28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2291 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru örfá atriði, sem hafa komið fram í þessum umr., sem mig langaði til að víkja að og þó aðeins mjög stuttlega.

Út af því, sem fram kom hér í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. um verðjöfnunina, vil ég aðeins segja það, að ég undrast, að sá hv. þm. skuli ekki gera sér betur grein fyrir því, hvernig ástatt er í sölumálum landbúnaðarins í dag. Flestir aðrir hv. þm. hafa gert sér það alveg ljósi og skilja að það er óhjákvæmilegt að hafa einhverja möguleika til verðjöfnunar. Og það fylgir þá náttúrlega, að það verður að gefa einhverjum aðila rétt til að framkvæma verðjöfnunina, og þar er varla um nema einn aðila að ræða og það er Framleiðsluráð landbúnaðarins. Ég sé ekki annað en andmæli, sem fram hafa komið gegn þessu atriði og það raunar eingöngu frá þessum eina hv. þm., séu algerlega út í bláinn.

Þá eru það örfá atriði, sem hafa komið fram í ræðum hv. 5. þm. Austf., sem ég vil aðeins minnast á. Hv. þm. sagði í sinni fyrri ræðu eitthvað á þá leið, að í sambandi við verðlagninguna undanfarin ár hefði gætt vaxandi úlfúðar milli bænda og launþega í þorpum landsins. Ég vil bara leyfa mér að mótmæla þessu algerlega hvað snertir þau svæði, sem ég þekki til. Ég kannast ekkert við slíka úlfúð manna á milli, og ég skil ekki, hvaðan hv. þm. hefur þetta. Ég veit, að það hafa oft orðið hörð átök í samninganefndinni, en eftir að búið er að ákveða verðlagið, hefur ekki verið mikill ófriður um verðið, eftir að búið er að ákveða það alls ekki. Þá þykir mér rétt, að fram komi örlítið nánari skýringar á afstöðu bændastéttarinnar til þeirra tveggja leiða, sem hefur verið nokkuð talað um hér og auðvitað víðar og ekki sízt innan samtaka bændanna sjálfra, þ.e., hvort semja skuli við fulltrúa frá neytendum eða við fulltrúa frá ríkisstj. Það er alveg rétt hjá hv. 5. þm. Austf., að það hefur verið mikið um þetta rætt innan bændastéttarinnar og það hafa verið gerðar samþykktir, eins og samþykktin frá 1962, um það, að það þyrfti að losa um gerðardóminn og breyta til og taka upp samninga við ríkisstj. Þetta haggar þó í engu því, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði, að eftir að það hefur nú mjög færzt í vöxt, að ýmsar stéttir í þjóðfélaginu lúti gerðardómi um kjaramál sín, hefur dregið úr gagnrýni bænda á því ákvæði, og það munu ekki hafa gengið samþykktir um það síðar innan bændasamtakanna að fella niður gerðardóminn. En gangurinn í þessu máli innan bændasamtakanna er í stuttu máli þessi: Á búnaðarþingi 1961 var, eins og hv. 5. þm. Austf. tók fram, gerð samþykkt og skorað á Stéttarsamband bænda að semja frv. um breyt. á framleiðsluráðsl. og breyt. á verðlagningunni. Og þetta var gert. Það var sett mþn. af hálfu þessara samtaka beggja til þess að athuga þetta mál, og hún starfaði heilan vetur, fór rækilega í gegnum framleiðsluráðsl. og lagði fram frv. að breyt. á l. og rökstuddi það með ýtarlegri grg. N. varð ekki sammála. Einn nm. var sér á báti, meiri hl. n. vildi halda sexmannanefndarkerfinu með nokkrum breyt. Minni hl. vildi hins vegar taka upp beina samninga við ríkisstj. Það var aðallega það, sem greindi þarna á milli. Síðan var þetta mál tekið fyrir á aðalfundi Stéttarsambands bænda 1963. Frv.-uppkastið var lagt þar fram og álit meiri hl. n. fékk einnig meiri hl. á fundinum, þó að ekki væri hann stór, og þannig liggur það fyrir, að í heildarsamtökum bænda var á þessum tíma meiri hl. fyrir því að halda við gamla kerfinu. Síðar gerist það að sjálfsögðu í framhaldi af þessu, að bændasamtökin leita eftir því hjá þeim stjórnarmeirihluta og þingmeirihluta, sem þá var, að fá þetta mál flutt og fá samkomulag um framgang þess, en þáv. og raunar núv. hæstv. landbrh. var ósammála ýmsum atriðum í frv. og var ekki unnt að fá samkomulag um að leggja það fram á þingi með stuðningi ríkisstj. Þess vegna var það aldrei flutt á Alþ., því að bændur höfðu aldrei áhuga á því að fá málið hér inn í þingið til þess að deila um það, heldur eingöngu, ef líkur væru til þess að fá framgengt þeim breyt., sem meiri hl. fundarins var sammála um að leggja til að gera á verðlagskerfinu.

