28.04.1966
Neðri deild: 0. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2288 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja fundinn og gæti raunar fallið frá orðinu, því að ég ætlaði aðeins að svara fsp., sem hv. 5. þm. Norðurl. v. (BP) beindi til mín, en ég sé nú, að hann er horfinn úr d. Hann spurði mig að því, hvort ég gæti ekki sem form. landbn. stuðlað að því, að n. kæmi aftur saman til þess að ræða þetta mál. Ég sé ekki neina ástæðu til þess, að hún geri það, og mun ekki kalla saman fund í n. út af því, nema þá eitthvað alveg sérstakt komi fyrir annað en það, að þessi hv. þm. virðist ekki enn vera búinn að koma í verk að móta þessa brtt., sem hann hefur þó haft í höfðinu núna í nokkra undanfarna daga.

Svo vil ég um leið alveg mótmæla því, að honum hafi verið sýnt nokkurt ofríki í n. Honum var alls ekki meinað þar að bera fram brtt. eða ræða málið. Það var í rauninni nokkuð liðið á fundartímann, þegar hv. þm. birtist í n., en þá var ég búinn að gera þá till., að við samþ. frv. óbreytt. Síðan kom þessi hv. þm. og fór að ræða við okkur um breyt. á því, og við hlustuðum á hann, en að honum hafi verið sýnt nokkurt ofríki, því mótmæli ég alveg.

Annars fannst mér ræða þessa hv. þm. áðan vera á þá lund, að honum væri ekki eiginlega vel ljóst, um hvað hann væri að tala, einhvern veginn verkaði hún þannig á mig. Hann hafði mest á móti a-lið 3. gr., að Framleiðsluráði landbúnaðarins skuli heimilast að ákveða mismunandi hátt útborgunarverð til framleiðenda eftir árstímum. Nú skildist mér raunar á honum, að hann hefði ekkert á móti því, að það væri mismunandi útborgunarverð. Hann hefur mest á móti því, að Framleiðsluráði skuli heimilað þetta. En ég vil aðeins segja það, að ég get varla séð, að það sé hægt að hafa annan hátt á þessu en að heimila Framleiðsluráði að gera þetta, og ég vil segja það fyrir mig sem búandi í sveit, að ég verð að treysta Framleiðsluráði til þess að gera það réttasta, sem það ætlar í þessurg málum. Og þegar maður lítur á það, hvernig Framleiðsluráðið er skipað, finnst mér, að þessi hv. þm. ætti ekki að vantreysta því svo mjög því að það er skipað, ef ég kann rétt frá að skýra, fimm mönnum frá Stéttarsambandi bænda og svo öðrum fjórum, sem Stéttarsambandið skipar eftir tilnefningu fjögurra aðila, þ.e. þeirrar deildar Sambands íslenzkra samvinnufélaga, sem fer með sölu á landbúnaðarvörum, Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, Sláturfélags Suðurlands og mjólkurbúanna utan mjólkursölusvæðis Reykjavíkur. Ég held, að Framleiðsluráð sé þannig skipað, og yfirleitt held ég, að við verðum að líta svo á, að þessir menn, sem þarna starfa, séu allir fulltrúar bændanna og við verðum að treysta þeim. En ef það reynist svo, að þeir brjóti á okkur rétt, verðum við að hafa annan hátt á og reyna þá a.m.k. að kjósa aðra menn í þetta en þá, sem við höfum treyst til þess að fara með þessi störf fram að þessu.