21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2374 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég beindi í kvöld fsp. til hæstv. sjútvmrh. um það, hvort sú breyting, sem í þessu frv. fælist, væri gerð í fullu samráði við og með fullu samþykki stjórnar Fiskveiðasjóðs og núv. stjórnenda Fiskveiðasjóðs. Áður en hæstv. sjútvmrh. talaði, tók til máls hæstv. dómsmrh. og svaraði fyrir kollega sinn, og var mér ljóst af svari hans, að þessar breyt., sem hér er um að ræða, væru gerðar á þann veg, að báðir viðskiptabankarnir, Landsbankinn og Útvegsbankinn, væru óánægðir með þetta. Báðir óánægðir, sagði hæstv. ráðh. Það hefðu farið fram viðtækar viðræður við þá um þessi mál og reynt að miðla málum, finna milliveg, en báðir væru óánægðir. Ég held, að þessi vitneskja, þessar upplýsingar hæstv. dómsmrh. nægi til þess að gera hv. þingheimi kunnugt, að þessi breyt., sem hér er fyrirhuguð, er ekki líkleg til að stefna til farsældar með báða viðskiptabankana óánægða með breytinguna. Ég hefði nú kunnað betur við, að hæstv. ráðh. hefði svarað hreinskilnislega og játað það, sem staðreynd mun vera, að þessi breyt. er gerð gegn mótmælum allra bankastjóra Útvegsbankans. (Dómsmrh.: Það er ekki rétt.) Er það ekki rétt? Er það með þeirra góða vilja og samþykki, meðmælum? Ekki það?

Það er ekki gert með meðmælum og samþykki bankastjóra Útvegsbanka, ég þykist skilja þögn hæstv. ráðh. á þann veg örugglega. Það hefur a.m.k. farið fram hjá mér, ef hæstv. sjútvmrh. rökstuddi það í ræðu sinni í dag, að sérstök þörf, að ég ekki segi nauðsyn, kallaði á þessa breyt., sem hér er aðallega til umr., þ.e.a.s. breytinguna á stjórn Fiskveiðasjóðs. Ég heyrði hann ekki gera grein fyrir þeirri þörf eða þeirri nauðsyn, og ég heyrði hæstv. dómsmrh. ekki heldur gera það, og er hann þó sá Íslendingur, sem lengst mun hafa haft með stjórn Fiskveiðasjóðs að gera, og ætti þannig að vera manna bezt kunnugt um, hvaða vandkvæði væru á því, að þessum sjóði væri stjórnað með sama hætti eins og var, þegar hann tók þátt í að stjórna sjóðnum. En nú virðist mér einmitt, að hann sé aðalfrumkvöðullinn að þessum breyt., sem hér er um að ræða, þrátt fyrir það, þó að hann sé einn af þeim mönnum, sem lengi hafa stjórnað þessum sjóði, máske lengst allra. Ég mundi vilja vænta þess, að hann gerði þá grein fyrir því, hvaða vandkvæði eru á því, að sjóðnum sé stjórnað með sama hætti og var, þegar hann var stjórnandi hans, hvaða vandkvæði komu þá í ljós og gerði þannig grein fyrir því, hvaða nauðsyn sé að breyta til um stjórn sjóðsins. En það hefur ekki komið fram í þessum umr. Það hefur enginn gert tilraun til þess að gera þingheimi grein fyrir, hvaða nauðsyn bæri til að breyta því stjórnarfyrirkomulagi, sem verið hefur á stjórn Fiskveiðasjóðs. Það er ógert enn.

Ég held, að þegar það er vitað, að það hefur engin óánægja verið með stjórn Fiskveiðasjóðs, sízt frá hendi þeirra aðila í þjóðfélaginu, sem við viðskipti hans áttu að búa, þ.e.a.s. útvegsmenn, og breyt. er gerð á móti vilja stjórnenda sjóðsins, þá muni mönnum vera það ljóst, að þessi breyt. horfir ekki til heilla og hér er um frv. að ræða, sem Alþ. á annaðhvort að svæfa eða fella.