21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Menn spyrja hér ósköp sakleysislega í þessum umr., hver hefur beðið um þetta frv.? Hefur komið beiðni um það frá Fiskveiðasjóði, frá Útvegsbankanum, frá Landsbankanum, frá útvegsmönnum o.s.frv.? En þeir sömu menn vita nú ósköp vel, að það vill henda, að ríkisstj. beri fram frv. án þess að hafa fengið beinar beiðnir um það og jafnvel frv., sem snerta peningamál. Það er ekkert mjög langt síðan ein ríkisstj. bar hér fram víðtækar breytingar á allri bankalöggjöfinni og ég held, að hún hafi ekki spurt einn einasta af bönkunum um leyfi til þess að bera það frv. fram. En þetta var vinstri stjórnin 1957. Svona mætti lengi telja.

En það má segja, að ríkisstj. hafi verið beðin um að flytja þetta frv. Og hver var það, sem bað ríkisstj. um að flytja þetta frv.? Það var Alþ. Alþ. samþykkti ályktun um það, eins og vitnað hefur verið hér til, m.a. 1964, sem fól í sér það, að Alþ. óskaði eftir því, að stofnlánasjóðirnir yrðu auknir og að samræmd væri stjórnin á stofnlánasjóðum útvegsins. Megintilgangur þessa frv. er að samræma stjórn stofnlánasjóða sjávarútvegsins. Það er að vísu rétt, að skemmra er gengið heldur en margur hefði óskað, eins og fram kemur í umr. hér. Ríkisstj. hafði á vissu stigi málsins hugsað sér, að Fiskimálasjóður félli einnig til Fiskveiðasjóðs, og ríkisstj. hefur fyrir sitt leyti mikinn áhuga á því, að hægt væri að koma þeirri breytingu á með samvinnu við Atvinnuleysistryggingasjóð, sem hefur lánað töluvert til sjávarútvegs á einstökum stöðum, að því fé, sem þannig er varið, sé ekki af hans hálfu varið til hinna einstöku framkvæmda, heldur gegnum stofnlánasjóði sjávarútvegsins, sem hafa betri aðstöðu til þess að meta, hvar féð kemur að mestu gagni. Sjálfsagt verða einhverjar umr. um þetta, og hugsunin er einmitt að stefna að því, að það verði fleiri þættir, sem sameinist innan Fiskveiðasjóðs í framtíðinni heldur en gera nú hér. Þetta var vilji Alþ., að slík samræming ætti sér stað og nákvæmlega að þessu stefnir frv., sem hér liggur fyrir. Þál. gerði ráð fyrir, að skipuð yrði 5 manna n., eins og vikið var að hér áðan, og spurt var um, hvort hún hefði verið skipuð. Þessi 5 manna n. var ekki skipuð. Þál. er frá 1964, en ríkisstj. sjálf hefur síðan haft til athugunar hvort tveggja, eflingu stofnlánasjóðanna og samræminguna, og það hefur átt sér stað veruleg efling stofnlánasjóða atvinnuveganna einmitt á þessu ári, síðan þessi þáltill. var samþ., og ríkisstj. hefur átt mjög ríkan þátt í að afla fyrirtækjum lánsfjár til stofnlána í sjávarútvegi og hvað mest eftir að þessi umrædda till. var samþ.

