21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera margorður. Hafði raunar ekki ætlað mér að taka aftur til máls, en mér finnst, að tilefni hafi gefizt til þess lítils háttar, og vænti ég þó, að ég með því, sem ég segi nú, stofni ekki til neinna deilna um þetta mál, enda er málið á því stigi, að það á eftir að fá meðferð í n. og á þeim vettvangi vonast ég eftir, að okkur hv. 7. landsk. þm. takist að komast að sameiginlegri niðurstöðu til hagsbóta fyrir sjávarútveginn, eins og stundum áður.

Það er nú samt að nokkru leyti í framhaldi af ræðu hans, sem ég tek nú hér til máls.

Hér hefur verið af þessum hv. þm. og raunar hæstv. dómsmrh., sem einnig tók til máls, nokkuð minnzt á þál., sem samþ. var á Alþ.1964, og til þess að það komi í ljós, að sú till. fer a.m.k. ekkert í bága við það, sem ég sagði hér áðan, ætla ég að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þessa ályktun Alþingis, en hún er samþ. 22. apríl 1964, þskj. 491, og hljóðar þannig:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka möguleika á auknum stofnlánum til sjávarútvegsins, til þess að tryggja eðlilega uppbyggingu og fjárfestingu í þessari mikilvægu framleiðslugrein landsmanna. Sé jafnframt látin fara fram athugun á sem hagkvæmastri skipan með samræmdri eða sameinaðri starfsemi stofnana þeirra, er veita stofnlán til sjávarútvegsins. Ríkisstj. skipi 5 manna n. til að vinna að þessu verkefni. Verði niðurstöður n. lagðar fyrir næsta reglulegt Alþ. Kostnaður við störf n. greiðist úr ríkissjóði.“

Alþ. fól hæstv. ríkisstj. að skipa 5 manna n. til þess að athuga þessi mál, en mér skilst, að þessi n. hafi ekki verið skipuð, ef ég hef tekið rétt eftir í umr. hér í dag. (Gripið fram í.) Ég held, að hæstv. ráðh. hafi eitthvert kaup fyrir störf sín, en það skiptir nú ekki miklu máli, en sjálfsagt ætlaðist Alþ. ekki til þess, er það fól ríkisstj. að skipa 5 manna n., að það væru 3 ráðh. sem settir væru í n. og ekki aðrir. Ég nefni þetta aðeins. Má vera, að það skipti ekki máli, en ef menn telja, að stjórnin hafi verið hér að vinna það verk, sem Alþ. fól henni að vinna 1964, 22. apríl, þá hefur það ekki verið gert á þann hátt, sem Alþ. fól henni að gera það. Þessi till. til þál. var flutt af hv. 7. landsk. þm. og hann segir í grg.:

„Ef í ljós kæmi, að tiltækilegt þætti að koma fyrir samstjórn, sem hér um ræðir, þyrfti það ekki að skerða sjálfstæði þeirra stofnana, sem hafa verið nefndar. Þær hafa nokkuð aðskilið hlutverk, svo sem Fiskveiðasjóður, er lánar fyrst og fremst til veiðiskipakaupa, og Stofnlánasjóður, er lánar aðeins til fiskvinnslufyrirtækja.“

Hér virðist mér, að hv. þm., flm. till., hafi verið nokkuð inni á þeirri hugmynd, sem ég sló hér fram áðan, að eiginlega væri ekki óeðlileg, eða þyrfti ekki að vera óeðlileg a.m.k., að greina milli lána til fiskiðjufyrirtækja og skipalána. Eitthvað svipað þessu virðist hafa vakað fyrir hv. þm., þegar hann flutti þessa till., að það gæti vel verið eðlilegt fyrirkomulag, og ég er honum í raun og veru sammála um það, þó að ég endurtaki það, sem ég sagði áðan, að hitt getur sjálfsagt vel blessazt líka, ef rétt er um búið. En mér virðist a.m.k. ekki nein brýn nauðsyn á því, að það þurfi endilega að sameina þetta tvennt hjá hinni sömu lánastofnun, þegar nokkur söguleg hefð er á því, að það hefur ekki verið sameinað og reynsla af því fengin. En þetta munu menn nú geta rætt nánar í hv. n.