En það er rétt, að það komi hér einnig fram, hvað hefur síðar gerzt í bændasamtökunum, einmitt í sambandi við skiptar skoðanir manna um þessar tvær leiðir. Og það hygg ég, að mætti frekar verða til fyrirmyndar öðrum stéttarsamtökum, að á aukafundi í Stéttarsambandinu, sem haldinn var beinlínis út af þessum málum í vetur, voru deilur um hinar tvær leiðir lagðar til hliðar, en samþykkt að fela fulltrúum bænda í mþn. að vinna að því að afla samtökunum á ný aðildar að verðlagningunni og með hvorri leiðinni sem vera skyldi, ettir því sem hentast þætti til að koma málinu fram. Nm. var þannig algerlega falið umboð til þess að ganga frá málinu á hvorn veginn sem væri. Mér finnst rétt út af þeim umr., sem hafa farið fram um afstöðu bændanna í þessu efni, að það komi hér alveg skýrt fram, hvernig þessi mál hafa rakið sig innan stéttarsamtakanna. Og út frá þessu, sem ég hef nú sagt, hygg ég, að öllum megi vera það ljóst, að það var ekkert sjálfsagðara fyrir fulltrúa bændanna en vinna að því að fá fram þær breyt., sem kostur var á og þeir og samtök þeirra töldu, að miðuðu þó í rétta átt.

Þá vil ég aðeins víkja að því tali hv. 5. þm. Austf. hér í hv. þd., að hann vilji fyrst og fremst tryggja bændunum óskoraðan samningsrétt og ekki takmarkaðan, eins og hann sagði í fyrri ræðu sinni til frekari áherzlu. Þetta eru vissulega ljómandi falleg orð, en þá verða menn bara að gera sér fulla grein fyrir, hvað í þessu felst og hvað það er, sem hann er að bjóða upp á. Hann hefur alveg ákveðið talað um það sem heppilega lausn, alveg eins og hv. 5. þm. Vestf. gerði í n., að taka upp beina samninga við ríkisstj. En hvernig á þá þeim samningum að lykta, ef ekki næst frjálst samkomulag? Það er spurningin. Og það finnst mér vera nokkuð óljóst hjá hv. 5. þm. Austf. Hann hefur í fyrsta lagi talað hér um það, að mér skilst, að bændur auglýstu verð, ef ekki semst. Það væri kannske gott og blessað, en þó er það mismunandi þýðingarmikið að fá slíkan rétt, eftir því hvernig á stendur. Það gat verið þýðingarmikið fyrir bændasamtökin, ef hér hefði verið vöntun á landbúnaðarvörum, en með smjörfjallið að baki og að öðru leyti mikla framleiðslu og meiri en hægt er að nota innanlands, notast þessi réttur ekki nema að mjög takmörkuðu leyti, því að ríkisstj. hefur þá á valdi sínu að lækka útflutningsbæturnar. Bændur eru því í sjálfheldu og geta alls ekki auglýst verðið, fært það upp eftir því, sem þeim sýnist, af þessum sökum. Auk þess er það vitanlega takmörkum háð, hvað markaður þolir.