Sakirnar standa þannig, að útlán Fiskveiðasjóðs aukast um 24% frá árinu 1964–1965. Og það mundi í mörgum tilfellum vera talin töluvert drjúg aukning. Þetta stafar m.a. af því, að útflutningsgjaldið er meira en gert hafði verið ráð fyrir, sjávaraflinn meiri og Fiskveiðasjóður hafði þarna úr meiru að spila. Það, að Fiskveiðasjóður hefur haft nægjanlegt fé til umráða og jafnvel meira heldur en spurt hefur verið eftir á stundum, er m.a. vegna þess, að ríkisstj. í samvinnu við bankana átti hlut að máli um það, að menn hafa átt greiðan aðgang að erlendum lánum til kaupa á fiskiskipum eða þeim 7 ára lánum, sem almennt eru tekin í því sambandi. Þegar við athugun málsins var það ljóst, að tekjur Fiskveiðasjóðs voru verulega að aukast. En jafnframt var á árinu sein leið sett reglugerð nr. 8 1965, þar sem opnaður er nýr lánaflokkur hjá Stofnlánadeildinni í þeim tilgangi að auka framleiðslu og framleiðni í fiskiðnaði og skyldri starfsemi. Þetta er aukning á stofnlánum til útvegsins, sem ríkisstj. átti hlut að máli um. En það var gerður sérstakur samningur milli Seðlabankans, Landsbankans og Útvegsbankans um það, að fjármagn frá þessum bönkum, sem var bundið í útlánum deildarinnar frá 1961, verði að verulegu leyti látið ganga til nýrra lána í hinum nýja lánaflokki eftir því, sem það losnar. Og af því heildarfjármagni, sem um var að ræða miðað við 1. jan. 1965, lögðu bankarnir fram 100 millj. kr. sem framlagsfé, en 234.8 millj. kr. sem lán til 25 ára. Framlagsféð var svo aukið um 10 millj. kr. í byrjun þessa árs.

Það hefur verið gert ráð fyrir því og reyndin hefur orðið sú, að í þessum lánaflokki væri hægt að veita 40–50 millj. kr. í nýjum lánum árlega. Hér var unnið að því með ákaflega góðum skilningi bankanna, er mér óhætt að segja, og góðu samkomulagi þeirra á milli, en einnig fyrir tilstuðlan ríkisstj. að auka einmitt stofnlánin til sjávarútvegsins. Á sama tíma hefur ríkisstj. á margvíslegan hátt beitt sér fyrir og aðstoðað við lánsfjáraflanir til fyrirtækja, sem sett hafa verið á laggirnar í sjávarútvegi. Ég hef ekki handbærar upplýsingar um það hér, hvað það lánsfé muni nema miklu, sem ríkisstj. hefur átt hönd í bagga með að útvega aðilum til byggingar síldarbræðslna á s.l. ári, en ég hygg, að þegar árið 1965 er talið, og bara árið í ár með það, sem þar er ráðgert og í uppsiglingu, þá nemi það stórum upphæðum og það verði ekki talið í tugum millj. kr., því að það verður áreiðanlega mikið yfir 100 millj. kr. Einnig hafa verið teknar ríkisábyrgðir til þess að koma þessum framkvæmdum upp, og það er ekki aðeins innlent lánsfé, sem ríkisstj. hefur stuðlað að, að þessi fyrirtæki ættu aðgang að, heldur hefur hún einnig stuðlað að því, að þeim væri útvegað og endurlánað erlent lánsfé til þess að koma upp síldarverksmiðjum og öðrum fyrirtækjum í fiskiðnaði.

Á s.l. ári veitti Framkvæmdabankinn lán til vinnslu fiskafurða, 251/2 millj. kr. Það er miklu hærra en meðaltal lána til þessarar atvinnugreinar á árunum áður og þó var það svo, að í fyrstu tók bankinn að sér að afla lánsfjár til nokkurra stórra fyrirtækja í fiskiðnaði, stórra frystihúsa, sem síðan minnkaði aftur, en hefur svo verið aukið og töluvert af þessum lánum er einmitt í sambandi við vaxandi síldariðnað, bæði síldarsöltun, sem bankinn lánaði til, og síldarverksmiðjur.