Ég nefndi það hér áðan í ræðu minni og ég segi það vegna þess, sem hæstv. ráðh. mælti hér, að mér væri ekki kunnugt um, að óskir hefðu borizt frá nokkrum aðilum, sem ég nefndi, um að setja ný l. um Fiskveiðasjóð eða skipta um stjórn hans. Það var ekki óeðlilegt, að ég gæti þessa. Ég var að ræða um það, hvort ástæða væri til að setja ný lög. þá skiptir það vitanlega máli, hvort óskað hefur verið eftir lagasetningunni af þeim aðilum, sem eiga við fyrirkomulagið að búa, þó að hitt sé auðvitað rétt, að hæstv. ríkisstj. getur flutt lagafrv. og þarf engan um það að spyrja, ef henni sýnist svo. En þegar Alþ. á að fara að gera sér grein fyrir því, hvort ástæða sé til að setja ný l., þá verður það að gera sér grein fyrir þeim rökum, sem mæla með eða á móti. Og það mælir vitanlega með nýrri lagasetningu, ef þeir aðilar, sem helzt eiga við lagasetninguna að búa, óska eftir því, að ný l. séu sett. Þess vegna ræddi ég þetta og án þess að átelja hæstv. ríkisstj. á nokkurn hátt með því. En út af þessu, sem ég var að ræða hér áðan, um skiptingu þeirra lána, sem hér eru á dagskrá, á milli fleiri en einnar stofnunar, þá hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar, að það væri óeðlilegt, að stofnlánin til skipa væru hjá fleiri en einni stofnun. Mér fannst óeðlilegt, að lán til fiskibáta væru á sama tíma hjá Fiskveiðasjóði og Stofnlánadeild Landsbankans. En hitt gegnir öðru máli, þó að skipalánin séu í annarri stofnuninni og fiskiðnaðarlánin í hinni. Hv. 7. landsk. drap á það, að þeir, sem hefðu komið upp fiskiðjufyrirtækjum, hefðu fengið fé frá ýmsum aðilum, og vel þekki ég til þess, að þeir sem í slíku hafa staðið, hafa oft orðið að leita víða til þess að ná saman stofnfé, til þess að geta komið upp fyrirtækjum sínum. Hann gat um einhver slík fyrirtæki, sem hefðu fengið lán hjá 8 stofnunum, þ. á m. hjá Ræktunarsjóði og Ekknasjóði Íslands, held ég. Nú, jafnvel þó að þetta frv. verði samþ., þá geri ég nú ráð fyrir því, að sá möguleiki kunni alltaf að verða fyrir hendi að menn fái lán hjá fleirum en Fiskveiðasjóði, enda þótt hann fái yfirráð yfir Stofnlánadeildinni og ég held, að ekki verði gerlegt fyrir okkur að sameina allar þær stofnanir, sem hafa einhvern tíma veitt lán til fiskiðnaðarfyrirtækja.

En það, sem ég vildi einkum benda á nú og er eiginlega aðalástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs. þó að það sé raunar einnig í tilefni af ræðu hv. 7. landsk., er það, að þetta frv. til I. um Fiskveiðasjóð Íslands er ekki í neinu órjúfandi sambandi við það frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur mælt hér fyrir í dag um Framkvæmdasjóð, Efnahagsstofnun og Hagráð. Ég sé ekki annað en að þingið geti, ef því sýnist svo, vel samþ. það frv. og gert það að I. án þess að samþ. þetta frv. um Fiskveiðasjóð. Ég skal að vísu játa, að mér hefur ekki unnizt tími til þess, af því að þessum málum var svo seint útbýtt, að bera nákvæmlega saman þessi frv., en ég sé ekki annað en að Framkvæmdasjóður Íslands gæti alveg eins lánað Fiskveiðasjóði, þó að ekki væru sett ný l. um hann, og að hann gæti lánað Stofnlánadeildinni, ef hún væri látin starfa áfram. Ég held því, að það sé ekki nauðsynlegt að skoða það frv. og frv. um Fiskveiðasjóð sem óaðskiljanlega heild, þm. geti látið vera að samþ. þetta frv., þó að frv. um Framkvæmdasjóð o.fl. kynni að verða samþ. í þinginu. Mér virðist það a.m.k. og sé eitthvað það í frv. um Framkvæmdasjóð o.fl., þar sem ráð kynni að vera gert fyrir setningu nýrra Fiskveiðasjóðslaga þá er varla neitt því til fyrirstöðu, ef þetta frv. yrði ekki samþ., að breyta því og gæti ekki skipt neinu verulegu máli.