02.05.1966
Neðri deild: 85. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ræða hæstv. viðskmrh. kom mér til að taka hér til máls. Mig langar í fyrsta lagi að beina einni fsp. til hans og hún er sú, hvort hann tali fyrir hönd ríkisstj. allrar í þessu máli og hvort þær yfirlýsingar, sem hann hér hefur gefið, svo sem m.a., að það sé engin nauðsyn á, að Ísland framleiði landbúnaðarvörur til útflutnings, séu gefnar fyrir hönd ríkisstj. í heild. Og mér þætti mjög vænt um og ég býst við fleirum, að það kæmi allt saman mjög greinilega fram hér, því að ég vil ekki svona að tilefnislausu fara að ásaka hæstv. ríkisstj. um það, að hún hafi tvær tungur og tali sitt með hvorri, heldur þykist ég vita, að hún muni hafa eina ákveðna pólitík, sem hún muni standa fast við að framfylgja.

Út frá því vildi ég einmitt ræða ýmislegt í sambandi við þetta, sem hér kom fram. Ég held, að þorri okkar þm. sé sammála um, að það sé nauðsynlegt, það sé lífsspursmál fyrir þjóðina að tryggja tilveru og það góða aðstöðu bændastéttarinnar, svo að menn fáist til þess að stunda hér landbúnað, það þýðir að tryggja bændastéttinni jafngóð lífskjör og öðrum vinnandi stéttum. Á þessu hefur sexmannanefndarsamkomulagið byggzt frá því að það var gert. En reynslan hefur sýnt það rækilega, auk þess sem verðbólgan hefur eyðilagt það mjög í framkvæmd, að menn mega ekki lengur loka augunum fyrir því, að það er ekki hægt að framkvæma það þjóðfélagslega réttlæti, sem maður vill bændastéttinni til handa, með verðlagningarmálunum einum saman. Það er gersamlega óhugsandi, og það er þetta, sem menn fyrst af öllu verða að horfast í augu við og taka tillit til, þegar þessi mál eru rædd. Þess vegna er það frv., sem hérna liggur fyrir, og samningarnir í sambandi við það, gersamlega ófullnægjandi í þessum efnum. Það sem þarf að reyna að gera samtímis því, sem á að tryggja þjóðfélagslegt réttlæti fyrir bændastéttina, er að reyna að samræma þetta þjóðfélagslega réttlæti hagsýni í sjálfri framleiðslunni. Og listin í því að stjórna landbúnaðarmálunum er í því fólgin að láta þetta tvennt fara saman, hagsýni í sjálfu efnahagslífinu hvað þetta snertir og réttlæti til handa bændastéttinni. Það að ætla að gera þetta með verðlagningunni einni saman þýðir, að fátækur bóndi norður í Dalasýslu eða Norður-Múlasýslu, sem þarf á því að halda að fá bætt lífskjör, fær 1/3 af því, sem stórbóndi hér á Suðurlandi fær, þegar verðlagið eitt er gert að aðalatriði, sem þýðir, að þessi fátæki bóndi verður nokkurn veginn jafnfátækur og áður, en þessi tiltölulega efnaði bóndi aftur á móti fær hlutfallslega mun meira en hann út frá þjóðfélagslegu réttlæti ætti að fá. Þess vegna hefur hvað eftir annað verið bent á það hérna, að það þarf að gera aðrar ráðstafanir í þessu sambandi, en þær hafa lítt fengizt ræddar. Við skulum þess vegna gera okkur ljóst, að ástandið er þannig í dag, að hluti af bændastéttinni er fátækasti og tekjulægsti hlutinn af vinnandi stéttum á Íslandi. Og hvernig á að afnema þetta? Þetta eru sumpart einmitt þeir sömu bændur, sem máske þræla mest, búa afskekktast og eru á smæstu jörðunum, sem sízt borgar sig að vinna á. En hvernig er þeirra ástand? Jú, ástandið er þannig, að þeir lifa við eins konar bændaánauð. Einstaklingseignarrétturinn á þeirra jörðum er eins konar ánauð. Þeir halda í þessar jarðir í von um, að afkomendurnir kunni kannske að vilja taka