Nú þegar Framkvæmdabankinn er lagður niður og Framkvæmdasjóður tekur við eignum hans og skuldbindingum, er auðvitað á það að líta, að Fiskveiðasjóður á að geta haft aðstöðu til þess að fá hér töluvert aukið fjármagn til sinna umráða. Það eykst að vísu ekki almennt í útveginum, en það samræmist þarna 25 millj. kr., skulum við segja, ef við tökum bara sömu upphæð, sem þeir, sem fara með stjórn Fiskveiðasjóðs ættu að geta a.m.k. fengið lánað hjá Framkvæmdasjóðnum til útlána og samræmt það öðrum sínum lánveitingum. Þetta er, eins og bent hefur verið á, mjög líklegt til þess, að lánin verði þannig veitt, að þau skapi meira hagræði en ella.

Ég vil aðeins af því tilefni, að spurt var, — hæstv. sjútvmrh. var að vísu spurður að því, — hvort samráð hefði verið haft við bankana og Fiskveiðasjóð, taka fram, að hann var ekki kominn eða hafði ekki tekið við sínu embætti sem sjútvmrh. þegar þær viðræður hófust, en það var í ágústmánuði, sem fyrsti fundur var haldinn með fulltrúum ríkisstj. og fulltrúum bankanna um líkar breyt. á stofnlánasjóðum sjávarútvegsins og hér er gert ráð fyrir. Eftir að þær till. höfðu svo síðar verið færðar í frv.-form af embættismönnum ríkisins, voru þær sendar til bankanna og Fiskveiðasjóðs til athugunar. Það má svo segja, að það hafi verið nokkurt hlé á athugun þessa máls, af ýmsum ástæðum, síðasta mánuð ársins, eða frá miðjum nóv. og fram til áramóta og kannske ekki sízt vegna afgreiðslu fjárlaga, en einnig vegna forfalla og veikinda hjá bankastjórum í ríkisbönkunum. Þessar umr. hófust svo aftur síðar, og það hafa átt sér stað víðtækar viðræður af hálfu ríkisstj. við Útvegsbankann og Landsbankann, sem hér eiga helzt hlut að máli, og einnig við Fiskveiðasjóð. Ríkisstj. rak sig hins vegar á það, þegar átti að sameina þessar tvær stofnanir, Stofnlánadeild sjávarútvegsins og Fiskveiðasjóðinn, að um framkvæmd lána og lánveitinga höfðu gilt töluvert ólíkar reglur í þessum tveimur stofnunum. Og það er engin launung á því, að Landsbankinn lagði mikla áherzlu á að viðhalda þeim reglum, sem viðgengizt höfðu í Stofnlánadeildinni, eftir að samningar höfðu verið gerðir milli Útvegsbankans, Landsbankans og Seðlabankans, um fjármagn þessara banka til hins nýja lánaflokks, en Útvegsbankamönnum var eðlilega miklu kærari sá háttur, sem verið hefur á um lánabeiðnir og fyrirkomulag lánveitinga í Fiskveiðasjóðnum. Það hefur verið reynt að fara bil beggja af hálfu ríkisstj. í 14. gr. þessa frv. Ég geri ráð fyrir því, að hvorugur bankanna sé neitt sérstaklega hrifinn af því fyrirkomulagi, sem ráðgert er skv. greininni, en það er reynt að samræma þau sjónarmið, sem fram komu við ríkisstjórnina af hálfu beggja bankanna.

Það er mín skoðun, að hér hafi að verulegu leyti verið deilt um keisarans skegg og ég er sannfærður um, að þegar Fiskveiðasjóður hefur starfsemi sína í því formi, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, ef að I. verður, þá munu fljótt sníðast af þeir agnúar, sem hvor bankinn um sig taldi vera á fyrirkomulagi lánbeiðna og lánveitinga skv. 14. gr.

