25.04.1966
Neðri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2375 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 538 hefur ekki orðið samkomulag um afgr. þessa máls í sjútvn. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþykkt með þeim brtt., sem fram eru bornar á þskj. 539. Fyrri minni hl. n., hv. 5. þm. Austf., hefur tjáð sig fylgjandi sumum af brtt. meiri hl., en flytur frekari till. á þskj. 560, og hefur hann lýst því yfir í n., að hann sé út af fyrir sig fylgjandi því, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Tveir hv. nm., annar minni hl. n., leggja aftur á móti til, að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, eins og fram kemur á þskj. 537.

Frv. var ýtarlega rætt á nokkrum fundum n. og það var sent til umsagnar Fiskveiðasjóði Íslands, Útvegsbanka Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Landsbanka Íslands og Seðlabanka Íslands og enn fremur barst n. erindi frá Landssambandi iðnaðarmanna í sambandi við þetta mál. Umsagnirnar, að undantekinni umsögn Útvegsbankans, eru yfirleitt jákvæðar, en í umsögn Fiskveiðasjóðs er ekki tekin afstaða með eða móti málinu, en hins vegar bent á ýmsar breytingar, sem talið er, að gera þurfi á frv.

Það urðu um þetta mál talsverðar umr. við l. umr. og sé ég ekki ástæðu til að blanda mér í þær deilur, sem þar urðu um málið. Með frv., ef að l. verður, er gert ráð fyrir, að Stofnlánadeild sjávarútvegsins og Fiskveiðasjóður verði sameinuð í einn sjóð, sem beri áfram nafnið Fiskveiðasjóður Íslands, og verður það að teljast eðlilegt, þar sem sú stofnun er eldri og hefur um margra ára skeið verið aðallánastofnun sjávarútvegsins.

Enn fremur gegnir Fiskveiðasjóður, eftir þessa lagabreytingu, því hlutverki, sem hann áður hafði vegna Skuldaskilasjóðs sjávarútvegsins frá 1950.

Það má segja, að með þessu frv. verði ekki nein veruleg breyt. á lánamálum sjávarútvegsins önnur en sú, að þessar tvær höfuðlánastofnanir hans, Fiskveiðasjóður og Stofnlánadeildin, eru sameinaðir í eina lánastofnun. En af því leiðir að sjálfsögðu nokkrar breyt., m.a. á yfirstjórn sjóðsins, og hygg ég, að það sé sú breyt., sem í raun og veru er mest um deilt í sambandi við þetta mál. Það er m.a. um stjórn sjóðsins, sem ekki hefur orðið samkomulag í sjútvn.

Ég skal aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir þeim breyt., sem meiri hl. sjútvn. flytur á þskj. 539. Það er þá fyrst við 2. gr. frv., sem fjallar um hlutverk Fiskveiðasjóðs. Þar er lagt til, að á eftir orðinu „fiskvinnslustöðvum“ í gr. komi: „vélum og mannvirkjum, sem að dómi sjóðsstjórnar eru í þágu sjávarútvegs, þ. á m. skipasmíðastöðvum, dráttarbrautum, viðgerðarverkstæðum, veiðarfæragerðum og verbúðum.“ Það, sem er nýtt þarna, er, að orðinu „vélum“ er skotið þarna inn í á eftir fiskvinnslustöðvum og voru allir nm. sammála um þessa breytingu, þar sem mönnum þótti fullþröngt tiltekið, að sjóðurinn skyldi eingöngu lána til fiskvinnslustöðva, því að það er vitað, að ýmsar fiskvinnsluvélar eru notaðar í sjávarútveginum, sem eru þar mjög þarfar og nauðsynlegar, þótt þær séu ekki hluti af fasteignum eða fiskvinnslustöðvum. M.a. vegna þessa var þessu orði skotið þarna inn í og því einnig bætt við, að þessar vélar skyldu vera lánhæfar, ef þær að dómi sjóðsstjórnar væru í þágu sjávarútvegsins, en að sjálfsögðu getur oft verið erfitt að meta, hvaða tæki skuli vera lánhæf, og það verður þá að vera á valdi sjóðsstjórnarinnar. Með því að verksvið Fiskveiðasjóðs er með þessum lögum fært út, eins og raun ber vitni, fannst sjútvn. ástæða til að rýmka einnig um þetta ákvæði, frá því sem frv. gerir ráð fyrir.

Önnur brtt. meiri hl. er um stjórnina, eða við 7. gr. frv., en um þá brtt. er ekki samkomulag í n. Breytingin, sem meiri hl. gerir á gr., er sú, að sett er fremst í gr. undir hvaða ráðh. Fiskveiðasjóður skuli heyra og síðan er tekið upp, hvernig stjórnin skuli skipuð. Það var ekki gerð grein fyrir því í upphaflega frv. til hve langs tíma stjórnin skuli skipuð, en þarna er í okkar tillögu lagt til, að hún verði skipuð til tveggja ára í senn eftir tilnefningum, en tilnefningarnar eru með þeim hætti, sem frv. gr. gerir ráð fyrir.