við þeim, og þeir þrauka þangað til þeir eru fimmtugir, sextugir, sjötugir, bændurnir á þessum jörðum, í von um, að þeir kannske geti komið þeim í verð, sem þeir ekki geta, og þeir fá ekki börnin sín til þess að setjast að á þeim, af því að þau flytjast burt í aðra vinnu. Þeirra einyrkjabúskapur, jafnvel þó að þeir séu búnir að steinsteypa hann, er þannig að hann er orðinn fjötur fyrir þá við þessa jörð og það, sem þarf að gera fyrir þessa bændur, er að kaupa af þeim jarðirnar og húsin og það á ríkið að gera, til þess að gera þeim kleift að flytja burt. Og þetta eigum við að gera bæði frá mannúðarlegu og hagsýnisjónarmiði. Ég skal ekki segja, hvað þetta eru margir bændur, hvort það eru 500, kannske milli 500 og 1000, en það á að rannsaka þetta og það á að ganga í að gera þetta. Og það er frá hagsýnisjónarmiði ríkisins rétt að gera þetta, og ríkið á að eignast þessar jarðir og það getur vel legið með þær nokkra áratugi og átt þær, því að eftir nokkra áratugi verður jafnt hér á Íslandi og annars staðar þörf fyrir alla þá matvælaframleiðslu, sem hægt er að afkasta í heiminum, og þá mun hún líka borga sig hér. En þó að það sé ekki núna í augnablikinu og þó að það sé í augnablikinu þrældómur að festa menn við þetta, er einmitt rétt að nota tækifærið til þess að gera tvennt í senn, kaupa upp þessar jarðir, láta ríkið eignast þær. Ég býst við, að ríkið eigi allmikil ítök í þeim nú þegar gegnum sína banka, en gera þannig kleift fyrir þessa menn að flytja í bæina, ekki sem snauða menn, heldur þannig, að þeir fái eitthvað verulegt fyrir sitt og ríkið getur sannarlega gert vel við þá. Þetta er eitt af því marga, sem þarf að gera í þessu sambandi.

Það er líka vitanlegt, að það er hægt í landbúnaðinum að reikna alveg nákvæmlega út, hve stórt það bú er, sem ber sig bezt, bæði hvað sauðfjárbúskap og mjólkurframleiðslu snertir. Og það er ósköp vel hægt að láta stoppa við á þeim búum, sem hafa náð þeirri stærð, þegar við erum búnir að komast að vísindalegri niðurstöðu um, hver hún er hér á Íslandi, og segja við þá bændur, sem eru komnir upp í þessa bústærð: Nú er ekkert eftir, þið fáið engan styrk og engar uppbætur eða niðurgreiðslur fyrir það, sem þið aukið nú við, vegna þess að jafnt í landbúnaði sem öðru er ákveðið mark hvað hagsýnina snertir í slíku. Enn fremur er það gefið og hefur oft verið bent á það hér á Íslandi, að það er praktískt að koma á framleiðslusvæðum, sérstökum svæðum, þar sem mjólkurframleiðslan fyrst og fremst er og sérstökum svæðum, þar sem kjötframleiðslan er, en ekki hafa það eins og stundum hefur verið nú undanfarið, að menn hafa tælzt til þess að koma upp mjólkurbúum, þar sem raunverulega kannske 95% af mjólkinni fer í vinnslu á afskekktum stöðum á landinu, þar sem enginn neyzlumjólkurmarkaður er, en fara svo að skera niður kýrnar hérna í kringum Reykjavík. Það þarf í landbúnaðinum líka að hafa verkaskiptingu hvað þetta snertir. Og þetta er allt saman mál, sem alltaf hefur þurft að ræða og þurft að taka ákvarðanir um í sambandi við þessi landbúnaðarmál. Ég skal ekki fara frekar út í þetta, ég benti á þetta í fyrra, þegar við vorum að ræða þessi mál hér. Það fékkst ekkert tillit tekið til þess, en það er jafnbrýnt nú, að þessir hlutir allir saman séu athugaðir og ekki haldið áfram að ætla sér þá dul að reyna að leysa þessi mál með verðlagningunni einni saman, það er ekki hægt.

