22.04.1966
Efri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

194. mál, ábyrgð á láni fyrir Flugfélag Íslands til kaupa á millilandaflugvél

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að Flugfélagi Íslands verði veitt aðstoð til þess að kaupa þotu til millilandaflugs, allt að 80% af kaupverði þeirrar vélar, og getur sú fjárhæð farið allt að 238 millj. kr. Þessi upphæð leiðir glöggt í ljós, að hér er um mjög mikla skuldbindingu að ræða, sem ríkisstj. tekst á hendur, ef úr verður, og því ber að sjálfsögðu brýna nauðsyn til að kanna þetta mál sem rækilegast.

Flugfélag Íslands hefur um alllangt skeið haft til athugunar að endurnýja vélakost sinn, og miðað við þær miklu framfarir, sem eru í flugvélagerð og þær sífullkomnari vélar, sem teknar eru í notkun hér á Atlanthafsflugleiðum, hygg ég, að allir geti verið sammála um, að það sé óumflýjanlegt fyrir Flugfélagið að gera ráðstafanir til þess að bæta flugvélakost sinn að þessu leyti, til þess að vera samkeppnisfært.

Flugfélagið hefur að undanförnu bætt verulega vélakost sinn innanlands. Það keypti á s.l. ári Fokker Friendship-vél, sem veitt var ríkisábyrgð fyrir, og jafnframt var samþ. á Alþ. að veita ríkisábyrgð fyrir annarri flugvél af sömu tegund, og verða þessar vélar báðar notaðar til innanlandsflugs. Það hefur komið í ljós við notkun hinnar fyrri Fokker Friendship-vélar, að það hefur stórkostlega bætt aðstöðu Flugfélagsins, og farþegafjöldi með vélum þess, sem fyrst og fremst er að þakka þessari vél, hefur stórkostlega aukizt. Það hefur verið svo að undanförnu, að það hefur verið halli á innanlandsflugi, en utanlandsflugið hefur borið uppi þennan halla og raunar allmiklu betur, enda þótt Flugfélag Íslands hafi engu að síður ekki getað safnað þeim fjármunum, sem nauðsynlegt hefði verið. Og einmitt þetta gerir að verkum, að það er mikilvægt að kanna til hlítar, hvaða spor er stigið, þegar umrædd vél verður keypt, sem hér er um að ræða.

Því miður hefur það viljað brenna við á síðustu árum, þegar beðið hefur verið um ríkisábyrgð fyrir flugvélakaupum Flugfélagsins, að það hefur verið gert með litlum fyrirvara og litlum athugunum hægt að koma við varðandi grundvöllinn fyrir rekstri slíkra véla. Þó að þetta mál komi seint fyrir Alþ., er það ekki vegna þess, að sami háttur hafi verið hér á hafður, heldur hefur þetta mál verið rannsakað eins ýtarlega ofan í kjölinn bæði af Flugfélaginu sjálfu og einnig af bæði Ríkisábyrgðasjóði eða Seðlabankanum og Efnahagsstofnuninni svo sem frekast hefur verið kostur á og menn hafa við að kynna sér það til hlítar, hversu mikil áhætta kynni að vera á þeirri miklu skuldbindingu, sem ríkið hér tekur sér á herðar, ef þetta frv. verður samþ. Ég tel því sjálfsagt, að hv. fjhn. kynni sér athuganir þessara aðila, bæði Efnahagsstofnunarinnar og Seðlabankans, til þess að fá glöggar upplýsingar um það, hvaða horfur séu varðandi rekstur þessarar vélar. Vitanlega verður þó aldrei örugglega sagt fyrir um, hvort hér sé um áhættulausa skuldbindingu að ræða, en hún er svo veigamikil og stór, að það er auðvitað útilokað að taka hana á herðar ríkissjóðs, nema þetta sé kannað til hlítar.

Á síðustu árum hefur Flugfélagið staðið í skilum með ríkisábyrgðarskuldbindingar sínar frá fyrri tíð. Það urðu vanskil um tíma, en nú eru þau vanskil að heita má horfin, þannig að það er ekki um að ræða, að það sé af þeim sökum hindrun á því að veita þessa ábyrgð. Það skal tekið fram, að enda þótt þetta sé miðað við sérstaka flugvél, Boeing-727, er, eins og hv. þdm. sjá á aths., gert ráð fyrir því, að hugsanlegt sé, að ekki verði ráðizt í kaup á slíkri þotu. Það eru ýmis atvik, sem þessu valda og ég tel ekki ástæðu til að ræða hér, en það kann að reynast hentugra eða óumflýjanlegt fyrir félagið að fara aðrar leiðir. Þá er gert ráð fyrir því engu að síður, að þessi ábyrgðarheimild sé fyrir hendi, auðvitað að því tilskildu, að athugun leiði í ljós, að slíkar vélar séu hagkvæmar og að heildarábyrgð fari ekki fram úr þeirri fjárhæð, sem hér er um að ræða.