Um þriðju brtt. á þskj. 539 hygg ég, að sé fullt samkomulag í sjútvn. Það er gert ráð fyrir því í frv., eins og það var upphaflega lagt fram, að sjóðurinn skyldi geyma fé sitt í Seðlabankanum og á reikningum í Landshankanum og Útvegsbankanum. En m.a. vegna erindis frá Landssambandi iðnaðarmanna, þá er þessu nú breytt í það horf, að sjóðnum heimilist að geyma fé í viðskiptareikningum við aðra banka en Seðlabankann eða sparisjóði, ef svo stendur á, að sú lánastofnun, sem hlut á að máli, hefur veitt bráðabirgðalán til framkvæmda, sem stjórn Fiskveiðasjóðs hefur samþykkt, o.s.frv., eins og í gr. stendur.

Þá er 4. brtt. meiri hl. við 13. gr. frv. Í þeirri gr., eins og hún er í frv., er kveðið á um lánstíma. Má hámarkslánstíminn vera út á fasteignir 20 ár, en lán út á skip 15 ár. Þetta er sú regla, sem gilt hefur, en meiri hl. hefur orðið ásáttur um að breyta þessu í það horf, að sjálfur lánstíminn sé ekki tekinn fram í l., heldur sé haft á þessu það orðalag, sem kemur heim við gildandi ákvæði í 32. gr. l. um efnahagsmál, frá 20. febr. 1960. En þar er kveðið svo á, að ríkisstj. sé heimilt, að fengnu áliti stjórnar Seðlabankans, að kveða á um vaxtakjör og lánstíma hjá Fiskveiðasjóði, Stofnlánadeild sjávarútvegsins, Stofnlánadeild landbúnaðarins o.fl. stofnlánasjóðum.

Að þessu athuguðu taldi meiri hl. n. ekki ástæðu til að taka. lánstímaákvæðið upp í frv.-gr. og flytur því brtt. nr. 4. Sama má segja um brtt. meiri hl. við 15. gr., þar sem fjallað er um vaxtakjör og dráttarvexti. Breyt., sem lögð er til við fyrri málsl. fyrri málsgr., er um það, að upphæð dráttarvaxtanna skuli ekki ákveðin í frv.-gr., heldur skuli hún, á sama hátt eins og vaxtakjörin almennt, ákvarðast af stjórn Fiskveiðasjóðs, að höfðu samráði við sjútvmrh. og Seðlabankann.

Enn fremur gerir meiri hl. n. þá breyt. við þessa gr., að í stað 1% lántökugjalds, sem renni í varasjóð skv. nánari ákvörðun sjóðsstjórnar, komi 1/4%.

Þá er 6. brtt., sem meiri hl. flytur. Hún er við 18. gr., 2. málsl. 1. málsgr., um það, að þegar skipað er í matsnefnd, þá skuli orðin „einum tilnefndum af Seðlabankanum, einum af Landsbankanum og einum af Útvegsbankanum,“ falla burt. Þetta telur meiri hl. n. vera óþarft í sjálfum l. og nánast vera reglugerðaratriði og leggur því til, að þetta falli burt. Um þetta hygg ég, að sé ekki ágreiningur innan n. allrar.

Sömuleiðis leggur n. til, að aftan af 20. gr. falli burt orðin „ef þeir afhenda þau ekki Landsbankanum eða Útvegsbankanum.“ En í þeirri gr. er svo kveðið á, að öllum skuldunautum Fiskveiðasjóðs sé skylt að láta sjóðnum í té árlegt afrit af rekstar- og efnahagsreikningum sínum í því formi, sem Fiskveiðasjóður ákveður. Síðan stendur til viðbótar „ef þeir afhenda þau ekki Landsbankanum eða Útvegsbankanum“ eða þau orð, sem meiri hl., og raunar n. öll, er sammála um að fella niður, og telur n., að þrátt fyrir það, að skipun stjórnarinnar komi til með að verða eins og gert er ráð fyrir í frv., þá sé Fiskveiðasjóður eftir sem áður það sjálfstæður aðili, að hann eigi skýlausan rétt á því að fá viðskiptareikninga þeirra aðila, sem við hann hafa viðskipti.

Síðasta brtt. er aðeins leiðrétting, og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um hana.

Ég vil svo að lokum segja það, herra forseti, að með frv. þessu, ef að 1. verður, er gert ráð fyrir að samræma og sameina starfsemi þeirra stofnana, er aðallega veita stofnlán til sjávarútvegsins. Er með frv. stefnt að því að koma hagkvæmari skipan á lánamál sjávarútvegsins, og þess vænzt, að sú skipan, sem lagt er til að upp verði tekin, geti stuðlað að heilbrigðri þróun og framförum í útgerðinni og þeirri margháttuðu starfsemi, sem grundvallast á henni.

Þess er einnig vænzt, að með hinni nýju skipan fáist betri yfirsýn yfir stjórn þessara mála og hagkvæmari skipting þess fjár, sem er til ráðstöfunar hverju sinni. Ætti það að verá til bóta fyrir lántakendur, ekki síður en stjórnendum lánamálanna, að unnt verði að taka tillit til breytilegra þarfa á hverjum tíma, en þróunin í sjávarútvegsmálum er hvort tveggja í senn, hröð og breytileg.

Að svo mæltu legg ég til f.h. meiri hl. sjútvn., herra forseti, að frv. nái fram að ganga, með þeim breyt., sem ég hef nú gert grein fyrir.