En nú vildi ég spyrja hæstv. viðskmrh.: Af hverju tekur hann, sem er viðskmrh., fyrst og fremst landbúnaðarmálin og bændastéttina í þessu sambandi? Nú er þetta ekki beint hans svið. Og hann byrjaði með því að gefa hér yfirlit yfir, hvernig aðrar greinar stæðu sig, sjávarútvegur, iðnaður, landbúnaður, en þegar hann kom að verzluninni, sem alveg sérstaklega heyrir undir hann, sagði hann: „Það er erfitt að segja til um, hvernig hún muni vera“.

Ég er nú þeirrar skoðunar, að það hefði verið mjög æskilegt fyrir okkur, að hæstv. viðskmrh. hefði gefið okkur nákvæma skilgreiningu, eins nákvæma og töluríka skilgreiningu eins og hann hefur gefið okkur nú viðvíkjandi landbúnaðinum og bændastéttinni, á viðskiptalífinu og verzlunarstéttinni, ekki sízt hér í Reykjavík, og ég vildi leyfa mér að mælast til þess, að það liði ekki langt, þangað til við fengjum hana. Hvernig er það með verzlunina? Það reynir aldrei á, hvort hún sé samkeppnisfær við útlönd, það reynir aldrei á það. Og verzlunin er svo að segja eini aðilinn af öllum þessum, sem fær að skammta sér sjálf sitt verð. Hvað hana snertir ríkir algert frelsi. Þar eru hvorki gerðardómar né neitt annað. Þar er bara frelsi fyrir verzlunarstéttina, fyrir fésýsluvaldið að fá að skammta sér sjálfri, hvað hún vill taka í álagningu og hvað hún vill selja sína vöru á. Hvað mikið af íslenzku vinnuafli og hve mikið af íslenzku fjármagni fer í þessa verzlun? Ef okkur finnst landbúnaðurinn eitthvað dálitið ópraktískur, en viðurkennum þó, að við verðum, til þess að þjóðin lifi og til þess að hún haldi við einhverri sinni erfð, að halda bændastéttinni við og gera það vel við hana, að menn fáist til að verða bændur, hvernig snúa þá þessir hlutir við, þegar við förum að athuga verzlunarstéttina? Við höfum því miður engar skýrslur um það. Það eru 6 þús. bændur á landinu og okkur er sagt það hvað eftir annað, að þeir séu allt of margir. En hvað eru þeir margir, sem lifa á fésýslu og verzlun á Íslandi og hvað hafa þeir marga í sinni þjónustu og hver eru þeirra raunverulegu afköst og hvað eru þeir frekir á vinnuafl og fjármuni þjóðarinnar? Við vitum lítið um þetta. Hæstv. viðskmrh. minntist þó ofurlitið á þetta núna nýlega. Þá upplýsti hann okkur um það, að 40% af vinnuaflsaukningunni á Íslandi á nokkrum undanförnum árum hefðu farið til viðskiptalífsins, 40%. Og ég held, að hann hafi verið það heiðarlegur, eins og hans var von og vísa, að taka fram, að þessi 40% færu sem sé til þeirrar greinar, sem engin verðmæti skapar. M.ö.o., þegar á að ráðstafa vinnuaflinu á Íslandi eins og praktískast mundi vera fyrir þjóðfélagið og þegar því er slegið föstu, að t.d. sjávarútvegurinn sé ein þeirra greina, sem samkeppnisfærust er við útlönd og gefi þjóðinni mest, er 40% af vinnuaflsaukningunni ráðstafað til verzlunarinnar, sem gefur þjóðinni ekkert. Þessi viðbót gefur henni ekkert. Hvernig er með fjármagnið? Það liggja fyrir skýrslur — ég hef því miður ekki nýrri við höndina — yfir ég held 4 fyrstu stjórnarár þessarar hæstv. ríkisstj. Ef ég man rétt, var útlánaaukning bankanna á þeim árum til verzlunarinnar líklega 589 millj. kr. eða þó nokkuð miklu meiri en til sjávarútvegs og iðnaðar samanlagt, sömuleiðis þó nokkuð meiri en til sjávarútvegs og landbúnaðar samanlagt. M.ö.o., ljónsparturinn af allri lánaaukningunni fór til verzlunarinnar. Og ef það er rannsakað á Íslandi, hvernig vinnuaflsráðstöfunin er í heild og fjármunaráðstöfunin í heild, er ég hræddur um, að það komi í ljós, að verzlunin rífi nú eins og fyrr til sín bróðurpartinn af þessu öllu saman, þó að hún gefi minnst í hina hönd.

