dýrari, það verður farið að leggja meiri áherzlu á að framleiða að vetrinum og minna að sumrinu, og það er kannske allt að því þrefalt dýrari mjólk en ef kýrin bítur gras úti og kostar miklu meiri fóðurbætisgjöf. Og á þetta atriði vil ég alls ekki fallast.

Ég er búinn að semja brtt., en hef ekki lagt hana fram og vil orða þetta þannig „að ákveða mismunandi verð til framleiðenda eftir árstímum, þar sem verulegur hluti mjólkurframleiðslunnar er seldur sem neyzlumjólk. Verðmunurinn skal ákveðinn í samráði við stjórnir viðkomandi mjólkurbúa. Framleiðsluráði er einnig heimilt að ákveða og innheimta verðjöfnunargjald af innveginni mjólk.“ Það er allt annað, verðjöfnunargjaldið, sem heimilt er að nota til uppbóta á útflutningsafurðir, heldur er það að ákveða verðmismuninn. Og svo álít ég ekki rétt að fá Framleiðsluráði þetta skilyrðislausa vald án þess að hafa neitt samráð við fulltrúa bændanna, sem eru í stjórn þessara félaga. Ég viðurkenni, að þar sem um mikla neyzlumjólk er að ræða, verður að greiða vetrarmjólkina hærra verði. Annars álit ég, að Framleiðsluráð og bændasamtökin hafi ekki tekið rétta stefnu í þessu máli. Við eigum hvorki að skattleggja mjólkina til að bæta útflutningsvörurnar né heldur að skattleggja fóðurbætinn. Við eigum einfaldlega að skipuleggja mjólkurframleiðsluna, eins og ég talaði hér um í vetur, og ég hef talað við marga bændur um þetta og þeir taka því allir vel. Ég er sannfærður um, að félagsþroski bændanna og skilningur er það mikill, að þeir mundu sætta sig algjörlega við það, að gerð væri hreinlega áætlun um, hvað mikla mjólk þjóðfélagið þyrfti og því væri skipt á milli héraðanna. Þar yrðu vitanlega mættir fulltrúar frá mjólkursamlögunum, og svo deildu þau aftur á milli einstaklinganna. Það væri hægt að skipuleggja þetta svona og þá þyrfti hvorugt, og á þann hátt væri hægt að gera framleiðsluna ódýrari, draga úr fóðurbætisgjöfinni. Þá gerðu bændur þetta upp við sig, hvort ætti að framleiða þetta mjólkurmagn af töðu eða hrúga fóðurbæti í kýrnar, og á þann hátt einan er hægt að draga úr kostnaðarverði framleiðslu hvers lítra. En þarna er farið herfilega með okkur, að ætla bæði að fá Framleiðsluráði óskorað vald til að ákveða verðmun vetur og sumar og þar að auki að skattleggja mjólkina, því að eðlilega verður þessi skattur tiltölulega þyngstur á þá, sem gefa minnstan fóðurbæti, og þeir, sem láta kýrnar bera að vorinu, eins og við gerum yfirleitt fyrir norðan, gefa tiltölulega lítinn fóðurbæti. Ég viðurkenni það, að yfirleitt hafa Sunnlendingar haft hærra mjólkurverð en við, og þeir mega gjarnan fá það, meðaltalsmjólkurverð yfir árið, þegar þeir framleiða meiri vetrarmjólk. En ég vil ekki fá Framleiðsluráði vald til þess að hafa vetrarmjólkina miklu hærri en sumarmjólkina.

