28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2294 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Undanfarin 10–12 ár hef ég fylgzt nokkuð vel með verðlagningu landbúnaðarvara, eins og sú verðlagning hefur farið fram samkv. því kerfi, sem er — má segja — undir lok liðið, en á nú að endurreisa með nokkuð sérstökum hætti. S.l. sex ár hef ég átt sæti í sjálfri verðlagsnefndinni. Ýmislegt það, sem hér er sagt um þessi mál, kemur því ekki ókunnuglega fyrir mín eyru. En þó furðaði mig á því, þegar hv. 3. þm. Vesturl. sagði hér áðan, að það hefði komið bændasamtökunum, forystumönnum þeirra, mjög á óvart, þegar A.S.Í. hætti aðild að Sexmannanefndinni s.l. sumar. Að vísu hefur þessi hv. þm. ekki mjög lengi átt sæti í verðlagsnefndinni. Þó hygg ég, að honum ætti að vera það vel kunnugt, að í sjálfri verðlagsnefndinni hefur einmitt þetta sjónarmið mjög komið fram á undanförnum árum af hálfu neytendafulltrúanna og þá ekki sízt af minni hálfu sem fulltrúa A.S.Í., og má raunar segja, að oftar en einu sinni hafi legið við, að þessi ákvörðun yrði tekin.

Aðstaða verkalýðshreyfingarinnar varðandi þessi mál er býsna erfið. Ég ætla, að einn meginvandinn, sem verkalýðshreyfingin á við að etja í þessum efnum og er þó ekki einangrað við verðlagningu landbúnaðarvara einna, sé sá, að þegar við förum í okkar kaupgjaldsbaráttu, baráttu, sem við heyjum til þess að gera okkar hlut betri, til þess að fá meira í okkar hlut, þegar afrakstrinum er skipt í þjóðarbúinu, má segja, að svo sé komið, að við séum ekki aðeins að keppa um okkar eigin kjör, heldur sé hitt réttara, að við erum að draga vagninn fyrir svo til alla aðra í þjóðfélaginu. Þetta er sá meginvandi, sem verkalýðshreyfingin á við að stríða. Ég veit, að bændur landsins eiga við margs konar erfiðleika og mikinn vanda að glíma varðandi sín mál. En það er líka alveg augljóst, að á undanförnum árum, þegar um verðlagninguna hefur verið fjallað, er verið að fjalla um vandamál, sem eru bein afleiðing af ýmiss konar ráðstöfunum öðrum í þjóðfélaginu og þó einkum þeim, sem hafa orðið til þess að magna verðbólguna sífellt meir og meir. Það hefur verið augljósara með hverju árinu, að verðlagsmálin ein gátu ekki leyst þennan vanda bændastéttarinnar, má segja, á sama hátt og verkalýðshreyfingin hefur í ríkari mæli á undanförnum árum séð, að kaupgjaldsbaráttan ein leysti ekki hennar vandamál. Sjálf verðlagningin var því kannske ekki orðin nema einhver hluti af þessu stóra vandamáli. En þegar verið er að færa afleiðingar verðbólgunnar einvörðungu yfir í verðlagninguna, þá náttúrlega opnast alltaf meiri og meiri möguleikar til þess, að nærri vonlaust væri, að fulltrúar verkalýðssamtakanna í Sexmannanefnd og fulltrúar bændasamtakanna gætu orðið sammála, enda hefur það færzt í vöxt, að til úrskurðar yfirnefndar hefur komið.

Þetta eru nú svolitlar hugleiðingar um sjálfan vandann, en spurningin er sú: Hvað á að koma í staðinn? Hér hefur ýmislegt verið sagt og ekkert nýtt. Öll þessi kerfi, allar þessar hugmyndir eru margræddar, þær hefur borið á góma ár eftir ár. Manni hefur oft fundizt það mjög ofarlega í huga fulltrúa bændasamtakanna, að frjáls samningsréttur og frjáls verðlagning væri það, sem æskilegast væri fyrir samtök þeirra. En hitt skal ég þó einnig vitna um, að öll þau ár, sem ég hef haft kynni af þessum málum, hefur farið svo, að þegar til kastanna hefur komið og raunverulega hefur reynt á, að bændastéttin fengi þennan rétt, hafa forystumenn hennar ekki verið á því, að það væri rétt. Það er þeirra mál, og ég ætla mér ekki þá dul, hvorki hér né annars staðar, að fara að segja bændasamtökunum fyrir verkum í þessum efnum. Þetta eru hlutir, sem þeir sjálfir verða að ráða. En að sjálfsögðu verða þeir að taka tillit til þess, að það er vara, sem þeir eru að selja, og svo framarlega sem hún selst vegna verðákvarðana, verða þeir náttúrlega að taka afleiðingum af því. Ég hef allan þann tíma, sem ég hef haft afskipti af þessum málum, sagt það alveg fullum fetum við fulltrúa bændastéttarinnar, að yfirnefndin á að hverfa. Þið eigið ekki að búa við gerðardóm. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að samningar ættu að vísu að fara fram, en ég er ekkert að fullyrða, við hvaða aðila. Ég hef aldrei gert tillögur um það. En ef hins vegar samningar næðust ekki, ættu samtök bændanna að hafa frjálsan rétt til verðlagningar. Hins vegar teldi ég alveg óhjákvæmilegt, að á meðan útflutningsuppbætur eru greiddar, og hvort heldur bændasamtökin semdu við hina svokölluðu fulltrúa neytenda eða beint við ríkisvaldið, hlyti ríkisvaldið að hafa einhvers konar stöðvunarrétt, það held ég að væri óhjákvæmilegt. Hins vegar held ég, að ef bændurnir hefðu þennan rétt, kæmu þeir áreiðanlega fram sem svo ábyrgur aðili, að það mundi sjaldan koma til, að beita þyrfti slíkri stöðvun, mjög sjaldan áreiðanlega. Ég hef a.m.k. þá trú á forystumönnum þeirra eftir alllanga viðkynningu. Nú, eins hefur ríkisstj. á hverjum tíma það á valdi sínu, ef henni þætti verðlagningin fara langt úr hófi, að leyfa einhvern takmarkaðan innflutning á landbúnaðarvörum. Það er ráðstöfun, sem hvaða ríkisstj. sem er getur gert.

