28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2297 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Aðeins örfá orð, herra forseti. Ég hlýddi með athygli á ræðu hv. 3. landsk. þm. Það er vitanlega öllum ljóst, að öll vandamál landbúnaðarins verða ekki leyst í gegnum verðlagið. Eigi að síður þarf að hafa löggjöf um verðlagsmálin, og það er nú einmitt það mál, sem hér er til umræðu.

Ég vil aðeins skjóta því hérna inn í, að mér finnst það nokkuð mikið út í hött, þegar menn eru að tala um það, og jafnvel setja þá skoðun fram á prentuðu þskj., að útflutningsuppbæturnar komi eingöngu til góða stærstu bændunum, og það er látið í það skína, að þetta geti verið einhvern veginn öðruvísi og enginn vandi sé að kippa þessu í lag. Þetta er náttúrlega auðvelt að segja, en það sjá allir, að þetta tal er alveg út í bláinn. Það er varla hugsanlegt að verðleggja sömu vöru mismunandi hátt eftir því, hvað búin eru stór. Hvað ætli útgerðarmenn segðu um það að verðleggja síldina eftir því, hvað bátarnir öfluðu mikið? En það var nú ekki fyrst og fremst þetta, sem ég vildi minnast á.

Hv. þm. sagði áðan í ræðu sinni, að það hefði nú einhvern veginn verið þannig, þegar fulltrúar bændanna hefðu staðið frammi fyrir því að fá sjálfsákvörðunarrétt um verðlagninguna, þá hefðu þeir hikað og ekki viljað taka hann. Ég átta mig ekki vel á þessu og ég man ekki til þess, að okkur hafi nokkurn tíma staðið hann raunverulega til boða. Ég hef heyrt það og m.a. frá bændum, að í haust, þegar upp úr slitnaði í Sexmannanefnd, hefði enginn vandi verið fyrir fulltrúa bænda að verðleggja bara sjálfir. Sjálfum finnst mér þetta ekki raunhæft, eins og allar aðstæður voru. Hv. síðasti ræðumaður sagði: „Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að yfirnefndin eigi að hverfa. Ef samningar nást ekki, eiga samtök bænda að hafa frjálsan rétt til verðlagningar, rétt til að auglýsa verðið.“ En hann sagði enn fremur: „Á meðan útflutningsbætur eru, hlýtur ríkisstj. að hafa stöðvunarrétt.“ Og hann sagði enn fremur, að hann tryði því, að bændur væru svo ábyrgir, að þeir færu sjaldan lengra en fært væri, ekki lengra en ríkisstj. leyfði. Og þarna finnst mér komið að kjarnanum: Vilja bændur láta ríkisstj. segja síðasta orðið um verðlagninguna, því að þarna er ekki um neitt annað raunverulega að ræða — eða yfirdóm?

Ég ætla ekki að tefja hv. d. með því að fara að rökræða um þetta aftur og fram. En ég vil aðeins minna á eitt hliðstætt atriði í þessu sambandi, samninga opinberra starfsmanna við ríkisstj. Þeir hafa verið látnir ganga til dóms. Ég veit það, að opinberir starfsmenn vilja gjarnan fá dóminn afnuminn og fá verkfallsrétt, eins og mörg önnur launþegasamtök hafa. En ég spyr: Mundu opinberir starfsmenn óska eftir þeirri breytingu að fella gerðardóminn burt og láta ríkisstj. segja síðasta orðið?