En svo er nú annar galli á þessu. Hér stendur í þessari sömu gr. „að ákveða mismunandi hátt útborgunarverð til framleiðenda.“ Ég veit, að hér er átt við endanlegt verð, en útborgunarverð er bara allt annað en endanlegt verð, svo að þarna er ekki rétt orð notað. Það á annaðhvort að vera verð eða endanlegt verð. Útborgunarverð hefur ekkert að segja, því að með uppbótunum er hægt að jafna allan muninn, svo að þá er það alveg þýðingarlaust, svo að þarna er um málfræðilega vitleysu að ræða, eða réttara sagt ekki rétt orðað. Út úr þessu er hægt að snúa, því að útborgunarverð er það, sem borgað er strax, en endanlegt verð er það, sem menn fá, þegar allar uppbætur koma, eða þá bara verð. Og það hef ég haft, ég hef bara haft verð, og þá úrskurðað sem endanlegt verð. En útborgunin verður annað.

Viðvíkjandi 5. gr. er tekin upp till. Sæmundar, ekkert annað. Og þarna þykist hver hafa leikið á hinn, Sæmundur hafa komið ár sinni vel fyrir borð að fella niður hlut sjómanna og akkorð iðnaðarmannanna og bændurnir halda, að þeir geti leikið á Sæmund og fólkið, eða viðsemjendurna, með því að teygja vinnustundir fjölskyldunnar. Ég held, að þetta sé byggt dálítið á sandi. Ég hygg, að þarna séu ótal smugur til að deila um óendanlega. Ég vil ekki fullyrða algjörlega um, hvernig þetta kæmi út, það fer eftir túlkun, en ég geri ekki ráð fyrir, að það yrði til margra ára hægt að snúa á neytendur í því atriði, það yrðu gerðar rannsóknir það ýtarlegar á því, að ég hygg, að það yrði ekki til langframa. En þetta er líka ákaflega klaufalega orðað. Hér segir t.d. og er eiginlega varla sæmandi fyrir þingið að láta það fara frá sér:

„Í verðlagsgrundvelli skal, sbr. ákvæði 6. gr., tilfæra ársvinnutíma bóndans, skylduliðs hans og hjúa á búi af þeirri stærð, sem miðað er við hverju sinni, og virða vinnutíma til samræmis við kaupgjald verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna.“

Hér er talað um að virða vinnutíma til samræmis við kaupgjald verkamanna og sjómanna. Þið sjáið, að það er ekki sama vinnutími og kaupgjald. Það er ekki hægt að virða vinnutíma til kaupgjalds. Það verður að virða vinnutíma á móti vinnutíma og kaupgjald á móti launum. Ég vil orða þetta þess vegna þannig „að miða vinnutíma og kauphæð til samræmis við meðallaun og meðalvinnutíma o.s.frv.“ Ég vildi nú vita, hvort form. n. vildi ekki halda annan fund, ég hef ekki lagt fram till. enn þá, og fá leyfi hjá landbrh. til þess, að við mættum breyta orðalagi, svo að það yrði sómasamlegt mál á því a.m.k., að við mættum halda fund fyrir 3. umr. og ræða um þetta, hvort það væri ekki leyfilegt að fá þarna smábreytingar. Því að þótt ég komi hér einn með brtt., veit ég, að hún kemst ekki í gegn og ekki þó að við gerðum það meira að segja nokkrir framsóknarmenn, sem ég veit ekki, hvort þeir kæra sig nokkuð um, þannig að ef n. getur ekki staðið saman um einhverjar orðalagsbreytingar, fást þær ekki í gegn. Mér finnst nú eiginlega, að ef um svona mállýti er að ræða og í raun og veru hugsanavillur, þá ættum við að fá leyfi til þess. Og helzt vildi ég fá leyfi til þess eða fá n. til þess að samþykkja það að fá ekki Framleiðsluráði þetta óskoraða vald á verðmuni vetur og sumar hjá þeim, sem ekki þurfa að framleiða vetrarmjólkina. Ef ekkert af þessu tekst, ætla ég að bera fram a.m.k. við 3. umr. brtt. viðvíkjandi 3. gr. frv., sem kemur við 2. gr. I. En helzt af öllu vildi ég, að næðist samkomulag um þetta. En ég gat bara ekki náð þessu á nefndarfundinum, því að þar var bara tilkynnt, að engar breyt. kæmu til greina. Þess vegna hef ég nú minnzt á þetta hérna.