02.05.1966
Neðri deild: 85. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

7. mál, atvinnuréttindi vélstjóra á íslenskum skipum

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er eitt af fyrstu málum þingsins og hefur alllengi verið til athugunar í hv. Ed., en er komið til þessarar hv. d. nú fyrir skömmu. Sjútvn. hefur athugað frv. og leggur til, að það verði samþ. með þeirri einu breytingu, að gildistökuákvæðinu verði breytt, en í þeirri frvgr., sem um það fjallar, er gert ráð fyrir, að 1. þessi öðlist gildi 1. jan. 1966. N. leggur til, að 1. öðlist gildi nú þegar.

Eins og hæstv. sjútvmrh. skýrði frá, þegar hann talaði fyrir þessu frv. við l. umr., þarf það að fylgjast að með frv., sem nú er reyndar orðið að l., um menntun vélstjóra á íslenzkum skipum, og eru bæði frv. samin af sömu n.

Það kom fram við l. umr. málsins, að mönnum hafði ekki fundizt nægilega tekið tillit til sjónarmiða útvegsmanna í sambandi við þá breytingu, sem hér er lögð til að gerð verði á atvinnuréttindum vélstjóra á íslenzkum skipum. Í sjútvn. kom þetta sama sjónarmið fram, en þó er það mat n. og enginn ágreiningur um það, að með þessu frv. séu gerðar talsverðar breytingar til þess að koma til móts við þær óskir, sem útvegsmenn hafa borið fram í sambandi við þetta mál, og m.a. þess vegna sé eðlilegt, að það nái fram að ganga, en menn áskilja sér þó rétt til að flytja till. til breyt. á l. á næsta þingi, ef ástæða þykir til.

Það er einkum í tveim atriðum, sem frv. kemur til móts við áðurnefndar óskir. Það er í fyrsta lagi, að frv. eykur réttindi minna námskeiðs manna úr 400 hestöflum í 500 hestöfl á fiskiskipum, en meira námskeiðs manna úr 900 hestöflum í 1000 hestöfl á fiskiskipum og úr 600 hestöflum — það voru 400 hestöfl frá '58 — í 800 hestöfl á flutningaskipum. Réttindi vélavarða eru aukin úr 15 hestöflum í 50 hestöfl. Í öðru lagi eru gerðar talsverðar breytingar á ákvæðunum um starfstíma eða siglingatíma, sem ganga yfirleitt í þá átt að veita réttindi eftir styttri starfstíma en áður við vélar með lágri hestaflatölu. En því hærra námsstigi sem vélstjórinn hefur lokið, því fljótari er hann að vinna sér inn réttindi til yfirvélstjórnar á sömu vélarstærð. Lágmarkshestaflatala við undirvélstjórn til þess að öðlast samsvarandi réttindi og áður er yfirleitt hækkuð. Að þessu leyti hygg ég, að það sé komið verulega til móts við þær óskir, sem útvegsmenn hafa borið fram um vélstjóraréttindin, en sem kunnugt er er yfirleitt mikill skortur á vélstjórum á fiskiskipaflotanum, og hefur oft orðið að notast við menn með alls konar undanþágur. L., sem búið er að samþykkja, um menntun vélstjóra og þetta frv. stefna að því að bæta úr því ástandi, sem ríkt hefur að þessu leyti.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, fyrir hönd sjútvn., að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem ég hef gert grein fyrir.