21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2341 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Með frv. því, sem hér er lagt fram, frv. til I. um Framkvæmdasjóð Íslands, Efnahagsstofnun og Hagráð, er stefnt að því, eins og hæstv. forsrh. hefur þegar skýrt, að gera skipulag og starfsemi fjárfestingarlánasjóða einfaldari og hagkvæmari en verið hefur. Í frv. þessu er lagt til, að Fiskveiðasjóður Íslands og Stofnlánadeild sjávarútvegsins sameinist í nýjan sjóð, sem heiti Fiskveiðasjóður Íslands. Jafnframt sameinast skuldaskilasjóður útvegsmanna skv. lögum nr. 120 frá 1950 hinum nýja sjóði. Sjóðurinn verður, ef frv. þetta verður að lögum, undir sérstakri sameiginlegri stjórn Útvegsbanka Íslands, Landsbanka Íslands og Seðlabanka Íslands. Sjóðurinn verður í umsjá Útvegsbankans með aðskildum fjárhag og bókhaldi.

Eins og kunnugt er, hefur sjávarútvegurinn á undanförnum áratugum þarfnazt mikils fjármagns til uppbyggingar, að því er snertir byggingu veiðiskipa og byggingu fiskvinnslustöðva og iðjuvera. Sameining tveggja stærstu lánasjóða sjávarútvegsins, þ.e. Fiskveiðasjóðs Íslands og Stofnlánadeildar sjávarútvegsins, í einn öflugan sjóð hefur í för með sér, að auðveldara er að koma við hagkvæmari skiptingu ráðstöfunarfjárins milli hinna ýmsu greina sjávarútvegsins, en þarfir þeirra breytast frá ári til árs. Meira samræmi í útlánum ætti að nást og eftirlit með notkun lánsfjárins ætti einnig að verða virkara. Auk þess ætti sameiningin að hafa í för með sér sparnað í rekstri og fleira hagræði.

Með sameiningu Stofnlánadeildar sjávarútvegsins og Fiskveiðasjóðs munu stofnlánasjóðir sjávarútvegsins eflast, og mun það einkum leiða til aukinna lána til fiskiðnaðarins. Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda. Hugmyndin um sameiningu þessara sjóða hefur lengi verið á döfinni. Árið 1961 var stigið spor í þessa átt með samstarfi því, sem upp var tekið milli Seðlabankans, Landsbankans og Útvegsbankans að lánamálum sjávarútvegsins, er lausaskuldum sjávarútvegsins var breytt í löng lán á vegum Stofnlánadeildarinnar.

Frá útvegsmönnum hafa oft komið fram óskir í þessa átt. Var hinn 22. apríl 1964 samþykkt á Alþ. þál. um athugun á sem hagkvæmastri skipan og um aukningu stofnlánasjóða sjávarútvegsins, en með þál. þessari var samþykkt að fela ríkisstj. að láta rannsaka möguleika á auknum stofnlánum til sjávarútvegsins til þess að tryggja eðlilega uppbyggingu og fjárfestingu í þessari mikilvægu framleiðslugrein landsmanna og jafnframt láta fram fara athugun á sem hagkvæmastri skipan með samræmdri eða sameinaðri starfsemi stofnana þeirra, er veita stofnlán til sjávarútvegsins.

Á vegum ríkisstj. hefur svo verið að þessu máli unnið. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er niðurstaðan af því starfi. Frv. er í meginatriðum svipað að efni og lög og reglugerðir, sem fram að þessu hafa gilt um sjóðina. Fiskveiðasjóður Íslands var stofnaður með lögum frá 1905. Aðaltekjur hans hafa verið af útflutningsgjaldi sjávarafurða svo og framlag ríkissjóðs. Aðalhlutverk Fiskveiðasjóðs hefur verið að lána til nýbygginga fiskiskipa. Ef skip eru smíðuð erlendis, lánar hann 2/3 hluta af kostnaðarverði, en 3/4 hluta af kostnaðarverði fiskiskipa, sem smíðuð eru innanlands. Útlán á vegum Fiskveiðasjóðs hafa undanfarin fjögur ár verið svo sem hér segir: Árið 1962 122.1 millj. kr., 1963 189.4 millj. kr., 1964 329.9 millj. kr. og 1965 224.7 millj. kr. Eignir sjóðsins voru taldar í árslok 1965 samtals rúmar 1192 millj. kr.

Fram til ársloka 1930 annaðist landsstjórnin, þ.e. atvmrn. sjóðinn, en Útvegsbanki Íslands hefur síðan haft með höndum stjórn sjóðsins og starfrækslu. Lögum um Fiskveiðasjóð hefur oft verið breytt. Gildandi heildarlög nú eru nr. 40/1955.

