02.05.1966
Efri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2330 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

149. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Um frv. þetta var fjallað í samgmn., og varð niðurstaðan sú, eins og kemur fram í nál. á þskj. 666, að n. leggur til, að frv. verði samþ., en 3 nm., sem þar eru tilgreindir, hafa þó áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. við frv. og styðja brtt., sem fram kynnu að koma.

Lög um skipulag fólksflutninga með bifreiðum hafa nú gilt óbreytt um 10 ára skeið. Á þessu tímabili hafa þær samgöngur, sem l. gilda um, tekið ýmsum breytingum, einkum hópferðir, og skipulagðar skemmtiferðir um landið með innlenda og erlenda ferðamenn hafa aukizt að mun og orðið allstór þáttur í þessum flutningum. Þess vegna eru hér með þessu frv. m.a. sett skýrari ákvæði en verið hafa í gildandi I. um hópferðir og skemmtiferðirnar. En að öðru leyti eru breyt., sem frv. felur í sér, frá gildandi löggjöf þær, að ákveðið er, að réttindi til hópferðaaksturs séu veitt á sama hátt og leyfi til áætlunarferða. Nánari ákvæði eru sett um það, hvað teljast skuli fastar ferðir í samræmi við þau ákvæði, sem gilda um, hvað teljast skuli áætlunarferðir. Ákvæði gildandi l. um að hópferðir á héraðsmót innan hvers lögsagnarumdæmis séu undanþegnar sérleyfi, er hér einnig látið ná til annarra hópferða innan lögsagnarumdæmanna og til flutninga starfsfólks að og frá vinnustað, sem framkvæmdir eru á kostnað vinnuveitenda. Ákvæði gildandi l. um rétt sýslu- og sveitarfélaga til sérleyfa er breytt til samræmis við gildandi ákvæði um rétt bæjarfélaga til einkaleyfa, og ákvæði um rétt sérleyfishafa til endurveitingar á sérleyfum, sem verið hafa í reglugerð, eru sett inn í I.

Þá er einnig sett ákvæði um það, að skipulagsnefnd fólksflutninga með bifreiðum samþykki afgreiðslustöðvar þær, sem sérleyfisbifreiðar eru afgreiddar frá. Einnig eru ákvæði sett um skyldur og réttindi nýrra sérleyfis- og einkaleyfishafa til kaupa á fasteignum og tækjum, sem álitið er nauðsynlegt að fylgi sérleyfis- og einkaleyfisleiðum. Sett eru ákvæði um útgáfu hópferðaréttinda svo og gildistíma þeirra, enn fremur ákvæði um afgreiðslu fyrir hópferðir í samræmi við ákvæði um afgreiðslu fyrir sérleyfisferðir.

Í hv. Nd. var gerð minni háttar breyting á þessu frv., en þar komu að vísu fram brtt., sem ekki náðu fram að ganga, og það ákvæði, sem þar var aðallega ágreiningur um, er ákvæði, sem er hér í h-lið 2. gr. þessa frv., en þar segir, að heimilt sé ráðherra að fengnum meðmælum skipulagsnefndar fólksflutninga með bifreiðum að binda sérleyfi og einkaleyfi þeim skilyrðum, að sérleyfis- og einkaleyfishafar skuli skuldbundnir til að kaupa þær fasteignir og bifreiðar, sem notaðar hafi verið áður til reksturs á sérleyfisleiðum og teljast nauðsynlegar og henta viðkomandi rekstri, á verði, sem samkomulag verður um milli aðila. Náist ekki samkomulag um verð, skal það ákveðið með dómi með mati dómkvaddra manna.

Með þessu ákvæði er að vísu lögð nokkuð rík kvöð á þá, sem fá sérleyfi eða einkaleyfi, að það skuli geta orðið háð þessum skilyrðum, að einkaleyfis- eða sérleyfishafi verði skyldaður til þess að kaupa bifreiðar og afgreiðslustöðvar, sem þessu sérleyfi hafa fylgt. En þó verður að hafa það í huga, að þarna geta atvik borið að með ýmsum hætti, og reyndar ætti það að öðru jöfnu, að minnsta kosti ef bifreiðakostur er góður, að vera nokkuð eðlilegur hlutur, að sá, sem tekur við sérleyfi, kaupi bifreiðarnar af fyrri sérleyfishafa. Og það gæti líka oft og tíðum orðið þannig, að sá, sem af einhverjum ástæðum yrði að hætta við sérleyfi, en hefði á allan hátt góðan útbúnað, bæði sérleyfi, en hefði á allan hátt góðan útbúnað, bæði bifreiðakost og afgreiðslur, að hann væri ákaflega illa settur með að koma þessum eignum í verð, ef hann annaðhvort missti sérleyfið eða þyrfti af einhverjum ástæðum að hætta þessum rekstri. En hér er þess að gæta, að það er ekki ófrávíkjanlegt skilyrði, að sá, sem tekur við, þurfi að kaupa, heldur er það einungis, að ráðh. er heimilt að skylda hann til þess, þó því aðeins, að skipulagsnefnd fólksflutninga hafi gefið meðmæli. En ef ekki næst samkomulag um verð, á það að vera ákveðið með mati dómkvaddra manna. Nú, auk þess er það skilyrði, að þær bifreiðar og fasteignir, sem nýr sérleyfishafi kynni að vera skyldaður til að kaupa samkv. þessu ákvæði, þurfa að teljast nauðsynlegar og henta viðkomandi rekstri. Einmitt þetta; álít ég, geti hvatt þann, sem hefur sérleyfi, — hann hefur auðvitað hagsmuni af því að geta selt eignir sínar, ef hann vill hætta, — til þess að hafa alltaf sem beztan bifreiðakost. Þá er miklu frekar, að lögð verði á viðtakanda sú skylda að kaupa en ef bifreiðakosturinn er lélegur.

Það hefur orðið niðurstaða í samgmn., eins og ég gat um í upphafi, að mæla með þessu frv. eins og það liggur hér fyrir eftir þá einu breyt., sem gerð var í n. og skiptir út af fyrir sig tiltölulega litlu máli, en þó hafa, eins og ég gat um í upphafi, þrír nm. óbundnar hendur um að setja fram brtt. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma.