21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2357 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða sérstaklega það frv., sem hér liggur fyrir, en í sambandi við það vildi ég beina fsp. til hæstv. sjútvmrh. í tilefni af þáltill., sem var samþ. hér á Alþ. 22. apríl 1964 og hljóðaði á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka möguleika á auknum stofnlánum til sjávarútvegsins til þess að tryggja eðlilega uppbyggingu og fjárfestingu í þessari mikilvægu framleiðslugrein landsmanna. Sé jafnframt látin fara fram athugun á sem hagkvæmastri skipan með samræmdri eða sameinaðri starfsemi stofnana þeirra, er veita stofnlán til sjávarútvegsins. Ríkisstj. skipi 5 manna n. til að vinna að þessu verkefni. Verði niðurstöður n. lagðar fyrir næsta reglulegt Alþ. Kostnaður við störf n. greiðist úr ríkissjóði.“

Það var hv. 7. landsk. þm., sem var flm. þessarar till., og í grg., sem fylgir henni, gerir hann grein fyrir því, „að það, sem fyrst og fremst vaki fyrir honum með þessari till. sé, að aukin verði stofnlán til sjávarútvegsins og þannig stuðlað að heilbrigðri þróun þessa undirstöðuatvinnuvegar landsmanna. Samtímis þessu fari fram athugun á sem hagkvæmastri skipan þessara lánsfjármála með samræmdri starfsemi stofnana þeirra, er veita sjávarútveginum stofnlán.“ Mér sýnist, að á frv. því, sem hér liggur fyrir, sé lagt til, að gerðar verði breyt., sem segja má að samrýmist síðara atriði þessarar till., en ekki því meginatriði hennar að láta rannsaka möguleika á auknum stofnlánum til sjávarútvegsins til þess að tryggja eðlilega uppbyggingu og fjárfestingu í þessari mikilvægu framleiðslugrein landsmanna. Ég vildi mega í framhaldi af þessu beina þeirri fsp. til hæstv. sjútvmrh., hvort þessi n. hafi ekki verið skipuð, hvort hún hafi ekki rannsakað eða unnið að því verkefni, sem henni var falið samkv. þessari þáltill. og hvort það sé ekki möguleiki á því fyrir þm. að fá að sjá niðurstöður hennar eða nál.

En um málið sjálft, sem hér liggur fyrir, vildi ég segja það, að mér virðist, að það sé langsamlega mikilvægast í þessu sambandi, sem greint er í upphafi þessarar þáltill., en það er að auka stofnlánin til sjávarútvegsins. Ég vildi þess vegna beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún taki það fyrst og fremst til athugunar, hvaða möguleikar séu á því að auka fjárráð Fiskveiðasjóðs frá því, sem nú er. En eins og komið hefur fram hér í umr., er það nauðsynlegt, þar sem gert er ráð fyrir að auká starfssvið sjóðsins, að honum verði séð fyrir auknum möguleikum til þess að fullnægja því hlutverki.