28.04.1966
Efri deild: 73. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

7. mál, atvinnuréttindi vélstjóra á íslenskum skipum

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. þetta um atvinnuréttindi vélstjóra á íslenzkum skipum er stjfrv. Það er samið af mþn., sem hæstv. menntmrh. skipaði 21. febr. 1964. Sjútvn., sem haft hefur málið til athugunar, hefur rætt það á fundum sínum, en auk þess leitaði n. umsagna um frv. og fékk svör frá eftirtöldum aðilum: Vinnuveitendasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Fiskifélagi Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda og Mótorvélstjórafélagi Íslands. Jafnhliða þessu frv. samdi þessi sama mþn. annað frv., sem er um vélfræðinám, og hefur þessi hv. d. þegar samþ. það frv. og afgreitt til Nd. Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda mælir með samþykkt frv. að því er snertir ákvæði varðandi togaraflotann með hliðsjón af þeirri tækniaðstöðu, sem nú er fyrir hendi hjá togurunum. Fiskifélag Íslands mælir með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Sömuleiðis mæla Vélstjórafélag Íslands og Mótorvélstjórafélag Íslands einróma með því, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það liggur hér fyrir.

Landssamband ísl. útvegsmanna gerir í umsögn sinni um málið allmargar brtt. við frv. Felast þær breytingar, sem L.Í.Ú. vill gera, nær eingöngu í því að hækka réttindi hvers stigs, þannig að í stað þess, að frv. gerir ráð fyrir, að réttindi 1. stigs manna nái til 500 hestafla véla, leggur L.Í.Ú. til, að 1. stigs menn njóti réttinda, sem nái allt að 700 hestöflum. Þá leggja þeir enn fremur til, að 1000 hestafla mörkin í b-lið 1. gr. frv. verði hækkuð í 1200 hestöfl, þannig að nægilegt verði að hafa tvo vélstjóra á fiskiskipum með allt að 1200 hestafla vélum, en það er sú vélastærð, sem nú er í nýjustu og stærstu fiskiskipum vorum að undanskildum togurunum.

Vinnumálanefnd samvinnufélaganna mælir með samþykkt frv., en tekur þó fram, að enda þótt deila megi um ýmis ákvæði þess nýja fyrirkomulags, sem frv. gerir ráð fyrir, telji þeir, að í meginatriðum stefni frv. í rétta átt, en búast þó við og telja sennilegt, að á næstu árum komi í ljós einhverjir gallar á þessu fyrirkomulagi og megi þá sníða þá af að fenginni slíkri reynslu. Umsögn Vinnuveitendasambands Íslands felur í sér svipaðar aths. og fram komu hjá L.Í.Ú., en á frekar við kaupskipaflotann.

Það var álit sjútvn., að þar sem ekki væri fyrir hendi að ná samstöðu um breytingar á þessu frv., væri margt í því, sem stæði þó til bóta, og það kom yfirleitt fram í umsögnum þeirra, sem þó höfðu aths. fram að flytja við frv„ að þeir töldu, að ýmis atriði í þessu frv. stefndu í rétta átt, og ég held, að það hafi verið niðurstaða sjútvn., að það væri rétt að mæla með frv. að þessu sinni, að það næði fram að ganga, eins og það liggur hér fyrir. Hitt verður svo að ráðast í sambandi við framtíðina, hvort í ljós koma einhverjir þeir gallar, sem á hefur verið bent af sumum, sem um umsagnir var leitað til, má þá taka málið á ný til endurskoðunar á næstu árum og sníða þá af þá galla, sem í ljós kunna að koma, að eru í sambandi við þetta fyrirkomulag.

Sjútvn. mælir einróma með því, sem fram kemur í nál., að frv. þetta verði samþ., eins og það liggur hér fyrir, og ég leyfi mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.