21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var nú hér örstutt aths. í tilefni af orðum hæstv. dómsmrh., sem hér féllu um þetta mál.

Hæstv. dómsmrh. vék af talsverðum kunnugleika alveg augljóslega að því atriði þessa frv., sem er meginatriði þess, eins og ég hef bent hér á áður. En það er varðandi þá breyt., sem er fyrirhuguð á stjórn Fiskveiðasjóðs. Eins og hér hefur verið bent á í umr. áður, hefur stjórn Fiskveiðasjóðs verið þannig um langan tíma, að að nafninu til hafa verið þar í stjórn bankastjórnar Útvegsbankans, en ákveðinn forstöðumaður sjóðsins hefur haft með starfsemi hans að gera, eins og fullkominn bankastjóri væri í sinni stofnun og ráðið þar allri meginstefnu. Lántakendur hjá sjóðnum hafa flutt mál sín fyrir þessum forstöðumanni, og hann hefur athugað þau og í rauninni tekið ákvörðun um það hverju sinni, hvernig við skyldi bregðast. En nú er sem sagt með þessu frv. lagt til að gjörbreyta um stjórn Fiskveiðasjóðs, og það tel ég vera aðalatriðið í þessu frv. Það er gert ráð fyrir því, að þrír bankar, Landsbankinn, Seðlabankinn og Útvegsbankinn, eigi nú að fá stjórnaraðstöðu yfir þessum nýja Fiskveiðasjóði og greinilega er ætlunin sú, að þeir fái þarna í sinar hendur svipað vald yfir lánveitingum eins og forstöðumaður sjóðsins hefur haft að undanförnu. Og þegar hæstv. dómsmrh. vék að þessu og ákvæðum þeim í frv., sem um þetta fjalla, þá sagði hæstv. ráðh., að því væri ekki að leyna, að það hefðu verið uppi mjög skiptar skoðanir hjá viðskiptahönkunum um það, hvernig þessum málum ætti fyrir að koma. Þeir í Landsbankanum hefðu viljað tryggja, að það fyrirkomulag yrði haft á í þessum efnum, sem gilt hefði í Stofnlánadeild sjávarútvegsins. En hvaða fyrirkomulag hefur gilt þar, síðan sú deild var opnuð í síðara skiptið? Þar hafa bankastjórar frá Landsbankanum og bankastjórar frá Seðlabankanum og bankastjórar frá Útvegsbankanum beinlínis veitt lánin, ráðið algerlega yfir lánveitingunni og við þá hefur þurft að tala og leggja fyrir þá öll gögn. Þeir hafa þar haft algerlega með rekstur Stofnlánadeildarinnar að gera. Þar hefur ekki verið um neinn forstöðumann að ræða, sem gilt hefur í framkvæmdinni eins og bankastjóri væri. Sjónarmið Landsbankans var það nú í sambandi við hinn nýjá Fiskveiðasjóð, að þetta fyrirkomulag ætti að taka upp, en fulltrúar Útvegsbankans vildu hafa gamla lagið á, það sem hefur gilt í Fiskveiðasjóði fram til þessa, að svipuð stjórn og stjórnin í Fiskveiðasjóði hefur verið væri til staðar í hinum nýja Fiskveiðasjóði og forstöðumaður stofnunarinnar hefði með framkvæmdavaldið að gera. Og þá skapast auðvitað viss vandi hjá hæstv. ríkisstj., hvernig hún eigi að komast út úr þessari flækju, og þá leysir hún það á þann hátt, sem hæstv. dómsmrh. skýrði frá, því að hann er sýnilega kunnugur málinu. Ríkisstj. ákvað að fara bil beggja og hræra þessu hvoru tveggja saman. Og þannig verður til 14. gr. frv., en hún er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Umsækjendur um lán úr Fiskveiðasjóði geta valið um, hvort heldur þeir leggi lánbeiðnir sínar fyrir Fiskveiðasjóð eða viðskiptabanka sinn. Þær lánbeiðnir, sem lagðar eru fyrir viðskiptabanka umsækjenda, skal viðskiptabankinn senda Fiskveiðasjóði ásamt umsögn sinni. Fiskveiðasjóður skal á sama hátt leita umsagnar viðskiptabanka umsækjenda um umsóknir þær, er honum berast, áður en þær eru afgreiddar. Það er auðvitað greinilegt mál, að þó að ríkisstj. hafi í þessu tilfelli reynt nú að fara bil beggja, eins og hæstv. ráðh. sagði, sýnist mér, að sjónarmið þeirra Landsbankamanna eigi að ráða í framkvæmdinni. Yfirleitt er sagt við menn, að þeir skuli halda áfram í sambandi við sín stofnlán að tala við sína viðskiptabanka, og verður sennilega ekki allt of vel séð, þegar gengið verður fram hjá þeim háu herrum, séu menn í viðskiptum við þá, að ganga þá fram hjá þeim og sækja um stofnlán, sem þeir eiga síðan að greiða atkv. um, ef ekki hefur verið við þá talað, enda tryggja þeir það með orðalagi greinarinnar, að Fiskveiðasjóður skal líka leita umsagnar þeirra, sem teljast viðskiptabankar viðkomandi aðila um umsóknirnar. Hæstv. dómsmrh. reyndi svo að réttlæta þetta nýja kerfi með því að segja, að hann teldi öfugt við það, sem ég hafði sagt hér fyrr í þessum umr., að það ætti að miða veitingu stofnlána einmitt við viðskiptalega aðstöðu hinna einstöku fyrirtækja eða stöðu þeirra í viðskiptabönkunum, og hann teldi einmitt, að þetta hefði Fiskveiðasjóður gert á undanförnum árum eða á þann veg, að hann hefði kynnt sér vel aðstöðu hinna einstöku umsækjenda. En þá vil ég spyrja, hvernig stendur á því, að allir hafa verið sammála um það að greina á milli stofnlána sjóða og rekstrarlána banka? Af hverju hafa menn verið að þessu fikti? Af hverju hafa menn ekki fallizt þá bara á það að halda gamla laginu áfram að láta rekstrarlánabankana hafa stofnlánaféð líka og veita út stofnlánin? Nei, menn hafa fyrir löngu sannfærzt um það, að þetta fer illa saman. Það er eðlilegt, að stofnlánasjóðirnir starfi alveg sér eftir mjög föstum reglum og það eigi allir sama rétt, ef þeir uppfylla tiltekin skilyrði og geti fengið sín stofnlán, en hins vegar eigi ekki að koma til mjög mismunandi sjónarmið rekstrarlánabankanna með tilliti til þess, hvernig rekstri viðkomandi aðila kann að vera orðið háttað eftir margra ára viðskipti við rekstrarlánabanka. Við höfum ekki viljað viðurkenna það, að útgerðarmaður t.d., sem kominn er í allmikla skuld við rekstrarlánabanka eftir margra ára viðskipti, eigi að hafa einhvern forgang til þess að fá lán úr stofnlánasjóði, jafnvel þó að sjónarmið viðskiptabankans segðu það, að það væri anzi þægilegt, að þessi viðskiptamaður hans fengi stofnlán, til þess að hægt væri kannske að nota eitthvað af því stofnláni til að grynna á rekstrarskuldunum.