Hæstv. viðskmrh. man vafalaust eftir þeirri beztu þjóðfélagsrannsókn, sem enn hefur verið gerð á Íslandi, gömlu Rauðku frá 1934–1937, þegar því var slegið föstu, að hlutfallið væri þá þannig á Íslandi, að fjármagnið, sem var í verzluninni, væri 100 millj. kr., en fjármagnið, sem væri í sjávarútveginum, var að mig minnir 22 millj. Þannig var hlutfallið þá, og orsökin var sú sama og löngum hefur verið. Fjármagnið fór þangað, sem gróðinn var, og það var alltaf öruggur gróði í verzluninni, en það flúði það svið, þar sem tapið var, og það var í sjávarútveginum. Verzlunin hefur lengst af lifað þannig á sjávarútveginum hér á Íslandi, að hún hefur látið hann tapa og hirt gróðann sjálf og neyðzt svo öðru hverju til að gera ráðstafanir til að halda í honum lífinu, svo að hann dræpist ekki alveg, af því að sumum hefur þó verið ljóst, að það væri ekki skynsamlegt að drepa mjólkurkúna. Mér þætti vænt um að fá þess vegna yfirlit yfir, hvað er vinnuaflið í íslenzkri verzlun? Og hvað er því vinnuafli greitt raunverulega? Helzt meðtalið það, sem er svikið undan skatti. Í öðru lagi, hvað er fjármagnið í allri íslenzkri verzlun? Við vitum t.d., að á sama tíma sem er kvartað yfir, að við eigum eitthvað erfitt með að leggja í einhverja smá Búrfellsvirkjun, eru byggð ein einustu 16 hús hérna inn við Suðurlandsbraut, sem kosta með núv. verðlagi 500 millj. kr. Það er bara smáræði fyrir verzlunarstéttina í Reykjavík. Hvað eru fjármunirnir í öllum byggingum og innbúum og öllu slíku hjá verzluninni sem stendur og í þessu svokallaða viðskipta- eða fésýslulífi? Ég vildi líka spyrja, hvað skyldi húsnæðið vera þar? Ef menn spyrja t.d. einhverja af kaupmönnunum, sem leigja hérna við Laugaveginn, hvað þeir borgi í leigu fyrir búðirnar, ja, þeir segja skattinum ekki stórt. Ég býst við, að þeir gefi ekki mikið upp eða fái að gefa sérstaklega mikið upp. En 30–40–50 þús. kr. á mánuði er allalgeng leiga og hverjir borga þetta allt saman að lokum? Þessir herrar, sem þetta eiga, fá að leggja á vöruverðið eins og þeim þóknast. Það er frelsi og þjóðin borgar. Af hverju getum við ekki fengið upplýsingar um þetta eins nákvæmar og um landbúnaðinn og bændastéttina? Er það vegna þess, að hæstv. ríkisstj. skoði sig sem sérstakan fulltrúa fyrir verzlunarvaldið, fésýsluvaldið í þjóðfélaginu og eigi að sjá um að varðveita frelsi fyrir það og gróða fyrir það á sama tíma sem eigi að þjarma að öllum öðrum stéttum þjóðfélagsins eins og vera vill? Hæstv. viðskmrh. sagði, að landbúnaðurinn væri erfiðasta vandamálið, sem við er að etja í íslenzkum þjóðarbúskap. Ég skal vissulega játa, að það eru ýmis vandamál í sambandi við landbúnaðinn, en ég held, að erfiðasta vandamálið í íslenzkum þjóðarbúskap sé nú sem fyrr verzlunin og hennar tilhögun, þ.e. það fésýsluvald, sem er að fara með atvinnulífið og vinnandi stéttirnar niður á leið og hefur sífellt verið að því, af því að það íþyngir þeim þannig, að það sekkur öllu í verðbólgu jafnóðum sem framleiðslustéttirnar skapa meiri og meiri verðmæti. Hæstv. viðskmrh. sagði, að hluti af framleiðslu bændastéttarinnar væri ekki aðeins gagnslaus frá þjóðhagslegu sjónarmiði, heldur líka skaðlegur fyrir bændastéttina sjálfa. Hvernig lítur þetta út með verzlunarbyggingarnar, t.d. hérna inn við Suðurlandsbraut? Þær eru ekki aðeins gagnslausar frá þjóðhagslegu