28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2289 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki gerast langorður um þetta mál, úr því sem komið er þessum fundartíma, enda hefur nú ekki gefizt mikið tilefni til þess að lengja þessar umr. verulega, en þó voru nokkur atriði, í ræðu hv. 3. þm. Vesturl., sem ég vildi gera aths. við.

Þessi hv. þm., sem jafnframt er formaður í Stéttarsambandi bænda, sagði hér í ræðu sinni, að ein ástæðan til þess, að hann sem fulltrúi bænda gæti ekki fallizt á þá leið, að gengið yrði út frá samningum á milli samtaka bænda og ríkisvaldsins, væri sú, að reynslan hér frá nágrannalöndunum væri slík, að menn óskuðu ekki eftir að hverfa að þessu skipulagi. Þetta kemur mér heldur spánskt fyrir. Það vill nú svo til, að ég er hér með fyrir framan mig rit, sem bændasamtökin gefa út, þar sem alveg sérstaklega er einmitt skrifað um þessi mál, og þar segir ritstjóri þessa rits frá ferðalagi sínu til Noregs, þar sem hann hafði m.a. verið að kynna sér alveg sérstaklega fyrirkomulag þessara mála þar og hvernig norskir bændur litu einmitt á sitt kerfi.

Í þessari grein, sem birtist hér í 1. hefti af Árbók Landbúnaðarins frá 1962, er niðurstaða ritstjórans þessi, eftir að hann hafði verið í Noregi og setið þing bændanna þar:

„Það kom líka fram á allsherjarþingi bændasamtakanna norsku, er háð var um miðjan júní s.l. sumar, en þar mætti ég sem gestur, að meiri hluti fulltrúanna var mjög sæmilega ánægður með þá kosti, er bændum voru veittir.“

Svo heldur frásögnin áfram, og er býsna fróðleg til íhugunar í sambandi við þá báglegu reynslu, sem þeir eiga að hafa af þessu. Ritstjóri Árbókarinnar segir orðrétt:

„Um verðlagningu afurðanna samkv. þessum samningum er það annars að segja, að norskum bændum eru með þeim ætlaðir 78.75–79.75 norskir aurar fyrir hvern ltr. af mjólk á þessu ári, og svarar það til kr. 4.75–4.83 í íslenzkum peningum, eins og gengið er, þegar þetta er skrifað, og má telja það sama verð og framleiðendum er ætlað hér samkv. okkar verðlagsgrundvelli. Hins vegar er bændum í Noregi ætlað rúml. 50% hærra verð fyrir sláturafurðir en hér.“

Og í þessari sömu grein er svo skýrt frá samningum eða fyrirkomulagi þessara mála í Bretlandi og látið mjög vel af öllu fyrirkomulagi. Nei, ef miða má við þau rit, sem gefin eru út á vegum bændasamtakanna, getur það ekki verið af þeim ástæðum, sem hér voru færðar fram af hv. 3. þm. Vesturl., formanni Stéttarsambands bænda, að þau geta ekki fallizt á að taka upp þetta fyrirkomulag. Það er eitthvað annað, sem hefur þvælzt fyrir mönnum í þessum efnum miðað við þær túlkanir, sem hafa komið frá bændum varðandi þessi mál.

Þessi sami hv. þm., 3. þm. Vesturl., sagði einnig varðandi það, sem ég hafði sagt hér áður, að það mætti ábyggilega leita með logandi ljósi eftir því í samtökum bænda, að þeir hefðu gert einhverjar samþykktir um það, að þeir vildu fella niður sexmannanefndarkerfið og sérstaklega ákvæðin um yfirdóm, því að þeir gerðu sér það allir ljóst, að slík ákvæði eins og yfirdómsákvæðin yrðu að vera í l. Ég þurfti ekki að fletta lengi þessu riti, sem ég hafði hér fyrir framan mig af mestu tilviljun, til þess að finna eina svona samþykkt, og hún talaði býsna skýru máli. 1 þessu riti landbúnaðarins er skýrt frá samþykkt, sem ég skal hér lesa orðréttan kafla úr:

„Almennur bændafundur haldinn að Breiðumýri 12. febr. 1962 að tilhlutan Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga samþykkti með öllum atkv. að skora á Stéttarsamband bænda að beita sér fyrir breytingum á l. um framleiðsluráð o.fl. nr. 59 1960, sem m.a. feli í sér 1) að ákvæði l. um starf Sexmannanefndar og yfirdóm falli niður.“