Eins og áður sagði, hafa lánveitingar Fiskveiðasjóðs fyrst og fremst verið til kaupa á nýjum fiskiskipum. Lánað er til þeirra eingöngu gegn l. veðrétti og með lögum frá 1957 var hámarksstærð skipa, er sitja fyrir lánum, aukin í 300 rúmlestir. Fiskveiðasjóður veitir og lán til endurbóta og viðgerða á fiskiskipum svo og til véla- og tækjakaupa í þau. Þessi lán hafa verið veitt gegn l. samhliða veðrétti í skipunum og numið um helmingi kostnaðar. Þá veitir Fiskveiðasjóður lán til fiskvinnslustöðva og annarra fasteigna í sjávarútvegi. Þessi lán sjóðsins nema hins vegar litlum hluta af heildarútlánum hans, enda hefur sjóðurinn jafnan átt fullt í fangi með að sinna lánsfjárþörf vegna uppbyggingar fiskiskipaflotans.

Þess skal getið, að lánstími lána Fiskveiðasjóðs er nú 15 ár til fiskiskipa, en 10–12 ár til fasteigna, 5–8 ár til vélakaupa og 3 ár til tækjakaupa. Vextir af lánum sjóðsins eru 61/2% af lánum til skipakaupa og kaupa á tækjum og vélum, en 8% af fasteignalánum.

Stofnlánadeild sjávarútvegsins var stofnuð með l. nr. 41/1946 til að veita lán til nýsköpunar sjávarútvegsins. Má segja, að deildin hafi að mestu staðið undir nýsköpuninni í sjávarútvegi, er hófst á árinu 1946. Stóð deildin t.d. að mestu undir hinni miklu endurnýjun togaraflotans á þeim tíma. Segja má, að deildin hafi ekki fengizt við annað hlutverk fram til ársins 1961, er nýir lánaflokkar voru stofnaðir við deildina með lögum nr. 48/1961, en þá var stigið nýtt spor í sögu deildarinnar. Tilgangur laganna var að breyta lausaskuldum sjávarútvegsins við viðskiptabankana í hagstæð lán við Stofnlánadeildina. Fjár til þessara lánveitinga var aflað með því að stofna til skuldar við Seðlabankann, sem næmi hinum nýju stofnlánum. Ný lán úr deildinni voru veitt gegn veði í framleiðslutækjum, allt að 70% af matsverði, er miðaðist við endurkaupaverð eignanna að frádregnum eðlilegum afskriftum. Hámarkslánstími var 10–20 ár, eftir því hvort um var að ræða veð í vélum, skipum eða fasteignum og vextir 61/2%. Lánveitingum í þessum lánaflokki lauk á árinu 1963, og námu lánin alls 376.6 millj. kr., en tala lánanna var 245. Með reglugerð frá 27. jan. 1965 var svo enn opnaður nýr lánaflokkur hjá Stofnlánadeildinni í þeim tilgangi að auka framleiðslu og framleiðni í fiskiðnaði og skyldri starfsemi. Var gerður um það samningur milli Seðlabankans, Landsbankans og Útvegsbankans, að fjármagn frá þessum bönkum, sem bundið er í útlánum deildarinnar frá 1961, yrði að verulegu leyti látið ganga til nýrra lána í hinum nýja lánaflokki, eftir því sem það fé losnaði. Gert er ráð fyrir, að í þessum lánaflokki verði hægt að veita 40–50 millj. kr. til nýrra lána árlega. Um s.l. áramót var búið að veita 29 lán, samtals um 59 millj. kr. Vextir hafa verið 8% á ári. Í þessum lánaflokki mega lán ásamt öðrum áhvílandi skuldum aldrei nema meiru en 60% af matsverði.

Þess skal getið, að Stofnlánadeildin lánaði upphaflega frá 1946 bæði til fiskiskipa og stöðva í landi. Frá 1961 hefur hún lánað bæði til skipa og landsstöðva, en hinn nýi lánaflokkur, sem er starfandi í útlánum samkvæmt áðurgreindri reglugerð, lánar eingöngu til fiskvinnslustöðva svo og að einhverju leyti til stöðva, sem veita sjávarútvegi þjónustu, t.d. skipasmíðastöðva, dráttarbrauta o.fl.

Eignir Stofnlánadeildar voru 31. des. 1965 rúmar 31 millj. kr. vegna eldri lána frá 1946, og rúmar 353 millj. kr. vegna nýrra lána.