Þetta eru nú þær hugmyndir, sem ég hef á undanförnum árum haft um það, hvernig ætti að skipa þessum málum. En eins og ég sagði áðan,vil ég taka það skýrt fram, að ég álit, að það sé bændasamtakanna sjálfra að ákveða það. Og ég vil ekki heldur láta með lögum fyrirskipa einhverjum aðila að vera þátttakandi í verðlagningu landbúnaðarvara, sem ekki vill vera það, það á ekki að gera.

Varðandi viðmiðunina, sem hér hefur æðimikið verið rædd, held ég, að menn geri sér ekki grein fyrir, hvernig þetta í raun og veru hefur gengið fyrir sig og hvernig það muni raunverulega ganga fyrir sig. Eins og lögin eru, — það er engin tillaga um að breyta því, a.m.k. ekki í því frv., sem hér liggur fyrir, — eiga bændur að bera úr býtum svipað og aðrar vinnandi stéttir. Það, sem hefur verið deilt um í Sexmannanefnd undanfarin ár, er ekki út af fyrir sig, hvort ætti að miða við laun verkamanna, sjómanna, iðnaðarmanna o.s.frv. Það, sem deilt hefur verið um, er það, hvort ætti að taka svokallað úrtak gilt sem slíka viðmiðun eða ekki. Hér er í raun og veru það, sem við höfum ævinlega haldið fram, hinir svokölluðu fulltrúar neytenda í Sexmannanefnd, það er að ákveða sjálfan grundvöllinn eða réttara sagt kaup bóndans í grundvellinum í samræmi við þá vinnu, sem lögð væri fram. Hver hún er, er sjálfsagt mjög vandasamt að ákveða. Og ég hef enga trú á því, að það verði út af fyrir sig ákveðið með þeim rannsóknum, sem ráðgert er að fram fari. Þetta hljóta að verða meiri og minni samningamál. En það má vera, að það verði möguleiki að komast nær því, hver hinn raunverulegi vinnutími er við ákveðnar einingar í sjálfum búrekstrinum. Þetta hefur ævinlega verið okkar hugmynd. Lengi vel var það svo, að bóndanum var ákveðinn vinnutími við þetta svokallaða meðalbú. Viðmiðunin á síðan aðeins að vera til að ákvarða hreyfinguna, hreyfinguna á sjálfu kaupgjaldinu fyrir þennan ákveðna vinnutíma, og þá mundi ég segja, að það væri miklu eðlilegra og í rauninni frá mínum bæjardyrum séð sjálfsagt, ef á annað borð þessi viðmiðun á að vera, sem ég held hins vegar, að ætti ekki að vera, bændurnir ættu án viðmiðunar að semja um sín kjör, en ef þessi viðmiðun á að vera, á það að vera hið fasta, samningsbundna kaupgjald, en ekki hlutur sjómanna eða uppmælingartaxtar. Hins vegar má segja, að þegar svona væri komið, væri bóndinn sjálfur farinn að vinna samkvæmt uppmælingu eða ákvæðisvinnutaxta, vegna þess að það, sem hann gæti unnið betur eða á skemmri tíma en sjálfur grundvöllurinn segði til um, það væri hans ágóði, alveg á sama hátt og það er tímaeining, sem lögð er til grundvallar ákvæðisvinnutöxtunum, og þeir, sem geta unnið verkið á skemmri tíma en meðalgrundvöllurinn þar er, græða, hinir ekki. Ég held nú, að málin séu nokkurn veginn svona einföld.

Það eru ýmis atriði, sem hér hafa komið fram og væri út at fyrir sig fróðlegt að ræða. En ég vil nú segja það, að einkanlega varðandi stöðu bændanna heyrir maður nú hér alveg nýtt hljóð, að þeir geti ekki í raun og veru farið í framleiðslustöðvun. Svo oft hefur nú þetta verið orðað á þeim vettvangi, sem ég hef starfað á í þessum efnum, á undanförnum árum, og talið fullkomlega mögulegt og ekki aðeins orðað, heldur hótað oftar en einu sinni. Ég verð að segja, að ég hef alltaf litið á þetta sem algerlega realhlut, og ég veit, að bændur geta framkvæmt hann. Það er að vísu rétt, að það hefur sinn kostnað í för með sér, en það er líka hjá öðrum, sem stöðva vinnu eða framleiðslu. En þegar menn telja sig svo aðkreppta, að ekki sé um annað að ræða, gera menn þetta og það mundu bændurnir einnig gera. En hins vegar álít ég, að þeir eigi hreinlega að hafa frjálsræði til þess að ákveða sjálfir verðið, ef ekki eru möguleikar á samningum.

Ég ætla ekki að lengja hér umræður frekar, það er ýmislegt í þessu, sem ég tel til bóta. En sjálft kerfið, það skuli menn bara alveg gera sér ljóst, það er hrunið eins og það hefur verið, og ég mundi segja, að með þeim breytingum, sem hér er verið að gera, séu síður en svo horfur á því, að verið sé að ákveða eitthvað, sem getur orðið varanlegt, og ég held, að bændasamtökin ættu að taka þessi mál öðrum tökum en gert hefur verið núna.