Það er ekki verið að draga neitt úr því. Þessir menn höfðu alveg gert sér fulla grein fyrir því, að þetta mætti missa sig. Enda er vitanlega hægt að tilfæra ótal samþykktir úr ritum bænda að undanförnu, meðan þeir voru að óskapast út af niðurstöðum yfirdómsins og tala um það, hvað þetta væri óbilgjarnt allt saman og hvað fulltrúar viðsemjendanna hefðu verið óbilgjarnir í samningum, þá var þetta ekki par gott. Við skulum bara viðurkenna það, að það var svona. Og það var einmitt þetta sem leiddi að verulegu leyti til þess, að fulltrúar launastéttanna óskuðu ekki eftir því að hafa slíka aðstöðu áfram, þar sem beinlínis var hægt að síga saman bændum landsins og launþegum á þann hátt, sem því miður var gert varðandi þessi mál. Eins og ég hef sagt hér áður, er enginn vafi á því, að það væri hið æskilegasta, að vinnandi menn í sveitum landsins og í þorpum og kaupstöðum gætu staðið saman um hagsmunamál sín, en því miður hefur nú ekki tekizt svo til í sambandi við framkvæmdina á þessum l., og til þess hafa auðvitað legið ýmsar ástæður. Grundvöllurinn var orðinn mjög hæpinn hérna til þess að byggja á. En ég ætla svo ekki að fara að karpa hér neitt um það atriði, sem alveg má vera öllum mönnum augljóst í sambandi við þessa lagasmíð, að þeir, sem þar hafa gert samkomulag sín á milli, meina sitt hver. Sæmundur Ólafsson berst mjög ákveðið fyrir því að lækka greiðslurnar til bænda. Hann telur, að þær hafi verið of miklar og það þurfi að koma hér inn ákvæðum í þá átt. Þeir, sem óánægðir hafa verið með verðniðurstöðuna á undanförnum árum, standa nú hins vegar að þessum breytingum og þykjast vera að fá stórbættan grundvöll. Eins og ég hef sagt, getur hæstv. landbrh. verið nokkuð ánægður með það, að honum hafi tekizt vel til að þvæla þessu saman á þennan hátt. Hann hefur gengið á milli þessara aðila og komið þessu svona fyrir, en svo koma skuldadagarnir. Það kemur að því, að það þarf að fara að framkvæma þessi ákvæði. Það kemur að því, að það þarf að fara að ákveða verðið á næsta hausti, og þá koma fram túlkanir hvers um sig á þessum atriðum. Alþfl. hefur það ábyggilega út úr þessu, að hann getur mjög státað af því núna, t.d. í næstu bæjarstjórnarkosningum, að hann hafi komið sínum málum vel fram í sambandi við verðlagningu landbúnaðarafurða. Og Framsfl. getur eflaust minnzt á það, a.m.k. fram að næsta hausti, að vel hafi honum til tekizt. En hvað verður svo, þegar verðlagningin kemur á næsta hausti?

Ég er hræddur um, að þá verði þau heldur haldlítil, þau loðnu ákvæði, sem er að finna í þessu frv.

Ég hef hér lýst nokkuð afstöðu minni til þessara mála. Afstaða mín er sú, að ég tel, að grundvöllurinn hafi raunverulega verið hruninn undan sexmannanefndarkerfinu og það hafi verið óhjákvæmilegt, eins og þróun málanna var, að vinna að því að byggja hér upp nýtt fyrirkomulag, og ég held, að í því nýja fyrirkomulagi hafi átt að byggja einmitt á því, að bændurnir fengju fullan og alveg óskoraðan samningsrétt við þann eina aðila, sem hægt er að semja við um verðlagið á landbúnaðarafurðum, eins og málum háttar nú í okkar landi, en það er ríkisvaldið sjálft, á svipaðan hátt og gert er bæði í Bretlandi, Noregi og Svíþjóð. Og ég held, að það hefði verið langeinlægast, að stéttarsamtök bændanna hefðu staðið í þessum samningum við þennan aðila og það hefði verið langeðlilegast líka, að fulltrúi ríkisvaldsins hefði þorað að standa í þessum samningum sjálfur beint, án þess að bregða nokkrum stuðpúða fyrir sig. Og ég hygg líka, að það muni draga til þess, að slíkt skipulag verði tekið upp hér, þó að menn reyni nú þennan hliðardans, sem hér er lagt til að reyna í einn umgang eða svo. En ég er andvígur því að samþ. þetta frv. í þeim búningi, sem það er, og tel eðlilegt, að næsta verðákvörðun hefði verið með beinum samningum á milli Stéttarsambands bænda og ríkisvaldsins. Takist ekki samningar, eins og ég hef sagt hér áður, er vitanlega það eðlilega fyrirkomulag, að bændurnir eiga rétt á því að auglýsa sitt verð og fylgja því eftir, alveg hreint eins og launastéttirnar eiga rétt til þess, ef þær ekki fá samninga. Bændastéttin getur vitanlega gripið til framleiðslustöðvunar eða sölustöðvunar að því leyti til, sem henni þykir það ráðlegt eða hagstætt. Það er auðvitað mesta fjarstæða, að hún geti ekki þrýst á eftir sínum kröfum með slíku í vissum tilfellum, ekki öllum. Það eru til mörg dæmi um það, að til slíks hafi verið gripið. Og ýmsir aðilar, sem stendur mjög svipað á um og bændurna, t.d. útvegsmenn, þeir, sem eiga dýr framleiðslutæki, mundu vitanlega taka á sig svipuð útgjöld og svipaða erfiðleika eins og bændurnir mundu gera, þegar þeir grípa til rekstursstöðvunar, jafnvel þó að þeir sitji uppi með allmikinn fastan kostnað, sem þeir geta með engu móti vikið sér undan. En ég fyrir mitt leyti vil ekki gera neitt aðalatriði úr því, að bændurnir geti knúið sitt fram með framleiðslustöðvun eða sölustöðvun. Ég veit, að á því eru vissir erfiðleikar, en hitt liggur vitanlega beint við, að auglýsa verð, ef ekki hefur náðst samkomulag, en ég vil ætla, að það eigi að vera allar líkur til þess, að fengizt geti samkomulag í samningum við þann aðila, sem með eðlilegum hætti getur gert samningana, þegar því er slegið föstu fyrirfram, á hvaða grundvelli á að semja, þegar á að tryggja bændum sambærileg launakjör við tilteknar starfsstéttir í landinu.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar. Ég þykist hafa gert grein fyrir minni afstöðu til málsins.