Þá er rétt að geta þess, að Fiskveiðasjóður hefur annazt alla starfrækslu skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda, sem stofnaður var 1935, og ennfremur rekstur skuldaskilasjóðs útvegsmanna frá árinu 1951 eftir að lánveitingu lauk. Skuldaskilasjóður útvegsmanna var settur á stofn með I. nr. 120/1950.

Lagafrv. það, sem hér er lagt fram, er að mestu sniðið eftir þeirri framkvæmd þessara mála, sem þegar hefur verið lýst hér að framan. Er hinum nýja Fiskveiðasjóði ætlað að taka við hlutverki áðurgreindra sjóða og stofnlána, og hlýtur sjóðurinn að mótast af því skipulagi, er þegar hefur myndazt í lánamálum sjávarútvegsins. Hlutverk sjóðsins er að vinna að þeim verkefnum, sem Fiskveiðasjóður og Stofnlánadeildin höfðu, þ.e. að efla framleiðslu og framleiðni í fiskveiðum og fiskiðnaði, bæði á sjó og í landi, með veitingu stofnlána, auk þess sem gert er ráð fyrir, að sjóðurinn veiti lán til þjónustustöðva sjávarútvegsins.

Þar sem Fiskveiðasjóður er stórum mun stærri og öflugri og eldri en Stofnlánadeildin og því með lengsta og haldbezta reynslu í starfi þessara sjóða, sem sameinaðir eru með þessu frv., er talið rétt að nefna hinn nýja sjóð Fiskveiðasjóð Íslands. Allar eignir og skuldbindingar hins eldra Fiskveiðasjóðs og Stofnlánadeildar og skuldaskilasjóðs útvegsmanna ganga til hins nýja sjóðs skv. frv. 1. jan. 1967.

Fjáröflunarleiðir hins nýja sjóðs verða hinar sömu og verið hafa. Lögin heimila, að allir lánaflokkar, bæði við Fiskveiðasjóð og Stofnlánadeildina, geti haldið áfram í núverandi mynd. Einnig er gert ráð fyrir stofnun nýrra lánaflokka við sjóðinn. Skulu reglur um þá settar í reglugerð, sem sjútvmrh. gefur út.

Skv. frv. tekur ríkissjóður á sig ábyrgð á öllum skuldbindingum, sem Fiskveiðasjóður tekst á hendur gagnvart innlendum aðilum. Sérstaka lagaheimild þarf hins vegar til að stofna til ríkisábyrgðar með gjaldeyrisláni Fiskveiðasjóðs við erlenda aðila. Ríkisábyrgð skal vera til tryggingar greiðslu allra lána og skuldbindinga, sem Fiskveiðasjóður tekur við frá fyrirrennurum sínum. Á þetta við, hvort sem ríkisábyrgð hefur verið fyrir hendi á slíkum lánum eða ekki.

Forstjóri sjóðsins verður ráðinn af stjórn hans og er hann ábyrgur gagnvart henni, en aðrir starfsmenn hins vegar ráðnir af Útvegsbankanum. Handbært fé Fiskveiðasjóðs skal geymt í Seðlabankanum með þeim undantekningum, sem frv. hefur að geyma. Lánshlutföli og trygging lána gegn veði í fiskískipum eru óbreytt frá því, sem verið hefur í starfi Fiskveiðasjóðs. Reglur um lánshlutföli og tryggingu lána gegn veði í öðrum eignum en skipum verða þær sömu og gilt hafa við Stofnlánadeildina. Lánstímar verða að mestu óbreyttir frá því sem verið hefur við Fiskveiðasjóð og Stofnlánadeildina. Vaxtakjör verða einnig að mestu óbreytt.

Þess skal getið, að sjútvmrh. getur með reglugerð sett nánari ákvæði um starfsemi Fiskveiðasjóðs, svo sem kveðið er á um í frv.

Hér hefur nú lauslega verið gerð grein fyrir þeim helztu breytingum, er lagafrv. þetta felur í sér. Í stuttu máli má segja, að frv. feli í sér, að samræmd og sameinuð verði starfsemi þeirra stofnana, er veita sjávarútveginum stofnlán. Er með því vænzt, að komið verði á hagkvæmari skipan þessara lánsfjármála, sem stuðlað geti að heilbrigðri þróun þessa undirstöðuatvinnuvegs landsmanna. Með því að setja á stofn einn sjóð, sem eins og frv. gerir ráð fyrir á að sjá fyrir lánum til fiskiskipa og fasteigna í sjávarútvegi, ætti að nást betri yfirsýn og stjórn í þessum málum og þó einkum hagkvæmari skipting þess fjár, sem er til ráðstöfunar hverju sinni, með tilliti til breyttra þarfa á hverjum tíma.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til, nema frekara tilefni gefist að ræða frv. þetta nánar, en legg til. að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.