Ég held, að það hafi verið að vel athuguðu máli, sem þeirri reglu var slegið fastri, að það væri rétt að greina í sundur stofnlánasjóðina og stofnlánabankana og rekstrarlánabankann, og ég held, að það sé að halda inn á ranga braut í þessum efnum nú, þegar sú stefna er aftur tekin upp að blanda saman starfsemi stofnlánasjóða og rekstrarlánabanka og enn þá vitlausast er það þó, þegar verið er að draga Seðlabankastjóra inn í þessa starfsemi líka. (Gripið fram í.) Ég held líka, að einmitt þetta, sem hæstv. dómsmrh. minntist hér á um þessar mismunandi skoðanir, sem þarna eru ríkjandi hjá þeim Landsbankamönnum og Útvegsbankamönnum, að þetta boði ekkert gott um framkvæmdina í þessum efnum. Ég óttast það verulega, að stofnlán til hinna einstöku aðila úr hinum nýja Fiskveiðasjóði verði mjög lituð af sjónarmiðum rekstrarlánabankanna, og það kunni að gæta togstreitu, sem vissulega er á milli þessara aðila í sambandi við veitingu lána. Og ég er mjög hræddur um það líka, að það muni reynast erfitt fyrir forstöðumann hins nýja Fiskveiðasjóðs að fóta sig á þeim reglum, sem þessir aðilar kunna að leggja þeim forstöðumanni, aðilar, sem eru meira og minna ósammála um reglurnar. Þetta var það, sem ég hafði hér fyrr í umr. bent á, að ég tel mestu annmarkana við þetta frv. Ég er sammála því út af fyrir sig að sameina Fiskveiðasjóðinn og Stofnlánadeild sjávarútvegsins. Ég sé enga ástæðu til þess, að Stofnlánadeildin sé tengd Seðlabankanum og rekstrarlánabönkunum á þann hátt, sem hún er nú. Það er ósköp eðlilegt, að hún gengi inn í Fiskveiðasjóð. Ég er sammála því út af fyrir sig.

