03.05.1966
Neðri deild: 86. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2403 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

194. mál, ábyrgð á láni fyrir Flugfélag Íslands til kaupa á millilandaflugvél

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Vegna mikils röskleika í þessari hv. d. gafst mér ekki kostur á að tala fyrir þessu frv. við 1. umr. þess, og ber það vissulega ekki að lasta, en ég tel hins vegar rétt, ekki til að lengja umr., heldur til þess, að fram komi tilteknar upplýsingar, að segja aðeins örfá orð við þessa umr.

Eins og hv. þdm. er áreiðanlega öllum ljóst, er hér beðið um heimild til þess að veita þá mestu ríkisábyrgð í einu lagi, sem áður hefur verið veitt, og er að sjálfsögðu ríkisstj. vel ljóst, að það ber hina brýnustu nauðsyn til, að með fullri varfærni verði í þessar sakir farið. Þetta mál hefur verið kannað mjög rækilega á undanförnum mánuðum, bæði af Seðlabankanum og Efnahagsstofnuninni. Að svo miklu leyti sem hægt er að gera sér ákveðnar hugmyndir eða draga ákveðnar ályktanir af undirbúningi slíkra mála, þá er það skoðun þessara aðila, að þetta megi teljast skynsamlega undirbúið af hálfu Flugfélagsins, en það, sem ég tel rétt, að komi hér fram, er það, að í fyrsta lagi verður þessi ábyrgð að sjálfsögðu ekki veitt nema því aðeins, að endanlegar athuganir á rekstraráætlunum leiði til þess, að þetta verði talið tiltölulega áhættulítið fyrir ríkissjóð. Í annan stað, eins og fram kemur í frv., hefur þáð verið gert að skilyrði, sem raunar stjórn Flugfélagsins er algerlega ásátt með fyrir sitt leyti og hafði einnig fyrirhugað, að aukið ýrði verulega hlutafé Flugfélagsins til þess að styrkja fjárhagsaðstöðu þess. Og í þriðja og síðasta lagi, sem ekki er enn þá endanlega afgert mál, er það, að af hálfu ríkisstj. hefur verið sett það skilyrði, að hægt verði að sanna með raunhæfum rekstraráætlúnum, að auðið sé að gera þessa millilandaflugvél út frá Keflavíkurflugvelli, ef á þarf að halda. Millilandaflugið með hinum stærri vélum hefur færzt til Keflavíkurflugvallar. Loftleiðir eru komnir þangað með alla sína starfsemi, og hér er um þotu að ræða, ef til kemur af hálfu Flugfélagsins, og það er ljóst, að ef á að gera hana út frá Reykjavíkurflugvelli, þarf að gera margvíslegar breytingar og kostnaðarsamar á flugvellinum. Einhverjar lagfæringar þarf hvort sem er á honum að gera, en það er nokkurn veginn ljóst, að þær þurfa að vera í miklu stærri stíl, ef héðan á að gera út þotu. Það verður því ekki veitt þessi ríkisábyrgð, nema hægt verði að leiða rök að því, að ef svo kynni að fara, að það yrði talið óumflýjanlegt, að rekstur þotunnar yrði frá Keflavíkurflugvelli, leiði rekstraráætlanir í ljós, að slíkt sé auðið að gera á þann veg, að engu að síður verði hægt að standa undir þeim lánum, sem tekin verða til flugvélakaupanna.