22.03.1966
Neðri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2325 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

149. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Lög um skipulag á fólksflutningum með bifreiðum hafa gilt óbreytt um 10 ára skeið, en á þessu tímabili hafa samgöngur aukizt mjög og ýmislegt fram komið, sem gerir l. erfið í framkvæmd, nema þeim verði breytt.

Þau ákvæði, sem gilda um hópferðirnar og skemmtiferðirnar, eru nokkuð óskýr í gildandi l., enda var sá þáttur sérleyfisflutninganna lítill, er l. voru sett, og er breyt. á l. ætlað að bæta úr því með skýrari ákvæðum. Aðrar breyt., sem frv. þetta felur í sér, eru þær, að sett eru nánari ákvæði um skyldur og réttindi sérleyfishafa og hópferðaréttindahafa, en er í gildandi l.

Helztu breytingar, sem lagt er til í þessu frv., að gerðar verði, eru skv. l. gr. frv. þessar:

Ákveðið er, að réttindi til hópferðaaksturs séu veitt á sama hátt og leyfi til áætlunarferða. Nánari ákvæði eru sett um, að það skuli teljast fastar ferðir í samræmi við þau ákvæði, sem gilda um það, hvað telja skuli áætlunarferðir. Ákvæði gildandi l. um, að hópferðir á héraðsmót og almennar skemmtanir innan hvers lögsagnarumdæmis, séu undanþegnar sérleyfi, er hér einnig látið ná til annarra hópferða innan lögsagnarumdæmanna og til flutninga starfsfólks að og frá vinnustað, sem framkvæmdir eru á kostnað vinnuveitanda.

Ákvæðum gildandi l. um rétt sýslu- og sveitarfélaga til sérleyfa er breytt til samræmis við gildandi ákvæði um rétt bæjarfélaga til einkaleyfa.

Ákvæði um rétt sérleyfishafa á endurveitingu á sérleyfum, sem eru í reglugerð, verði tekin inn í lög. Breytingar þær, sem lagt er til að gera skv. 2. gr., eru þessar:

Ákvæði var sett um það, að skipulagsnefnd fólksflutninga með bifreiðum samþykki afgreiðslustöðvar þær, sem sérleyfisbifreiðar eru afgreiddar frá.

Ákvæði eru sett um réttindi og skyldur nýrra sérleyfis- og einkaleyfishafa til kaupa á fasteignum og tækjum, sem álitið er, að nauðsynlegt sé, að fylgi sérleyfis- og einkaleyfisleiðum.

Sett eru ákvæði um útgáfu hópferðaréttinda svo og gildistíma þeirra, enn fremur ákvæði um afgreiðslu fyrir hópferðir í samræmi við ákvæði um afgreiðslu fyrir sérleyfisferðir.

Breyt. þær á gildandi l., sem 3. gr. frv. felur í sér, eru einkum þær, að ákvæði eru sett um að hópferðaréttindahafar greiði sérleyfisgjald af hópferðum á sama hátt og sérleyfishafar greiða sérleyfisgjald af sérleyfisleiðum og enn fremur að hópferðaréttindahafar hafi fast árlegt gjald fyrir hópferðaréttindin og sé upphæð þess ákveðin með reglugerð. Sérleyfisgjald, sem hópferðaréttindahafar hafa greitt að undanförnu, hefur verið ákveðið með reglugerð.

4. gr. frv. gerir ráð fyrir breyt. á ákvæði 7. gr. gildandi l. um yfirumsjón og eftirlit með fólksflutningum með bifreiðum, ef sérleyfi eða undanþágu þarf til, þannig að það taki einnig til fólksflutninga, sem hópferðaréttindi eru veitt fyrir.

5. gr. gerir ráð fyrir breyt. á 9. gr. l. þ.e. að þessi grein, sem er um sviptingu sérleyfa, nái einnig til þess, að það megi svipta undanþáguhafa til hópferðaréttinda réttindum skv. sömu reglum og sérleyfishafa.

6. gr. gerir ráð fyrir hækkun sekta, þannig að lágmarkssektir séu 1000 kr. í stað 100 kr. áður.

Eins og að var vikið, gengur frv. þetta aðeins út á það að gera lagaákvæðin skýrari, gera l. og reglurnar hægari í framkvæmd, auk þess sem kveðið er fastara og nánara á um þau réttindi, sem sótt hefur verið mikið um upp á síðkastið, svokölluð hópferðaréttindi. Þykir eðlilegt og sjálfsagt, að þeir, sem þau réttindi hafa, greiði fyrir það í samræmi við það, sem aðrir sérleyfishafar verða að greiða fyrir þau réttindi, sem þeim eru veitt.

Ég vil, herra forseti, leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.