Ég vil svo aðeins að lokum í sambandi við aukin stofnlán til sjávarútvegsins og þá fyrst og fremst til uppbyggingar fiskiskipaflotans og viðhalds skipa, segja það, að ríkisstj. hefur lagt áherzlu á, að hér í landinu gæti eflzt stálskipasmíði og að við gætum að verulegu leyti og í vaxandi mæli orðið þess megnugir að byggja okkar fiskiskip sjálfir. Henni hefur verið það alveg ljóst, að eftir því sem slík stálskipasmíði eykst hér innanlands, verður fjárþörf Fiskveiðasjóðs miklu meiri en hún hefur verið að undanförnu, vegna þess að menn hafa getað tekið 7 ára lán í sambandi við kaupin á fiskiskipum erlendis. En ef dregur úr þeim lánveitingum við aukna skipasmíði hér innanlands, þá hefur ríkisstj. haft í huga, að eðlilegt væri að afla þá í staðinn Fiskveiðasjóði lánsfjár, annaðhvort erlends lánsfjár eða innlends, ef það er fyrir höndum, til þess að mæta þeirri miklu og vaxandi þörf, sem yrði af aukinni stálskipasmíði. Ekki alls fyrir löngu hlupu af stokkunum 3 skip í sömu vikunni hér í íslenzkum skipasmíðastöðvum, og það er líklegt, að stálskipasmiðastöð á Akranesi geti tekið til starfa á þessu ári og á Ísafirði einnig, og þannig er það, að um leið og verið er að endurbyggja hinar gömlu dráttarbrautir víðs vegar um landið, þá er einnig gert ráð fyrir, að í framtíðinni verði jafnframt skipasmíðastöðvar á langflestum þessum stöðum á sama hátt og gömlu dráttarbrautirnar voru skipasmíðastöðvar eikarbáta, en þær smíði nú stálbáta. Og bátur af þeirri stærð, sem menn helzt kjósa núna, stálskip til síldveiða, getum við ætlað, að kosti svona 20 millj. kr., það er þá 3–100 tonna skip. Eftir reglum Fiskveiðasjóðs um lán út á innlenda skipasmiði er gert ráð fyrir að lána þarna 75% eða 15 millj. kr. út á slíkan bát og ef það væru margir bátar á hverju ári, sem þeir eflaust gætu orðið innan mjög skamms tíma, þá sjá menn, að hér er um stórkostlegar upphæðir að ræða og þeim hefur ríkisstj. hugsað sér að mæta með því að aðstoða Fiskveiðasjóð til lántöku og endurlána til þessara fiskiskipa. Og sem betur fer er aðstaða Fiskveiðasjóðs þannig, að hann er mjög öflugur sjóður, sem ætti að vera auðvelt að útvega lánsfé. Eigið fé sjóðsins mun vera um 600 millj. kr. eins og nú standa sakir eða eitthvað nálægt því, og meðan við a.m.k. verðum ekki fyrir neinum verulegum skakkaföllum í sjávarútveginum, er sjóður, sem svo tryggilega hefur verið uppbyggður, að sjálfsögðu vel til þess fær að taka mikil lán, og það mun hann þurfa að gera, langt umfram það sem eigið lánsfé hans mundi duga honum, ef við hefjum stálskipasmíðina að verulegu leyti sjálfir hér innanlands. Þetta er einn þátturinn í því líka, sem stjórnin hefur haft á prjónunum, að auka stofnlánin með því að vera reiðubúin til þess að hlaupa undir bagga og aðstoða, ef með þarf, Fiskveiðasjóðinn til verulega stórra lánveitinga til þess að stuðla að og efla innlenda skipasmíði.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég held, að það hafi gætt verulega mikils misskilnings í mörgu því, sem sagt hefur verið um þetta mál af hálfu hv. þm., og ég held, að það sé reginmisskilningur hjá hv. 5. þm. Austf., að það eigi að veita stofnlánin án nokkurrar hliðsjónar af því, hvernig rekstur fyrirtækjanna gangi. Ég álít einmitt, að það hafi verið eitt af því farsælasta í rekstri Fiskveiðasjóðs, hvað forráðamenn hans hafa búið yfir mikilli þekkingu á hverjum tíma á rekstrarafkomu allra þeirra aðila, sem sótt hafa um stofnlán til sjóðsins.