Í öðru lagi talar hv. þm. um þann möguleika að ljúka málum, ef ekki semst við ríkisstj., með verkfalli. Ég gerði nokkra grein fyrir því við 1. umr. þessa máls, hvernig ég lít á þá hluti. Hv. 3. þm. Vesturl. gerði einnig nokkra grein fyrir því frá sinni hálfu, og ég hygg, að okkar skoðanir í þeim efnum falli nokkuð saman við það, sem almennt er álit bændanna á því máli, þegar það hefur verið skoðað ofan í kjölinn. Þó eru atriði, sem ekki hefur verið minnst á í þessu sambandi, eins og t.d. það, hversu óeðlilegt það væri í deilu á milli bænda og ríkisstj. að hefja sölustöðvun gegn neytendum. Þetta virðist mjög óeðlilegt. Og svo er þetta: Sölustöðvun á mjólk veldur þeim fjárhagslegu tjóni, sem gera hana, en ekki hinum, sem henni er beitt gegn, varla einu sinni óþægindum fyrstu dagana, því að það er algerlega vandalaust, þegar sölustöðvun er boðuð með nokkurra daga fyrirvara að birgja sig upp af þessari vöru til nokkurra daga eins og nú er komið og á þó eftir að verða auðveldara með bættum umbúðum og meiri tækni í meðhöndlun mjólkurinnar.

Þá er það eitt atriði enn í sambandi við þessa lausn, sem ekki hefur verið drepið á, og það vil ég láta koma skýrt fram: Það skyldi ekki vera hætta á því, að þá myndaðist úlfúð á milli bænda og verkamanna í bæjunum, ef bændur gerðu tilraun til þess að stöðva sölu á nauðsynjavörum þeirra? Það er ég hræddur um, að væri meiri og sterkari leikur til þess að stofna til illinda á milli þessara stétta, sem vissulega eiga að vinna saman, heldur en hitt, þó að fulltrúar þeirra, kjörnir samkv. lagafyrirmælum, ræði verðlagsmálin sín á milli og jafnvel þó að þeir deili um þau hart. Nei, það er ekki enn þá kominn botninn í þann frjálsa og óskoraða samningsrétt. Hann er ekki kominn enn þá, nema ef vera skyldi, að hann felist í þeim till. hv. 5. þm. Vestf., sem liggja hér fyrir í nál. þar sem lagt er til, að till. bændafulltrúanna verði lagðar fyrir alla bændur í landinu og látnar gilda sem verð, ef þeir samþykki þær sjálfir! Og það má hver sem vill taka slíkar till. hátíðlega, en ég get a.m.k. ekki gert það.

Ég vil svo aðeins að lokum endurtaka það og árétta, sem ég lét koma hér fram við l. umr. þessa máls, að um þær breyt., sem um ræðir í frv.,var fullt samkomulag í n., sem skipuð var fulltrúum frá bændum og neytendum, samkomulag allra nm. annarra en Hannibals Valdimarssonar. Við fulltrúar bændanna teljum það meginatriði, og er það í fullu samræmi við þær samþykktir, sem gerðar voru á aukafundi Stéttarsambands bænda um þetta mál, að fá bændasamtökunum aftur beinan rétt til aðildar að verðlagningunni. En auk þess, eins og ég hef margtekið fram, teljum við, að í þeim breyt., sem yrðu á l., ef þetta frv. verður samþ., felist verulegar úrbætur frá því, sem áður var.

Ég held ég hafi þessi orð ekki fleiri, en mér þótti rétt að láta þessi atriði koma fram.