30.04.1966
Efri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2393 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta um Fiskveiðasjóð Íslands hefur nú alllengi verið til meðferðar hjá hv. Nd. og hafa verið gerðar á því nokkrar breyt., svo sem þskj. 587 ber með sér, en um þær breyt., sem þar voru ákveðnar, var samkomulag í d., þó að um önnur atriði væri ágreiningur þar.

Frv. þetta er, eins og áður hefur komið fram í umr. um Framkvæmdasjóð Íslands og Seðlabanka Íslands, nátengt þeim frv. og að nokkru leyti afleiðing af þeirri stefnu, sem þar var upp tekin.

Með frv. því, sem hér er lagt fram, og frv. til I. um Framkvæmdasjóð Íslands, Efnahagsstofnun og Hagráð, er stefnt að því að gera skipulag á starfsemi fjárfestingarlánasjóða einfaldara og hagkvæmara en verið hefur, en í athugun hefur verið á vegum ríkisstj., hvernig samræma megi fjárfestingarlánastarfsemina almennt. Í frv. þessu er lagt til, að Fiskveiðasjóður Íslands og Stofnlánadeild sjávarútvegsins sameinist í nýjan sjóð, sem heitir Fiskveiðasjóður Íslands. Jafnframt sameinast skuldaskilasjóður útvegsmanna skv. l. nr. 120 frá 1950 hinum nýja sjóði. Sjóðurinn verður, ef frv. þetta verður að l., undir sérstakri sameiginlegri stjórn Seðlabanka Íslands, Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands. Sjóðurinn verður í umsjá Útvegsbanka Íslands með aðskildum fjárhag og bókhaldi.

Eins og kunnugt er, hefur sjávarútvegurinn á undanförnum áratugum þarfnazt mikils fjármagns til uppbyggingar, að því er snertir byggingu veiðiskipa og byggingu fiskvinnslustöðva og iðjuvera í landi. Sameining tveggja stærstu lánasjóða sjávarútvegsins, þ.e. Fiskveiðasjóðs og Stofnlánadeildar sjávarútvegsins, í einn öflugan sjóð hefur í för með sér, að auðveldara verður að koma við hagkvæmari skiptingu ráðstöfunarfjárins milli hinna ýmsu greina sjávarútvegsins, en þarfir þeirra breytast frá ári til árs. Meira samræmi í útlánum ætti að nást og vonir standa til, að það náist og eftirlit með notkun lánsfjárins ætti að verða virkara. Auk þess ætti sameiningin að hafa í för með sér sparnað — nokkurn sparnað í rekstri og fleira hagræði.

Með sameiningu Fiskveiðasjóðs og Stofnlánadeildar sjávarútvegsins munu stofalánasjóðir sjávarútvegsins eflast, og mun það einkum leiða til aukinna lána til fiskiðnaðarins. Það má segja, að mál þetta eigi sér nokkurn aðdraganda, því hugmyndin um sameiningu þessara sjóða hefur lengi verið á döfinni. Á árinu 1961 var stigið spor í þessa átt með samstarfi því, sem tekið var upp á milli Seðlabankans, Landsbankans og Útvegsbankans að lánamálum sjávarútvegsins, er lausaskuldum sjávarútvegsins var breytt í löng lán á vegum Stofnlánadeildarinnar.

Frá útvegsmönnum hafa komið fram óskir í þessa átt. Hinn 22. apríl 1964 samþ. Alþ. þál. um athugun á hagkvæmari skipan og aukningu stofnlánasjóðs sjávarútvegsins, en með þál. þessari var samþ. að fela ríkisstj. að láta rannsaka möguleika á nánara samstarfi þessara aðila.

Um sögu Fiskveiðasjóðs get ég verið fáorður. Hin 60 ára saga hans er nokkuð skýrt rakin í greinargerð frv. og ætti þess vegna að vera óþarfi að rifja hana upp nú, nema sérstakt tilefni gefist til. Stofnlánadeild sjávarútvegsins var stofnuð með l. nr. 41/1946 til að veita lán til nýsköpunar sjávarútvegsins. Segja má, að deildin hafi ekki fengizt við annað hlutverk fram til ársins 1961, er nýir lánaflokkar við deildina voru stofnaðir með l. nr. 48/1961, en þá var stigið nýtt spor í sögu deildarinnar. Ný lán úr deildinni voru veitt gegn veði í framleiðslutækjum, allt að 70% af matsverði, er miðast við endurkræft verð eignanna, að frádregnum eðlilegum afskriftum. Hámarkslánstími var 10–20 ár, eftir því, hvort um var að ræða veð í vélum, skipum eða fasteignum og vextir 61/2%. Með reglugerð frá 27. febr. 1965 var svo opnaður nýr lánaflokkur í Stofnlánadeildinni í þeim tilgangi að auka framleiðslu og framleiðni í fiskiðnaði og skyldri starfsemi. Það var gerður samningur milli Seðlabankans, Landsbankans og Útvegsbankans um þetta efni og var byrjað að verulegu leyti að láta fjármagn frá þessum bönkum, sem bundið hafði verið í útlánum frá 1961, ganga til nýrri lána í hinum nýja lánaflokki.

Lagafrv. það, sem hér er lagt fram, er að mestu leyti sniðið eftir þeirri framkvæmd þessara mála, sem þegar hefur verið lýst hér að framan. Er hinum nýja Fiskveiðasjóði ætlað að taka við hlutverki áðurgreindra sjóða og stofnana, og hlýtur sjóðurinn að mótast af því skipulagi, er þegar hefur myndazt í lánamálum sjávarútvegsins. Hlutverk sjóðsins er að vinna að þeim verkefnum, sem Fiskveiðasjóður og Stofnlánadeildin höfðu, þ.e. að efla framleiðslu og framleiðni í fiskveiðum og fiskiðnaði bæði á sjó og í landi og veita stofnlán, auk þess sem gert er ráð fyrir að veita lán til þjónustustöðva sjávarútvegsins.

Ég hirði ekki um, nema tilefni gefist til, að rekja í einstökum greinum efni frv. frekar en þegar hefur verið gert á hinn almenna hátt, en lagafrv. þetta felur í stuttu máli það í sér, að sameinuð og samræmd verði starfsemi þeirra stofnana, er veita sjávarútveginum stofnlán. Er með því vænzt, að komið verði á hagkvæmari skipan þessara lánsfjármála, sem stuðlað geti að heilbrigðri þróun þessa undirstöðuatvinnuvegs landsmanna. Með því að setja á stofn einn sjóð, sem, eins og frv. gerir ráð fyrir, á að sjá fyrir lánum til fiskiskipa og fasteigna í sjávarútvegi, ætti að fást betri yfirsýn og stjórn í þessum málum, en þó einkum hagkvæmari skipting þess fjár, er til ráðstöfunar er hverju sinni.

Herra forseti. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.