sjónarmiði, þær eru bókstaflega til tjóns fyrir þjóðarheildina, vegna þess að þær soga til sín fjármagn og vinnuafl, sem gæti farið í annað, sem nytsamlegra væri, og auka síðan á sjálfa dýrtíðina í þjóðarbúinu. Hæstv. viðskmrh. talaði um, að bændurnir fengju styrki frá ríkinu og þess vegna hlyti ríkið að láta sig nokkru varða, hvernig þetta væri allt saman með bændastéttina og landbúnaðarframleiðsluna, en hvernig er þetta með fésýslustéttina? Öll verðhækkun frá hálfu fésýsluvaldsins, frá hálfu verzlunarauðvaldsins og annarra hér þýðir að taka peninga beint frá framleiðslunni, frá atvinnulífinu og frá framleiðslustéttunum, og fésýsluvaldið hefur sjálfdæmi um þessa hluti, hve mikið það vill taka. Hæstv. ríkisstj. hefur gefið því sjálfdæmi um álagningu og allt slíkt undir þessu dásamlega fagra kjörorði, að þetta á að heita frelsi. Ætli við þurfum ekki að athuga það um leið, að allir heildsalarnir okkar og allir slíkir eru á styrkjum frá ríkinu, þeir skammta sér bara þessa styrki sjálfir með því að hækka verðlagið og láta þjóðina borga og eftir nokkurn tíma, þegar þeir eru búnir að tvöfalda verðið, eins og var gert núna á 6 árum, kemur að því, að þeir heimta gengislækkun líka. Það eru ekki aðeins styrkir til bændanna, sem um er að ræða. Stærsti styrkþeginn í landinu er verzlunarauðvaldið í Reykjavík og það vald, sem ríkisstj. gætir fyrst og fremst hagsmuna fyrir.

Hæstv. viðskmrh. segir: Þessa framleiðsluaukningu í landbúnaðinum verður að stöðva. Vafalaust er það mjög skynsamlegt að skipuleggja framleiðsluna í landbúnaðinum og það er hlutur, sem ég hef bent á hvað eftir annað. Ég veit ekki af hverju hæstv. ríkisstj. tekur ekki tillit til slíks. En má ég spyrja, er engin þörf á að skipuleggja verzlunina í landinu? Er engin þörf á því að skipuleggja, hve það aukast mikið búðirnar, fésýslukontórarnir allir og annað slíkt? Er engin þörf á neinni breytingu þar? Er engin þörf á t.d. að þjóðnýta tryggingakerfið í landinu, hafa eina Tryggingastofnun ríkisins í staðinn fyrir allar þessar mismunandi tryggingar, sem hér eru? Er þetta hlutur, sem má aukast alveg hreint eins og menn vilja? Dettur mönnum í hug, að það sé hægt að reka einn þjóðarbúskap með því, að menn ætli bara að lífa svona hver á öðrum og helzt ættu allir að hætta að fást við landbúnað og sjávarútveg. Og þá muni menn lifa bezt. Það eru ályktanir, sem menn mundu draga af ástandinu, sem er í dag, ályktanir, sem allt of margir draga, því miður. Þess vegna dregur verzlunin til sín 40% af allri vinnuaflsaukningunni. En sér hæstv. viðskmrh. og hæstv. ríkisstj. ekkert við það að athuga og dettur þeim í hug, að það sé hægt að breyta þessu eitthvað með því að viðhalda hinu svokallaða verzlunarfrelsi í landinu, verzlunarfrelsi, sem hver einasti maður veit, að gerir ekkert að því að lækka vöruverðið, heldur hefur samtök um að hækka það. Það veit hver einasti maður, að það er engin frjáls samkeppni til á Íslandi, en það er verið að reyna að telja mönnum trú um þetta. Þurfum við ekki að taka þessa hluti fyrir dálítið alvarlega, áður en við förum að gera a.m.k. mjög drastískar ráðstafanir gagnvart bændastéttinni, af því að framleiðsluaukning sé allt of mikil og allt of mikið af mat. Ég held, að stórfelldustu ráðstafanirnar, sem við þurfum að gera í okkar þjóðfélagsbúskap, séu á verzlunarsviðinu.