Önnur þau atriði, sem hér koma fram, er nú ekki tími til þess að fara langt út í. Þó vildi ég aðeins segja það, að mér fannst nú hæstv. dómsmrh. gera æði mikið úr því í sinni upptalningu, hvað gert hefði verið á undanförnum árum til þess að greiða úr stofnlánaþörf sjávarútvegsins. Sannleikurinn er nú sá, að hinir nýju lánaflokkar Stofnlánadeildarinnar byggjast ekki á neinu nýju fjármagni til sjávarútvegsins. Þetta fé, sem þar var um að ræða og er um að ræða í öllum meginatriðum, var fé, sem var búið að lána til sjávarútvegsins og sem var orðið fast hjá sjávarútveginum í gegnum lán frá viðskiptabönkunum, en sem hinum ýmsu greinum sjávarútvegsins gekk illa að standa undir. Svo var ákveðið að færa þessar skuldir hinna einstöku sjávarútvegsfyrirtækja úr viðskiptabönkunum og inn í hina nýju lánaflokka Stofnlánadeildarinnar og breyta þessum lánum, sem höfðu verið óumsamin, í umsamin stofnlán. Hér var ekki nema að sáralitlu leyti um nýtt fjármagn að ræða. Hér var um að ræða vissa tilfærslu, af því að þörfin var orðin knýjandi, og þarna var að vísu um nokkrar umbætur að ræða, en ekki var það nú ýkja stórt.

Hið sama er um það að segja, að núv. ríkisstj. hefur auðvitað ekkert gert í því að greiða fyrir útgerðaraðilum með að útvega sér 7 ára lán í sambandi við byggingu fiskiskipa erlendis. Slík lán höfðu verið tekin fyrir hennar dag. Og það hefur ekkert staðið á því yfirleitt að fá þessi lán, svo að segja hvar sem er, í sambandi við byggingu nýrra skipa. Þar er því ekki um neitt nýtt eða sérstakt að ræða. Hins vegar verður að segja það eins og það er, að reglur í sambandi við nýsmíði skipa eða kaup á nýjum fiskiskipum eru nú margfalt erfiðari en þær, sem í gildi voru hér fyrir nokkrum árum síðan. Ég veit það, að hæstv. dómsmrh. veit það mætavel, að þeir aðilar, sem nú kaupa sér nýtt fiskiskip erlendis frá, verða áður en byggingarsamningurinn er gerður, löngu áður en skipið verður tilbúið, að borga alla sína fjárhæð út á borðið, það, sem þeir eiga að borga út í skipinu, um 1/3, og það fé er að hálfu leyti lagt inn í Seðlabankann til þess að liggja þar í eitt ár, meðan verið er að smíða skipið, og að hinum helmingnum er það látið liggja inni í viðskiptabönkunum talsverðan tíma, áður en það kemur til greiðslu til þeirra, sem þetta fé eiga að fá og byggja skipin. Þessar reglur hafa verið settar beinlínis til þess að draga úr því, að skipakaupin væru jafnmikil eins og vilji manna hefur staðið til.

Jú, það er rétt, að ríkisstj. beitti sér fyrir því á árinu 1963, að tekið var nokkurt lán í Bretlandi og talsverð framkvæmdalán og talsverður hluti af því láni gekk til sjávarútvegsins. Og á þessu tímabili hefur auðvitað gengið talsvert mikið fé bæði frá atvinnuleysistryggingasjóði og mörgum öðrum sjóðum til sjávarútvegsins í ýmsum greinum. Það er sem sagt svipað og áður hefur verið. En þessar aths., sem ég hef gert, eru í rauninni ekkert aðalatriði varðandi það frv., sem hér liggur fyrir. Ég hef bent á þennan ágalla, sem ég tel hér mestan á frv., að það er verið að fara inn á þá braut að kalla til aðila frá rekstrarlánabönkunum og frá Seðlabankanum í auknum mæli til þess að hafa yfirstjórn þessara mála. En ég hefði talið miklu eðlilegra, að samtökum útgerðarmanna og sjómanna hefði verið veittur einhver réttur til þess að tilnefna menn í stjórn fyrir hinn nýja Fiskveiðasjóð eða þá Alþ. hefði að sínu leyti tekið þátt í því að kjósa stjórn fyrir þennan nýja sjóð. En því atriði sem sagt að sameina Fiskveiðasjóð og Stofnlánadeildina er ég samþykkur.