Með hliðsjón af því, að hér er í mikið ráðizt af Flugfélaginu, þótti óumflýjanlegt, að gerðar yrðu ráðstafanir til að auka mjög verulega hlutafé í félaginu, og er gert ráð fyrir því og út frá því gengið í sambandi við þessa ríkisábyrgð, að hlutafé í Flugfélagi Íslands verði þrefaldað, eða aukið um 40 millj. kr. Það er lagt til, að ríkissjóður, sem nú á um 13% hlutafjár, taki þátt í þessari hlutafjáraukningu og auki hana sem því nemur, að hann haldi eignarhlutfalli sínu í félaginu.

Þá er loks eitt atriði, sem vert er að minnast á hér og hefur mikilvæga þýðingu, en það er, hvaðan þessi flugvél verður gerð út. Það hafa verið uppi um það miklar umr. á liðnum árum, hvernig hagað yrði millilandaflugi hér og hvernig yrði með endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar. Út í það mál skal ég ekki fara, en svo sem hv. þdm. er kunnugt, hafa Loftleiðir flutt allt sitt millilandaflug til Keflavíkur, og þykir mjög ósýnt mál af mörgum ástæðum, að það sé fært að gera þotu út héðan frá Reykjavíkurflugvelli. Af þessum sökum hefur verið lögð á það áherzla og af hálfu ríkisstj. verið tekið fram við Flugfélagið, að því aðeins sé hugsanlegt að veita ríkisábyrgð sem þessa, að það sé hægt að sanna með rekstraráætlunum, sem gildar verði teknar, að auðið sé að gera þotuna út frá Keflavíkurflugvelli, ef það reynist niðurstaða í flugvallarmálum okkar, að ekki verði talið auðið að gera þotu út héðan frá Reykjavík, nema með því að leggja í mjög verulegan tilkostnað hér við Reykjavíkurflugvöll, sem menn séu ekki þá reiðubúnir að leggja í. Það hefur verið gengið út frá því, og ég hygg, að það sé almenn skoðun, að eðlilegt sé, að innanlandsflug sé rekið héðan frá Reykjavíkurflugvelli, en það þykja horfur á því og raunar ekki aðeins horfur, heldur nokkurn veginn vissa, að ef taka á inn á þennan flugvöll þotu sem þessa, yrði að leggja til allverulegt fjármagn til að gera flugvöllinn þannig úr garði, að þar væri hægt að starfrækja þessa miklu vél. Þetta hefur því þótt óumflýjanlegt, að Flugfélagið gerði sér grein fyrir og sannaði með viðhlítandi áætlun um sinn rekstur, að ef það þætti óumflýjanlegt, væri auðið að gera flugvélina út frá Keflavík, þannig að ekki væri eftir á hægt að koma og segja sem svo, að ríkið yrði að leggja svo og svo mikið fjármagn til viðgerða á Reykjavíkurflugvelli, því að ella væri ekki auðið að gera þessa flugvél út með eðlilegum hætti, án þess að þær skuldbindingar féllu á ríkið, sem hér er gert ráð fyrir að veita.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til, nema tilefni gefist til, að fara um þetta fleiri orðum, en með hliðsjón af því, sem ég áðan sagði um þær athuganir, sem fram hafa farið, og rekstraráætlanir, sem gerðar hafa verið og með hliðsjón af því, hvað hér er um mikla skuldbindingu að ræða, sem ríkið tæki sér á herðar, tel ég sjálfsagt og eðlilegt, að hv. fjhn. kynni sér þetta mál hjá þeim aðilum af hálfu ríkisins, Seðlabankanum og Efnahagsstofnuninni, sem hafa kynnt sér þessar áætlanir allar, og þá að sjálfsögðu leita nánari upplýsinga um það hjá Flugfélaginu, ef eitthvað þykir óljóst eða ekki nægilega skýrt af því, sem ég hef gert grein fyrir varðandi þeirra fyrirætlanir í þessu efni. Að öðru leyti er það mjög mikilvægt, að málinu sé hraðað, því að það er ekki hægt fyrir Flugfélagið að gera samninga um kaup á þessari vél, fyrr en það liggur ljóst fyrir, hvort Alþ. vill fallast á að veita þá fyrirgreiðslu, sem hér er lögð til.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.