Því miður fengum við aldrei tækifæri til hérna um árið, þegar hæstv. landbrh. flutti sína sögulegu landbúnaðarræðu, að halda áfram að ræða við hann hér á þinginu. En hefðum við komizt að með að ræða það þá, hefðum við beðið hann um aðra eins skilgreiningu á viðskiptalífinu á Íslandi eins og hann hefur gefið nú í tvígang á landbúnaðarframleiðslunni. Og ég vil vonast til þess, af því að þetta svið heyrir nú sérstaklega undir hann og af því að hann er sjálfur prófessor í hagfræði og vel að sér í þeim hlutum og hefur mikið af sérfræðingum í sinni þjónustu, sem geta rannsakað þetta, að hann setji þá í það að gefa okkur fullkomna skýrslu um það, hvað verzlunin á Íslandi sem atvinnugrein kostar þjóðina og engu sé undan stungið. Þar ríkir hreint öngþveiti. Þar ríkir algert stjórnleysi, þar eru rifnir út ríkisstyrkir eins og hverjum af þessum aðilum þóknast með því að leggja bara á vöruna meira og meira. Ég held einmitt, að það, sem hann var að upplýsa nýlega, hvernig straumur vinnuaflsins og fjármagnsins lægi fyrst og fremst til verzlunarinnar, hefði átt að gefa honum tilefni til þess að taka þetta mál til enn þá dýpri og betri rannsóknar en landbúnaðinn og skýra okkur frá því, hvernig þetta stæði, nema þá að fésýslulífið í landinu sé helgur reitur, sem ekki má snerta við. Þar eigi menn að fá að vera algerir einræðisherrar, þeir, sem þar eru, skammta sér úr þjóðarbúinu það, sem þeim þóknast. Það, sem þarf í þessum hlutum, það, sem hæstv. ríkisstj. hins vegar er alltaf smeyk við, jafnt í landbúnaðinum sem í verzluninni, er heildarstjórn bæði á fjárfestingu og rekstri. Það þarf heildaryfirsýn yfir þessa hluti. Hjá svona lítilli þjóð eins og okkar þarf að ráðstafa vinnuafli og fjármagni eins og hagkvæmast er fyrir þjóðarheildina, en ekki út frá því hvað hverjum einstaklingi þóknast að leggja í það. Þetta skilur hæstv. viðskmrh., þegar við tölum um landbúnaðinn, en af hverju skilur hann það ekki, þegar við tölum um verzlunina?

Við höfum 38 þús. verkamenn hér á Íslandi. Það er álíka fjöldi og vinnur hjá einu einasta fyrirtæki í Svíþjóð. Dettur mönnum í hug, að við getum haldið uppi til lengdar þjóðfélagi með háum lífsstandard og án verðbólgu, svo framarlega sem við höfum enga stjórn á því, hvernig þessu vinnuafli er varið? Halda menn, að það sé hægt með því að veita 40% af því inn í fésýslulífið — og líklega fara þar af um 90% inn í fésýslulífið hér í Reykjavík — að halda uppi þeim lífskjörum, sem við höfum skapað, án verðbólgu? Við getum náttúrlega haldið þessu öllu uppi með verðbólgu, en menn vita, hvert það leiðir. Og verðbólguvaldurinn er fyrst og fremst verzlunarvaldið í Reykjavík, það vald, sem drottnað hefur nú á undanförnum árum og alltaf verið sterkasta valdið í íslenzku þjóðlífi og meðan það vald er ekki annaðhvort brotið á bak aftur eða tekið undir eftirlit þjóðfélagsins, verður hvorki verðbólgan stöðvuð né réttlátu skipulagi komið hér á.